145. löggjafarþing — 24. fundur
 21. október 2015.
alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl., 2. umræða.
stjfrv., 91. mál (aukin skilvirkni, skipulag, Þróunarsamvinnustofnun Íslands). — Þskj. 91, nál. 285 og 299.

[16:13]
Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar vegna breytingar á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Eins og þingheimur þekkir nokkuð vel hefur málið verið talsvert til umræðu á hinu háa Alþingi en einnig í sjálfri utanríkismálanefnd. Eins og þingheimur þekkir einnig er frumvarpið hér til umfjöllunar í annað sinn. Samhljóða frumvarp og efnislega nákvæmlega eins var til umræðu á síðasta þingi en var ekki tekið til 2. umr. eins og hv. þingmenn þekkja. Þá var hins vegar farið nokkuð nákvæmlega í gegnum málið í hv. utanríkismálanefnd og mér telst svo til að málið hafi verið rætt í þingsal í um 22 klukkustundir, en það var einnig til umfjöllunar á 12 fundum utanríkismálanefndar.

Ég ætla að gera grein fyrir áliti meiri hlutans. Undir það rita allir hv. þingmenn meiri hlutans sem sæti eiga í nefndinni, en hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason gerir það með fyrirvara þannig að því sé til haga haldið.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund í þessari atrennu nokkra fulltrúa. Málið var sent til umsagnar til allra þeirra sem áður höfðu skilað umsögn og þeir sem sendu umsagnir við málið á fyrri stigum á fyrra þingi áréttuðu þær.

Í þessari atrennu núna hefur nefndin fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson, Harald Aspelund, Helgu Hauksdóttur, Auðbjörgu Halldórsdóttur og Þórarinnu Söebech frá utanríkisráðuneytinu, Engilbert Guðmundsson og Ágústu Gísladóttur frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Daða Má Kristófersson og Jónínu Einarsdóttur frá félagsvísindasviði Háskóla Íslands og síðan Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Þóri Guðmundsson frá Rauða krossinum, en eins og hv. þingmenn þekkja ritaði hann skýrslu er tengdist þessum málum og frumvarpið byggir meðal annars á niðurstöðu hans.

Eins og ég sagði áðan bárust nefndinni umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Rauða krossinum, starfsfólki Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Þetta eru þeir aðilar sem einnig sendu inn umsagnir við málið á fyrra þingi og í þeirra umsögnum núna kom fram árétting á fyrri afstöðu enda er málið efnislega eins.

Til glöggvunar komu margir þeir sömu og komu þegar málið var rætt á fyrra löggjafarþingi núna á fund hv. utanríkismálanefndar en einnig ýmsir fleiri þannig að ég tel ástæðu til að greina frá því hverjir komu. Það voru frá utanríkisráðuneytinu Kristján Andri Stefánsson, María Erla Marelsdóttir, Harald Aspelund, Helga Hauksdóttir, Matthías Geir Pálsson, Þórarinna Söebech og Auðbjörg Halldórsdóttir. Engilbert Guðmundsson, Hannes Hauksson og Ágústa Gísladóttir komu frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Atli Viðar Thorstensen, Hermann Ottósson og Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum, Daði Már Kristófersson frá félagsvísindasviði Háskóla Íslands og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Áður hafði nefndin fengið kynnta skýrsluna sem ég nefndi áðan, Þróunarsamvinna Íslands: Skipulag, skilvirkni og árangur, frá júlí 2014 sem var grunnur að vinnu starfshópsins sem vann frumvarpið. Þá bárust nefndinni á 144. þingi umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Rauða krossinum og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Eins og hv. þingmenn þekkja ágætlega er markmið frumvarpsins að stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í stjórnsýslu alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og gera stefnumótun málaflokksins markvissari. Breytingar sem lagðar eru til á lögum nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, snúa aðallega að fyrirkomulagi og skipulagi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu í þá veru að öll starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði færð inn í utanríkisráðuneytið. Þetta þekkjum við öll og einnig að um þetta hafa verið og eru skiptar skoðanir meðal þingmanna. Þess vegna hefur eðlilega farið fram talsverð umræða um það, bæði á vettvangi nefndarinnar og hér. Einnig eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á stærð, samsetningu og hlutverki þróunarsamvinnunefndar sem ætlað er að vera ráðherra til ráðgjafar varðandi stefnumótun á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Jafnhliða því yrði núverandi samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu lagt niður. Lagt er til breytt fyrirkomulag hvað varðar stefnu íslenskra stjórnvalda á sviði þróunarsamvinnu og framlagningu hennar fyrir Alþingi. Loks eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum nr. 73/2007, um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu. Störf í þágu friðar falla undir þróunarsamvinnu og þar með öll starfsemi íslensku friðargæslunnar. Samkvæmt frumvarpinu er aðgerðum sem taldar eru upp sem friðargæsluverkefni breytt til þess að mæta þeirri þróun sem átt hefur sér stað í því alþjóðlega umhverfi sem friðargæslan starfar í.

Eins og þingmenn þekkja líka og frumvarp þetta byggir talsvert á var það þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC, sem vann sérstaka rýni á umgjörð þróunarsamvinnu Íslands árið 2013 og voru niðurstöður jákvæðar. Ýmsar tillögur komu þó fram, m.a. um að íslensk stjórnvöld samræmdu betur starf á tvíhliða og fjölþjóðlegum vettvangi og könnuðu jafnframt hvort skipulag og fyrirkomulag þróunarsamvinnu á Íslandi væri eins og best væri á kosið. Í kjölfar þess, eins og ég greindi frá áðan, var Þóri Guðmundssyni hjá Rauða krossi Íslands falið að gera greiningu á aðferðafræði, skipulagi og fyrirkomulagi á framkvæmd þróunarsamvinnu Íslands og var ein af niðurstöðum hans sú að mestum árangri og skilvirkni yrði náð með samhæfingu þróunarsamvinnu á einum stað.

Virðulegur forseti. Það er þessi kjarni sem umræðan meðal nefndarmanna og eðlilega meðal þingmanna hefur aðallega snúist um, hvort það sé þess virði að flytja verkefni stofnunarinnar inn í utanríkisráðuneytið, hvort það leysi þau vandamál sem því er ætlað að leysa og hvort það sé tryggt að þannig sé hlutum best fyrir komið. Um það hafa sannarlega verið skiptar skoðanir og rök verið færð á báða bóga hvað það varðar.

Ég vil líka geta þess, virðulegur forseti, að aðkoma Alþingis að þessum verkefnum breytist nokkuð með frumvarpinu. Með frumvarpinu er lagt til að breytt þróunarsamvinnunefnd leysi af hólmi þá þróunarsamvinnunefnd og samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem eru starfandi. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi kýs Alþingi sjö fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd auk þess sem ráðherra tilnefnir fulltrúa til að starfa með nefndinni. Þróunarsamvinnunefnd er ætlað að tryggja aðkomu fulltrúa þingflokka að stefnumarkandi umræðu og ákvörðunum ráðherra um alþjóðlega þróunarsamvinnu til lengri tíma. Samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu er hins vegar skipað 17 fulltrúum, m.a. frá íslenskum mannúðarsamtökum í þróunarsamvinnu og hjálparstarfi, fræðasamfélagi og aðilum vinnumarkaðarins auk fulltrúanna sjö úr þróunarsamvinnunefndinni áðurnefndri. Ráðinu er ætlað að sinna ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðanatöku, m.a. um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu.

Með frumvarpinu er hins vegar lagt til að aðeins einn aðili, þ.e. breytt þróunarsamvinnunefnd, verði til ráðgjafar um alþjóðlega þróunarsamvinnu í stað tveggja áður. Samkvæmt þeirri tillögu skulu fimm alþingismenn, í stað fulltrúa þingflokka, sitja í þróunarsamvinnunefnd ásamt fulltrúum með rætur í háskólasamfélagi, vinnumarkaði og borgarasamtökum, auk formanns. Sterk aðkoma Alþingis yrði því tryggð.

Síðan eru ákveðin atriði þarna sem ég ætla ekki að fara nákvæmlega í. Það kemur fram í umræddu nefndaráliti sem byggir að sjálfsögðu á nefndarálitinu frá síðasta þingi en fjallar um þætti er tengjast þeim vilja sem birtist í frumvarpinu sem er sá að gera þessi verkefni eins skilvirk og hagkvæm og mögulegt er og auðvitað fyrst og síðast með það að markmiði að ná þeim árangri sem við öll viljum stefna að í þessum málaflokki.

Meiri hluti utanríkismálanefndar leggur því áherslu á að nauðsynlegt sé að gæta að þessari hagkvæmni og skilvirkni í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands svo hún verði rekin með sem mestum árangri. Nú þegar fyrir liggur vilji stjórnvalda til að hækka framlög Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu er brýnt að ganga frá framtíðarfyrirkomulagi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu innan íslensku stjórnsýslunnar þannig að hún verði með sem bestu móti. Meiri hlutinn telur að svo sé með þeim breytingum sem lagðar eru til í fyrirliggjandi frumvarpi og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.

Til áréttingar og ítrekunar tek ég fram að undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur og er framsögumaður, hv. þingmenn Elín Hirst, Karl Garðarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Vilhjálmur Bjarnason, með áðurnefndum fyrirvara.



[16:23]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú dylst engum að málefni þróunarsamvinnu eru mjög viðkvæmur málaflokkur. Þarna er verið að verja fjármunum til mjög mikilvægra verkefna í fjarlægum löndum. Það skiptir mjög miklu máli að hafa eftirlit með því hvernig þeim fjármunum er varið og það skiptir líka mjög miklu máli að skapa sátt um málaflokkinn. Það má lesa það út úr sögu þessa málaflokks á Íslandi að stjórnmálamenn hafa alltaf reynt að ná sátt þvert á flokka um það hvernig fyrirkomulagi þróunarsamvinnu eigi að vera háttað þar til nú þegar hæstv. utanríkisráðherra leggur þetta frumvarp fram á síðasta þingi og aftur núna, vitandi vits að um þetta ríkir mikið ósætti.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa bent á að rökin fyrir því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun eru mjög veigalítil. Yfir það er farið í nefndarálit minni hlutans. Mig langar að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar, sem hefur beitt sér fyrir samræðustjórnmálum, hvort hún telji það ekki varhugavert skref að setja þennan málaflokk í uppnám með því að afgreiða þetta mál hér á þinginu í bullandi ágreiningi og brjóta þar með blað í því hvernig ákvarðanir hafa verið teknar um þróunarsamvinnu hér á landi hingað til.

Mig langar líka að spyrja þingmanninn hvort hún sé sammála þeirri túlkun ráðuneytisins að skýrsla DAC, sem nýtt er í greinargerð frumvarpsins til að rökstyðja þessa breytingu, rökstyðji það. Ég hef að minnsta kosti lesið þá greinargerð og fæ ekki séð af þeim lestri að þar sé með neinum hætti verið að leggja til þá leið sem hæstv. ráðherra hefur ákveðið að fara hér. Þvert á móti hefur ÞSSÍ fengið mjög góða dóma í öllu ytra mati á sínum störfum, sem skiptir máli þegar um jafn viðkvæman málaflokk er að ræða.

Þetta eru tvær spurningar, herra forseti, sem ég beini til hv. þingmanns.



[16:25]
Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að málið er mikilvægt og mikilvægt að reyna, eins og frekast er unnt, að ná sátt í slíkum málum eins og flestum öðrum. Hins vegar er það oft svo í málum, það þekkir hv. þingmaður jafn vel og sú sem hér stendur, sem oft hef reynt að beita mér fyrir sátt í málum sem ekki hefur náðst að vinna þannig að það yrði lokaniðurstaðan. Það er auðvitað alltaf miður, en það breytir engu um það að málið er búið að fá þá efnislegu meðferð sem ætlast er til og málið er fram komið, eins og hv. þingmaður nefndi hér áðan, í annað sinn og það er vilji meiri hluta stjórnarmeirihlutans hér á þinginu að afgreiða málið með þessum hætti. Ég treysti því að við hv. þingmenn höfum þann þroska til að það setji ekki verkefni þessarar mikilvægu stofnunar í uppnám. Við hljótum að gæta þess að þegar búið er að taka ákvörðunina þá vinnist það þannig að allir geti ágætlega við unað.

Hvað varðar greinargerð DAC þá tek ég einnig undir með þingmanninum í því, ekki það að sú greining var unnin á því ári sem hv. þingmaður nefndi. Í framhaldi af því er unnin skýrsla, sem ég vitnaði til hér áðan, þar sem mælt er með ákveðinni leið. Það hefur komið skýrt fram á fundum nefndarinnar, og það er skoðun þeirra sem leggja frumvarpið fram, að það sé ekki afdráttarlaust sagt að svo sé, vegna þess að DAC mælir ekki með einni leið annarri fremur, svo að því sé til haga haldið. Það hefur ítrekað komið fram í máli þeirra embættismanna sem við höfum rætt við og þeirra fulltrúa sem við höfum rætt við. DAC blandar sér aldrei í það hvernig fyrirkomulagið er í hverju landi og hefur raunverulega enga skoðun á því. Bent var á það í skýrslu DAC að Ísland þyrfti að leita leiða til þess að tryggja aukna hagkvæmni og skilvirkni, en þeir ráðleggja landi ekki eina leið annarri fremur.



[16:27]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. DAC mælir ekki með einni leið umfram aðra en kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að reynslan af Íslandi í þessum málaflokki sé mjög jákvæð. Eins og ég kom að í 1. umr. þá er mér það algjörlega óskiljanlegt af hverju er verið að fara í þetta brambolt, leyfi ég mér að segja, án þess að nein sérstök rök séu fyrir því. Það er bara verið að færa til hluti án þess að nein rök mæli með því. Reynslan er góð og ég hef verulegar áhyggjur af því, og segi það við hv. þingmann hér, að þó hv. þingmenn séu almennt reiðubúnir til að reyna að ná sáttum í málum þá hefur lítið verið gert til að ná sátt um þetta mál.

Það er ekki bara þetta mál sem er undir heldur líka sú staðreynd að áætlun Íslands, um framlög til þróunarsamvinnu, hefur verið í uppnámi frá því núverandi ríkisstjórn tók við. Það hefur verið skorið niður, forgangsraðað aftur (Forseti hringir.) í röðina og það er ekki bara á síðasta þingi heldur gerist það aftur nú í fjárlagafrumvarpi að sú áætlun sem hæstv. ráðherra lagði fram stenst ekki einu sinni. Auðvitað er málaflokkurinn í uppnámi. Mér finnst það vera verkefni fyrir formann utanríkismálanefndar, hv. þingmann, að reyna að leita leiða til finna sátt í þessum viðkvæma málaflokki.



[16:29]
Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því og hef orðið þess mjög sterkt áskynja, bæði hér í þingsal og á fundum utanríkismálanefndar, að menn eru ekki sammála. Þingmenn eru ekki sammála um hvernig halda beri á viðfangsefninu. Ég hef hins vegar líka skynjað mjög eindreginn og sterkan vilja allra þingmanna til að tryggja að það hafi ekki áhrif á málaflokkinn sem slíkan eða setji hann í uppnám. Hér munum við án efa takast á um það hvort fyrirkomulagið er betra. Þjóðirnar í kringum okkur hafa farið misjafnar leiðir. Það er engin ein algild regla eða leið um hvernig haga beri þessum málum. Þetta er niðurstaða stjórnarmeirihlutans og ég árétta það sem ég sagði áðan að á fundi nefndarinnar voru sérstaklega ræddar athugasemdirnar vegna lagafrumvarpsins og greinargerðarinnar, um það hvort þar væri DAC að segja eina leið öðrum fremri. Það er ekki en þar var bent á að ýmislegt mætti betur fara á sviði stefnumótunar, framlaga og fyrirkomulags og síðan kemur fram, í skýrslu umrædds Þóris Guðmundssonar, að það sé meginniðurstaða (Forseti hringir.) hans að samhæfing skuli vera á einum stað og farsælla væri að verkefnin væru undir einum hatti. Og þess vegna er gengið til verksins.



[16:30]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar fyrir alveg prýðilega framsögu miðað við efni og aðstæður. Hún er sannarlega ekki öfundsverð af því hlutskipti sínu að þurfa að færa fram mál sem ég tel að að minnsta kosti obbi þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafi litla sannfæringu fyrir.

Þeir utanríkisráðherrar sem hafa starfað í utanríkisráðuneytinu hafa allir strax á upphafsdögum sínum fengið sömu meðferð hjá örfáum mönnum í kjarna embættismanna sem allir hafa gengi á fund þeirra og lagt þetta til. Þeir sem hafa verið blautir á bak við eyrun þeir hafa stundum látið ginnast af þessu, komið með þetta mál hér til þingsins og verið jafn harðan sendir til baka eins og gerðist t.d. 2008. Sumir skelltu skollaeyrum við eins og sá sem hér stendur. Einn hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, setti málið í skoðun og hann fékk til þeirrar skoðunar sinn ágæta aðstoðarmann, núverandi hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson. Hæstv. menntamálaráðherra skilaði tiltekinni niðurstöðu. Hún var að yfirlögðu ráði. Hún var sú sem Davíð Oddsson lagði fyrir sína embættismenn að framfylgja. Í henni fólst að breyta skipulaginu, en fara í þveröfuga átt og flytja öll verkefni á sviði þróunarsamvinnu innan utanríkisráðuneytisins til þeirrar stofnunar. Herra forseti. Það var einn af þremur valkostum sem Þórir Guðmundsson lagði upp með.

Mig langar til þess að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar hvort hún telji ekki, af því hún er að tala um sáttir í málinu, einnar messu virði að skoða það fyrirkomulag sem Davíð Oddsson og Illugi Gunnarsson, tveir ágætir leiðtogar lífs margra, lögðu til á sínum tíma. Aldrei þessu vant þá er ég þessum tveimur heiðursmönnum algjörlega sammála.



[16:33]
Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki þekki ég öngstræti utanríkisráðuneytisins eins og fyrrverandi utanríkisráðherra en ætla ekki að gera neinar athugasemdir við söguskýringu hans. Það vottar nú fyrir því að það fari um mann hlýir straumar þegar fyrrverandi utanríkisráðherra talar með þessum hætti um félaga okkar í Sjálfstæðisflokknum, ekki hefur hann alltaf verið sammála þeim einstaklingum sem hér voru nefndir. Það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni og fyrrverandi hæstv. ráðherra að um þetta hafi verið skiptar skoðanir og það er líka rétt hjá hv. eða hæstv. ráðherra — nú er ég farin að ruglast alveg með það hvort Össur Skarphéðinsson er þingmaður eða ráðherra, hann er einhvern veginn hvort tveggja í huga okkar allt of lengi — en ég held að sú niðurstaða sem hann nefndi sé sú sama, hún er í raun og veru eins núna vegna þess að í skýrslu Þóris Guðmundssonar er bent á það að hin leiðin hefði verið fær. Sameiginleg niðurstaða allra er því þessi: Við þurfum að sameina þetta á einn stað. Það er farsælla að hafa þetta á einum stað en mörgum, við getum þó verið sammála um það.

Þetta er hins vegar niðurstaðan núna og ég ber mikla virðingu fyrir Þóri Guðmundssyni sem lagði áherslu á það og greindi nefndinni mjög nákvæmlega frá því hvers vegna hann teldi að þetta væri farsælasta leiðin. Hann benti á að sérfræðingar hjá mörgum þjóðum sem hann hefði talað við og leitað til teldu að það væri mjög farsælt skref, gott skref að taka þessi verkefni og setja þau undir utanríkisráðuneytið. Þess vegna var það niðurstaða hans eftir þessa löngu yfirferð sína að þetta væri gagnlegt. Ég skal viðurkenna að ég þekki ekki til vinnu fyrrverandi aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar þegar hann var í utanríkisráðuneytinu, ég þekki ekki þá skýrslu, en mér heyrist að niðurstaðan sé sú sama, að það þurfi að sameina þetta á einum stað. Þetta er niðurstaðan og þetta er sá vilji sem stjórnarmeirihlutinn leggur áherslu á að þessu sinni. Ég hvet bara Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi hæstv. ráðherra og núverandi hv. þingmann, til þess að nýta þekkingu sína og reynslu í málaflokknum og leita einnig leiða til sátta og tryggja það að það geti gengið (Forseti hringir.) eftir með þessum hætti.



[16:35]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit nú ekki hvernig hægt er að greiða leið til sátta betur en með því að leggja til að allir fundarmenn fallist á tillögu fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Látum það vera. Ég ætla ekki að deila við hv. þingmann um söguna. En það sem hún vísar til eins og séu einhver leyndarmál liggur hins vegar fyrir í opinberum gögnum og var nýleg birt á vefsíðu tiltekinnar opinberrar stofnunar, þessi saga öll sömul er rakin þar.

Hv. þingmaður sagði áðan, og var það nú ekki það sem ég var að spyrja hana um, að við mundum efalítið deila um það í þessari umræðu hvort flutningur á stofnuninni í utanríkisráðuneytið mundi leysa þau vandamál sem því eru ætluð. En hér stendur hnífurinn í kúnni. Hv. þingmaður talar mjög skýrt. Hún á í engum erfiðleikum með að flytja sitt mál, en hún sagði okkur ekki frá því hver vandamálin væru. Hver eru vandamálin sem á að leysa?

Herra forseti. Er það sem hér er um að ræða ekki einfaldlega það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir orðaði svo snilldarlega í fyrra: Hvers vegna að laga það sem er í góðu lagi?



[16:36]
Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessum orðum mínum fólst enginn dómur um að stofnunin, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, hefði ekki sinnt hlutverki sínu mjög vel og það kemur ítrekað fram, hefur komið fram í ræðum hér og málum og í frumvarpinu sjálfu og í allri þeirri yfirferð sem við höfum átt um þetta mál, að það er enginn ágreiningur um að stofnunin hafi sinnt verkefni sínu vel. Hún hefur bæði mikla þekkingu, þar er mikil starfsreynsla og mikil geta til að takast á við viðkvæm og erfið verkefni, enda er enginn að leggja til að starfsfólkið sem þar er haldi ekki áfram með sín verkefni, að það flytjist ekki þannig að við tryggjum að við höldum vel utan um það. Þannig að í þessu felst enginn dómur yfir stofnuninni með neinum hætti nema góður dómur. Við skulum vænta þess að stofnunin geri gott ráðuneyti enn betra og tryggi það að vinnubrögðin verði áfram fagleg og góð.

Meginrökin með því að sameina þessi verkefni undir einn hatt, hvar svo sem þau væru vistuð, ganga út á hagkvæmni, skilvirkni og aukinn árangur í þessum verkefnum. Það er aðalatriðið.



[16:38]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er tekið til umræðu mál um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Ísland o.fl. (skipulag), sem er 91. mál á þessu þingi en hefur fengið sérstaka flýtimeðferð. Hv. formaður utanríkismálanefndar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, flutti hér nefndarálit sem ég verð að segja að mér fannst frekar rýrt. Þess vegna spyr ég mig hvort hv. formaður, nýskipaður formaður utanríkismálanefndar hafi þegar þetta mál var rætt hér og vísað til utanríkismálanefndar, þar sem það hefur verið í hálfan mánuð eða svo, fengið sérstaka skipun frá utanríkisráðherra um að klára málið strax, með öðrum orðum að það fengi þá sérstöku flýtimeðferð sem það fær hér. Ég spyr vegna þess að mér er kunnugt um það að í níu manna utanríkismálanefnd eru þrír nýir meðlimir, þar á meðal formaður nefndarinnar. Þurfti ekki meiri tíma? En spurning mín er alveg klár til hv. þingmanns: Fékk formaður nefndarinnar sérstaka skipun um að klára málið strax?



[16:39]
Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ég hef engar slíkar skipanir fengið frá nokkrum einasta manni um þetta mál og hefði sjálfsagt ekki tekið þeim skipunum vel né orðið við þeim. Það er heldur ekki rétt hjá hv. þingmanni að þetta mál hafi fengið sérstaka flýtimeðferð og þyki honum nefndarálitið rýrt get ekki fellt neina dóma um það. Þetta nefndarálit byggir að sjálfsögðu á því nefndaráliti, og það kom skýrt fram í máli mínu, sem lagt var fram hér að lokinni umtalsverðri umræðu og meðferð málsins á síðasta þingi. Það er ekki rétt að málið hafi borist nefndinni fyrir hálfum mánuði síðan. Það er lengra síðan, málið fór í umsagnarferli til allra þeirra aðila sem var talið að þyrfti að fá umsögn frá, allra þeirra sem höfðu fengið að veita umsögn á síðasta þingi. Allir fengu hefðbundin tíma til að veita umsögn, þrjár vikur. Það var því ekkert óhefðbundið.

Síðan hefur nefndin haldið nokkra fundi um málið og farið yfir það og orðið hefur verið við ítrekuðum beiðnum um að fá gesti. Ég frábið mér því að hér sé talað um einhverja flýtimeðferð. Það er ekkert sem styður það. Hins vegar hef ég ekki legið á því að það eru skiptar skoðanir í nefndinni. Það eru þingmenn sem telja málið ekki gott mál, vilja ekki sjá það afgreitt, en í nefndinni hefur verið ágætissamstaða um að ljúka málinu og við höfum unnið að því án þess að vera með sérstaka flýtimeðferð í huga. Við höfum gert þetta eins og við höfum talið ástæðu til en auðvitað, líkt og þingmaðurinn þekkir með meiri þingreynslu en ég, hefur skoðunin núna að einhverju leyti byggt á því að málið fékk mjög mikla meðhöndlun og meðferð, eins og ég sagði áðan. Það hefur verið rætt á tólf fundum utanríkismálanefndar nú þegar. Það ber þess að sjálfsögðu merki og bæði nefndarálitin bera þess merki að málið hefur áður verið til umsagnar og umfjöllunar hér. Og allar umsagnir sem bárust voru um það að ekki væri um að ræða neinar viðbótarathugasemdir frá þeim er veittu umsagnir og umsagnaraðilar vísuðu allir í fyrri umsagnir sínar.



[16:42]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að ég spurði um flýtimeðferðina var sú að öllum er ljóst að haldinn var sérstakur aukafundur í utanríkismálanefnd á föstudegi til þess að rífa málið út úr nefndinni. Það finnst mér mjög óeðlilegt þegar ekki er liðinn lengri tími frá því að þing var sett, ef það hefur legið svo mikið á að kalla til fundar, sem var gagnrýnt vegna annars stórfundar sem var haldinn í bænum og margir þingmenn vildu vera á. Það sem ég tók líka eftir var að nýr formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, taldi mjög mikilvægt, það var hennar skoðun, að ná sátt um þetta mál, eins og um öll mál sem við ræðum hér. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það.

Ég hef verið þeirrar skoðunar og ég hef í þingstörfum mínum þegar mikil ágreiningsmál eru til umfjöllunar reynt að koma á sáttum í málum. Ég get nefnt umdeilt mál, lög um rammaáætlun, sem var gagnrýnt hér og mjög skiptar skoðanir voru á, en okkur tókst í þáverandi iðnaðarnefnd að leiða málið til lykta þannig að allir þingmenn sem voru í þingsal greiddu atkvæði með lögunum. Því spyr ég hv. þingmann og formann utanríkismálanefndar, út frá því sem hv. þingmaður sagði áðan um að æskilegt væri að ná sátt milli þeirra sem deila um þetta mál, hvort hún telji það einnar messu virði og hvort það komi til greina að bíða eftir áliti svokallaðrar DAC-nefndar um jafningjarýnið og að lögin taki þá ekki gildi fyrr en sex mánuðum, skulum við segja, eftir að það kemur fram. Þannig getur þingnefnd fengið skýrsluna og skoðað hana og farið yfir málið og annaðhvort gert breytingartillögur um það eða engu breytt og lögin (Forseti hringir.) tækju gildi. Telur hv. þingmaður það koma til greina með tilliti til þess sem hún sagði áðan um að mjög mikilvægt væri að reyna að ná sátt um málið?



[16:44]
Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það svo að meira segja þau okkar sem hafa sérstakan áhuga á þeirri leið í stjórnmálum að finna sáttina, ef hún er til staðar, verða stundum að átta sig á því að sáttin er ekki til staðar. Mitt mat eftir umræðu um þessi mál og eftir að hafa fylgst með henni úr þingsal, bæði á síðasta þingi og aftur núna á haustmánuðum, er að mjög erfitt sé að reyna það og ég held að það sé, og við vitum það öll, næsta ómögulegt. (Gripið fram í.) Við í stjórnarmeirihlutanum leggjum málið fram og meiri hluti nefndarinnar vegna þess að við teljum umræðu um málið lokið þar. Við teljum að búið sé að fara yfir það með þeim hætti sem nefndin getur og niðurstaða liggi fyrir. Varðandi aukafund í utanríkismálanefnd sem haldinn var síðastliðinn föstudag geta menn alveg tekist á um það hvort halda eigi fundi á þessum tíma o.s.frv., ég ætla ekki að hafa sérstakar skoðanir á því, en það var beiðni minni hlutans að kallaðir yrðu frekari gestir til nefndarinnar og gestirnir gátu einungis komið frá klukkan níu til korter fyrir tíu þennan morgun. Það er ástæðan fyrir því að fundurinn var haldinn á þessum tíma. Ég ber mikla virðingu fyrir mikilli virðingu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar fyrir störfum hæstv. forseta Íslands en það var að þessu sinni ástæða til að fallast á þá beiðni minni hlutans að fá að hitta tvo aðila til viðbótar, sem urðu síðar fjórir á fundinum. Það er ástæðan fyrir tímasetningu fundarins. Það var orðið við þeirri beiðni og mitt mat er að málið sé fullrætt í nefndinni og nú sé það þingsins að taka það til afgreiðslu.



[16:46]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. formaður utanríkismálanefndar fer ekki vill vegar þegar hún leiðir getum að því að ég og margir í utanríkismálanefnd — allir þeir sem eiga þar sæti af hálfu stjórnarandstöðunnar — séu heldur óglaðir með þetta mál. Satt að segja hefði ég mikið viljað gefa til þess að okkur hefði auðnast að ná sátt um aðra niðurstöðu. Ég tel að ef ég hefði til dæmis fengið að ráða því til lykta, með hv. formanni utanríkismálanefndar, með hvaða hætti leiðir til sátta yrðu kannaðar þá hefði verið hægt að finna leið sem obbi þingheims hefði getað orðið sáttur við.

Ég tók eftir því, þegar umræða stóð hér við 1. umr. þessa máls, og alla þá 22 tíma sem menn notuðu til þess að ræða það í fyrra og á þessum vetri, að þeir sem tóku til máls af hálfu Sjálfstæðisflokksins, ýmist í ræðum ellegar í andsvörum, virtust heldur ekki vera mjög glaðir með þetta mál. Ég tek líka eftir því að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, sem hafði mjög einbeittar skoðanir í þeim umræðum, er með fyrirvara á málinu og ég hlakka til að sjá það með hvaða hætti hv. þingmaður túlkar þann fyrirvara. Það var sá hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sem fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins sagði hér við 1. umr.: Menn eiga ekki að vera að skakast í stofnunum. Hann bætti því líka við að menn ættu ekki að vera að breyta stofnunum sem hafa gengið vel. Það er mergurinn málsins með þessa stofnun að hún hefur gengið vel.

Það hefur engin sannfæring komið fram, af hálfu nokkurs manns í stjórnarliðinu, fyrir þessu máli. Ég tel ekki það nefndarálit sem hér var flutt framsaga fyrir og er þá ekki að ýja með nokkrum hætti að því að hv. formaður utanríkismálanefndar sé ekki að tala af sannfæringu sinni. Ég tel hins vegar að hún sé þeirrar skoðunar að það skipti litlu máli hvorum megin hryggjar þetta stykki liggi. Þannig hefur mér afstaða Sjálfstæðisflokksins virst vera í málinu.

Hitt er algjörlega ljóst að það væri hins vegar mjög erfitt að ná sátt við ríkisstjórnina í málinu þó að við þingmenn gætum auðveldlega náð henni hér á hinu háa Alþingi. Ástæðan er vitaskuld sú að hæstv. utanríkisráðherra hefur ekkert annað mál fram að færa en þetta. Þetta er eina málið sem hæstv. utanríkisráðherra kemur með til þings og það er því allt í einu orðið þungamiðja utanríkisstefnunnar. Það má þá leiða getum að því hvað veldur því að hæstv. ráðherra vill fara þessa leið. Hann átti við sama vandamál að glíma og hv. formaður utanríkismálanefndar þegar hann var spurður að því hvaða vandamál þessi breyting ætti að laga. Þá vafðist honum tunga um höfuð og tunga um tönn, líkt og hv. formaður utanríkismálanefndar hér í andsvörum áðan. Hann gat ekki upplýst um það. Staðreyndin er einfaldlega sú að engin rök hafa verið færð fyrir því af hverju eigi að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður.

Herra forseti. Ég hef setið hér í þessum sölum og staðið hér lengur en ég kannski kæri mig um að rifja upp. Á öllum þeim tíma hefur haddur minn breyst úr því að vera brúnrauður yfir í að vera blágrár, en á öllum þessum tíma hef ég aldrei nokkru sinni staðið andspænis máli sem virðist af hálfu ríkisstjórnarinnar vera jafn tilgangslítið og það sem hér liggur fyrir. Það er bókstaflega ekkert sem rekur til þess að menn ráðist í þennan leiðangur sem felst í því að leggja niður stofnun, sem samkvæmt öllum þeim vitnisburðum sem við höfum fengið í utanríkismálanefnd er ekki hægt annað en að kalla fyrirmyndarstofnun. Þróunarsamvinnustofnun hefur að öllu leyti staðið sig ákaflega vel. Það hefur til dæmis komið fram að hún er stofnun sem hefur, síðan 2008 að ég hygg, haldið sig innan ramma fjárlaga. Ríkisendurskoðandi hefur ekki séð neina ástæðu til að gera nokkrar athugasemdir við hana. Og þær stofnanir sem hefur verið leitað eftir um álit varðandi samstarf við hana hafa sömuleiðis gefið henni mjög góða einkunn.

Ég vísa líka til þess álits sem hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir vísaði hér til áðan, þ.e. úttektar DAC-nefndarinnar. Þar er farið ákaflega lofsamlegum orðum um Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Þar er greint frá því að hún hafi innan sinna vébanda úrvalsstarfskraft. Þar er sérstaklega talað um það að stofnanaramminn, sem við erum hér að breyta, hafi dugað vel og innan hans sé mikil geta til þess að ná og vinna vel að þeim markmiðum sem stofnuninni hafa verið sett. Þá spyr maður sjálfan sig: Hvers vegna er verið að leggja í þennan leiðangur? Ég segi það bara alveg hreinskilnislega: Þetta er í fyrsta skipti sem ég stend hér á Alþingi andspænis máli þar sem ég skil ekki tilganginn. Hin eina skýring sem ég finn er sú að hæstv. ráðherra glæptist á að segja já við þá embættismenn, örfáa, sem vildu með þessum hætti fá aukið vald inn í ráðuneytið. Hann kom með málið inn í þingið. Þar reis upp mikil ófriðarbylgja og hann er einfaldlega að sýna okkur hver það er sem hefur valdið.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að segja að þetta sé geðþóttaákvörðun sem byggist ekki á neinum rökum. Mér hefur að minnsta kosti ekki tekist að koma auga á nein þessara raka.

Það má spyrja, herra forseti: Hvað þarf til þess að menn taki ákvörðun um að leggja heila stofnun niður? Þarf ekki stofnunin að hafa sýnt eitthvað neikvætt af sér? Þarf hún ekki að hafa með einhverjum hætti farið á skjön við þá stefnu sem fagráðherrann hefur? Þarf hún ekki að hafa sýnt það að rekstur hennar er utan þess ramma sem henni er skorinn? Þarf ekki að hafa komið fram að hún er þunglamaleg í rekstri? Hún sé stirð í vöfum? Hún bryddi ekki upp á nýmælum? Þarf ekki að hafa komið fram að stofnunin, með einhverjum hætti, virðist ekki svara þeim kröfum sem til hennar eru gerðar af framkvæmdarvaldinu og af þeim fagráðherra sem yfir henni er? Jú, ég held að við mundum öll geta verið sammála um það að eitthvað af þessu hlyti að þurfa að vera til staðar til þess að ríkisstjórn léti sér koma til hugar að koma fram með frumvarp af þessu tagi.

Hver var vitnisburður hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem á skömmum tíma innan utanríkismálanefndar hefur þó haft tóm til þess að kynna sér málið? Hv. þingmaður lýsti því yfir í nefndinni að hún hefði farið yfir allar ræður sem fluttar hefðu verið um málið, lesið öll gögn málsins, allar umsagnir — og hver er niðurstaða hennar? Við heyrðum það hér rétt áðan þar sem hv. þingmaður sagði einfaldlega ærlega, aðspurð um það hvernig hún upplifði það hvernig stofnunin væri, að ekki væri hægt að halla orði á stofnunina. Hún sagði: Stofnunin hefur staðið sig vel. Hún er góð. Starfsmennirnir eru faglegir.

Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur með þessum hætti í reynd tekið undir allt það sem er líka að finna í þróunarsamvinnunefndarúttektinni, DAC-úttektinni svokölluðu. Og ekki bara það. Þegar maður veltir því fyrir sér hvers vegna hæstv. ráðherra er að fara í þennan leiðangur þá birtist manni ansi „skítsofren“ afstaða þegar hann er spurður út í það hvernig honum finnist stofnunin vera. Hæstv. ráðherra hefur nefnilega sagt að hann finni ekkert aðfinnsluvert við stofnunina. Hann hafi ekkert út á hana að setja. Og ekki bara það, heldur segir líka í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„ÞSSÍ hefur unnið mjög gott starf á vettvangi þannig að eftir því er tekið …“

Í greinargerðinni segir líka að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi, með leyfi forseta, „margsannað sig í óháðum úttektum“.

Herra forseti. Hvernig á maður þá að skilja hvers vegna hæstv. ríkisstjórn ætlar með þessum hætti að leggja stofnunina niður? Kann það að vera vegna þess að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, sem hér skeiðaði fram hjá rétt í þessu, lýsti því yfir, þegar hennar fyrsta verk sem formaður í fjárlaganefnd var að skera með stórfelldum hætti niður framlög til þróunarsamvinnu, að það væri bara fyrsta vers? Getur það verið að heift hv. þingmanns gagnvart ÞSSÍ, sem margsinnis hefur komið fram, sé að birtast í því að hér er hæstv. utanríkisráðherra, sem bersýnilega er leiksoppur hennar í þessu máli, (Gripið fram í.) að leggja til að stofnunin verði lögð niður? Það er ekki hægt að finna neitt annað en einhverjar slíkar hvatir sem ráða för í þessu máli.

Þegar maður skoðar feril ÞSSÍ blasir það við að ekki hefur verið hægt að sýna fram á neinar sérstakar brotalamir hjá stofnuninni. Þvert á móti þá hefur ÞSSÍ í mörgum greinum verið fyrirmyndarstofnun í stofnanaflóru ríkisins, eiginlega að öllu leyti. Hún hefur til dæmis verið til fyrirmyndar um það að laga sig að nýjum kröfum. Hún hefur sannarlega gengið í takt við tímann. Hún hefur sýnt frumkvæði. Hún hefur tekið upp nýstárlegar aðferðir og hún hefur tekið upp ýmsar nýjungar sem hafa verið þess eðlis að það hefur vakið verðskuldaða eftirtekt annarra þjóða. Um þetta eru ýmis dæmi. Sú nálgun sem ÞSSÍ hafði til dæmis gagnvart verkefnum í Austur-Afríku, þar sem Ísland leggur töluvert mikla fjármuni til þess að þróa beislun og nýtingu jarðhita, varð til þess að erlendar stofnanir létu af hendi rakna meira en Íslendingar verja til þess tiltekna verkefnis.

Norræni þróunarsjóðurinn hefur þannig lagt fram 700 milljónir sem er meira en íslensk stjórnvöld hafa lagt til þess verkefnis. Með sama hætti kom önnur stofnun og vildi gjarnan taka þátt í verkefni í jarðhita í Rúanda. Þar voru í boði tvær til þrjár milljónir evra, sem eru nokkur hundruð milljónir íslenskra króna. Þegar allt er samanlagt má því segja að stofnunin hafi, undir forustu Engilberts Guðmundssonar, getað aflað sér þúsund milljóna til samlags við það sem íslensk stjórnvöld eru að leggja fram í gegnum Þróunarsamvinnustofnun til margháttaðra jákvæðra framfara sem allar horfa til mikilla bóta í þeim löndum þar sem við erum að starfa.

Eins og ég sagði áðan hefur Ríkisendurskoðun lýst því yfir að stofnunin hafi aldrei farið, eða að minnsta kosti ekki síðan 2008, út fyrir þann ramma fjárlaga sem henni hefur verið settur. Ég held að það megi segja að undir forustu Engilberts Guðmundssonar hafi blásið nýir vindar sem hafa vakið eftirtekt vítt um lönd. Þessir nýju vindar stafa ekki síst af því að forstjóri Þróunarsamvinnustofnunar, sem oft hefur verið nefndur til sögunnar af mér, starfaði um aldarfjórðungsskeið í framlínu annarra stofnana þar sem menn voru að brydda upp á nýjungum. Þær nýjungar færði Engilbert Guðmundsson inn í starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands þegar hann tók við henni. Þar hefur hann verið að þróa þær núna um nokkurra ára bil. Það má svo sannarlega segja að hann hafi sinnt því starfi, ásamt því góða fólki sem þar hefur unnið með honum, á þann veg að óhætt er að segja að í dag sé Þróunarsamvinnustofnun Íslands sannarlega í fremstu röð slíkra stofnana. Þessi ferskleiki, sem ég tók eftir sem ráðherra þegar ég var yfir þessum málaflokki, og sem vakið hefur athygli margra annarra, birtist til dæmis í þeirri stefnu að stofnunin gerir sér far um að láta heimamenn í héraði, þar sem verkefnin eru unnin, ekki bara bera ábyrgð heldur eiga hlutdeild í því að velja og þróa verkefnin. Fyrir tilstilli ÞSSÍ hafa þessar áherslur sitrað inn í stjórnkerfið og í reynd breytt stefnu og áherslum sem við höfum sem þjóð haft í þróunarsamvinnu nú síðustu árin.

Það má segja að það hafi verið ÞSSÍ sem hvarf frá hinum stóru verkefnum fortíðarinnar og lagði áhersluna miklu meira á að bæta nærumhverfið, vinna með grasrótinni, gera eins og við höfum verið að gera í þremur löndum Afríku og ekki síst í Malaví, að sinna menntun, að sinna heilsugæslu, að beina fjármagninu í að bæta aðstöðu mæðra og barna þeirra; kenna mæðrunum að lesa, veita þeim aðgang að heilsugæslu og það sem kannski hefur ekki skipt minnstu máli, að búa til aðgang að fersku og hreinu vatni. Út af þessu hefur staðan í þeim héruðum, t.d. í Malaví þar sem við höfum verið, gjörbreyst, t.d. í Mangochi-héraðinu í Malaví þar sem hundruð manna dóu úr kóleru áður en þessi nálgun var tekin upp. Það er búið að útrýma kóleru á þeim svæðum þar sem ÞSSÍ hefur starfað. Þetta hefur gjörbreytt lífi þessa fólks. Við höfum tekið þátt í því að skapa umhverfi þar sem konur geta fætt börnin sín þannig að miklu meiri líkur eru á því að þau lifi af fæðinguna. Ég get sagt ykkur að þessu trúir enginn, mikilvægi þessarar miklu og fersku nálgunar hjá Þróunarsamvinnustofnun, nema sá sem hefur séð það. Það var ógleymanlegt fyrir mig að fara sem ráðherra til akkúrat þessara svæða í Malaví og sjá þetta sjálfur eigin augum. Að koma inn í rjóður í frumskóginum miðjum þar sem var örlítil bygging þar sem var sængurdeild þar sem konur komu kannski um tugi kílómetra til þess að fá að fæða. Þær lýstu því fyrir mér hversu gríðarlega miklu máli þetta skipti. „Nú deyja börnin ekki,“ sagði ljósmóðirin sem tók á móti mér með örlítinn drifhvítan kappa inni í frumskóginum miðjum. Eða að tala við lækna og hjúkrunarlið, sem í krafti þessarar nálgunar, sem tekin var upp af hálfu ÞSSÍ, fer um krákustíga frumskógarins á bifhjólum og ef það tókst ekki þá á reiðhjólum til þess að sinna sjúku fólki. Það var þessi nálgun sem vakti eftirtekt annarra stofnana miklu stærri landa eins og til dæmis Þróunarsamvinnustofnunar Þýskalands sem baðst sérstaklega leyfis til að fá að kynna sér nákvæmlega þá nálgun sem ÞSSÍ hefur tekið upp í Afríku til þess að stórþjóðin gæti lært af henni.

Í dag er þróunarsamvinnan skilgreind sem einn af burðarásunum í utanríkisstefnu Íslands. ÞSSÍ hefur með þessum miklu ágætum fært stefnuna í framkvæmd með þeim hætti að allir bera lof á, ekki bara ég sem fyrrverandi ráðherra heldur líka núverandi ráðherra og hv. formaður utanríkismálanefndar og nú ætlar allt þetta fólk, og þingið ef að líkum lætur, að verðlauna stofnunina sem enginn hefur neitt getað fundið að með því að leggja hana niður.

Það er þetta sem ég átti við þegar ég sagði áðan, herra forseti, að ég hefði aldrei á mínum langa ferli hér nokkru sinni séð koma mál sem hefur verið jafn undarlegt, jafn sérkennilegt og sem enginn maður fær neinn botn í. Það hefði verið miklu vitlegra við þessar aðstæður að skoða með einhverjum hætti hvort ekki ætti að búa betur um þá hnúta sem bundið er um ÞSSÍ, gera hana betur í stakk búna til þess til dæmis að taka við þeim auknu verkefnum sem hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar benti réttilega á að bíða Íslendinga í þróunarsamvinnu vegna þess að þessi ríkisstjórn, eftir að hafa skorið niður framlög samanlagt, frá þróunarsamvinnuáætlun sem hér var samþykkt einróma árið 2011, um fjóra milljarða, þá hefur hann að minnsta kosti boðað það að fara eigi í hægfara aukningu á framlögum til þróunarsamvinnu.

Við þessar aðstæður, herra forseti, hefði ég talið að það væri miklu frekar hlutverk utanríkismálanefndar, sérstaklega formanns utanríkismálanefndar, en ekki síður annarra sem í nefndinni sitja, að skoða með hvaða hætti væri best að horfa til framtíðarinnar.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði að við sem sitjum í nefndinni fengum sannarlega ráðrúm til þess að kalla þá til okkar sem við vildum. Ég var þó þeirrar skoðunar að það þyrfti að fara miklu betur yfir ýmsar umsagnir og skoða betur þau gögn sem fyrir lágu, ekki síst vegna þess, eins og hv. þm. Kristján L. Möller sagði hér áðan, að það voru þrír nýir þingmenn í utanríkismálanefnd. Einn af þeim er hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir. Ég hygg, eftir að hafa hlustað á yfirferð hennar hér, um hvað það er sem kemur fram í úttekt DAC-þróunarsamvinnunefndarinnar á ÞSSÍ, þá hefði þeim tíma verið vel varið að staldra við og skoða hlutina svolítið betur.

Það er ekki rétt, sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að í úttekt DAC-nefndarinnar hafi verið lagt til að fyrirkomulaginu yrði breytt. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir fór að vísu miklu varfærnari orðum þar um, en af máli hennar mátti samt ráða að í skýrslunni hefðu verið sterkar ábendingar um að ráðast í breytingar. Það er ekki rétt. Það er misskilningur og það er einn af mörgum misskilningum vegna þess að ekki vil ég kalla það rangfærslur sem stendur í greinargerð með frumvarpinu, en þar kemur aftur og aftur fram að í úttekt DAC-nefndarinnar megi finna ábendingar eða vísbendingar um að breyta fyrirkomulaginu. Það er ekki svo. Þar kemur hins vegar skýrt fram að þegar DAC-nefndin situr að störfum þá er hún að horfa til nýs veruleika í umhverfinu í þróunarsamvinnu á Íslandi. Þá er hún að horfa á áætlun sem nýbúið er að samþykkja einróma hér á hinu háa Alþingi þar sem lagt er til að jafnt og þétt yrðu framlög aukin og hækkuð til þróunarsamvinnu þangað til þau næðu, árið 2020, 0,7% af vergri landsframleiðslu. Þetta, segir í áliti DAC-nefndarinnar, kallar á gríðarleg ný verkefni og það er vitaskuld rétt niðurstaða.

Út af áætluninni, sem þingið samþykkti, með sérstakri blessun núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, sem sagðist telja hana raunhæfa, blasti við að verið var að margfalda framlögin til þróunarsamvinnu. Við þær aðstæður beindi úttektarnefndin á vegum DAC því til íslenskra stjórnvalda að þau mundu meta fyrirkomulag þróunarsamvinnu á Íslandi. Þau sögðu hvergi að það svaraði ekki núverandi stöðu, sögðu reyndar ekki heldur að það dygði ekki til þess að geta tekist á við þau nýju verkefni sem við blöstu þá að þeirri ályktun samþykktri. Hvergi, svo að það sé undirstrikað, í áliti DAC-nefndarinnar er nokkurs staðar vikið að því, gefinn minnsti blær að því, að leggja eigi stofnunina niður. Þetta þarf að koma algjörlega skýrt fram vegna þess að það er rangt sem segir í greinargerð með frumvarpi hæstv. ráðherra að álitið frá þróunarsamvinnunefnd OECD sé hægt að skilja á þann veg að það þurfi að gjörbreyta fyrirkomulaginu.

Það kemur líka fram í greinargerð með frumvarpinu, og kom fram mörgum sinnum í ræðu hæstv. ráðherra, að fyrirkomulagið og ramminn sem er utan um þróunarsamvinnu okkar Íslendinga væri eitthvað sérstakur, einstakur. Hér hefði þróast einhver sérstök útgáfa af þróunarsamvinnu sem byggi við kerfi sem væri allt öðruvísi en annars staðar. Þetta er rangt, herra forseti. Þetta er partur af þeim misskilningi eða þeim röngu fullyrðingum sem meginefni frumvarpsins er byggt á.

Í yfirferð hv. utanríkismálanefndar kom það til dæmis algjörlega skýrt fram — eins og í máli prófessors Daða Más Kristóferssonar sem ræddi við okkur málin fyrir hönd félagsvísindasviðs Háskóla Íslands ásamt prófessor Jónínu Einarsdóttur — að það væri algjörlega skýrt að það fyrirkomulag sem er hér á Íslandi, þar sem framkvæmd er á einni hendi og þar sem eftirlit og stefnumótun er á annarri hendi, er algjörlega í samræmi við það sem meiri hluti stofnana á þessu sviði býr við.

Það má líka velta öðru fyrir sér. Hvað eru aðrar þjóðir nákvæmlega núna að gera í þessum efnum? Tökum land eins og Ítalíu sem er umsvifamikið á sviði þróunarsamvinnu. Ítalska ríkisstjórnin hin síðasta tók sér fyrir hendur að endurskoða sína þróunarsamvinnu. Hún kallaði til hóp vísra manna og kvenna og að vandlega yfirveguðu ráði þá hrinti ríkisstjórn Ítalíu í framkvæmd tillögum þessarar nefndar. Í hverju fólust þessar tillögur? Í að gjörbreyta fyrirkomulaginu á Ítalíu á þann veg að setja upp sérstaka stofnun alveg eins og ÞSSÍ og taka verkefnin út úr ráðuneytinu.

Með öðrum orðum, herra forseti, það sem ítalska ríkisstjórnin taldi best til að svara kröfum tímans, varðandi fyrirkomulag á þróunarsamvinnu, því er íslenska ríkisstjórnin að hafna. Í þessu speglast kannski vitleysan sem hægt er að lesa út úr tillögum hæstv. ráðherra.

Ég kem þá að því, herra forseti, sem mér finnst vera verst í þessu frumvarpi. Það eru þær ýjanir og dylgjur sem koma fram gagnvart stofnuninni, og þar með óhjákvæmilega líka gagnvart starfsmönnum hennar, um að hún hafi ekki staðið sig í stykkinu. Aftur og aftur er verið að tala um að það þurfi þessa breytingu til þess að koma í veg fyrir tvíverknað. Aftur og aftur er talað um það, eins og í ræðum hæstv. ráðherra, að það þurfi að sjá til þess að ÞSSÍ gangi í takt við utanríkisstefnu Íslands. Aftur og aftur er lögð áhersla á það að ÞSSÍ og utanríkisráðuneytið verði að tala einni röddu. Og aftur og aftur er talað um að auka þurfi hagkvæmni og að hagræða innan stofnunarinnar.

Við sem sátum í nefndinni í ár og í fyrra gengum eftir því við alla gesti sem komu til okkar að fá fram dæmi um hvar það hefði gerst að stofnunin hefði ekki gengið í takt við utanríkisstefnu íslensku ríkisstjórnarinnar en við fengum engin dæmi. Það var hvergi hægt að benda á eitt einasta dæmi. Hæstv. ráðherra lét sér það sæma hér undir lok umræðunnar í fyrra að tala myrkum rómi um að það væru hlutir sem hann gæti ekki sagt frá í þessum sal. Best væri að utanríkismálanefnd mundi ræða það innan fjögurra veggja í skjóli þess trúnaðar sem þar ríkir. Það var gert. Þetta kemur glögglega fram í nefndaráliti sem við höfum skilað, minni hlutinn. Þetta kemur líka fram í umsögn ÞSSÍ vegna þess að þau nefna þetta dæmi. Það var ekki annað en það að þegar á sínum tíma kom upp ákveðin mál, sem vörðuðu ofsóknir gagnvart samkynhneigðum í Úganda, þá þurfti að slípa til orðalag í samskiptum ráðuneytisins og starfsmanna ÞSSÍ niðri í Afríku til þess að allir yrðu sáttir. Þegar upp var staðið, eins og segir í umsögn frá ÞSSÍ, þá var það auðvitað þannig að ráðuneytið var fyllilega sátt við það sem var niðurstaðan. Þetta er ekkert annað en er alsiða í utanríkisþjónustunni þar sem menn á vettvangi og þeir sem sitja heima ráða ráðum sínum og komast að niðurstöðu um það með hvaða hætti eigi að bera mál Íslands fram. Þetta var eina dæmið. Það hefur hvergi verið hægt að benda á neitt sem ekki er til fyrirmyndar að því er varðar rekstur þessarar stofnunar.

Ég verð því að segja að lokum, herra forseti, að mér er til efs að nokkru sinni hafi komið fram frumvarp sem varðar jafn mikilvægt mál og það sem við ræðum hér sem hefur jafn lítinn eða jafnvel engan rökstuðning að baki sér. Það hefur aldrei gerst áður að við höfum staðið hér dögum saman, eins og í fyrra og jafnvel á þessu ári, og rætt þetta mál og við öll tækifæri, þegar hæstv. ráðherra hefur verið staddur hér, höfum við gengið eftir því hvar dæmin væru sem sýna fram á að stofnunin hafi ekki staðið sig nógu vel og hver vandamálin væru sem þyrfti að leysa með því að leggja ÞSSÍ niður. Þau dæmi hafa aldrei komið fram. Þetta er því geðþóttaákvörðun. Ráðherrann hefur ekkert fyrir sér og hann er að gera þetta „af því bara“, af því að hann asnaðist til að hlusta á embættismenn sína, meðan hann var blautur á bak við eyrun, og segja já. Hann getur ekki í augum þeirra heykst á því að bera málið fram. Það er eina skýringin sem ég sé fyrir þessu máli.

Ég tel að við þessar aðstæður hefði verið miklu vitlegra að skoða málið út frá þeim valkostum öllum sem Þórir Guðmundsson lagði fram í hinni merku skýrslu sinni. Þar voru tveir aðalvalkostir. Annar að hafa skipan þróunarsamvinnunnar í óbreyttu horfi, hin skipanin var sú að flytja verkefni frá utanríkisráðuneytinu til Þróunarsamvinnustofnunar. Sá sem mest vit hefur á þessu á Íslandi, prófessor Jónína Einarsdóttir, sem hefur bæði praktíska og fræðilega reynslu af þróunarsamvinnu, kom á fund nefndarinnar og álit og umsögn félagsvísindasviðs Háskóla Íslands var sammála niðurstöðu hennar, það var hin sama niðurstaða og Davíð Oddsson komst að á sínum tíma: Best væri fyrir málaflokkinn (Forseti hringir.) að flytja verkefni frá utanríkisráðuneytinu til ÞSSÍ. Verst fyrir málaflokkinn væri að gera það sem hér er að gerast í dag, að leggja stofnunina niður.



[17:16]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki mjög leyndardómsfullt mál í sjálfu sér, að minnsta kosti ekki í meginatriðum. Það er skýrsla og hún er lögð fram og þar koma fram ýmis efnisatriði sem hægt er að ræða. En eitt kveikti forvitni mína og það var það sem hæstv. ráðherra taldi sig ekki mega tala hér um. Það varðar þennan meinta ríg eða þá samskiptaörðugleika sem hv. þingmaður fór lauslega yfir að hefðu einungis reynst vera þessi meinti ágreiningur um það hvernig ætti að tjá sig í Úganda, því annars ágæta landi, í sambandi við meðferð samkynhneigðra.

Þar sem hv. þingmaður er jú fyrrverandi utanríkisráðherra þá finnst mér við hæfi að spyrja og kannski velta því aðeins upp á yfirborðið: Er það eitthvað í samskiptum opinberra starfsmanna sem er svo slæmt að það valdi því að stofnun sé lögð niður eða að högum heilu ríkisstofnananna sé breytt vegna rígs eða samskiptaörðugleika starfsmanna ríkisins? Ég spyr hvort hv. þingmaður hafi orðið var við það á seinasta kjörtímabili, þegar hann var utanríkisráðherra, að á ferð væru samskiptaörðugleikar sem gætu réttlætt svo stór skref, hvort sem þau væru í átt að því að leggja stofnunina niður og flytja starfsemina í utanríkisráðuneytið eða öfugt eða hvað eina.

Mér finnst erfitt að trúa því að við stöndum hér, kjörnir fulltrúar, og ræðum það í fúlustu alvöru að leggja niður stofnun eða breyta hlutverki hennar vegna þess að starfsmönnum kemur ekki saman. Það er þessi hlutur sem ég skil ekki. Og hluti af ástæðunni fyrir því að ég skil þetta ekki er sá að það kemur ekkert efnislegt fram nema þetta eina atriði með Úganda.

Ef það er eitthvað fleira sem liggur undir þá tel ég mikilvægt að við komum því upp á yfirborðið; ef við ætlum að ræða það hér á hinu háa Alþingi sem á jú að heita opinn vettvangur.



[17:19]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Því er fljótsvarað. Það voru aldrei neinir samstarfsörðugleikar milli starfsmanna ráðuneytisins og starfsmanna ÞSSÍ meðan ég réði þar húsum. Það hefur komið algjörlega skýrt fram, meðal annars af hálfu hæstv. ráðherra, að ekkert slíkt hefur verið í gangi síðan. Það kom aftur og aftur fram í samtölum við gesti, sem voru bæði fulltrúar ráðuneytisins og ÞSSÍ, að samskiptin hefðu verið ákaflega lipur og góð og í skýrslu DAC-nefndarinnar er sérstaklega fjallað um þetta og talað um lipur, snurðulaus og fagleg samskipti.

Ég veit hins vegar ekki hvaða tilfinningar hæstv. ráðherra kann að hafa þróað með sér. Hugsanlega var honum ekki vel við það að starfsmenn ÞSSÍ brugðust eðlilega vel við því að svara spurningum þingmanna undanbragðalaust. Þeir sögðu frá sínum viðhorfum og þeir greindu frá því með hvaða hætti þróunin er í þessum málaflokki erlendis. Það var alveg ljóst að hæstv. ráðherra var ekkert vel við það.

Það birtist til dæmis í því að þegar ráðherrann ákvað um síðir að heimsækja svæðið, sem við eigum í þróunarsamvinnu við, vildi hann ekki að neinn starfsmaður ÞSSÍ fylgdi honum. Það hefur aldrei gerst áður að ráðherra hafi farið í slíkar heimsóknir án þess að einhver yfirmaður eða forstjóri stofnunarinnar fylgdi honum í slíka för, enda var hann þar að heimsækja starfsstöðvar ÞSSÍ. Ég kemst bara að þeirri niðurstöðu að þarna hafi verið um persónulega duttlunga hæstv. ráðherra að ræða. Honum hefur aldrei tekist að flytja neinar röksemdir fyrir þessu máli, ekki frekar en þeim sem hann flutti hér áðan í framsögu fyrir áliti meiri hlutans. Meiri hlutinn hefur engin rök fyrir þessu. Meira að segja einn af þeim stendur að álitinu hefur komið með hvössustu gagnrýnina á það, eins og við eigum væntanlega eftir að heyra hér síðar. Þannig að þetta er nú svar mitt.

Samstarfið hefur alltaf verið óaðfinnanlegt og forusta ÞSSÍ nýtur almennrar alþjóðlegrar virðingar í sínum geira.



[17:21]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég trúi hv. þingmanni og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra mjög vel þegar hann segir slíkt. Svo kemur hér fram í þessu minnihlutaáliti, sem við báðir stöndum að, að svo virðist sem það hafi verið staðföst stefna embættismanna utanríkisráðuneytisins um langt skeið en ekki stjórnmálamanna að leggja niður ÞSSÍ. Þannig að maður finnur vísbendingar hér og þar um að þetta sé embættismannaslagur sem einhvern veginn hafi haft áhrif á dómgreind hins annars ágæta og hæstv. utanríkisráðherra. Ég spurði að þessu vegna þess að mér finnst þessi ráðgáta ekki alveg endanlega leyst.

Að því sögðu langar mig að spyrja hv. þingmann um annað atriði sem eru hinar hugmyndirnar um að styrkja ÞSSÍ og flytja fleiri verkefni til hennar. Ég spyr hvort hv. þingmaður mundi styðja þá leið sem einnig kom fram í skýrslu Þóris Guðmundssonar.



[17:22]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Það kom skýrt fram í vinnu nefndarinnar að hæstv. ráðherra misskildi alvarlega eina af athugasemdum hinnar svokölluðu DAC-nefndar. Hún benti á að fyrirkomulagið á þróunarsamvinnu væri öðruvísi hér á landi en annars staðar. Það varð honum tilefni til þess að túlka það svo að nefndin væri að leggja til að því yrði breytt. En hvað var það sem nefndin átti við eins og upplýst var innan utanríkismálanefndar? Jú, þegar úttektarfólkið fór að skoða fjárframlögin kom í ljós að 60% af því sem átti að fara til tvíhliða verkefna af Íslands hálfu er veitt af utanríkisráðuneytinu þó að lögin segi að það eigi að fara í gegnum ÞSSÍ. Við höfum með öðrum orðum ekki farið algjörlega að lögum samkvæmt þessu. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það væri farsælast að stíga það skref (Forseti hringir.) núna að flytja öll tvíhliða verkefnin frá utanríkisráðuneytinu yfir til ÞSSÍ og styrkja hana þannig. Síðan kemur vel til greina í framhaldinu að skoða hina góðu tillögu Davíðs Oddssonar sem hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir vill ekki lengur fylgja.



[17:24]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem hélt hér afbragðsgóða ræðu og fór vel yfir málið, um afleiðingarnar sem gætu orðið af þessari breytingu, ef af henni verður, þá sérstaklega það álit Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings sem hefur látið sig málefni gagnsæis og spillingar varða og verið meðal annars tengd félagasamtökum á því sviði. Sigurbjörg kom á fund nefndarinnar á síðasta þingi um málið og í viðtali við Stundina segir hún að með færslu Þróunarsamvinnustofnunar undir utanríkisráðuneytið vari hún við því að öll framlegð íslenskra skattgreiðenda til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu lendi í einum potti innan ráðuneytisins. Þetta auki möguleika ráðherra til að afla sér áhrifa innan þess potts og segir, með leyfi forseta, „að sá pottur mun verða „gruggugri“ eftir þann flutning.“ Þetta fullyrðir hún í ljósi þess að alla jafna sé erfiðara að fylgjast með því sem gerist innan ráðuneytanna en innan undirstofnana þeirra, vísar til dæmis til þess að fáheyrt sé til að mynda að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt á ráðuneytunum. Það er auðvitað hárrétt. Það er ekki gert. Og vísar svo til þeirrar almennu reglu sem við hv. þingmaður höfum ítrekað gert að umtalsefni í ræðum okkar um þessi mál, að það er mun eðlilegra fyrirkomulag að koma framkvæmdaverkefnum fyrir í stofnunum utan ráðuneytis þannig að ráðuneytið geti þá fylgt eftirlitshlutverki sínu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé raunveruleg hætta með flutningi alls fjármagns til þessa málaflokks í einn pott beint undir ráðherra. Erum við að gera þetta kerfi, þennan pott gruggugri?



[17:26]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sannarlega. Ég held að það sem liggur að baki þessari tillögu sé þó ekki að vinna að neinu slíku. Ég ætla hvorki starfsmönnum ráðuneytisins né hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar það. En sporin hræða. Við urðum þess áskynja við umfjöllun nefndarinnar. Gestir komu á fund hennar bæði í fyrra og einnig núna sem upplýstu um það að svipaðar breytingar í löndum sem við berum okkur saman við og veita mikið fé til þróunarsamvinnu hefðu lent í þeirri stöðu að upp hafi komið grunur um að þarna samkrulluðust hagsmunir. Það er algjörlega ljóst að til dæmis í okkar tilviki er utanríkisráðuneytið ekki bara ráðuneyti utanríkismála heldur líka utanríkisviðskipta, sem er alls ekki alls staðar. Um leið og þróunarsamvinna er komin undir sama þak og utanríkisviðskipti er hætta á að sumar af syndum fortíðarinnar taki sig upp sem draugar nútíðar. Ég ætla ekki að rekja dæmin. Hv. þingmaður þekkir þau. Svo þar er sannarlega hætta.

Annað sem er líka mjög neikvætt við þetta er að ég tel að með slíkum flutningi sé þróunarsamvinna komin í allt annað umhverfi. Innan ráðuneytisins ríkir flutningsskylda. Það þýðir að starfsmenn stoppa tiltölulega stutt við á hverju sviði. Þeir verða fjölfræðingar. Þeir eru kannski tvö til þrjú ár, mest fjögur ár, á einum tilteknum stað. Þekking þeirra verður kannski ekki jafn sérhæfð og ella. Þróunarsamvinnustofnun er byggð á sérhæfðri þekkingu. Það þýðir ekki að hafa einhverja generalista. Þekkingin verður grunnristari. Hún verður smurð heldur þynnra en áður. Það getur komið niður á þróunarsamvinnunni að þessum hlut breyttum.

Þetta var það sem mjög margir vöktu athygli á og lýstu ákveðnum kvíðboga gagnvart. Ég held að menn hefðu átt að hlusta á það.



[17:28]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svör hans. Það er svo að eftir þessa umræðu, bæði þá sem hefur átt sér stað á þessu þingi og líka þá umræðu sem varð í hv. utanríkismálanefnd þegar ég sat þar á síðasta þingi, að mér er enn mjög óljóst hve rökin eru nákvæmlega fyrir frumvarpinu. Ég er farin að velta fyrir mér hvort hér sé hreinlega um mál að ræða sem er farið að tengjast persónulegu stolti einstakra aðila, hæstvirts ráðherra, hann leiti eftir stuðningi meiri hlutans án þess að nokkur maður virðist hafa nokkra sannfæringu fyrir málinu. Ég verð að lýsa áhyggjum af því. Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því, því að það er ekki góður leiðarvísir að ráðast í svona brambolt eingöngu til að ná þeim markmiðum að stolt manns særist ekki. Það (Forseti hringir.) er ekki góður vegvísir. Ég spyr hv. þingmann: Er þetta drifkrafturinn?



[17:29]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ótvírætt megi segja að svarið sé já. Ég er hv. þingmanni sammála. Ég hef reynt að rekja það að mér er gersamlega ómögulegt að sjá nokkurn snefil af vísi að röksemdum fyrir þessari breytingu. Enginn hefur getað flutt þau rök. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir sem kemur með ný og glögg augu að þessu máli og flutti framsögu fyrir áliti meiri hlutans áðan gat það ekki, hún skautaði yfir það í þremur eða fjórum setningum. Það hefur enginn getað það. Ég held að hv. þingmaður eigi kollgátuna, það sé fyrst og fremst persónulegt stolt.

Hæstv. ráðherra lagði málið fram, lét plata sig til þess af embættismönnum. Þeim gengur nú svo sem töluvert annað til og lentu hér á hörðum vegg með þetta mál og mörg önnur. Það var persónulegt stolt sem olli því að hann gerði þetta að eina málinu, fyrsta málinu sem hann lagði fram. Það eru engin önnur mál svo að segja, nema EES-málin, á þingmálalista hans. Ég held að það sé ekkert annað sem veldur þessu.

Þess vegna segi ég að á mínum ferli hef ég aldrei (Forseti hringir.) séð jafn djúprist mál koma fram með jafn litlum (Forseti hringir.) og flumbrulegum rökstuðningi eins og þetta.



[17:31]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka tækifærið til þess að fá að ausa aðeins úr viskubrunni fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra. Ég er tiltölulega nýbyrjaður í þessu þannig að það hjálpar mér mjög oft að vita söguna fyrir núverandi ástand. Hvernig varð ÞSSÍ til og hvernig var ástandið áður? Hver var ástæðan fyrir því að farið var yfir í núverandi fyrirkomulag? Það hefur væntanlega upplýsandi áhrif á það af hverju er verið að hætta því fyrirkomulagi.

Einnig var nefnt að núna væri stefnt að 0,7% af vergri landsframleiðslu í þróunaraðstoð. Ég var að kíkja yfir listann af verkefnum ÞSSÍ. Þar eru ýmis þróunaraðstoðarverkefni sem eru annars staðar eins og Jarðhitaskólinn sem virðist ekki vera undir ÞSSÍ. Hvernig fer fyrir þeim verkefnum við þessa breytingu?



[17:32]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að sagan er oft lykill að skilningi á samtímanum. ÞSSÍ var stofnuð fyrir 34 árum af glæsilegum stjórnmálamanni, umdeildum, sem mjög kvað. Hann nýtur líka þess sess í sögunni að hann var formaður Framsóknarflokksins. Það var Ólafur Jóhannesson sem ruddi brautina fyrir ÞSSÍ. Ákvörðunin hafði að vísu verið tekin skömmu áður á síðustu metrum viðreisnarstjórnarinnar svokölluðu. Það var Alþýðuflokkurinn sem lagði málið fram eða barðist fyrir því en sannarlega var það Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, sem markaði hin fyrstu skref og fylgdi þeim eftir af öllum sínum alkunna þunga. Þróunarsamvinnustofnun þróaðist með svipuðum hætti og aðrar stofnanir. Hún var sennilega sett á stofn vegna þess að við fylgdum öðrum Norðurlandaþjóðum varðandi þróunarsamvinnu. Þar voru slíkar stofnanir.

Á hinum síðustu árum má segja að þessi umræða hafi komið reglulega upp. Ég hef greint frá minni reynslu af þessu sem var sú að ég var ekki búinn að vera viku í ráðuneytinu þegar þessi hugmynd var komin inn á borð með fallegum vel rökstuddum greinargerðum. Ég þekkti málið. Ég hafði verið í þinginu þegar þetta sama mál hafði komið, eins og núna, alla leið inn og verið ýtt burt af þinginu. Þingið vildi ekki þessa breytingu.

Síðan er það auðvitað mjög merkilegt í þeirri sögu sem við höfum rakið í þessari umræðu að þegar hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson fór fyrir þeim flokki manna í utanríkisráðuneytinu sem Davíð Oddsson, þáverandi utanríkisráðherra, fékk til þess að skoða þessa hugmynd þá sneri hann henni algjörlega við, komst að þeirri niðurstöðu að það væri hægt að styrkja málaflokkinn, en ekki með því að flytja bara þau tvíhliða þróunarverkefni sem væru í utanríkisráðuneytinu heldur öll, líka hin marghliða, til Þróunarsamvinnustofnunar og styrkja hana verulega. Það væri róttækt breyting, þó ekki eins róttækt og þessi, og hana (Forseti hringir.) ættu menn að skoða.

Þetta er hinn sögulegi aðdragandi. Þetta er líka hægt að lesa í opinberum skjölum gagnstætt því sem (Forseti hringir.) einn þingmaður sagði hér áðan.



[17:35]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir fróðlega yfirferð á sögu ÞSSÍ og heldur stutta, það þyrfti örugglega aðeins lengri tíma til þess að fara vel yfir hana.

Ég minntist á 0,7% af vergri landsframleiðslu. Ég var að velta fyrir mér líka hvaða svipaðar stofnanir væru í rauninni með svo mikið fjármagn sem væri ekki verið að leggja niður. Af hverju ættu þær stofnanir ekki að fara inn í ráðuneyti? Þær eru náttúrlega með mikla fjármuni, en það þarf mikla sérþekkingu til þess að valda svona stóru verkefni með svona miklum fjármunum. Mér finnst augljóst að hafa sérstaka stofnun fyrir slík verkefni til þess að halda sérfræðiþekkingunni mjög einangraðri frá pólitískum áhrifum.



[17:36]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst ekki tími til þess að svara síðari spurningu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar hér í fyrra andsvari hans um Jarðhitaskólann. Sama gildir auðvitað um hina skólana þrjá sem eru líka undir hatti Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Þeir eru allir kostaðir af þróunarfé og verða áfram til. Þeir hafa aldrei verið undir Þróunarsamvinnustofnun. Þeir hafa með vissum hætti flotið á milli og við höfum ekki einu sinni náð því af tæknilegum ástæðu að gera þá að sérstökum sameiginlegum fjárlagalið. En þeir eru óhultir að öðru leyti en því að þeir hafa náttúrlega líka orðið fyrir barðinu á niðurskurði þessarar ríkisstjórnar. Hún hefur svikið skuldbindingar okkar gagnvart fátækustu þjóðum heims um meira en 4 milljarða frá því sem samþykkt var hér 2011 með atkvæðum allra þingmanna, líka Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Varðandi það sem við erum að leggja til þá stefnum við að því að ná 0,7%. Það eru fáar þjóðir sem ná því. Undir forustu íhaldsmannsins Camerons hafa Bretar slegið í með aðdáunarverðum hætti. (Forseti hringir.) Þeir settu til dæmis mökk af peningum í glæsilega bólusetningarherferð um alla Afríku á tímum niðurskurðar.



[17:37]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta forgangsmál ríkisstjórnarinnar er eitt af fáum málum sem er komið fram á þessu þingi. Það er dálítið merkilegt því að við siglum inn í nóvember í næstu viku og þá viku er ekkert þinghald. Hér eru afar fá mál á dagskrá frá ríkisstjórninni. Það er ljóst að niðurlagning Þróunarsamvinnustofnunar virðist vera eitt af aðalforgangsmálum þessarar ríkisstjórnar á meðan önnur mál fá að bíða, eins og húsnæðisfrumvörp og mál sem maður hefði talið að ættu að hafa meiri forgang ef marka má hvað fólk telur almennt mikilvægt. Þetta er það mál sem við í stjórnarandstöðunni fáum upp í hendurnar sem forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Ég furða mig satt að segja talsvert á því í ljósi þess að ég hef ekki enn, eins og kom fram í andsvari mínu áðan, heyrt fullnægjandi fagleg rök fyrir því að þessi breyting hafi verið lögð til.

Í umræðum í hv. utanríkismálanefnd á síðasta þingi og líka hér í þingsal komu fram mjög veigamikil rök gegn þeirri breytingu sem hér er lögð til. Nú kynni einhver að spyrja, eðlilega: Hví er svona mikið veður gert út af breytingu sem snýst fyrst og fremst um form en ekki inntak? Af hverju erum við að æsa okkur yfir því? Það er mjög mikilvægt þegar kemur að stjórnsýslunni að við vöndum okkur með formið, að við vöndum hvernig við byggjum upp stofnanir stjórnsýslunnar. Margar skýrslur og margar greiningar hafa verið unnar á undanförnum árum um hvernig megi best standa að því að hafa hér styrka, gagnsæja og góða stjórnsýslu. Af hverju skiptir það máli? Það skiptir máli fyrir almenning í landinu svo að hann geti treyst á stofnanir stjórnsýslunnar.

Hluti af því sem hefur komið fram í öllum þessum greiningum er meðal annars það að styrkja þurfi ráðuneyti. Því hefur verið haldið fram hér, t.d. af hæstv. ráðherra, að með þessari breytingu verði utanríkisráðuneytið styrkt. En erum við að styrkja ráðuneyti með því að sameina fagstofnun, sem fer með tiltekin framkvæmdaratriði, við ráðuneyti sem er stjórnsýslustofnunin sem hefur pólitísku hlutverki að gegna og á annars vegar að setja stefnuna í samráði við Alþingi og hins vegar að annast stjórnsýsluna með því að hafa eftirlit með framkvæmdinni? Ég sagði það hér á síðasta þingi og ég endurtek það nú að ég tel ekkert hafa breyst í málinu sem hefur sannfært mig um neitt annað en að það er í hæsta máta undarlegt að við ætlum að færa alla fjármuni til þróunarsamvinnu inn í ráðuneytið og leggja niður fagstofnunina þar sem sérfræðiþekkingin er fyrir hendi. Ráðuneytið lýtur allt öðrum lögmálum, eins og kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem er fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, en stofnun sem starfar á fagsviði með flutningsskyldu þar sem fólk fer á milli pósta. Þar myndast ekki sérfræðiþekking að sama skapi og gerist í fagstofnunum með tiltekið verkefni. Ég fæ ekki séð að þetta verði til þess að styrkja hlutverk ráðuneytisins.

Ég hef verulegar áhyggjur af því sem ég kom inn á í andsvari mínu hér áðan og það er að þetta muni gera málaflokkinn ógagnsærri. Það er verið að færa mikla fjármuni til inn í ráðuneytið. Það er algjörlega óljóst hvernig eftirliti með þessum fjármunum verður háttað. Hér hefur Ríkisendurskoðun verið nefnd. Við köllum ekki alltaf Ríkisendurskoðun til í reglulegt eftirlit. Það hefur verið sagt að reistir verði eldveggir í ráðuneytinu þannig að þar verði markvisst innra eftirlit. Finnst okkur það fullnægjandi? Finnst okkur það fullnægjandi þegar um er að ræða svo viðkvæma málaflokk sem hefur verið mikið til umræðu víða annars staðar í Evrópu einmitt vegna þess að almenningur hefur svo litla yfirsýn yfir hvernig peningunum er varið nema þeim mun betur sé staðið að eftirliti með því og upplýsingamiðlun um það? Ég vil líka benda á að víða þar sem þróunarsamvinnustofnanir hafa verið færðar undir ráðuneyti hefur það verið gert með sérstökum ráðstöfunum og jafnvel sérstökum stofnunum innan ráðuneyta. Þetta er alls ekki einfalt. Aðrar þjóðir hafa vissulega verið að takast á við nákvæmlega sömu spurningu um eftirlitið.

Ég vil nota tækifærið hér og mæla þessi varnaðarorð: Ég held að við séum að taka áhættu með því að breyta fyrirkomulagi sem ég hef engan heyrt hallmæla. Það hefur enginn þorað að hallmæla þessu fyrirkomulagi hér í pontu. Allir segja: Þróunarsamvinnustofnun er frábær stofnun. Við erum að taka áhættu með því að taka stofnun sem þykir góð, fær góða útkomu í úttektum og þykir sinna starfi sínu vel og færa hana inn í ráðuneyti og við vitum eiginlega ekkert af hverju. Eins og kom fram í viðtalinu sem ég vitnaði til áðan við stjórnsýslufræðinginn Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur þá varaði hún við því að gagnsæi mundi minnka og möguleikar ráðherra á hverjum tíma til að hafa aukin áhrif yrðu meiri því að öll framlög mundu lenda í einum potti. Það er réttmæt athugasemd hjá stjórnsýslufræðingnum að ráðuneyti eru annars eðlis en fagstofnanir og það mundi teljast fáheyrt, eins og hún benti á, ef Ríkisendurskoðun færi í stjórnsýsluúttekt á utanríkisráðuneytinu. Sjáum við það gerast? Viljum við endilega bjóða upp á að það gerist með því að setja þennan málaflokk alfarið inn í ráðuneytið?

Ég segi: Ekki gera við það sem er ekki bilað. Gömul speki og ný. Ég hef virkilega leitað eftir því hvað sé bilað. Hvað ætlum við að laga? Af hverju erum við að fara í breytingar með alls konar tilheyrandi veseni og áhættu sem við í stjórnarandstöðunni höfum bent á? Af hverju erum við að þessu? Það hefur verið nefnt að mikilvægt sé að allir tali einum rómi og það sé hætta á tvíverknaði milli Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkisráðuneytis af því að hluti af tvíhliða þróunarsamvinnunni fari í gegnum utanríkisráðuneytið og hluti í gegnum Þróunarsamvinnustofnun.

Í fyrsta lagi var talsvert spurt eftir þessum tvíverknaði, öllum þessum ruglingi og hvað hefði nákvæmlega misfarist í samskiptum utanríkisráðuneytis og Þróunarsamvinnustofnunar sem varð til þess að það þurfti að fara beinlínis í miklar strúktúrbreytingar til þess að koma í veg fyrir þennan rugling allan saman. Hæstv. ráðherra nefndi rugling hér þegar hann flutti málið í fyrra sinn og sagði svo að það yrði farið yfir það í nefndinni. Við spurðum svo sannarlega spurninga. Hvaða ruglingur? Það vill enginn nefna nein dæmi um rugling. Sagt er: Það kann að fást hagræðing með stoðþjónustu og hugsanlega eru einhverjir tveir að gera eitthvað svipað. Þau rök að við tölum beinlínis ólíkri röddu á alþjóðavettvangi hafa ekkert verið rökstudd með fullnægjandi hætti í þessari umræðu. Ég varð ekki vör við það, hvorki í máli hv. formanns utanríkismálanefndar né hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem sitja í nefndinni núna og hafa farið yfir málið, að það hefði verið eitthvað betur skilgreint. Þannig að séu það rök þá finnst mér þau rök raunar eiga við um hvaða stofnanir sem er þar sem verksvið þeirra skarast að einhverju leyti. Ég tel það ekki fullnægjandi rök fyrir málinu sem ég kýs að kalla hálfgert brambolt.

Ég vil líka benda á að ekki hafa heldur fengist fullnægjandi svör við þeim ágætu rökum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði að umtalsefni hér áðan, sem voru þau að ef við teldum að það væri einhver hætta á ruglingi og tvíverknaði hjá þeim aðilum sem fara með tvíhliða þróunarsamvinnu af hverju væri ekki frekar farin sú leiðin að færa þróunarsamvinnuna alfarið yfir til fagstofnunarinnar og hafa þá nokkuð hreinar línur hvert hlutverk ráðuneytisins væri annars vegar og stofnunarinnar hins vegar. Þetta er hin fræga leið sem kennd hefur verið við Davíð Oddsson, svo merkilegt sem það nú er. Hún segir manni sitthvað um það valdabrölt sem er greinilega í gangi. Þetta er ekki valdabrölt á Alþingi heldur er þetta valdabrölt inni í kerfinu. Það hefur komið fram í ágætum úttektum sem gerðar hafa verið um þetta mál. Davíð Oddsson lagði það til, án þess að ég ætli beinlínis að gera hann að leiðtoga lífs míns, ég ætti nú ekki annað eftir, að þessi tvíhliða þróunarsamvinna yrði öll færð inn í Þróunarsamvinnustofnun. Hann skrifað undir reglugerð þess efnis en henni var aldrei framfylgt. Ráðherrann skrifaði undir reglugerð og henni var aldrei framfylgt. Hvað segir þetta okkur um þau átök sem leynast á bak við tjöldin? Ég held að það sé nú full ástæða fyrir hv. alþingismenn að velta því fyrir sér af hverju mönnum í ráðuneyti utanríkismála er svona mikið í mun að ná þessari breytingu í gegn án þess að betri rök en þessi hafi verið færð fram.

Ég kýs að hlusta eftir því sem fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, sagði í ræðu sinni, að þetta væru tillögur sem hefðu mjög oft komið á borð ýmissa ráðherra og við ættum að velta því fyrir okkur hver væri drifkrafturinn á bak við þær. Snýst þetta ekki um að ná völdum yfir einhverjum málaflokki?

Við þingmenn sitjum hér og reynum að fá einhver fagleg rök fyrir þessu. Það liggur líka fyrir og kemur ágætlega fram í nefndaráliti minni hluta hv. utanríkismálanefndar, þar sem vitnað er til greinargerðar frá DAC, að vinnubrögðum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands er hrósað og þar er tekið fram að stofnanarammi Íslands í málaflokknum búi yfir þeirri getu sem þarf til að ná markmiðum Íslands í þróunarsamvinnu og þrátt fyrir að vera lítið ríki komi Ísland vel út í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að þróunarsamvinnu. Vissulega er líka sagt að það þurfi að taka ákvörðun um hvaða fyrirkomulag henti best. Það er ekki lögð til ein leið. Það hefur komið fram í máli hv. þingmanna í meiri hluta og minni hluta að ekki sé lögð til nein ein leið. Það liggur líka fyrir að hæstv. ráðherra var ákveðinn í því að þetta væri leiðin sem hann vildi fara. Það var markmiðið í raun og veru þegar lagt var af stað í þessa vegferð í ráðuneytinu, að ná þessari tilteknu niðurstöðu án þess að víðtæk umræða færi fram um þetta fyrirkomulag, án þess að þingið væri kallað til samráðs eða hv. utanríkismálanefnd fyrir fram. Það liggur beinast við að ætla að tekin hafi verið ákvörðun fyrir fram um hvaða niðurstaða væri ráðuneytinu þóknanleg og lagt af stað í þá vegferð.

Mér finnst það dapurlegt eftir því sem ég hef kynnt mér söguna, og vafalaust eru einhverjir hér sem kunna hana betur en ég, í ljósi þess að bæði ráðherrar og þingmenn hafa lagt mjög mikið á sig til að ná sátt um þennan málaflokk á fyrri árum. Hv. formaður utanríkismálanefndar sagði að þetta væri eitt af þeim málum sem væri mjög erfitt að ná sátt um. Vissulega hefði verið einfaldara ef lagt hefði verið af stað í byrjun í samráði við aðra flokka, að málið hefði verið tekið með opnari hætti frá byrjun, þá hefði verið auðveldara að ná einhverri sátt um það hvaða fyrirkomulag við teldum henta best, en það var ekki gert.

Við sitjum hér uppi með mál sem er bullandi ágreiningur um. Alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við faglega undirbyggingu málsins. Ég er bara búin að nefna nokkur rök, þ.e. úttekt DAC á að starf Þróunarsamvinnustofnunar sé með þeim hætti sem ég hef hér lýst, skort á dæmum um tvíverknað og rugling, varnaðarorð um að það fari ekki vel að blanda endilega saman framkvæmd þróunarsamvinnu við aðra málaflokka utanríkismála á borð við utanríkisviðskipti, að það dragi úr gagnsæi, að það dragi úr því gagnsæi sem er nauðsynlegt til að sátt ríki um þennan málaflokk. Af hverju þykir mér það sérstaklega mikilvægt fyrir þennan málaflokk? Ég held að það hafi líka komið fram í andsvari mínu áðan og mig langar að útskýra það betur, að hér erum við að setja mikla fjármuni sem íslenskur almenningur á mjög lítil færi á að sjá hvernig er varið. Þess vegna skiptir svo miklu máli að stjórnsýslan í kringum það hvernig þessum fjármunum verður varið sé til fyrirmyndar og upplýsingum um það sé miðlað eins og Þróunarsamvinnustofnun gerir til dæmis með verulega mikilli upplýsingamiðlun í gegnum sitt vefrit, Heimsljós, í gegnum virka upplýsingamiðlun til fjölmiðla og líka með árangursmatsmælingum, sem ég hef a.m.k. kynnt mér og ég veit að hv. þingmenn sem sitja í utanríkismálanefnd hafa kynnt sér, sem sýna okkur að þar er vandað til verka. Það að taka starfsemina úr farvegi sínum með óljósum fullyrðingum um tvíverknað, rugling og aukna samlegð einhverra tiltekinna stoðþjónustustarfa finnst mér ansi mikið áhættuspil með þennan viðkvæma málaflokk sem er líka í ákveðnu uppnámi eftir að hér var gengið þvert á samþykkt Alþingis með öllum atkvæðum nema einu um áætlun fjárframlaga til þróunarsamvinnu en þau voru skorin niður hér með róttækum hætti sem kom vægast sagt á óvart í ljósi þess, eins og ég sagði hér, að áætlunin var samþykkt með öllum atkvæðum nema einu á sínum tíma.

Hæstv. ráðherra kynnti nýja áætlun hér í vor, talsvert dapurlegri og metnaðarlausari en fyrri áætlun. Síðan er hæstv. ráðherra rekinn til baka með hana af hæstv. fjármálaráðherra sem leggur fram fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir enn dapurlegri og metnaðarlausari markmiðum. Á meðan erum við að horfa á nágrannaþjóðir okkar sem eru við það að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna eða hafa náð þeim, jafnvel á krepputímum. Það eru ríkisstjórnir á öllu litrófi stjórnmálanna. Ég get nefnt Bretland sem dæmi, sem var með hægri stjórn sem sagði: Við ætlum samt að forgangsraða í þróunarsamvinnu og við ætlum að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna af því það skiptir máli að þjóðir gerir það jafnvel þó að það sé kreppa. En við fórum hina leiðina, þ.e. núverandi ríkisstjórn kaus að fara hina leiðina. Auðvitað hleypir það þessum málum í enn meira uppnám að hér sé líka verið að rugga stofnanarammanum án nokkurra skýrra raka.

Að lokum vil ég segja að það komu engin dæmi. Það kemur fram í nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar. Við höfum í raun og veru engin fordæmi fyrir því að stofnun sé í raun og veru lögð niður í heilu lagi og sett inn í ráðuneyti. Við höfum talsvert mörg fordæmi fyrir því að verkefni séu tekin út úr ráðuneytum og þau sett í sérstakar fagstofnanir með þeim rökum að þar sé um framkvæmdamál að ræða sem fari betur á að hafa í sérstökum fagstofnunum. Þingmenn meiri hlutans samþykktu eitt slíkt fordæmi hér í vor; þeir samþykktu nýja Menntamálastofnun þar sem var meðal annars verið að færa verkefni úr menntamálaráðuneytinu yfir í þá stofnun. Hver voru rök hv. þingmanna meiri hlutans? Það væri mjög mikilvægt að hafa framkvæmdina sér og eftirlitið sér. Þegar ég vakti máls á þessu í 1. umr. komu hv. þingmenn og sögðu: Þetta er aðeins öðruvísi núna. Af hverju er þetta öðruvísi núna? Það er ekkert öðruvísi núna.

Þarna virðist mér sem pólitískur metnaður eða persónulegt stolt ráði för. Það er auðvitað ekki gott leiðarljós. Mér þykir leiðinlegt að segja þetta, en það er ekki oft sem svona mál koma hér upp. Hér koma oft upp mál þar sem við erum algjörlega ósammála um hugmyndafræði og grundvallaratriði en við getum kannski ekki gert miklar athugasemdir við faglegan undirbúning mála. Í þessu tilfelli finnst mér vera nokkuð ljóst að faglegur undirbúningur hefur ekki verið nægur. Mér finnst mótrökunum ekki hafa verið svarað; ég hef þó reynt að hlusta eftir því. Auðvitað snýst þetta mál um form og inntakið á bak við það er síðan frammistaða núverandi meiri hluta í framlögum til þróunarsamvinnu.

Ég get ekki séð annað og ætla að hafa það mín lokaorð hér en að með þessari illa rökstuddu breytingu á fyrirkomulaginu og þeim markvissa ásetningi að reyna að koma í veg fyrir að framlög Íslendinga verði á pari við aðrar Norðurlandaþjóðir og Evrópuþjóðir og nálgist þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að þróunarsamvinnu á tímum þar sem þörfin hefur líklega aldrei verið meiri, þegar horft er til flóttamannavandans, þegar horft er til loftslagsvandans og annars, þá finnst mér þessi málaflokkur vera kominn í algjört uppnám.



[17:58]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst til að þakka hv. þingmanni fyrir mjög skelegga ræðu og góða útlistun á þessu. Ef ég skildi hv. þingmann rétt þá telur hún tvímælalaust að þróunarsamvinnunni sé betur borgið innan sérstakrar stofnunar þar sem það eykur gegnsæi og minnkar líkur á pólitísku ívafi. Nú man ég eftir fyrri umræðunni og það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að svörin eru ekki nógu góð sem við höfum fengið og við höfum náð að svara þeim nokkuð vel. Hver heldur hv. þingmaður að sé í raun tilgangurinn með þessu máli? Ég sé það einhvern veginn ekki sjálf. Ég sé ekki alveg hvað er eiginlega að gerast. Mig langar að vita hvort hv. þingmaður getur útskýrt það nánar fyrir mér.



[17:59]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er dálítið sérkennilegt mál að því leyti að Þróunarsamvinnustofnun Íslands er eina fagstofnun utanríkisráðuneytisins. Þetta er ekki eins og með mörg önnur ráðuneyti sem hafa fjölmargar fagstofnanir og þurfa að hafa samskipti við þær.

Munurinn er sá að fagstofnanir hafa umtalsvert sjálfstæði. Þær vinna samkvæmt stefnu stjórnvalda en hafa ákveðið sjálfstæði í því hvernig þeirri stefnu er framfylgt. Þær hafa ákveðið sjálfstæði í því hvernig þær miðla upplýsingum um þá framkvæmd mála sem er aðeins annars eðlis en þegar kemur til dæmis að ráðuneytum sem eru stjórnsýslustofnanir, lúta pólitískri stjórn. Að sjálfsögðu mun þetta breyta því að allur málaflokkurinn er í raun kominn undir pólitíska stjórn.

Hvað býr að baki? Ég get ekki svarað því öðruvísi en að það hljóti þá að vera metnaðarmál hæstv. ráðherra að ná öllum málaflokknum undir pólitíska stjórn og þar er ég bara hjartanlega ósammála hæstv. ráðherra.



[18:00]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er mjög áhugavert sem hv. þingmaður kemur fram með, að þetta sé eina fagstofnun ráðuneytisins. Ég vissi það ekki áður, það er mjög gott að það komi fram og sér í lagi í ljósi þess að verið er að draga einu fagstofnun ráðuneytisins inn í ráðuneytið aftur. Liggja samstarfsörðugleikar að baki? Getur verið að um samstarfsörðugleika sé að ræða, að ráðuneytið kunni hreinlega ekki að vinna með stofnunum sem eru undir þess stjórn?



[18:01]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekkert komið fram — ekki í vinnu hv. utanríkismálanefndar í fyrra og ekki heldur í máli þeirra hv. þingmanna sem nú sitja í nefndinni — um að á samstarfsörðugleika hafi verið minnst. Það hefur verið talað um einhvern tvíverknað en það hefur ekki verið skilgreint nánar fyrir nefndinni eða að minnsta kosti ekki þegar ég var í henni og ekki í umræðum hér á Alþingi. Ég lít því svo á að þetta mál snúist um að færa málaflokkinn undir pólitíska stjórn.

Við getum, í ljósi þess að þetta er einmitt eina fagstofnun ráðuneytisins, farið að bera ýmsar aðrar stofnanir upp að þessu sama líkani og velta því fyrir okkur hvort okkur þætti æskilegt að ýmsar framkvæmdastofnanir, segjum á sviði menningarmála, mundu verða sameinaðar mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar er vissulega menningarskrifstofa, sem fer með ýmis verkefni á sviði menningarmála, en sæjum við það fyrir okkur að þessar stofnanir yrðu sameinaðar ráðuneytinu?



[18:02]
Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og skelegga ræðu í þessu máli. Ég verð að viðurkenna eins og margir aðrir að ég kem alveg af fjöllum í þessu máli og finnst það alveg hreint með hreinum ólíkindum þegar ég hef hlustað á rökin. Ég hef reyndar ekki farið mjög grundigt í það vegna þess að ég er ekki í utanríkismálanefnd og hef nóg á minni könnu samt. Þetta mál vekur athygli mína. Þingmaðurinn kom meðal annars inn á það sem kemur fram í nefndaráliti minni hlutans að það virðist vera staðföst stefna embættismanna í utanríkisráðuneytinu að fá þennan málaflokk inn. Það virðist hafa verið fært í tal við alla ráðherra sem hafa gengt þessu starfi frá aldamótum, samkvæmt því sem stendur hér, að fá þetta inn í ráðuneytið. Hún nefndi líka að kannski vildi ráðherrann í þessu tilfelli fá meira pólitískt vald og allt pólitískt vald til sín. Af því þetta kemur hér fram þá er ég að velta fyrir mér og verð að spyrja hv. þingmann: Hvers vegna er verið að gera þetta? Hún nefndi að við ættum að velta því fyrir okkur hvers vegna væri verið að gera þetta.



[18:03]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég á afar erfitt með að svara spurningunni eins og ég tel að hafi komið fram í ræðu minni. Ég velti þessu auðvitað fyrir mér.

Ég gæti tekið sem dæmi stofnun sem skiptir mjög miklu máli, landlæknisembættið sem fer með framkvæmd lýðheilsumála og eftirlit með læknum og hefur ýmis verkefni. Mundum við vilja flytja hana inn í heilbrigðisráðuneytið af því þar fer líka ákveðið eftirlit fram með því sem er í gangi og þar er ákveðin lýðheilsustefna? Til að koma í veg fyrir tvíverknað, t.d. ráðherranefndar um lýðheilsumál og landlæknisembættis, eigum við ekki bara að sameina þetta? Ég spyr mig bara, af því hv. þingmaður spyr hvers vegna, hvaða stefna sé eiginlega í gangi hjá hæstv. ríkisstjórn um þetta stofnanafyrirkomulag. (Gripið fram í: Engin.) Mér finnst þetta satt að segja líta út eins og kaos.



[18:04]
Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég velti því líka fyrir mér hvaða stefna sé í gangi í þessu máli eins og svo mörgum öðrum jafnvel.

Í umsögninni frá ASÍ segir að verði þróunarsamvinna færð yfir á eina hendi þannig að hún verði alfarið á ábyrgð utanríkisráðuneytisins þá muni faglegi þátturinn tapast. Það kemur líka fram í umsögn ASÍ, með leyfi forseta:

„Hætta er á að diplómatískar áherslur fari að blandast inn í þróunarsamvinnuna, þ.e. að framlagsríki fari að reka hana með eigin hagsmuni að leiðarljósi en ekki hagsmuni fátækra ríkja eingöngu.“

Telur hv. þingmaður að það sé hætta á því að hagsmunum fátækra ríkja verði kastað fyrir róða þegar þessu fyrirkomulag verður komið á?



[18:05]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vona að það sé ekki hætta á því, en hættan er sú að almenningur verði mun síður upplýstur um hvaða hlutverki Ísland sinni í þróunarsamvinnu og hafi þar með mun minni tækifæri til þess að fylgjast með því að hagsmunir fátækra ríkja verði ekki fyrir borð bornir. Það er auðvitað það sem hefur verið bent á. Ég vitnaði meðal annars til Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur áðan sem sagði að þegar saman væru komin utanríkisviðskipti, þróunarsamvinna og allt undir eina stofnum og undir pólitíska stjórn þá hefði maður auðvitað áhyggjur af því að það kynni að vera óheppileg blanda. Það er ekkert séríslenskt, ég fór yfir hollenska skýrslu þar sem svipaðar breytingar í Hollandi voru einmitt metnar og nákvæmlega þessi varnaðarorð komu fram. Það var ekkert unnið með þá skýrslu meir í Hollandi, eftir því sem mér skilst, en í henni voru nákvæmlega sömu varnaðarorð þannig að ég mæli nú með því að hv. þingmenn kynni sér hana.



[18:07]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég rek augun í texta í frumvarpinu um það mál sem fjallað er um hér, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu flytjast verkefni ÞSSÍ frá stofnuninni til ráðuneytisins og stofnunin er lögð niður. Starfsmenn flytjast við þessa breytingu í starfi frá ÞSSÍ til ráðuneytisins, en því fylgja óhjákvæmilega breytingar á daglegum störfum allra þeirra er starfa á sviði þróunarsamvinnu hjá ráðuneytinu.“ — Og hér er mikilvægi punkturinn: „Ekki er um að ræða breytingar á stefnu, markmiðum eða verklagi í þróunarsamvinnu Íslands, sbr. nánari umfjöllun hér á eftir.“

Ef leggja á stofnunina niður, færa alla starfsmenn inn í ráðuneytið og samt ekki breyta neinu, þá skil ég ekki alveg hvernig það virkar. Og sérstaklega er erfitt að skilja það með tilliti til texta sem er síðar í frumvarpinu þar sem kemur fram að um rosalega mikla stefnubreytingu verði að ræða, breytingu á framkvæmd, betri heildarsýn og ýmsar breytingar. Samt er verið að segja að ekki sé um að ræða breytingar á stefnumarkmiðum eða verklagi. Hv. þingmaður gæti kannski aðeins útskýrt þetta fyrir mér.



[18:08]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um starfsmennina sem hv. þingmaður nefndi hér: Það liggur fyrir, eins og ég kom lítillega að áðan, að það er eðlismunur á því að vinna innan sérfræði- eða fagstofnunar og hins vegar innan ráðuneytis eins og utanríkisráðuneytisins þar sem er flutningsskylda. Auðvitað mun það sjálfkrafa hafa ákveðin áhrif á framkvæmd málaflokksins. Fyrir utan það að þarna eru úrlausnarefni fram undan fyrir ráðuneytið að úrskurða um það til dæmis hvort allir starfsmenn fái sambærileg störf, og þar úrskurðar ráðuneytið hvaða störf teljast þá sambærileg. Væntanlega verða breytingar á framkvæmdinni við þetta.

Ég spyr mig að því, út af spurningu hv. þingmanns, hvers vegna farið sé í þessar breytingar með tilheyrandi tilkostnaði og tilheyrandi átökum, getum við sagt, ef ekki er ætlunin að breyta stefnunni.



[18:09]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það var einmitt það sem ég velti fyrir mér. Hv. þingmaður nefndi til sögunnar Menntamálastofnun sem ég kannast dálítið við; ég hef upplifað aðeins þær breytingar sem þar fóru fram. Í því tilviki er verið að koma ýmsum verkefnum þangað til að efla málaflokkinn. Það er verið að búa til stofnun til að efla málaflokkinn. Í þessu tilviki er verið að leggja niður stofnun til að efla málaflokkinn. Ég veit ekki hvernig hægt er að efla málaflokkinn með því að setja á laggirnar stofnun og með því að leggja niður stofnun. Þetta er rosalega skrýtið verklag sem gefur til kynna að maður veit ekkert við hverju má búast í opinberri stjórnsýslu.



[18:10]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo með tungumálið, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson bendir á hér, að stundum finnst manni svart merkja hvítt og hvítt svart eftir því sem hver segir. Þetta minnir mig einna helst á það þegar ég fór að bankaútibúinu mínu sem hafði þá verið lokað og þar stóð: Kæri viðskiptavinur. Þessu útibúi hefur nú verið lokað til þess að við getum bætt þjónustuna við þig enn meir og boðið þér að koma í næsta útibú sem er lengst í burtu. Þetta var allt gert til að bæta þjónustuna við mig, viðskiptavininn. Það má nota tungumálið til ýmissa hluta og sérstaklega til þess að segja eitthvað sem er þveröfugt við það sem reynist vera.



[18:11]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mönnum hefur orðið tíðrætt um það að einungis sé um að ræða einhvers konar formbreytingu, sakleysislega formbreytingu. Þeir örfáu stjórnarþingmenn sem hafa talað í málinu — það vekur alltaf jafn mikla athygli hve þeir hafa lítinn áhuga á þessu máli en virðast samt ætla að trukka því hér í gegn eins og þeim er sagt að gera.

Mér finnst þetta töluvert meira en einhver formbreyting, þetta er fag, þetta er sérsvið. Þetta er eins og vegagerð eða skattrannsókn. Þetta er í alvöru fag og sérsvið. Það er mér algerlega óskiljanlegt hvers vegna menn eru að keyra þetta svona hér í gegn. Mér finnst menn ekki bera mjög mikla virðingu fyrir þessu sem fagi og ekki viðurkenna að beita þurfi ákveðnum viðurkenndum aðferðum þegar unnið er að þessum málaflokkum. Það er það sem veldur mér áhyggjum. Þess vegna hef ég ekki viljað kalla þetta formbreytingu, heldur beinlínis eðlisbreytingu á þessari starfsemi.



[18:13]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi talað um formbreytingu í máli mínu og tek athugasemdir hv. þingmanns til mín. Ég vil hins vegar segja að formbreyting getur verið mjög mikilvæg, þ.e. hún þarf ekki endilega að snúast um form. Og það er mitt mat eftir að hafa kynnt mér þetta mál allrækilega að að baki þessari formbreytingu liggi nefnilega engin fagleg rök og ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdina. Það að tala um formbreytingu má ekki verða til að smækka málið niður í að eingöngu sé um formbreytingu að ræða. Um er að ræða formbreytingu sem ekki er studd faglegum rökum. Þá hljótum við þingmenn sem hér vinnum og störfum við það að veita framkvæmdarvaldinu aðhald að spyrja okkur: Hvers vegna er verið að ráðast í slíkar breytingar nema til þess að færa málaflokk sem krefst fagþekkingar og sérþekkingar undir pólitíska stjórn? Ég er algerlega ósammála þeirri stefnubreytingu þótt hún sé falin með þessari formbreytingu.



[18:14]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nefnilega formbreyting sem mun leiða af sér eðlisbreytingu. Það sem maður veltir fyrir sér og ætti kannski að spyrja formann utanríkismálanefndar að er: Hvað ef mönnum dytti í hug að taka Vegagerðina inn í innanríkisráðuneytið? Þetta er svipuð aðgerð. Ég held að menn þurfi að vera svolítið samkvæmir sjálfum sér í því sem þeir gera, vegna þess að í þessu tilfelli er eingöngu verið að gera þetta af því að búið er að þrengja svo mikið að utanríkisráðuneytinu. Ráðuneytið hefur fengið á sig viðbótaraðhaldskröfur í langan tíma, ekki síst frá þessari ríkisstjórn, sem veldur því að það er orðið aðþrengt og verkefnin eru orðin svo mörg og stór að þetta virðist vera hagfelld niðurstaða fyrir ráðuneytið. En þetta er mjög sorgleg niðurstaða fyrir aðkomu okkar að þróunarmálum og verkefni okkar á því sviði og þetta er það eina sem ég sé sem mögulega ástæðu fyrir þessu. Það er ekki lagt til að taka neina fagstofnun inn í neitt annað ráðuneyti. Þetta fer gegn stóru myndinni og þeirri þróun sem hefur átt sér stað í stjórnsýslunni og eina ástæðan sem ég get séð fyrir því að menn leggja hér þróunarmálin undir eru peningar.



[18:15]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kann að vera rétt hjá hv. þingmanni að þarna spili fjármunir og niðurskurður undanfarinna ára inn í en þó vil ég nefna að þetta er ekki ný hugmynd, hún er ekki ný af nálinni. Það hefur lengi verið kappsmál utanríkisráðuneytisins að fella þessa stofnun inn í starfsramma sinni þannig að ég held að þetta sé ekki eina ástæðan fyrir þessu. Við erum með dæmi sem sýna að það hefur lengi verið kappsmál utanríkisráðuneytisins að fá þessa stofnun inn. Vissulega er það rétt sem hv. þingmaður segir að skorið hefur verið niður hjá ráðuneytinu en þetta snýst líka um völd yfir málaflokknum. Ég er viss um að þeir sem gegnt hafa ráðherraembættum hafa stundum hugsað að það væri ágætt að hafa meiri tök á fagstofnunum sínum. Það kann vel að vera. Vönduð stjórnsýsla snýst einmitt um að við höfum sjálfstæðar stofnanir, sem skiptir máli fyrir almenning í landinu. Það gæti orðið afleiðingin af þessu að það drægi úr trausti á stjórnsýslunni í kringum málaflokkinn og það er mjög alvarleg afleiðing.



[18:17]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka formanni utanríkismálanefndar fyrir greinargerð hennar fyrir málinu við upphaf 2. umr. og einnig talsmönnum minni hlutans í nefndinni fyrir þau sjónarmið sem þeir hafa fært hér fram. Það verður að segja að það eru auðvitað vonbrigði að sjá þetta mál með þessum hætti í þingsalnum á þessum tímapunkti af fjölmörgum ástæðum.

Landsstjórninni, bæði ríkisstjórn og þingi á hverjum tíma, er ótölulegur fjöldi verkefna fyrir höndum og það er takmarkaður tími, takmarkaðir fjármunir og takmörkuð aðstaða til að taka á þeim fjöldamörgum hlutum sem hverju sinni þarf að takast á við, ekki síst á umbrotatímum eins og við höfum lifað hér á Íslandi. En þá er auðvitað gríðarlega brýnt til að landsstjórnin sé farsæl, að ríkisstjórn og þing forgangsraði verkefnum sínum með þeim hætti að tekið sé á þeim þáttum sem bæta þarf úr, sem þarf að laga, sem eru með þeim hætti að við erum ekki sátt við þau, og styrki heldur þá þætti þannig að við getum verið stolt af þeim og ánægð með skipan þeirra.

Það er nú ekki flóknara en svo að hér er verið að fara þvert gegn þessu skynsamlega verklagi við landsstjórn, hér er verið að fara að stofnun sem reynst hefur vel og sómi hefur verið að. Hér er í engu verið að taka á því sem úr lagi er í þróunarsamvinnumálum.

Hvað er það á sviði þróunarsamvinnumálanna sem við þurfum að taka á? Við hvað á utanríkisráðherrann og utanríkismálanefndin og formaður utanríkismálanefndar að fást í þessum málaflokki nú þegar hillir undir lok kjörtímabilsins og er jafnvel styttra í lok starfstíma utanríkisráðherrans sjálfs? Það er auðvitað það fjármagn sem varið til þessa þáttar af okkar hálfu. Það hefur um langan tíma verið þannig að framlög okkar, ríkrar þjóðar, til þróunarsamvinnumálanna hafa verið skammarlega lág og hefur verið til þess vilji að auka þau, ná svipuðu hlutfalli í þessi framlög og löndin hér í kringum okkur og finna má í markmiðum Sameinuðu þjóðanna sem við höfum lýst yfir stuðningi við. Er verið að gera það? Nei. Hér eru hvorki utanríkismálanefndin, hv. formaður hennar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, né hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, að vinna að því að sá þáttur sé lagaður. Þó minnist ég þess fyrir ekki mörgum kjörtímabilum síðan að meðal annars hafi framámenn í Sjálfstæðisflokknum haft metnað til þess, ég nefni menn eins og Geir Haarde og Árna Mathiesen, gert metnaðarfulla áætlun í samstarfi við aðra flokka um það hvernig auka mætti þessi framlög. Við efnahagshrunið náðu þær áætlanir náttúrlega ekki fram að ganga, en það er sannarlega það verkefni sem menn ættu að vera að vinna að þegar komið er fram undir lok eða a.m.k. vel inn á síðari hluta kjörtímabils, að auka framlögin í málaflokknum. Nei, það er ekki verið að gera. En hvað má þá segja að hafi verið gott í þessum málaflokki í þinginu? Það sem hefur verið gott í þessum málaflokki í þinginu er að þetta hefur verið einn örfárra málaflokka þar sem verið hefur þverpólitísk samstaða um, þar sem farið hefur verið í viðamikla samstöðu stjórnmálaflokkanna um stefnumörkun og menn hafa rætt sig að niðurstöðu um það hvernig væri best að skipa þessum málum og hafa flokkarnir átt sína fulltrúa sem fylgst hafa með starfinu í Þróunarsamvinnustofnun og komið að því. Bein tengsl á milli stjórnmálanna og góð þverpólitísk samstaða.

Hvað er verið að gera í þessu máli? Er verið að taka lengra jákvæðan árangur í stjórnmálastarfinu á Íslandi? Er verið að styrkja þann jákvæða þátt og efla hann? Nei, því miður. Verið er að sundra samstöðunni, verið er að spilla því þverpólitíska starfi sem hér hefur verið unnið. Það kom kannski ekki á óvart frá hæstv. utanríkisráðherra Gunnari Braga Sveinssyni, að hann lét fá sig af einhverjum ástæðum til að flytja þetta frumvarp sem svo margir ráðherrar hafa ekki viljað flytja inn í þingið vegna þess að þeir hafa vitað sem er að það er vont mál. Það er kannski ekki ástæða til að vera hissa núna þegar hæstv. ráðherra lagði þetta vonda frumvarp fram í annað sinn jafn einarðlega og hann hafði gengið fram í málinu. En ég verð að lýsa nokkrum vonbrigðum með formann utanríkismálanefndar, hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að hún skuli leggja málið óbreytt hér inn til 2. umr.

Ég minnist þess að hafa heyrt hv. þingmann tala mikið og lengi um það í okkar samfélagi hversu mikilvægt það sé að bæta stjórnmálamenningu í landinu, auka samvinnu og samráð, faglega vinnu, leggja áherslu á hið pólitíska samtal, og ég man ekki hvað það er annað af slíkum orðasamböndum sem ég hef heyrt hv. formann utanríkismálanefndar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fara með á sínum pólitíska ferli. Og nú reynir á það með hvaða hætti þessum sjónarmiðum er beitt í formennsku fyrir utanríkismálanefnd og verður að segja þá sögu eins og hún er, að þetta deilumál er bara ljósritað óbreytt með hraði út úr nefndinni og afgreitt með þeim hætti af formanni utanríkismálanefndar hingað inn í þingsalinn að ég er ekki viss um að það sé boðlegt. Mér er að minnsta kosti sagt að hér sé ekki aðgangur fyrir þingmenn að fundargerðum nefndarinnar um efnið, að hér sé ekki aðgangur að þeim þremur umsagnarbeiðnum sem lagðar voru fram og málið er rifið út úr nefndinni, að því er virðist fullkomlega að ástæðulausu, því að enn erum við bara í októbermánuði á heilum löngum þingvetri. Og jafnvel þótt það væri niðurstaða formanns utanríkismálanefndar að óhjákvæmilegt væri að afgreiða málið á endanum út í ágreiningi er erfitt að skilja hvað það er sem knýr formanninn til að afgreiða málið út núna og verða ekki við óskum um frekari umfjöllun í nefnd. Það má auðvitað bæta milli 2. og 3. umr. með vandaðri umfjöllun í nefndinni þegar umræðan um það hefur farið fram í þingsal.

Eitt af þeim atriðum sem einnig er ástæða til að hafa áhyggjur af er sú viðleitni framkvæmdarvaldsins sem löggjafinn þarf að gæta að, að ná undir sig sjálfstæðum stofnunum ríkisins, auka völd ráðuneyta og völd ráðherra í málaflokkum með þeim hætti ýmist að sameina stofnanir í eina þar sem ráðherra nær þá að skipa nýja yfirstjórn þeirra stofnana og auka með því sín pólitísku völd, eða sameina stofnanir inn í ráðuneyti eins og hér er lagt til. Í okkar litla samfélagi hefur það verið lykilatriði í því efni að forðast pólitíska spillingu í stjórnsýslu, eða draga úr henni a.m.k. eins og kostur er, að hafa í landinu sterkar, sjálfstæðar stofnanir utan ráðuneyta armslengd frá ráðuneytunum. Við þekkjum bæði fræðilegar rannsóknir á þessu og mörg góð dæmi um hvað sjálfstæðar stofnanir hafa skipt miklu máli til að tryggja fagleg vinnubrögð og forða óeðlilegum pólitískum afskiptum. Er ástæða til að hafa áhyggjur af því þegar þróunarsamvinna er annars vegar? Já, það er raunar jafnvel ríkari ástæða til að hafa áhyggjur af þeim þáttum þegar þróunarsamvinna er annars vegar en í mörgum öðrum málaflokkum ríkisins. Það er ekkert séríslenskt. Það er einfaldlega alþjóðlega viðurkennt að í fáum málaflokkum er jafn rík þörf á því að koma í veg fyrir hvers kyns spillingu og sóun og í málaflokki þróunarsamvinnu. Í ófáum málaflokkum er það mikilvægara að fagleg sjónarmið ráði för við ráðstöfun fjármuna, bæði vegna þess að viðtakendur þróunarsamvinnunnar hafa oft yfir að ráða fremur veikri stjórnsýslu sjálfir og eins vegna þess að hér er oft og einatt um að ræða umtalsverða fjármuni og í þróunarsamvinnu, sérstaklega sumra ríkja, er auðvitað mikið um samvinnu við atvinnulíf og fyrirtæki og þess vegna margvíslegar hættur á fyrirgreiðslum og pólitískri spillingu. Þetta hefur auðvitað verið ein af hinum faglegri röksemdum gegn því að færa málaflokkinn inn í ráðuneytið. Ég hef ekki heyrt, hvorki við langar og ítarlega umfjöllun um málið á síðasta þingi né á umfjölluninni á þessu þingi, neinar röksemdir, a.m.k. að gagni, í hina áttina. Ég held að það lýsi svo sem málinu og málatilbúnaði í heild sinni að hvorki um þetta atriði né nokkur önnur í sjálfu sér hafa verið færð fram nokkur efnisrök fyrir því að þessar breytingar eigi að gera og því síður fyrir því að þær eigi að hafa einhvern forgang í þessum málaflokki þar sem svo mörg önnur brýn verkefni blasa við.

Einnig hefur verið bent á, og er auðvitað ástæða til að halda sérstaklega til haga, að það eru engar faglegar úttektir eða faglegar aðfinnslur við starf Þróunarsamvinnustofnunar sem kalla á að gera þar á breytingar, í raun og veru er málið þvert á móti þannig vaxið að Þróunarsamvinnustofnun hefur ekki bara getið sér ákaflega gott orð fyrir störf sín hér innan lands heldur líka á alþjóðlegum vettvangi. Það er því eðlilegt að spurt sé eins og ég spurði við 1. umr. um málið upp á ensku, með leyfi virðulegs forseta, eins og menn segja: „If it's not broken, why fix it?“ Ef ekkert er að, hvers vegna ætti þá að laga það? Þegar um er að ræða stofnun sem sinnt hefur verkefnum sínum svo vel þá verða auðvitað að vera sterkar röksemdir fyrir því að hverfa frá því skipulagi sem við höfum nú. Þær röksemdir hafa ekki komið fram í þessari umræðu.

Málið gefur líka tilefni til að spyrja hvort einhver stjórnarstefna sé uppi þegar kemur að stjórnsýslunni og fyrirkomulagi hennar, vegna þess að þó að almennt talað hafi viðleitnin á undanförnum árum verið að reyna að sameina stofnanir inn í ráðuneyti eða sameina stofnanir í nýjar stærri stofnanir sem hinn pólitíski ráðherra hefur þá getað skipað forustu fyrir, höfum við dæmi um hið gagnstæða. Stjórnarmeirihlutinn stóð nýverið í ræðustól þingsins og fært fram rök fyrir því að í menntamálum væri sérstök ástæða til að setja á fót nýja stofnun og taka verkefni út úr ráðuneytinu, miklu umfangsminni en hér um ræðir. Ég verð að segja að ég hef engar fullnægjandi skýringar heyrt af hálfu stjórnarliðsins hvernig það hangir saman. Og ég fæ ekki betur séð en að röksemdirnar fyrir annarri aðgerðinni hljóti að vera um leið röksemdir gegn hinni aðgerðinni. Það vekur auðvitað spurningar um á hvaða leið stjórnarmeirihlutinn er í því með hvaða hætti hann skipar verkefnum stjórnsýslunnar.

Ég verð að ljúka máli mínu á því að lýsa hryggð yfir því að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki séð að sér varðandi þetta mál eftir þá umfjöllun sem það hlaut á síðasta þingi. Það hefur blasað nokkuð vel við í þingsalnum að stuðningsmaður málsins er einn í þinginu, það er hæstv. utanríkisráðherra. Ekki hefur orðið mikið vart við mikinn stuðning annars staðar við málið og er dapurlegt að dagskrá þingsins sé háttað þannig að áhugamál eins þingmanns sé hér haft í algerum forgangi og öllu öðru rutt af dagskránni til að ljúka því, því að engar röksemdir hafa verið færðar fram fyrir málinu. Í raun og veru virðist hér aðeins vera um að ræða þrákelkni ráðherrans og hún virðist hafa knúið á um þá hraðafgreiðslu sem málið fær inn í þingsalinn til 2. umr.

Ég legg áherslu á að þó að málið hafi verið afgreitt hratt úr nefndinni er full ástæða til að ræða það vel og vandlega við 2. umr. og jafnvel taka það til nefndar á ný milli 2. og 3. umr. En auðvitað vekur þetta hjá manni spurningar um hvort hin hraða meðferð málsins sé í einhverju samhengi við yfirlýsingar formanns Sjálfstæðisflokksins í Ríkisútvarpinu í morgun um að vænta megi uppstokkunar á ríkisstjórninni og því hverjir eru ráðherrar í henni og hverjir fari með hvaða málaflokka nú á allra næstu mánuðum.



[18:35]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili undrun hv. þingmanns yfir því að þetta mál sé yfir höfuð lagt fram og hvað þá að á eftir því sé rekið eins og raun ber vitni. Það skýrist kannski að einhverju leyti af málaþurrðinni í þinginu, alla vega hvað varðar hæstv. ríkisstjórn, sem maður hefði nú haldið að ætti að vera búin að koma forgangsmálum sínum vel á framfæri í þinginu. Það er ákveðin ráðgáta hvers vegna svo er ekki.

En eitt af því sem við höfum ekki rætt mikið í þessari umferð í umræðu um málið eru friðargæslumálin. Við ræddum þau svolítið í fyrra. Friðargæsla telst jú til þróunarsamvinnu en við höfum áhyggjur, ég, hv. þingmaður og fleiri, af því að með því að leggja niður ÞSSÍ og færa verkefni hennar til utanríkisráðuneytisins sé hætta á meiri pólitískum afskiptum af hlutum sem annars ætti að meta faglega.

Í umsögn Rauða kross Íslands, sem barst á þessu þingi og einnig á síðasta þingi, er lagt til að um friðargæsluna verði sett sérstök lög, að hafa eigi allt sem lýtur að starfsemi friðargæslu í lögum um friðargæsluna en ekki í lögum um þróunarsamvinnu. Ég velti fyrir mér hvort einhverjar hættur séu fólgnar í því að með því að hafa þróunarsamvinnuna, friðargæsluna og utanríkisráðuneytið í einum graut, ef svo mætti að orði komast, verði meiri pólitísk afskipti af þróunarsamvinnunni í heild og þar á meðal af friðargæslu.

Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki mjög vel sjálfur hvernig samband friðargæslunnar og þróunarsamvinnunnar er eða ætti að vera. Þess vegna hef ég áhuga á að vita hvernig menn sjá fyrir sér að þau tengsl ættu að vera og sér í lagi samskipti við ráðherrann og hið pólitíska almennt.



[18:37]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir um málaþurrð ríkisstjórnarinnar. Því miður liggja ekki frammi mörg mál frá ríkisstjórninni þrátt fyrir að verkefnin í samfélaginu séu ærin. En það segir auðvitað sína sögu um hversu mikinn forgang þetta áhugamál utanríkisráðherrans hefur á dagskrá þingsins, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fyrir sitt leyti fallist á að umræðum um „brennivín í búðir“, sem ekki er lokið, sé frestað, og að þetta mál sé tekið fram yfir það. Þeir sem hér þekkja til vita auðvitað að það þarf býsna mikið til að Sjálfstæðisflokkurinn hleypi einhverju fram fyrir „brennivín í búðir“.

En hvað varðar skipan friðargæslunnar og þróunarsamvinnunnar held ég að í meginatriðum sé sjónarmiðið það að því sé best komið í sjálfstæðri faglegri stofnun sem vinni að málefninu. Það kemur auðvitað ekki í veg fyrir að ráðherrann geti haft mótandi áhrif á starfsemina. Auðvitað er það verkefni pólitísks kjörins ráðherra að hafa mótandi áhrif á starfsemi þá sem undir hann heyrir, en það er þá fyrst og fremst með lagafyrirmælum og reglugerðum en ekki með hinni daglegu stjórnsýslu. Það skiptir miklu máli að halda vel utan um fyrirkomulag eins og er varðandi Þróunarsamvinnustofnun, sem gefið hefur góða raun.



[18:39]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ef það tíðkaðist hér, eins og ég hef heyrt um annars staðar, að menn ræði hreinlega dagskrána í byrjun hvers dags og að stundum tæki hún þá mið af því sem er í gangi frá degi til dags, væru störfin hér sjálfsagt mikið skilvirkari. En við gætum sjálfsagt rætt mjög mikið, mjög ítarlega og mjög lengi um það hverju mætti breyta hér til að bæta störfin á Alþingi. Svo mikið er víst að það er ýmislegt.

En áherslan sem lögð er á þetta mál þykir mér sérkennileg, sér í lagi af þeim ástæðum sem hv. þingmaður nefndi. En það er ekki eins og þróunarsamvinnumálin séu fullkomin eins og þau eru, burt séð frá þessu máli. En maður hefði haldið að það væri eitthvað annað sem brýnna væri að laga og annað sem væri meira að þegar kemur að málaflokknum, einkum það að við höfum ekki enn náð því markmiði að leggja 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunaraðstoðar.

Frumvarpið er að sögn sett fram til að auka hagkvæmni, en samt á það ekki að hafa nein áhrif á ríkissjóð. En mundi maður ekki frekar vilja ræða mál sem hefði áhrif á ríkissjóð, þá neikvæð áhrif á ríkissjóð en jákvæð áhrif á málaflokkinn? Það er einhvern veginn þannig að menn eru alltaf til í að hjálpa þar til þeir þurfa að borga fyrir það og alltaf til í að leysa vandamálin svo lengi sem það kostar ekki neitt. En auðvitað er það ekki þannig. Það kostar að bjarga mannslífum og það verður bara að hafa það.

Ef hið háa Alþingi tæki fyrir þau verkefni sem liggja fyrir værum við komin mun nær því að leysa þau vandamál en með því að taka fyrir þetta mál sem ég veit ekki til að sé vandamál yfir höfuð.

Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að við ættum að forgangsraða þessum málum þegar kemur að ÞSSÍ og þróunarsamvinnumálunum almennt?



[18:41]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að auðvitað er verkefnið að auka við þróunarsamvinnuna. Það blasir við hverjum manni, ekki síst þegar staðan í flóttamannamálum í heiminum er eins og við höfum orðið svo áþreifanlega vör við á undanförnum missirum. Við þurfum að leggja meira af mörkum, Íslendingar. Við njótum þeirra miklu forréttinda að vera búsett hér. Við njótum þeirra miklu lífsgæða sem í því felast og við þurfum að láta af hendi rakna til þeirra sem ekki eru jafn gæfusamir.

Það snýst ekki bara um fjármuni vegna þess að við Íslendingar erum svo lánsamir að búa yfir margvíslegri þekkingu sem hefur hjálpað okkur til að koma til bjargálna á undraskömmum tíma, á liðlega hálfri öld í rauninni; þekkingu í sjávarútvegi, þekkingu í orkuiðnaði, þekkingu í heilbrigðismálum og margvíslegri annarri þekkingu sem við getum miðlað svo miklu meira og betur til góða fyrir svo marga og um leið til góða fyrir okkur sjálf, sannarlega. Það er auðvitað þar sem áherslan á að vera en ekki á það að taka þá góðu stofnun, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, og stinga henni inn í einhverja deild í utanríkisráðuneytinu.



[18:42]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf býsna máttug og sannfærandi rök fyrir því að leggja niður jafn mikilvæga og farsæla stofnun og ÞSSÍ hefur reynst vera um langt árabil. Það hefur gengið eins og rauður þráður í gegnum umræðuna hér í dag og þá umræðu sem hefur farið fram áður að rökin fyrir þessum meginbreytingum á stjórnsýslu málanna eru engin. Þvert á móti styður margt að núverandi fyrirkomulag sé viðhaft áfram.

Þegar lesið er í gegnum nefndarálit meiri hlutans og reynt að draga út úr því hver markmiðin eru og hvað af þeim eigi að leiða til þess sem eigi að verða málaflokknum til framdráttar og styrktar, þá stendur hér, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarpsins er að stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í stjórnsýslu alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og gera stefnumótun málaflokksins markvissari.“

Síðar segir:

„Gert er ráð fyrir að breytingin muni stuðla að auknum árangri af þróunarstarfi Íslands til lengri tíma litið.“

Þessum markmiðum með breytingu á fyrirkomulaginu er ekki fylgt eftir með nokkrum einustu rökum. Ekki eru færðar fram neinar ástæður fyrir breytingunni. Það geta svo verið alls konar getsakir og vangaveltur um hvað valdi þessu og af hverju kapp sé lagt á það á einhverjum stöðum í kerfinu að keyra þessa breytingu í gegn. Margir ráðherrar hafa fengið málið í fangið og allir, þar til sá er nú gegnir embættinu, komust að sömu afdráttarlausu niðurstöðunni, þ.e. að það sé alls ekki málaflokknum til framdráttar. Það er nefnilega bara eitt sem skiptir máli þegar upp er staðið og það er að þróunarsamvinnumálunum sé betur fyrir komið eftir breytingu en áður.

Þó að Íslendingar hafi verið eftirbátar annarra norrænna þjóða og líkast til flestra evrópskra þjóða í framlögum til þróunarsamvinnumála sem hlutfall af landsframleiðslu hafa þeir fjármunir sem til málaflokksins hafa verið lagðir verið nýttir mjög vel. Árangurinn af starfi stofnunarinnar hefur verið eftirtektarverður. Það hefur margoft komið fram í umræðu liðinna ára að margt hefur verið gert sérlega vel og spilað vel úr tiltölulega litlu. Okkar fólk á vettvangi hefur verið að miðla sérþekkingu Íslendinga á mörgum sviðum eins og nefnt var áðan í sambandi við nýtingu auðlinda, fiskveiðar og á mörgum sviðum þar sem Íslendingar standa hvar fremst í flokki þjóða.

Þeir sem lesa reglubundið veftímarit stofnunarinnar, Heimsljós, fá þar mjög afgerandi fréttir og jákvæðar af starfinu sem þar er unnið. Það er kerfisbundið og öflugt og maður hefur á mörgum umliðnum árum fyllst aðdáun á því hve vel er á málum haldið. Það hefur enginn ágreiningur, svo að ég muni eða viti til, nokkurn tíma risið um starf og áherslur stofnunarinnar í þessum mjög svo mikilvæga málaflokki.

Það var án efa einn af hápunktum síðasta kjörtímabils, og er þó af mörgu að taka, þegar samþykkt var árið 2011 þingsályktun um að auka framlög til þróunarmála hratt og ná 0,7% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2017. Hefði það gengið eftir hefði það verið mikið ánægju- og fagnaðarefni og Íslendingum öllum til mikils sóma. Af því að þó við hefðum gengið í gegnum erfiða tíma og upplifað miklar sveiflur og meiri en kannski nokkurn tíma áður, þá erum við samt sem áður enn þá, og stefnum í að verða áfram, meðal efnuðustu og best megandi þjóða í heiminum og höfum af mörgu að miðla til að spila úr fjármununum sem við verjum til málanna. Það skiptir ekki eingöngu máli að setja aukið fé til málaflokksins heldur skiptir jafnmiklu máli hvernig það er notað. Ég hef fylgst ágætlega með þessu — ég sat í nokkur ár í utanríkismálanefnd þingsins þar sem þetta mál kom að sjálfsögðu af og til til umræðu og umfjöllunar — og hef alltaf verið á þeirri skoðun að við höfum verið á réttri leið í þessum málum. Mjög öflugir einstaklingar hafa valist til forustu í málaflokknum og þeir hafa spilað sérstaklega vel úr þeim áherslum sem við höfum lagt á málin.

Það eru því mikil vonbrigði að málaflokkur sem almennt ríkir mikil sátt um — menn geta deilt um það hve hratt við eigum að ná markmiðum um hlutfall af þjóðarframleiðslu og fleira í málaflokkinn og hvenær rétti tíminn sé til þess og hve langt við eigum að ganga til að ná þeim markmiðum sem hér hefur verið vísað til að vestrænar þjóðir nái, en það hefur aldrei verið mikill ágreiningur um að verja umtalsverðum fjármunum, þekkingu og hugviti til að skila okkar til þeirra þjóða sem verr standa. Ekki er hægt að bera þá örbirgð og eymd og það bjargarleysi sem ríkir víða saman við aðstæður okkar hér og þess vegna eigum við að vera stolt af hverri einustu krónu sem við verjum til þessara mála og ekki síst þeirri aukningu sem stefnt var að að ná — og hefði gengið eftir að tveimur árum liðnum hefði það óheillaskref ekki verið stigið að draga verulega úr þar aftur.

Með því frumvarpi sem nú liggur fyrir, um að leggja stofnunina niður án þess að nokkur einustu rök standi til þess — ef í frumvarpinu og nefndaráliti meiri hluta, sem við ræðum hér í dag, hefðu komið fram einhver efnisleg og fagleg rök fyrir því að breyta fyrirkomulaginu þá væri umræðan hérna allt öðruvísi. Þá værum við að ræða hvort gæti vegið þyngra að ná þeim mögulega ávinningi sem breytingin hefði í för með sér miðað við það að viðhalda núverandi fyrirkomulagi áfram. En þar sem engin rök eru fyrir breytingunni þá er umræðan öll í sjálfu sér á einn veg. Eins og ég nefndi hér áðan hefur það gengið sem rauður þráður í gegnum alla umræðuna að engin rök eru fyrir breytingum. Ef engin rök standa til að leggja niður heila stofnun, og mjög mikilvæga stofnun í öllu tilliti, þá hlýtur það að kalla á margar spurningar.

Af hverju að rjúfa ágæta sátt og skapa bullandi ágreining um málaflokk sem skiptir máli? Allur þorri almennings er mjög á þeirri skoðun að við eigum að leggja það til málanna sem við getum hverju sinni. Það eru engin rök tínd til, það eru engar ástæður taldar fram fyrir því að breyta afskaplega góðu og árangursríku fyrirkomulagi. Sá rökstuðningur sem dreginn er til er ruglingslegur og nokkuð villandi og framsögumaður álits minni hluta benti mjög afdráttarlaust á það í ræðu sinni hér áðan að þar gætti margháttaðs misskilnings og vitleysu. Það er því mjög óþægilegt ef keyra á slíkt mál í gegnum þingið í bullandi ágreiningi við minni hlutann og að því er virðist í besta falli í miklu áhugaleysi meiri hlutans.

Það er nokkuð sláandi þátttökuleysi stjórnarliða í umræðu sem er mjög mikilvæg; það skiptir mjög miklu máli hvernig við höldum á þróunarsamvinnumálum. Þátttökuleysið segir mikla sögu. Það er örugglega ekki af áhugaleysi þannig að leiða má að því líkur að í besta falli sé blendinn stuðningur við málið. Af hverju það hefur náð svona langt ef svona lítill stuðningur er við það er ráðgáta í sjálfu sér, skiptir ekki öllu máli hér en það er í raun dapurlegt að keyra mál með þessum hætti í gegnum þingið þegar óskaplega lítill stuðningur virðist vera við það. Eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi áðan þá koma mörg mál hér í gegn sem ágreiningur er um milli meiri hluta og minni hluta, en það liggur þó fyrir af hverju hann er. Hann getur verið hugmyndafræðilegur eða faglegur eða annars konar, einhvers konar forgangsröðun legið að baki þeim ágreiningi um framgöngu og framvindu mála. Það er það sem er svo skrýtið við þessa umræðu — þegar maður fór að lesa sér til um þetta og undirbúa sig fyrir þátttöku í umræðu um málaflokk sem er greinilega mikill áhugi á meðal mjög margra þingmanna flokkanna sem skipa stjórnarandstöðubekkina tímabundið — að engum faglegum og efnislegum rökum sé teflt fram í brennidepli umræðunnar þannig að við getum tekist á um það málefnalega hvort fyrirkomulagið sé mögulega betra. Það er svolítið eins og við séum að tala við sjálf okkur um þetta af því að engin rök eru tínd til fyrir breytingunum en fjöldinn allur af rökum er talinn fram fyrir því að viðhafa núverandi fyrirkomulag því að það hefur einfaldlega reynst framúrskarandi vel og í raun og veru hefur enginn borið brigður á það.

Maður veltir því fyrir sér hvort ágreiningur hafi komið upp einhvers staðar í kerfinu eða árekstrar eða skaranir á milli ráðuneytis og stofnunar en það hefur ekki komið skýrt fram og örugglega hefur það ekki verið alvarlegt. Framsögumaður minni hluta og margir aðrir hafa vísað til þeirrar afdráttarlausu niðurstöðu sem fyrrverandi ráðherra utanríkismála, Davíð Oddsson, komst að á sínum tíma og maður fær ekki betur séð en sú niðurstaða hans hafi verið á þann veg að það væri stofnuninni og framvindu málanna til heilla að færa frekari verkefni þangað inn. Það eru þá vísbendingar í þá áttina að ganga lengra í að færa verkefnið frá ráðuneytinu til stofnunarinnar sem snýr að þessum málaflokki. Það eru sem sagt engar málefnalegar forsendur fyrir því að leggja stofnunina niður.

Í áliti minni hlutans segir, með leyfi forseta:

„ÞSSÍ hefur unnið gott starf, nýmæli og ferskleiki í vinnubrögðum stofnunarinnar hafa vakið verðskuldaða athygli annarra þjóða eins og birtist í því að stofnuninni hefur tekist að fá yfir 700 millj. kr. frá erlendum stofnunum inn í íslensk verkefni.“

Það skiptir mjög miklu máli og oft hefur verið bent á það að þróunarsamvinnustofnanir annarra landa hafa tekið eftir því hve vel sú íslenska hefur haldið á sínum málum.

Það hafa heldur engin dæmi komið fram við umfjöllun málsins um að nokkru sinni áður hafi stofnun verið lögð niður í heilu lagi og verkefni hennar færð inn í ráðuneyti. Menn hafa bent á tilkomu Menntamálastofnunar sem ég held, að því er ég fæ best séð, að hafi verið mjög skynsamleg ráðstöfun. Í greinargerð með frumvarpi um Menntamálastofnun kemur fram að tvær aðrar stofnanir hafi verið sameinaðar, Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun, og að til standi að færa til stofnunarinnar önnur og aukin verkefni úr ráðuneytinu. Þá væri um að ræða stóra og öfluga stofnun á sviði menntamála sem færi með námsmatið og námsgögnin og ýmislegt annað sem færi mjög vel með þeirri starfsemi. Öll útvistun sem ráðuneytin gera í slíkri vinnu er alltaf til bóta. Þau gera best þegar þau geta sinnt með öflugum hætti yfirliti og eftirliti með sínum málaflokki eins og kostur er hverju sinni og að sjálfsögðu smíð löggjafar, en nýjungar og breytingar og ýmislegt annað kallar á það hverju sinni.

Það rennir stoðum undir efasemdir og andstöðu við málið að markmið núverandi ríkisstjórnar í þróunarsamvinnumálum hafa ekki virst vera neitt sérstaklega háleit þegar litið er til þess að þetta stóra skref var stigið til baka að því er varðar aukningu framlaga. Þess vegna vakna áhyggjur af því að verið sé að draga enn frekar máttinn úr mjög vel heppnuðu starfi, sem er starf Þróunarsamvinnustofnunar um langt árabil. Í frumvarpi og í greinargerðum er bent á að þetta sé gert til að koma í veg fyrir skörun, óhagræði og tvíverknað í rekstri og stjórnun, óþarfaflækjustig og ýmislegt annað, en það hefur þetta allt verið hrakið. Slíkar fullyrðingar eiga engan rétt á sér sem rökstuðningur við meginbreytingar á stjórnsýslufyrirkomulagi, hvorki á þessu sviði né öðru, nema að slíkum fullyrðingum fylgi sannfærandi röksemdafærslur sem undirstriki þá að þetta sé ómögulegt og þetta dragi kraftinn og máttinn úr starfinu; að það þurfi að breyta þessu til að okkur gangi enn betur að ná árangri á sviði sem við höfum náð afskaplega góðum árangri á. Margt hefur nú farið úrskeiðis í íslensku samfélagi á mörgum liðnum árum en það stendur þó eftir að á þessu sviði höfum við staðið okkur sérstaklega vel þannig að eftir hefur verið tekið. Og hitt skiptir ekki minna máli að um þetta starf hefur ríkt prýðileg pólitísk sátt um langt skeið.

Hér vísa menn, eins og í Biblíuna sjálfa, í það sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, gerði og taka mjög undir það og hrósa þeirri framvindu sem varð í málaflokknum undir hans forustu. Ég tek undir það, það var mjög gott mál. Það sýnir sérstaklega að sem betur fer hefur ágæt samstaða verið um málið.

Eigi að keyra þetta mál í gegnum Alþingi í krafti meiri hlutans, í bullandi ágreiningi við stjórnarandstöðuna, þá er það mikið óheillaskref. Það er mjög óheppilegt og mikill ábyrgðarhluti að rjúfa sátt í jafn viðkvæmum og mikilvægum málaflokki og þróunarsamvinnumál eru. Þetta eru mál sem mjög margir bera fyrir brjósti og finnst mjög mikilvægt að vel sé utan um haldið. Það er þægilegt til þess að vita að þau mál séu þó þrátt fyrir allan ágreining — öll átökin, allar deilurnar í íslensku samfélagi sem hafa verið mjög miklar í mörg ár og sér í sjálfu sér ekki fyrir endann á — í ágætri sátt; eins og í viðkvæmustu velferðarmálunum, að ekki sé verið að takast á um einkavæðingu velferðarþjónustu, einkavæðingu menntakerfisins. Það er ein af undirstöðum velferðarsamfélagsins, hins manneskjulega og nútímalega velferðarsamfélags, að mjög vel sé gert í þróunarmálum og að til þeirra sé veitt fjármagni og mannafla eins og kostur er hverju sinni.

Árið 2011 sáu þáverandi meirihlutaflokkar fram á að hægt væri að auka hratt framlög til málaflokksins þannig að sómi væri að stöðu Íslands og framlögum til þróunarmála. Því miður var dregið úr því. Vonandi breytist það aftur og eitt af því sem við ættum frekar að vera að ræða hér er hvernig við getum aukið framlög og tekið betur utan um málaflokkinn í staðinn fyrir að tefla honum inn í bullandi ágreining, draga bara þannig, með því að deila um fyrirkomulagið og stjórnsýsluna, kraftinn úr árangursríku og góðu starfi sem fólk almennt ber mikla virðingu fyrir.

Fólk tekur eftir því sem vel er gert og mjög margir Íslendingar eru ákaflega stoltir af því hvernig við höfum staðið að málum í mörgum þróunarlöndunum, hvernig við höfum spilað úr fjármununum, hvernig við höfum varið þeim og hve mikið er hægt að gera fyrir tiltölulega lágar fjárhæðir í hinu alþjóðlega samhengi.



[19:03]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir sem hafa tekið til máls bendir hv. þingmaður á að það sé afskaplega lítil ástæða til þess að samþykkja þetta frumvarp. Eins og hefur líka komið fram hér í ræðum og fyrr á þessu þingi og á fyrri þingum þá eru önnur verkefni sem sitja eftir þegar kemur að þróunarsamvinnu. Þá mætti kannski helst nefna það sem mörgum þykir mjög háleitt markmið en mér þykir í meginatriðum sjálfsagt, að Ísland nái því markmiði að greiða 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Með hliðsjón af því að nú sjáum við að við komumst ekki nálægt því að ná því markmiði þá fer svolítið í taugarnar á mér, eins og margt annað sem varðar samskipti hæstvirtra ráðherra við þingið, að það var þingið sem ákvað að ná því markmiði. Þingið ákvað árið 2011 með 46 eða 47 atkvæðum, að mig minnir, gegn engu, ekki einu sinni ein manneskja sat hjá, að ná þessu markmiði. Við fjarlægjumst þetta markmið frekar en að komast nær því.

Þegar menn leggja fram frumvarp eins og þetta og nota til rökstuðnings að hér þurfi að auka einhverja hagkvæmni þá velta menn fyrir sér: Er það við hæfi þegar við náum ekki einu sinni því markmiði sem þingið sjálft hefur samþykkt að það vilji? Því miður er það hætt að koma á óvart að hæstv. ríkisstjórn fari svona á svig við það sem er skýr vilji þingsins og sér í lagi þegar um er að ræða hæstv. ráðherra sem voru á seinasta þingi, að vísu í stjórnarandstöðu.

Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að forgangsröðun í þessum málaflokki eigi að liggja miðað við að það frumvarp hefur verið lagt fram.



[19:05]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var góð spurning hjá hv. þingmanni. Ég nefndi það hérna áðan að ríkt hefur mikil samstaða um málaflokkinn og þingsályktunina sem var samþykkt í júní 2011, að ég held, var eitt skýrasta og kannski öflugasta dæmið um sáttina um þetta mál. Það var ekki eins og verið væri að keyra það í gegnum þing í krafti meiri hluta í bullandi ágreiningi við stjórnarandstöðu að hækka framlögin til málaflokksins svona bratt og ná markmiðinu um 0,7% af vergri landsframleiðslu. Það var mikil ánægja almennt með það í þinginu. Menn fögnuðu því mikið. Sjálfum þótti mér það vera með eftirminnilegri og ánægjulegri atkvæðagreiðslum sem ég hafði tekið þátt í á öllum mínum árum í þinginu, að utan um þennan málaflokk væri tekið með sérstökum hætti og einmitt forgangsraðað fram yfir ýmislegt annað án þess að það bitnaði á grunnþjónustu eða framlögum til velferðarmála á Íslandi.

Það er lengi hægt að forgangsraða til að finna fé í jafn mikilvæg mál og þróunarsamvinnu, gífurlega mikilvæg mál. Það er mikill sómi að því þegar stjórnvöld reyna að ná settum markmiðum og fylgja þeim eftir með þverpólitískri sátt og þingsályktun eins og hv. þingmaður benti á þar sem Alþingi sjálft stóð að því máli mjög afdráttarlaust og setti stjórnvöldum það fyrir að ná þessu markmiði, auðvitað í samvinnu við þau sem þá skipuðu ríkisstjórn.

Ég tel að þetta frumvarp gangi þvert gegn sáttinni og þvert gegn markmiðum um að efla málaflokkinn.



[19:07]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get lítið annað en tekið undir það nema bæta því við að samkvæmt sömu þingsályktun, sem mér þykir mjög vænt um að var samþykkt hér samhljóða, þá stóð meira að segja til að innan tíu ára frá þeim tíma, sem væri þá 2021, innan sex ára frá deginum í dag, þá ætti Ísland að standa framar þessu markmiði og leggja til meira en 0,7% af vergum þjóðartekjum. Það þykir mér háleitt markmið en virðingarvert, enda var það það sem Alþingi samþykkti samhljóða á seinasta kjörtímabili. Sömuleiðis kemur fram að verði hagvöxtur meiri en þá var spáð komi framlögin til endurskoðunar.

Nú er augljóst að hagvöxtur er meiri en menn hljóta að hafa spáð á þeim tíma. Mér finnst það hljóta að vera enda er núna uppgangur í efnahagnum. Er það ekki enn fremur tilefni til þess að einbeita sér að þessu markmiði með hliðsjón af því að við höfum alls ekki staðið við okkar eigin gefnu markmið eins og stendur?



[19:08]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nákvæmlega og mikil ósköp, ég tek mjög eindregið undir það að á þessum tíma voru enn varfærar spár um aukningu hagvaxtar og uppgangs í efnahagsmálum þó að það væri byrjað að glitta í ágæta tíma fram undan eftir samdráttarárin þar á undan. Ef eitthvað væri þá ættum við að standa hér og ræða, vonandi í sátt og einingu, að staðið yrði við fyrri þingsályktun og heldur gefið í. Eins og þingmaðurinn benti á var þar nokkurs konar endurskoðunarákvæði að finna þar sem gefinn var boltinn með það að ef betur gengi og betur áraði en ráð var fyrir gert þá væri hægt að ná hraðar þeim markmiðum þannig að við stæðum á pari við aðrar Norðurlandaþjóðir í framlögum út frá vergri landsframleiðslu til þróunarmála. Þær þjóðir hafa náttúrlega staðið alveg sérstaklega vel að þeim málum.



[19:10]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að hann hefði setið í utanríkismálanefnd hér áður. Ég er nýr hérna og þarf að koma mér aðeins inn í málið. Það er ágætlega stórt og fyrirferðarmikið mál að leggja niður heila stofnun eða leggja það til.

Ég rak augun í texta í greinargerð með frumvarpinu þar sem er talað um, með leyfi forseta, og vitnað í ræðu framsögumanns utanríkismálanefndar:

„… með áliti nefndarinnar um frumvarpið kom fram að nefndinni væri ljóst að þar sem fulltrúarnir í þróunarsamvinnunefndinni ættu einnig sæti í samstarfsráði um alþjóðlega þróunarsamvinnu gæti orðið vandasamt að skilja nákvæmlega þarna á milli.“

Í kjölfarið er talað um, með leyfi forseta:

„Reynslan hefur sýnt að áhyggjur framsögumanns utanríkismálanefndar voru á rökum reistar og að á núgildandi fyrirkomulagi eru nokkrir annmarkar. Verkefni samstarfsráðsins og þróunarsamvinnunefndar skarast og verkaskipting milli þeirra er óljós, en ekki hefur tekist að bæta úr þessu í framkvæmd.“

Svo virðist vera sem afleiðingarnar af því séu að það eigi að leggja niður heila stofnun.

Ég spyr: Hvað er þetta samstarfsráð og hvert er núverandi fyrirkomulag þróunarsamvinnunefndar sem þetta frumvarp breytir aðeins?



[19:12]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég læt fróðari mönnum það eftir að útskýra nákvæmlega hvert hlutverk nefndra starfshópa og nefnda er. Bent er á það sem rök fyrir breytingunum að átt hafi sér stað óheppileg skörun o.s.frv. Mér finnst það einmitt vera röksemdir í hina áttina, þ.e. að ganga lengra í því að færa verkefni inn í stofnunina og út úr ráðuneytinu. Það eru þarna 40/60 prósenta skipting á milli ráðuneytis og stofnunar, eins og kemur fram, að mig minnir, fremst í áliti minni hlutans. Allar vísbendingar hafa miklu frekar verið í þá áttina. Þar sem stofnunin hefur staðið sig jafn vel í stykkinu og raun ber vitni og almennt er álitið þá sé talið betra að færa þangað fleiri verkefni frekar en að draga úr henni máttinn eða leggja hana niður og færa hana alfarið inn í ráðuneytið.

Það að ætla að lagfæra smáhnökra með risastórri sleggju, að mölva heila stofnun og leggja hana niður og færa inn í ráðuneytið, eru algjörlega fráleit vinnubrögð og eru, eins og kemur fram í hinu ágæta og ítarlega nefndaráliti minni hlutans sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson mælti fyrir áðan, engin raunveruleg eða alvörurök fyrir breytingunni. Ef minni háttar ágreiningur er um minni háttar hnökra á einhverjum sviðum þá er mönnum í lófa lagið að leysa hann og laga til án þess að fara í jafn róttækar og ástæðulausar breytingar og hér er raunin, breytingar sem afskaplega lítill stuðningur virðist vera fyrir hér í þinginu.



[19:14]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er mjög greinargóð útskýring á vandamálinu hérna, þ.e. að verkefni samstarfsráðsins og þróunarsamvinnunefndar skarast og ekki hefur tekist að bæta úr því. Það er augljóst að frekar ætti að leggja niður og/eða sameina þá tvo þætti, ráðið og nefndina, en að taka stofnunina sem virðist ekki koma þessu neitt sérstaklega við.

Af öðru sem hv. þingmaður kom aðeins inn á og er dálítið áhugavert frá skrifstofu opinberra fjármála, með leyfi forseta:

„Ekki er reiknað með að sameiningin leiði til breytinga á fjölda starfsfólks og ekki er heldur reiknað með breytingum í húsnæðismálum, en þróunarsamvinnuskrifstofa ráðuneytisins og ÞSSÍ starfa nú þegar náið saman og hafa aðsetur í sama húsnæði. Ekki er því gert ráð fyrir því að lögfesting frumvarpsins muni hafa áhrif á rekstrarkostnað málaflokksins fyrst um sinn.“

Þetta er bara brandari.



[19:15]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög góður punktur hjá hv. þingmanni. Ég nefndi áðan í ræðu minni að ef einhver efnisleg eða fagleg rök væru fyrir breytingunum þá gætum við einmitt verið að rökræða þau. Ef fyrir ráðuneytinu vekti að spara fjármuni, ná fram hagræðingu eða breytingum sem leiddu til góðs að þeirra áliti, og þá vonandi annarra líka, væri hægt að veita meiri fjármuni beint í þróunarsamvinnumálin, en svo er nefnilega alls ekki. Dæmið sem hv. þingmaður nefndi hér áðan var mjög nakið og greinargott dæmi um rökleysuna á bak við frumvarpið, rökleysuna á bak við breytingartillöguna og hve fráleitt það er að tefla þessum mikilvægu málum í ágreining þegar áhugaleysið um breytingarnar er nánast yfirþyrmandi hjá meiri hlutanum sem tekur engan þátt í þessari umræðu.



[19:16]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst til þess að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta áhugaverða innlegg. Eins og segir í nefndarálitinu og í greinargerð frumvarpsins er tilgangurinn með því að færa þetta inn í ráðuneytið að koma í veg fyrir einhverja skörun í fyrsta lagi og í öðru lagi að styrkja tengsl þróunarsamvinnunnar við önnur utanríkismál. Það er ítrekað oft og mörgum sinnum. Þegar ég las bæði yfir nefndarálit meiri hlutans og að sjálfsögðu greinargerðina með frumvarpinu þá virtist vera eins og að þarna ætti sér stað einhver tvíverknaður. Ég gæti ekki séð annað ef ég læsi bara greinargerðina og nefndarálitið en að svo væri. Það er kannski ljótt að draga það í efa nema að betur athuguðu máli en það kom svolítið flatt upp á mig þegar ég las nefndarálit minni hlutans, t.d. þar sem þessum rökum er hnekkt.

Það sem mig langaði helst að vita er hvort við værum ekki svolítið að fara aftur til fortíðar með því að skilgreina hagkvæmni og skilvirkni með miðstýringu því að það virðist vera það sem hæstv. utanríkisráðherra er að boða með þessu. Hvert er álit hv. þingmanns á því? Við erum náttúrlega að tala um að þarna er verið að taka heila stofnun aftur inn í ráðuneytið sem hefur að því er virðist aldrei gerst áður. Þarna er verið að auka miðstýringu. Er það ekki svolítið torkennilegt? Er það ekki eitthvað sem við höfum verið að reyna að forðast?



[19:18]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög góð ábending hjá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi hve haldlaus og rýr öll röksemdafærslan er á bak við málið. Einu rökin eru óljós rök fyrir einhvers konar tvíverknaði og skörun sem mönnum væri, eins og ég benti á hér áðan, í lófa lagið að bæta úr ef svo háttaði án þess að ráðast í það stórverkefni að leggja niður heila stofnun og færa hana inn í ráðuneytið.

Hv. þingmaður spurði hvort það gengi ekki gegn allri þróun síðustu ára í stjórnsýslu og skynsamlegu utanumhaldi um verkefni hins opinbera að auka miðstýringu í ráðuneytunum til að ná betur utan um málaflokkinn. Það er akkúrat kjarni málsins að hér er lagt til að stigið sé risastórt skref í öfuga átt með því að auka einhvers konar miðstýringu í ráðuneytinu utan um málaflokkinn. Eins og hefur komið fram hérna fyrr í umræðunni verður gagnsæi minna og hugsanlega erfiðara að fylgjast með framvindu mála í þróunarsamvinnumálum en er í dag. Þetta er býsna opið og gagnsætt hjá ÞSSÍ. Það hefur reynst mjög vel og auðvelt og gott að fylgjast með því og stofnunin er mjög opin og öflug í að kynna sitt góða starf.

Ég tek alveg eindregið undir það og svara þeirri spurningu ótvírætt játandi að þessi tillaga um aukna miðstýringu og þann fordæmislausa gerning að leggja niður stofnun og færa hana inn í ráðuneytið sé þveröfug þróun.



[19:20]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þá verð ég náttúrlega að spyrja því að mig langar til að fá að vita hvað hv. þingmaður haldi að búi að baki því að við séum allt í einu komin í einhvern miðstýringarfasa þegar kemur að stofnanaumhverfi. Ef þetta snýst ekki um stofnanafyrirkomulagið í sjálfu sér heldur efnistök stofnunarinnar, væri þá ekki hægt að eiga málefnalega umræðu um það hvert verksvið hennar væri? Væri það ekki eitthvað sem við gætum tekið á einhverjum fundum og reynt að finna út ef það er eitthvert vandamál með þessa stofnun? Hún virðist vinna gott verk. Hún virðist gera allt sem hún þarf að gera og á að gera samkvæmt skilgreindu hlutverki. Hún virðist ekki eyða um efni fram eða fela í sér einhvern sérstakan kostnað. Þetta stofnanaumhverfi virðist henta þessari tilteknu starfsemi mjög vel.

Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé einhver þróun sem verði víðtækari, að við séum að færa stofnanir aftur inn í ráðuneyti. Það er þá á skjön við allt sem hefur verið að gerast undanfarin 20–30 ár til að reyna að minnka miðstýringu og auka valddreifingu með því að stuðla að gegnsærri stjórnsýslu og dreifðri ákvarðanatöku. Er þetta ekki kjörið tækifæri til þess að fá sérmenntað fólk til að taka ákvarðanir á sínu sviði sem það er búið að sérmennta sig í? Er þetta ekki kjörið tækifæri til þess að gefa vel menntuðu fólki sérstakt starf og sérstaka ábyrgð? Er eitthvað að því? Hvað liggur þarna að baki? Er verið að breyta stofnanaumhverfi (Forseti hringir.) Íslands almennt með því að gera þetta?



[19:23]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat meginmálið. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var spurð að því hér áðan ítrekað hver hún teldi að tilgangurinn væri með breytingunni og við höfum eiginlega í umræðunni hér í dag og fyrr leitað logandi ljósi að vandamálinu. Það hefur bara enginn fundið nokkurt einasta vandamál í rekstri stofnunarinnar nema óljósar ábendingar um skörun og tvíverknað sem er ekki hægt að rökstyðja frekar og er í sjálfu sér heldur engin rök fyrir þessum breytingum. Vandamálið er því ekki til staðar. Núverandi umgjörð um þróunarsamvinnumál er fyrirtaksgóð og allar vísbendingar sýna að starfsemi stofnunarinnar sé með allra besta móti þannig að það ætti frekar að efla stofnunina og færa til hennar fleiri verkefni en að leggja hana niður án nokkurrar einustu ástæðu og færa inn í ráðuneytið til aukinnar miðstýringar.