Jöfnun á námskostnaði
Miðvikudaginn 19. október 1988

     Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um endurskoðun laga nr. 69/1972, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Flm. með þeirri sem þetta talar eru Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir. Þá ætla ég að leyfa mér að lesa þáltill.:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að láta hraða endurskoðun laga nr. 69/1972, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Endurskoðun þessi taki m.a. mið af þörfum þeirra sem eru ofan við skólaskyldualdur en hafa ekki lokið grunnskólanámi, sem og því að mikill fjöldi nemenda stundar nú nám í öldungadeildum og ættu að eiga rétt á styrkjum.``
    Lög þau er sett voru árið 1972 um ráðstafanir til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum voru til mikilla bóta á sínum tíma, en þau eru 16 ára nú og mikið hefur breyst í íslensku þjóðlífi og skólakerfi síðan. Þá var tímabil öldungadeildanna rétt að hefjast og lögin tóku því engin mið af þörfum öldungadeildafólks, hvað þá þeirra sem þurfa að hefja nám neðar í námsstiganum. Frá árinu 1945 hefur skólaskylda tvívegis verið lengd um eitt ár og er nú níu ár sem kunnugt er. Það gefur auga leið að fólk sem hætti skólagöngu eftir skyldunám 13 ára eða jafnvel 12 ára við barnapróf hefur tæplega staðið jafnfætis þeim sem lokið hafa skólaskyldunámi auk þess sem ýmsir heltast úr námi áður en þeir hafa lokið skyldunni sem kallað er. Þegar þetta fólk snýr sér aftur að skólanámi þarf það í mörgum tilvikum að byrja neðar en á framhaldsskólastigi ef það ætlar að fá grunn að byggja framhaldsnám á. Því ætti einnig að miða lögin við að fullorðnir, þ.e. 18 ára og eldri, geti hlotið styrk samkvæmt þeim. Svo er ekki um gömlu lögin og þess er vænst að tillit verði tekið til þessa við endurskoðun þessara laga.
    Í annan stað gera lögin ekki ráð fyrir því að nemendur vinni að staðaldri með náminu. Staðreyndir í dag eru þær að fjöldi nemenda, ekki síst þeir sem þurfa að sækja nám fjarri heimili sínu, verða að vinna með náminu ellegar hætta því. Þetta á ekki síst við um stúlkur sem hafa miklu lægri laun í sumarvinnu --- og vetrarvinnu auðvitað líka en piltar og það mál út af fyrir sig er alvarleg mismunun á aðstöðu pilta og stúlkna til náms.
    Það er von okkar, sem þessa þáltill. flytjum, að endurskoðun þessara laga stuðli að því að hægt verði að létta nemendum, og þá ekki síst stúlkum sem sækja þurfa nám langt að, skólaútgjöldin. En til þess að svo megi verða þarf að auka mjög fjárframlög til verkefnisins, en framlögin hafa rýrnað að raungildi á undanförnum árum.
    Á síðasta þingi kom fram í skýrslu þáv. menntmrh. Birgis Ísl. Gunnarssonar til Alþingis að nefnd væri að vinna að endurskoðun laganna og ber brýna nauðsyn til að verkinu verði lokið svo að Alþingi geti fjallað um endurskoðunina og lögin geti tekið gildi hið

fyrsta.
    Frú forseti. Ég legg til að að þessari umræðu lokinni verði tillögunni vísað til síðari umr. og félmn.