Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Herra forseti. Það má segja um þessa fyrstu för formanns Sjálfstfl. í ræðustólinn eftir að ný stjórn hefur tekið við að lengi getur smár smækkað. Það var greinilegt að tilefnið til þessarar ferðar hingað í ræðustólinn var ekki að spyrja mig eða leita upplýsinga fyrst og fremst heldur eingöngu að reyna að koma höggi á fyrrv. samstarfsmann sinn, núv. hæstv. utanrrh. Hann er hins vegar fjarverandi og hefur ekki tækifæri til þess að taka þátt í þessum umræðum nú, en eins og kom fram áðan í upphafi umræðunnar lagði hv. þm. Þorsteinn Pálsson ofurkapp á það að þessi umræða gæti farið fram nú áður en hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson kæmi til landsins. Það veit alþjóð að hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefur átt í deilum við formann Alþfl. um ýmis málefni sem lesa má um í blöðunum og var greinilegt að þessi ræða var framhald af þeim deilum og þess vegna með vissum hætti misnotkun á rétti þingmanna til þess að fara upp utan dagskrár af brýnu tilefni og biðja um upplýsingar. Þar að auki er rétt að vekja athygli hv. þm. Þorsteins Pálssonar á því að nú sem áður ber forsrh. hverrar ríkisstjórnar höfuðábyrgð á þeirri ríkisstjórn. Það gerir hann stjórnskipulega séð og pólitískt. Það er fólgið í verkstjórn hans og forustuhlutverki og þeirri stöðu sem forseti lýðveldisins fær honum með því að fela honum að mynda ríkisstjórnina. Þess vegna mun það lítt duga fyrir Þorstein Pálsson nú eða í framtíðinni að reyna að skjóta sér undan því sem misfarist hefur í hans forsætisráðherratíð og í verkum hans ríkisstjórnar sem hann átti að stjórna. Það er kjarni málsins sem rétt er að allir hafi í huga og hann einnig.
    Fyrir rúmu ári efndi ég til utandagskrárumræðu hér vegna gengisstefnu ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Þá lýsti hv. þm., þáv. forsrh., Þorsteinn Pálsson því yfir að grundvallaratriði væri fastgengisstefna þeirrar ríkisstjórnar. Frá því var horfið hvað eftir annað eins og menn vita og það er meðal annars ein af orsökum þess vanda sem við er að glíma.
    Vegna þeirra fáeinu orða sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson hafði hér í lok sinnar ræðu, þar sem hann bar fram fsp. til mín, vil ég segja þetta:
    Það er ljóst að afkoma í ríkisfjármálunum á þessu ári verður mun lakari en talið var um miðbik eða upphaf ársins. Það stafar m.a. af breyttum stærðum í efnahagslífinu sem voru afleiðingar þeirrar stefnu sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar flutti en ekki af verkstjórninni í fjmrn., hv. þm. Þorsteinn Pálsson, ekki af þeim sökum.
    Ég mun á næstu dögum gera nánari grein fyrir því hvaða tölur er hér um að ræða, þær liggja ekki fyrir í endanlegri mynd, en mun greina frá þeim þegar ljóst er hvaða stærðir er hér um að ræða.