Frumvarp um efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa kallað á fundarsköp en nú halda umræður áfram í Nd. og ég held að nauðsynlegt sé líka að hægt sé að halda áfram umræðum um frv. sem hér liggur fyrir. Því hefur þegar verið lýst yfir af tveim þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þeir séu ósammála þýðingarmiklum atriðum í þessu frv. og ég held af þeim sökum og þó ekki komi annað til að nauðsynlegt sé að málið komi til þingnefndar.
    Ég vil einnig vekja athygli á því, herra forseti, að ýmsir ráðherrar hafa látið stóryrði flakka í sambandi við hlutverk Atvinnutryggingarsjóðs sem nauðsynlegt er að bera undir hæstv. forsrh. nú þegar og get raunar ekki skilið annað en það hljóti að vera hæstv. forsrh. jafnmikið áhugamál og stjórnarandstöðunni að málið fái greiðan gang í þinginu. Ég skildi hæstv. forseta svo að það hefði verið samkomulag gert um að fundur héldi áfram í Nd. klukkan hálfsex og hlaut að skilja það svo að hugmyndin væri einnig að halda umræðum áfram í þessari deild. Ég fékk ekki svör við mörgum þýðingarmiklum spurningum sem ég varpaði til hæstv. forsrh. í minni ræðu og vil gjarnan fá tækifæri til þess nú að ítreka þær spurningar, þó ekki væri til annars en honum gæfist tími til að velta þeim fyrir sér þangað til málið kemur næst á dagskrá. En ég vil sem sagt leggja áherslu á þetta. Í fyrsta lagi: Tveir hv. þm., sem telja sig fylgja núv. ríkisstjórn, annar sagði að vísu að það yrði að gera meira en gott þætti, hafa lýst sig andvíga þýðingarmiklum atriðum í þessu frv. Í öðru lagi: Það liggur ekki fyrir hvort frv. hefur nægan stuðning í þinginu til þess að úr því fáist skorið hvort einstök atriði þess nái fram að ganga. Og í þriðja lagi: Allar umræður hér verða mjög sundurslitnar og ómarkvissar ef við verðum undir því að búa að tveir, þrír, fjórir þm. fái að tala hverju sinni og svo einn ráðherra eftir smekk. Við getum ekki haldið umræðum áfram í samhengi þannig að mönnum sé í fersku minni hvaða orð féllu við umræðuna síðast, ég tala ekki um þegar vika eða margir dagar hafa liðið síðan málið var áður á dagskrá. Ég vil því ítreka, herra forseti, að ég vonast til þess að umræðan geti haldið áfram nú, það er nægur tími fram að kvöldmat og fram eftir kvöldi ef þörf krefur og algjörlega ástæðulaust, algjörlega ástæðulaust að klippa á umræðuna á þessu stigi.