Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Herra forseti. Hér eru til umfjöllunar bráðabirgðalög tveggja ríkisstjórna, þ.e. sumarútgáfa ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og haustútgáfa og fyrstu verk nýrrar ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Stöðugir í báðum þessum stjórnum eru Framsfl. og Alþfl. en Alþb. hefur nú tekið sæti Sjálfstfl. Þessum bráðabirgðalögum er eins og svo oft áður ætlað að taka á og væntanlega leysa efnahagsvandann, efnahagsvanda sem hæstv. forsrh. lýsti á þann veg að íslenskt atvinnulíf væri komið nær bjargbrúninni en nokkru sinni fyrr. Gjaldþrot ýmissa fyrirtækja eru þegar heyrinkunn, bæði aðalatvinnuveitenda byggðarlaga úti á landi, svo og fyrirtækja á þéttbýlissvæðum. Þessi mikli vandi atvinnulífsins hefur ekki sneitt hjá heimilum landsmanna heldur. Og af hverju stafar hann svo?
    Við höfum nú búið við betri tíð um nokkurra ára bil en oft áður, höfum reyndar notið hvers metaflaársins á fætur öðru og ytri aðstæður, sem svo eru oft kallaðar, svo hagstæðar að efnahagssérfræðingarnir hafa reiknað yfir okkur góðæri. Og þjóðartekjurnar í ár munu vera svipaðar og verið hefur. Samt er atvinnulífið og mörg heimili svo illa stödd sem raun ber vitni. Hvað segir það okkur um efnahagsstjórn undanfarinna ára? Hvað segir það okkur t.d. um þann flokk sem hæstv. forsrh. veitir formennsku, Framsfl., sem hefur um ótrúlega langa hríð verið þátttakandi í ríkisstjórnum? Hvað hefur sá flokkur eiginlega verið að gera? Formaður hans segir að vísu í nýlegu blaðaviðtali að flokkurinn sé nú hættur því sem nefnt er frjálshyggjufyllirí en hvernig er því eiginlega varið? Er þessi flokkur ekki sjálfráða eða fulltrúar hans?
    Efnahagsvandi er nokkurn veginn örugg stærð sem reikna má með í þjóðfélaginu á hverjum tíma, misþungur að vísu en ævinlega vandi sem hver stjórn verður að glíma við. Hann verður aldrei leystur í eitt skipti fyrir öll. Samt megum við í sífellu horfa upp á skyndilausnir í formi bráðabirgðalaga þar sem verið er að bjarga þjóðinni undan mismunandi stórri holskeflu yfirvofandi neyðarástands. Oft er einmitt um að ræða ástand sem er afleiðing af óstjórn eða stjórnleysi ríkisstjórna og þá grípa menn til þess ráðs að bæta gráu ofan á svart með því að nota lögin til að ganga á rétt einstaklinganna, dýrmætan, óvefengjanlegan rétt launþega sem barist hefur verið fyrir, samningsréttinn. Sumir, jafnvel verkalýðsforingjar, gefa lítið fyrir þennan rétt nú orðið, telja sig raunsæja þegar þeir benda á aðra þætti, efnahags- og félagslega, sem reynast munu drýgri til að bæta hag launþega en óskertur samningsréttur. Vissulega hefur tilhneigingin einmitt verið sú að þegar velferðin er innleidd, þá er það einmitt með ýmsum bótum og félagslegum aðgerðum til að bæta fólki upp á ýmsan hátt þau vandræði að geta ekki séð sér farborða með eðlilegri og jafnvel mikilli vinnu.
    Það fer orðið lítið fyrir umræðum um grundvallaratriði í pólitík á þessum síðustu tímum, segir einmitt sá verkalýðsforingi sem af svonefndu

raunsæi sínu telur samningsrétt ekki ráða úrslitum um hag launþega. Það kann að vera rétt að of lítil umræða fari fram um grundvallaratriði í stjórnmálum. Kvennalistakonur, sem eiga ung samtök, líta einmitt á setningu bráðabirgðalaga og afnám samningsréttar launafólks sem grundvallaratriði, grundvallaratriði sem varðar lýðræði og mannréttindi, grundvallaratriði sem ber að virða og fara vel með. Fyrir bragðið hafa bæði sumir stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn talið kvennalistakonur óraunsæjar, jafnvel ábyrgðarlausar. En það eru fleiri á okkar máli og mig langar að vitna, með leyfi hæstv. forseta, í nokkur félög launþega sem hafa einmitt lýst því yfir að þau mótmæli harðlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fresta umsaminni launahækkun sem taka átti gildi 1. sept. --- og það er þá ekki síst vegna þess sem kom fram í máli hv. 11. þm. Reykv. hér á undan mér. Ég hef klippt út úr dagblöðum undanfarna daga. Það er Blaðamannafélag Íslands, það er Póstmannafélag Íslands, það er Verslunarmannafélag Reykjavíkur og það er Landssamband lögreglumanna, og eflaust eru þau fleiri sem fram hjá mér hafa farið við að fletta dagblöðunum. Kennarasamband Íslands sendir alþingismönnum einnig harðorð mótmæli sín. Svo er það enn fremur Samband norrænna verkalýðsfélaga, sem hélt fund í Færeyjum nú nýlega, sem mótmælir bráðabirgðalögum íslensku ríkisstjórnarinnar. Og norræna háskólamannaráðið, sem hélt fund í Osló nýlega, mótmælir einnig slíkri lagasetningu. Þannig að kvennalistakonur eru ekki einar um það. Formannafundur Alþýðusambands Íslands segir í blaðinu Vinnan, 8. tbl., með leyfi forseta:
    ,,Formannafundur ASÍ 12. sept. 1988 tekur undir ályktun miðstjórnar ASÍ frá 6. sept. sl. Fundurinn mótmælir öllum hugmyndum um skerðingu á kjörum almenns launafólks. Fundurinn minnir á að þjóðartekjur á þessu ári eru áætlaðar svipaðar og á síðasta ári. Vandinn er því engan veginn óviðráðanlegur og það verður ekki þolað að við honum verði brugðist með kjaraskerðingu. Allar aðgerðir hljóta að miðast við að lækka vexti og verðlag og sjá fyrir atvinnuöryggi í útflutningsgreinum. Frumskilyrði er að tryggja afkomu heimilanna. Hinn almenni launamaður ber ekki sök á offjárfestingu og óráðsíu þjóðfélagsins. Fundurinn skorar á verkafólk um land allt að vera við því búið
að bregðast við á viðeigandi hátt ef stjórnvöld taka ekki mark á þessum samþykktum.``
    Einnig er í þessu sama blaði vitnað í ummæli formanns Alþýðusambands Norðurlands, formanns Iðju í Reykjavík og Landssambands iðnverkafólks og formanns Framtíðarinnar í Reykjavík. Kvennalistakonur eru því ekki aleinar um þessa skoðun. Ég gæti auðvitað líka tekið fleiri til sem eru samþykkir eða voru einu sinni samþykkir því að samningsrétturinn skipti máli eins og t.d. alþýðubandalagsmenn sem voru í stjórnarandstöðu á sl. ári. Ég gæti t.d. auðveldlega vitnað til tillagna þingflokks Alþb. sem komu fram á fundi á Hallormsstað, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Tillögur Alþb. eru í grundvallaratriðum allt aðrar en tillögur stjórnarflokkanna og sú stjórnarstefna sem fylgt hefur verið af þessari og síðustu ríkisstjórn. Tillögur Alþb. byggjast á því að ekki komi til kjaraskerðingar.`` Síðar segir: ,,Jafnframt þessum víðtæku efnahagsaðgerðum telur Alþb. nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin fái á ný samningsréttinn með því að bráðabirgðalögin verði afnumin. Þar með fái verkalýðshreyfingin frelsi til þess að semja um kaup og kjör. Þannig er staðið við gerða kjarasamninga sem gera ráð fyrir launahækkunum 1. nóv. og í desember.`` Og það kynnu jafnvel að vera einhverjir fleiri hér inni í þessum sal sem gætu tekið undir þessa skoðun. Réttindi kvenna eru í raun nýfengin og mörgum dýrmæt. Kvennalistakonur eru enn að berjast fyrir réttindum og taka því kannski hátíðlegar grundvallaratriði eins og samningsréttinn en þeir sem telja sig reyndari í stjórnmálum. Þeir og aðrir telja það jafnvel barnalegt að þær skuli láta sér detta í hug að virða grundvallaratriði í samskiptum fólks og kaupa þau ekki eða selja.
    Ástæðan fyrir þessari afstöðu, auk þess sem ég hef þegar sagt, er ekki síst sú staðreynd að mikil tekjutilfærsla hefur orðið í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Þá nægir að nefna nokkur dæmi og aftur vitna ég í dagblöð, sem voru mér drjúg lesning nú um helgina, þar sem einmitt segir að á höfuðborgarsvæðinu sé nú á einni fasteignasölu sem svarar tveim Kringlum til leigu fyrir verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hvað segir þetta okkur um áherslur í fjárfestingu í þjóðfélaginu? Á sama tíma er einnig reiknað að vísutölufjölskyldan þurfi 187 583 kr. í mánaðarlaun til framfærslu en vegið meðaltal mánaðarlauna launafólks 73 613 kr. Ég gæti farið ítarlegar út í þessar tölur til þess að skýra fyrir hæstv. ráðherrum og þingmönnum hvers vegna kvennalistakonur og forvígismenn margra samtaka launafólks telja að einmitt samningsrétturinn og rétturinn til að geta séð sér farborða á dagvinnulaunum sé ekki bara óvefengjanlegur, hann megi ekki skerða, og að það þarfnist umræðu, nánari umræðu hvernig farið er með þennan rétt.
    Varðandi setningu þessara bráðabirgðalaga vil ég nefna tvö atriði. Í fyrsta lagi eru þau sett án þess að fyrir liggi að við þau sé nægur þingstuðningur. Að þessu hefur þegar verið vikið í máli annarra sem á undan mér hafa talað. Síðan er annað sem er athugavert við setningu þessara laga. Þau eru sett þegar rétt tæpar tvær vikur eru þangað til þing hefst. Það hefði verið mönnum í lófa lagið að kalla þingið saman þegar svona mikið lá við. Í stjórnarskránni segir einmitt að kalla megi aukaþing saman þegar brýna nauðsyn ber til. Og ég vil gjarnan spyrja hæstv. forsrh.: Hvers vegna var ekki tekið til þess ráðs að kalla fremur saman þingið heldur en að setja þessi bráðabirgðalög sem vel hefði mátt fjalla um sem venjuleg frv. í viðurvist þingsins?
    Í bréfi frá þingflokki Alþb. til Þorsteins Pálssonar, hæstv. þáv. forsrh., segir: ,,Þingflokkur Alþb. hefur á fundi sínum á Hallormsstað 29. ágúst samþykkt að

óska eftir því við ríkisstjórnina að Alþingi verði kallað saman til funda svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan 10 daga frá dagsetningu þessa bréfs.`` Síðar segir: ,,Mikil óvissa ríkir nú í þjóðmálum. Ríkisstjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um neitt nema skerða kjör launafólks eins og nú hefur verið gert með enn nýjum bráðabirgðalögum sem svipta launafólk launahækkun sem átti að koma til móts við hinar miklu verðhækkanir að undanförnu. Opinskátt er rætt um frekari bráðabirgðalög á næstunni aðeins örfáum vikum eða dögum áður en Alþingi komi saman. Þingflokkur Alþb. telur með öllu óverjandi að grípa nú til setningar umdeildra bráðabirgðalaga af ríkisstjórn sem riðar til falls og einkennist af óheilindum og sundurþykkju.
    Við þessar óvissuaðstæður og með hliðsjón af líklegum efnahagsráðstöfunum er það að mati þingflokksins skýlaus, lýðræðisleg og þingræðisleg skylda að kalla nú saman Alþingi þegar í stað. Þar verði fjallað um aðsteðjandi úrlausnarefni, kynntar upplýsingar um raunverulega stöðu þjóðarbúsins og með eðlilegum hætti ákveðið til hvaða ráðstafana skuli grípa. Með því að kalla Alþingi saman yrði tryggt að þjóðin fengi réttar upplýsingar um ástand efnahagsmála og afleiðingar hinna ýmsu ráðstafana. Nú eru upplýsingar hins vegar lokaðar inni í ráðuneytunum og komið er í veg fyrir eðlilega lýðræðislega umræðu í landinu.``
    Ég heyrði ekki betur í haust en að hv. formaður Alþb. léti þar hæst þegar hann krafðist þess að það yrðu kosningar tafarlaust og hann segir einnig í Þjóðviljanum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eins og ég hef sagt síðustu þrjá mánuði, þá er það skoðun okkar að það eigi að efna tafarlaust til kosninga. Ef orðið hefði verið við þeirri ósk okkar fyrir tveimur eða þremur mánuðum, þá væri þeim nú lokið og ný stjórn tekin til starfa. Það hefði tekið skemmri tíma en þetta þóf ríkisstjórnarinnar sl. tvo mánuði. Ef það er aftur á móti ekki þingmeirihluti fyrir því að efna til kosninga, þá er okkur ekkert að vanbúnaði að kanna afstöðu og hugsanlegan stuðning annarra flokka við þær tillögur sem Alþb. hefur sett fram.`` Eftir því sem best verður séð og þegar lesnar eru þær tillögur sem komu fram á fundi alþýðubandalagsmanna á Hallormsstað nú í haust verður ekki séð að stefna þessarar ríkisstjórnar hafi tekið mikið mið af áherslum Alþb.
    Þó get ég fagnað því að þessi bráðabirgðalög, svo slæm sem þau eru og óviðunandi hvernig að þeim var staðið, skuli hafa verið lögð fram strax í byrjun þings, eins og Kvennalistinn fór reyndar fram á. Það skiptir auðvitað meginmáli að þingið fái að fjalla um þau sem fyrst og ekki síst vegna þess að ekki liggur ljóst fyrir hvort fyrir þeim er í raun meiri hluti á þessu þingi.
    Ég minntist á það áðan að það væri mikið álitamál hvernig bráðabirgðalög hefðu verið nýtt, ekki bara í tíð þessarar ríkisstjórnar, heldur jafnvel áður. Mig langar til, vegna þess sem ég sagði um lýðræði og mannréttindi nú áðan, að minnast á nýlega grein eftir

Ara Skúlason og Ásmund Hilmarsson þar sem þeir fjalla einmitt um samningsréttinn. Hún er í 2. hefti tímaritsins Réttur 1988 og heitir: Hugleiðingar í tilefni enn einna bráðabirgðalaga gegn kjarasamningum stéttarfélaga. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í 28. gr. stjórnarskrárinnar er forseta gefin heimild til útgáfu bráðabirgðalaga. Þar kemur orðið ,,nauðsyn`` fyrir í síðara sinnið í stjórnarskránni [en áður var tiltekið að orðið nauðsyn kæmi tvisvar fyrir í stjórnarskránni]:
    ,,Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög milli þinga. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir næsta Alþingi á eftir.
    Nú samþykkir Alþingi ekki bráðabirgðalög, og falla þau þá úr gildi.
    Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþykkt fjárlög fyrir fjárhagstímabilið.``
    Eðlilega er ekki látið nægja að nauðsynina eina þurfi til að gefa út bráðabirgðalög. Til þess þarf að vera brýn nauðsyn. Ástæðan er augljós. Alþingi er aðalhandhafi löggjafarvaldsins. Þegar það er ekki að störfum og eitthvað ber upp á má kalla það saman til aukafundar ef það þykir nauðsynlegt. Ekkert nema brýn nauðsyn réttlætir að Alþingi sé ekki kallað saman til þess að sinna löggjafarvaldi sínu. Setning laga annars staðar en á Alþingi er réttlætanleg undir vissum kringumstæðum. Þær kringumstæður gætu t.d. verið ef ríkisvaldið þarf að verja sjálft sig eða þegna ríkisins fyrir ófyrirséðri skyndilegri aðsteðjandi hættu eða árás. Að taka það til bragðs að setja lög án þess að Alþingi komi þar við sögu á að sjálfsögðu að vera algjör undantekning og neyðarúrræði. Hún er í eðli sínu gerræðisleg og hefur þess vegna í för með sér hættu á pólitískri spillingu valdhafa og pólitískri misbeitingu valds. Með setningu bráðabirgðalaga kemur fram ótvíræður yfirgangur ríkisvaldsins og átroðningur á grundvallarreglum í samskiptum ríkisvaldsins innbyrðis og ríkisvaldsins og þegnanna. Túlkun og meðferð þessa ákvæðis stjórnarskrárinnar er því það sem mestu varðar.``
    Ég vil nefna það hér að það kemur fram í þessari grein að bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar, sem sett voru í maí sl., voru þau 253. í röðinni frá lýðveldisstofnuninni. Ég vitna í það sem Ólafur Jóhannesson segir í bókinni ,,Stjórnskipun Íslands``, með leyfi forseta. ,,Hin tíða útgáfa`` --- því að ég vil einmitt víkja að því, hæstv. forseti, hér er um að ræða grundvallaratriði og það er kannski aldrei betri tími til þess að ræða grundvallaratriði í samskiptum þingmanna, löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, en einmitt þegar framkvæmdarvaldið hefur e.t.v. ekki þennan sjálfsagða og sjálfskipaða meiri hluta í þinginu sem það vanalega hefur. Það gæti verið að það mundi aðeins hlusta betur.
    ,,Hin tíða útgáfa,,, segir Ólafur Jóhannesson, ,,bráðabirgðalaga á síðari árum ber því vitni að skilyrði stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn hafi ekki ætíð verið stranglega túlkuð. Sú framkvæmd hefur samt eigi leitt til neinna verulegra árekstra milli þings

og stjórnar, enda eru bráðabirgðalögin sett í samráði við þingmenn eða þann þingmeirihluta sem stjórnin styðst við eða stundum samkvæmt ályktun eða áskorun Alþingis eða meiri hluta þingmanna. Og þegar ríkisstjórn hefur þótt mikið við þurfa mun hún oftast fyrir fram hafa tryggt sér nægan þingstuðning við bráðabirgðalögin.``
    Í fyrrnefndri grein segir síðan:
    ,,Útgáfa bráðabirgðalaga er ólýðræðisleg og óþingræðisleg þótt hún geti verið réttlætanleg í undantekningartilvikum. Hún er ólýðræðisleg um leið og hún er óþingræðisleg vegna þess að fulltrúar kosnir á löggjafarsamkomu fá ekki tækifæri til þess með rökræðum að greina, nálgast og hafa áhrif á hvað sé réttlát niðurstaða. En þetta er grundvallarregla lýðræðis. Þótt það sé ekki stjórnarskrárbundið að okkur beri að vinna samkvæmt leikreglum lýðræðisins, þá teljum við okkur samt í hópi þeirra ríkja sem hafa lýðræði í hávegum. Útgáfa bráðabirgðalaga er óþingræðisleg vegna þess að jafnmikilvæg ákvörðun og setning laga fer fram þegar Alþingi, aðalhandhafi löggjafarvaldsins, getur ekki framfylgt frumskyldum sínum að setja lög og hafa eftirlit með gerðum ríkisstjórnarinnar og veita henni aðhald. Meirihlutastuðningur þingmanna við setningu bráðabirgðalaga getur engan veginn talist réttlæta setningu þeirra frekar en þótt einskis stuðnings væri leitað við þau. Meirihlutastuðningur við tiltekna aðgerð er ekki endilega mælikvarði á að lýðræðislega hafi verið staðið að verki.``
    Mig langar til þess að vitna hér í það sem danskur fræðimaður að nafni Hal Kock hefur skýrt frá í bók sem heitir ,,Hvað er lýðræði?`` og kom reyndar út árið 1946. Þar fannst mér ég lesa það sem ég oft hef fundið sjálf þegar ég sit hér á þingi. Ég þarf einmitt að svara því í stuttu viðtali hvað mér hafi þótt neikvætt við það að vinna í pólitíkinni og vinna þingstörfin og hvað hafi komið mér á óvart. Eitt af því sem hefur komið mér á óvart og eitt af því sem mér hefur líkað illa er nákvæmlega það sem þessi fræðimaður lýsir. Ég ætla að lesa fyrir ykkur þá lýsingu, hv. þm., með leyfi forseta:
    ,,Í byggðarlagi nokkru er sóknarnefnd sem skiptist í meiri hluta þar sem eru sjö nefndarmenn og minni hlutann sem er skipaður fjórum nefndarmönnum. Meiri hlutinn er þannig öruggur og engin ástæða til að ætla að á því verði breyting á næstu árum.
    Á sóknarnefndarfundum gerist það mjög oft að meiri hlutinn fylgir úr hlaði með örfáum orðum tillögu sem þeir hafa áður komið sér saman um að flytja. Því næst fær minni hlutinn orðið. Sóknarnefndin er lýðræðisleg samkoma. Þau í minni hlutanum tala langt mál og stundum vel rökstutt sem sýnir fram á erfiðleikana sem fylgja málefninu. Á meðan minni hlutinn flytur mál sitt getur enginn áttað sig á því hvort meiri hlutinn hlustar eða sefur, en við verðum að gera ráð fyrir því fyrrnefnda.
    Þegar minni hlutinn hefur gert grein fyrir athugasemdum sínum getur verið að formaðurinn segi okkur orð. Hann er gjarnan hvassyrtur. Það hefur ekki

liðið langur tími þangað til meiri hlutinn leggur til að nú skuli gengið til atkvæða. Frekari umræður eru vanalega ekki taldar nauðsynlegar. Þær eru það heldur ekki. Meiri hlutinn hefur gert út um málið áður en kom til fundarins og lætur sig andstæðingana engu varða og heldur ekki sjónarmið þeirra.
    En sóknarnefndarfundinum lýkur alltaf með góðri, lýðræðislegri atkvæðagreiðslu þar sem atkvæðin falla sjö á móti fjórum svo merkilegt sem það nú er. Eftir þetta snýr sér hver að sínu fullviss um að unnið hafi verið lýðræðislega.
    Höfðu ekki allir málfrelsi? Var málið ekki leitt til lykta með atkvæðagreiðslu og réði meiri hlutinn ekki? Hvað vilja menn meira? Allir verða yfir sig hlessa. Sennilega kemur það minni hlutanum skemmtilega á óvart að heyra fullyrt að þetta háttalag sé í hæsta máta ólýðræðislegt.``
    Ég vil nefna það líka að á síðustu tíu árum hafa þrisvar sinnum verið sett almenn lög og sex sinnum bráðabirgðalög um kjaraskerðingu með því að ógilda samninga og þá eru ekki talin með lög sem er stefnt gegn aðgerðum ákveðinna verkalýðsfélaga. Ég ætla ekki að lengja mál mitt hér nú með því að lesa nánar úr þessari grein þó það hefði einmitt verið mjög áhugavert, en vildi benda hv. þm. á hana vegna þess að hún er umhugsunarverð. Ég mundi vilja ráðleggja hv. þm. að lesa þessa grein. ( Gripið fram í: Og kaupa Rétt.) Jafnvel, annars fæst þetta á bókasafninu. (Gripið fram í.) Nei, ég veit ekki um það. Ég hvet engan til að kaupa eitt eða neitt, en þeir geta fengið ljósrit af þessu á bókasafninu.
    Áður en ég vík nánar að frv. langar mig að spyrja bæði hæstv. forsrh. og líka hæstv. menntmrh. sem hér situr: Hvernig geta þingmenn og launþegar treyst því að í febrúar eða mars verði ekki sett önnur lög, jafnvel bráðabirgðalög, sem framlengja afnám samningsréttar og afnema lögbundna launahækkun, umsamda launahækkun? Hvernig getum við treyst því þó að því hafi verið lofað að svo verði ekki?
    Þær aðgerðir sem frv. boðar víkja að úrbótum á því ástandi atvinnulífsins sem ég vék lítillega að áðan og vissulega er þar úrbóta þörf. Þar fjalla nokkrar fyrstu greinarnar einmitt um úrræði eins og t.d. það sem er bundið við Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir mun víkja nánar að á eftir. Ég lýsi samt yfir efasemdum mínum og áhyggjum yfir því að fé sem á að vera framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs skuli vera svo frjálslega tekið þegar menn einmitt tala um og óttast að við blasi
atvinnuleysi, vaxandi atvinnuleysi. Hvernig geta þeir verið svo vissir um að Atvinnuleysistryggingasjóður þurfi ekki einmitt núna á öllu sínu fé að halda? Ég mundi hafa miklar áhyggjur af stöðu þess sjóðs í framtíðinni og það í náinni framtíð.
    Í 12. gr. sem fjallar um verðlags- og kjaramál segir í síðustu málsgreininni, með leyfi hæstv. forseta: ,,Frekari hækkun launa, kjaratengdra liða og hvers konar endurgjalds fyrir unnin störf en kveðið er á um

í þessari grein er óheimil til 15. febr. 1989.`` Hvernig er hægt að fylgjast með þessu, að staðið verði við þessi ákvæði, t.d. úti í einkageiranum, á vinnumarkaðnum? Hvernig er hægt að fylgjast með því að það verði ekki í raun og veru ævinlega höggvið í sama knérunn, að það fólk sem hefur kauptaxta sem vitað er um, og margir þeirra lægstu launin, verði fyrir stöðvun launahækkana og verði í raun látið borga eins og svo oft áður fyrir þau mistök sem gerð hafa verið í atvinnuvegunum? Það eru ýmis atriði í frv. sem kvennalistakonur geta tekið undir og verið sammála. Við erum sammála því að dráttarvextir skuli reiknast sem dagvextir, einnig ýmsu öðru í sambandi við vaxtaákvarðanir. En hvers vegna kemur hér ekkert af því sem Alþb. talaði svo fjálglega um? Hv. formaður þess, Ólafur Ragnar Grímsson, talaði um að Alþb. gæti vel hugsað sér að viðra hugmyndir sínar við aðra flokka að afloknum kosningum. Hvers vegna kemur ekki meira af þeim inn í þessi bráðabirgðalög sem eiga að taka til fyrstu aðgerða? Öll þau fögru loforð um það hvar átti að sækja féð og hverjir áttu í raun að standa undir og greiða óráðsíukostnaðinn eins og hann er svo oft nefndur?
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri nú, en eins og ég sagði áður mun hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir víkja nánar að þessum aðgerðum og frv. sem hér liggur fyrir. Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.