Mengunarvarnir hjá Íslenska álfélaginu hf.
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristín Einarsdóttir hefur borið fram til mín fsp. um mengunarvarnir hjá Íslenska álfélaginu hf. í þremur liðum og er í fyrsta lagi spurt: ,,Í hvaða atriðum er mengunarvörnum ábótavant hjá Íslenska álfélaginu hf.?``
    Það eru einkum tveir þættir sem huga þarf að varðandi mengunarvarnir hjá Íslenska álfélaginu hf., þ.e. annars vegar loftmengun og hins vegar förgun. Hvað snertir loftmengunarvarnir hafa þær ekki virkað sem skyldi að því er lýtur að flúoríðmengun. Mengunarmælingar sem framkvæmdar voru árið 1986 á vegum Hollustuverndar ríkisins og Ísals og mengunarmælingar á vegum Ísals á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs hafa sýnt að mengunarvarnabúnaður sem settur var upp á árinu 1982 skilar ekki þeim árangri sem hann gerði í byrjun. Það er skoðun Hollustuverndar ríkisins að ástæðunnar sé fyrst og fremst að leita í því að of lítið hafi verið lagt í eftirlit og viðhald með búnaðinum. Mengun frá kerskálum mældist mjög mikil í áðurnefndum mælingum. Ástæðan var sú að óeðlilega mikið var um að ker stæðu opin þannig að mengað loft fór óhreinsað út um kerskálaþök. Í þessu tilviki var um að ræða gölluð skaut þannig að forsvarsmenn verksmiðjunnar töldu sig verða að hafa kerin opin. Því var heitið af hálfu fyrirtækisins að búið yrði að leysa þessi mál fyrir um ári. Samkvæmt upplýsingum Hollustuverndar ríkisins virðist ekki enn búið að leysa vandann þrátt fyrir slíkar yfirlýsingar.
    Hvað snertir rykmengun hafa mengunarvarnir ekki virkað sem skyldi. Þó hefur ástandið batnað verulega í þurrhreinsistöðvunum. Áðurnefndar mengunarmælingar, sem fram fóru árið 1986, sýndu að rykmengun frá þurrhreinsistöðvum var óeðlilega mikil. Mengunina mátti rekja til bilana sem aftur mátti rekja til lélegs eftirlits og viðhalds. Samkvæmt síðari mælingum virðist búið að ráða bót á þessum vanda. Það gefur auga leið að þegar mengað loft á greiða leið út um skálarjáfur vegna þess að ker standa opin mælist mikil rykmengun, sbr. mælingarnar sem áttu sér stað 1986, þannig að það segir ekki allt um virkni hreinsibúnaðar.
    Engin hreinsun er á brennisteinsdíoxíði í útblásturslofti og hefur ekki verið sett fram sérstök krafa um hreinsun á slíku af hálfu yfirvalda.
    Ef vikið er að förgun á kerbrotum og kerum fer hún fram í flæðigryfjum í sjávarmáli. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við förgunarstað af hálfu Hollustuverndar ríkisins, enda tíðkast þessi förgunaraðferð í nágrannalöndunum. Hins vegar hlýtur að koma til álita að endurnýta hluta af þessum úrgangi.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hvernig ætla stjórnvöld að tryggja að fyrirtækið geri viðunandi úrbætur vegna mengunar?``
    Til þess að bæta ástand mengunarmála álversins í Straumsvík þarf öflugt eftirlit með fyrirtækinu. Er þar bæði átt við innra eftirlit sjálfs fyrirtækisins sem og

eftirlit utanaðkomandi aðila, þ.e. Hollustuverndar ríkisins og Vinnueftirlits ríkisins. Til þess að ná þessu fram þarf fyrirtækið að uppfylla hliðstæðar kröfur og gerðar eru til sambærilegra fyrirtækja, jafnt hér á landi sem og í nágrannalöndunum, þar sem fram koma ákveðnar kröfur um mengunarvarnir, mengunarvarnabúnað, útblástursmörk og reglur um eftirlit með mengunarvarnabúnaði. Enn fremur virðist augljóst að koma þurfi í veg fyrir að notað sé það lélegt hráefni að mengunarvarnabúnaður komi ekki að notum, þ.e. það virðist vera ástæða til að taka upp sérstakt eftirlit með gæðum hráefnisins af hálfu mengunaryfirvalda.
    Um framgang málsins vísast til næsta svars, en þar er spurt: ,,Hvers vegna er fyrirtækinu ekki gert að sækja um starfsleyfi eins og öðrum fyrirtækjum hér á landi sem geta valdið mengun?``
    Það er ekkert launungarmál að ágreiningur hefur verið milli heilbr.- og trmrn. og stjórnenda Ísals um annars vegar túlkun á aðalsamningi og hins vegar um gildi íslenskra mengunarvarnalaga gagnvart álverinu. Það er álit Íslenska álfélagsins að starfsleyfi verksmiðjunnar felist tvímælalaust í aðalsamningnum sem hlaut lagagildi með lögum nr. 76/1966 og að síðar tilkomin lög um mengunarvarnir hér á landi breyti engu þar um. Iðnrn. hefur verið sömu skoðunar. Þannig hafa hvorki Íslenska álfélagið né iðnrn. fallist á þau sjónarmið heilbr.- og trmrn. og Hollustuverndar ríkisins að Álfélaginu beri að sækja um sérstakt starfsleyfi í samræmi við reglugerð nr. 390/1985, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur valdið mengun, sem byggð er á 3. gr. laga nr. 109/1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. lög nr. 81/1988. Í raun hefur þessi ágreiningur varað allt frá árinu 1972 þegar fyrstu reglur voru settar til að sporna gegn mengun af völdum iðnaðar hér á landi.
    Á sl. sumri urðu nokkrar umræður um gildi aðalsamningsins og íslenskra mengunarvarnalaga varðandi álverið í Straumsvík. Heilbr.- og trmrn. mat stöðuna svo eftir að hafa fengið niðurstöður mælinga Hollustuverndar ríkisins að vinna yrði að lausn málsins þannig að raunhæfar úrbætur næðu fram að ganga og að slíkt yrði greinilega að gerast í nánu samráði við iðnrn. sem fer með
yfirstjórn málefna álversins innan íslenska stjórnkerfisins. Var því ákveðið að setja áðurnefndan ágreining til hliðar og var gert sérstakt samkomulag milli heilbr.- og trmrh. og iðnrh. á sl. sumri um að reyna að vinna að lausn málsins þannig að lausn fyndist innan ramma 12. gr. aðalsamningsins, en þó þannig að allar ráðstafanir yrðu gerðar til að draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði, eins og segir í samkomulaginu.
    Sem stendur vinnur Hollustuvernd ríkisins að tillögum um mengunarvarnir í álverinu og er reiknað með að þær verði lagðar fram í þessum eða næsta mánuði og að þeim fengnum setjist starfsmenn ráðuneytanna beggja, álversins og Hollustuverndar niður og finni frambúðarlausn á málinu.

Meginmarkmiðið hlýtur að vera það að forráðamenn Ísals fallist á að þeir þurfi að gera sömu ráðstafanir til mengunarvarna og annar hliðstæður atvinnurekstur í nágrannalöndunum. Náist ekki samkomulag um lausn með þessum hætti verður að taka málið upp að nýju milli ráðuneytanna.
    Það verður að viðurkennast að mengunarmálefni álversins eru í nokkru ósamræmi við þau lög og reglugerðir sem í dag gilda um mengunarmál, enda ber þess að geta að þegar aðalsamningurinn hlaut lagagildi með lögum nr. 96/1966 var lítið um mengunarmál fjallað, enda tíðarandinn annar en nú. Því síður var fjallað um eftirlit með mengunarvörnum, hvað þá mengunarvarnabúnað í einstökum atriðum. Samningurinn var því á vissan hátt barn síns tíma hvað snertir umhverfismál, en þó með þeim varnagla að skírskotað er til góðrar venju í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Gerð er krafa um starfsleyfi fyrir slíkan iðnað í öllum nágrannalöndunum þannig að heilbr.- og trmrn. hefur talið að þetta ákvæði styðji kröfuna um sérstakt starfsleyfi hér á landi á sama hátt. Á það hefur hins vegar ekki verið fallist af þeim aðilum sem áður eru greindir. Vonandi munu viðræður þær sem fram fara á næstunni og áður er getið leiða til niðurstöðu sem málsaðilar geta verið bærilega sáttir við.