135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:41]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við það hvort eitt félag sé betra en annað í Jafnréttisráð en ég vil þó segja varðandi Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum að það kemur fram í nefndarálitinu að við lítum svo á að þeir aðilar komi að sjálfsögðu að jafnréttisvinnu eftir sem áður og verða þá kallaðir til sem sérfræðingar. Menn töldu ekki endilega að annað af þeim tveimur rannsóknarsetrum eða stofum sem starfa í landinu ætti sérstakan fulltrúa umfram hitt því að Háskólinn á Bifröst hefur gefið sig út fyrir að vera rannsóknarsetur í vinnurétti og jafnréttismálum. Það var sjónarmiðið sem kom upp að aðkoman að Jafnréttisráði væri engu að síður fyrir hendi og menn mundu að sjálfsögðu nýta sér í allri jafnréttisumræðunni þá miklu þekkingu sem Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við háskólann hefur.

Varðandi vottunina þá er ekki hægt að segja að slík hugmynd sé gripin algjörlega úr lausu lofti. Á vegum fyrrverandi ríkisstjórnar var starfandi nefnd sem fjallaði um launavottun, þ.e. vottun varðandi launajafnrétti. Sú nefnd var búin að finna út að vinna mætti að þessu á ákveðinn hátt en áætlunin var að vísu um gríðarlegan kostnað því að talað var um 76 milljónir ef ég man rétt. Hérna er um að ræða víðtækari vottun en þar er. Ef okkur tekst að koma upp vottun, og það er í sjálfu sér ekkert sem mælir gegn því, haft hefur verið samráð við staðlaráð og aðra um það, ef okkur tekst að koma upp vottun í jafnréttismálum þar sem fyrirtækin sjálf halda utan um það með hvaða hætti þau tryggja að jafnréttismálum sé sinnt hjá þeim og geta hlotið til þess vottun formlegra aðila þá held ég að það verði gríðarlegur áfangi í jafnréttisbaráttunni. Það sem skiptir mestu máli núna til að jafnréttismálin nái flugi og fái betra vægi í allri umfjöllun er að samstaða náist milli ákveðinna aðila í samfélaginu og atvinnulífsins, vegna þess að það þarf báða aðila til til þess að raunveruleg breyting verði í þessum málum til batnaðar (Forseti hringir.) og það er mikilvægt.