145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessum orðum mínum fólst enginn dómur um að stofnunin, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, hefði ekki sinnt hlutverki sínu mjög vel og það kemur ítrekað fram, hefur komið fram í ræðum hér og málum og í frumvarpinu sjálfu og í allri þeirri yfirferð sem við höfum átt um þetta mál, að það er enginn ágreiningur um að stofnunin hafi sinnt verkefni sínu vel. Hún hefur bæði mikla þekkingu, þar er mikil starfsreynsla og mikil geta til að takast á við viðkvæm og erfið verkefni, enda er enginn að leggja til að starfsfólkið sem þar er haldi ekki áfram með sín verkefni, að það flytjist ekki þannig að við tryggjum að við höldum vel utan um það. Þannig að í þessu felst enginn dómur yfir stofnuninni með neinum hætti nema góður dómur. Við skulum vænta þess að stofnunin geri gott ráðuneyti enn betra og tryggi það að vinnubrögðin verði áfram fagleg og góð.

Meginrökin með því að sameina þessi verkefni undir einn hatt, hvar svo sem þau væru vistuð, ganga út á hagkvæmni, skilvirkni og aukinn árangur í þessum verkefnum. Það er aðalatriðið.