Kosning forseta og skrifara í Sþ.
Þriðjudaginn 11. október 1988

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Ég þakka hv. alþm. það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að fela mér forsæti hér í sameinuðu Alþingi.
    Ég tel mig tala fyrir munn allra hv. alþm. er ég þakka fráfarandi hæstv. forseta, hv. alþm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, fyrir mikil og góð störf í þessu embætti á liðnum árum. Persónulega þakka ég honum gott og elskulegt samstarf sem varaforseti hans á síðasta löggjafarþingi.
    Áfangar í réttindabaráttu kvenna eru fáir og stopulir og því ævinlega mikilvægir. Mér er það mikill heiður að verða fyrst íslenskra kvenna til að gegna starfi forseta sameinaðs Alþingis. Á þessari stundu hlýt ég að minnast með þökk í huga allra þeirra kvenna sem vörðuðu veginn að þessu marki. Einnig hlýt ég að minnast með virðingu og þökk þeirra kvenna sem tekið hafa sæti á hinu háa Alþingi fyrr og síðar, lifandi sem látinna.
    Ég vona að ég reynist, með guðs hjálp og góðra manna, verð þess trausts sem mér hefur nú verið sýnt og mun leitast við að eiga gott samstarf við alþingismenn alla, stjórn sem og stjórnarandstöðu. Ég mun reyna að sjá svo til að á einskis rétt verði gengið og leitast við að hafa réttsýni og sanngirni með í för í störfum mínum hér.
    Þá vænti ég þess að mér auðnist einnig að ná góðu samstarfi við hina fjölmörgu starfsmenn hins háa Alþingis sem oft bera hitann og þungann af því að störf þingsins gangi sem löggjafarsamkomunni sæmir. Hafið heila þökk.