Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Mér hefur borist svohljóðandi bréf:
    ,,Þar sem ég er á förum til útlanda og get því ekki sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess að 1. varamaður Alþb. í Reykjaneskjördæmi, Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.
Geir Gunnarsson,

5. þm. Reykn.``

    Ólafur Ragnar Grímsson hefur áður setið á þingi og tekur hann hér með sæti Geirs Gunnarssonar.
    Mér hefur borist svohljóðandi bréf frá formanni þingflokks Alþfl.:
    ,,Við uppstillingu til nefndarkjörs sl. miðvikudag víxluðust nöfn hv. þm. Árna Gunnarssonar og Jóns Sæmundar Sigurjónssonar í sjútvn. og landbn. Óskað er eftir því að þetta verði leiðrétt þannig að Árni Gunnarsson taki sæti í sjútvn. en Jón Sæmundur Sigurjónsson í landbn.``
    Ég lít á þetta sem ósk um mannaskipti í nefndum sem er heimilt skv. 7. mgr. 15. gr. þingskapa og tilkynnist því þessi breyting deildinni.
    Til forseta hefur borist ósk um að fram fari umræður utan dagskrár í deildinni skv. 32. gr. þingskapa um umræður í Sþ. er taki hálfa klukkustund. Fyrir því eru fordæmi að slíkar umræður séu leyfðar í deildum og hef ég fyrir mitt leyti fallist á að slík umræða geti hér farið fram og þá um það bil kl. hálffjögur. Umræðuefnið er yfirlýsing hæstv. fjmrh., Ólafs Ragnars Grímssonar, um viðskilnað ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar.
    Í annan stað vil ég taka fram að eins og deildinni er kunnugt var hér fyrirhugaður deildarfundur á morgun og forseti hafði tilkynnt einum þm., varaþm., að á þessum deildarfundi, sem átti að fara fram á morgun, mundi hann væntanlega geta mælt fyrir sínu máli. Nú hefur þetta breyst þannig að ekki verða deildafundir á morgun heldur fundir í Sþ. Til þess að forseti geti engu að síður staðið við það loforð sitt að hv. þm. fái að mæla fyrir málinu, og með tilliti til þess að hér er um breyttar aðstæður að ræða, hafði ég hugsað mér að að loknum fundi og utandagskrárumræðum yrði settur annar fundur til þess að hv. varaþm. gæti þá mælt fyrir máli sínu, en sá hv. þm. er Lára V. Júlíusdóttir, sem bara situr þessa viku á þingi.
    Vænti ég þá að skýrt sé hvernig ég hyggst haga fundahöldum í dag, en vitaskuld er síðari fundurinn háður því að útbýtt hafi verið viðkomandi þskj. sem mun vera um það bil lokið að ganga frá.