Afkoma ríkissjóðs á árinu 1988
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Fyrir nokkru síðan var þess óskað hér á hv. Alþingi að gerð yrði grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1988. Þegar sú ósk var sett fram lágu ekki fyrir nægilega ítarlegar upplýsingar um niðurstöðuna af fyrstu níu mánuðum þessa árs, né heldur mat á því hvernig horfurnar væru fyrir árið í heild á grundvelli þessarar þróunar. Þessar upplýsingar lágu hins vegar fyrir seinni partinn í síðustu viku og ég óskaði þess vegna eftir því við virðulegan forseta að fá tækifæri til þess á fyrsta fundardegi í Sþ. að gera grein fyrir þessum upplýsingum. Ég taldi mjög nauðsynlegt að Alþingi fengi þessar upplýsingar jafnfljótt og þær lægju fyrir hjá öðrum aðilum. Mér var þá ekki kunnugt um að hv. þm. Þorsteinn Pálsson, sem óskaði eftir þessum upplýsingum sérstaklega hér í utandagskrárumræðu fyrir nokkru síðan, yrði fjarverandi vegna skuldbindinga í sínu kjördæmi. Mér þykir á vissan hátt leitt að svo skuli vera og velti því fyrir mér hvort bíða ætti með þessa umræðu vegna fjarvista hans. En þar eð allmargir dagar eru þar til annað tækifæri kynni að gefast og þá varla fyrr en nýtt fjárlagafrv. lægi fyrir á hv. Alþingi þótti mér engu að síður rétt að gera grein fyrir þessum upplýsingum hér í dag þótt ég vilji láta það fram koma að mér þykir leitt að tilviljanir og skortur á upplýsingum hafi kannski valdið því að það þarf að gerast með þessum hætti. Ég vona hins vegar engu að síður að þessar upplýsingar komi hv. alþm. að gagni og sú umræða sem menn telja nauðsynlega geti farið fram um þær engu að síður.
    Virðulegi forseti. Fyrstu níu mánuði þessa árs var rekstrarafkoma ríkissjóðs neikvæð um 5250 millj. kr., en það er mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir að yrði á þessum hluta ársins. Helstu skýringar á þessu fráviki eru að verulegur samdráttur hefur orðið í tekjum af veltusköttum, einkum á síðustu fjórum til fimm mánuðum. Þannig urðu heildartekjurnar 1 milljarði 580 millj. kr. lægri en áætlað hafði verið í endurskoðaðri greiðsluáætlun í júní. Á gjaldahlið eru frávikin hins vegar minni, eða tæplega 500 millj. kr. Þyngst vegur þar hækkun vaxtagjalda af yfirdrætti í Seðlabanka sem að stærstum hluta má rekja til samdráttar í tekjum.
    Tekjur ríkissjóðs á tímabilinu janúar til september á þessu ári urðu í reynd 45 milljarðar 802 millj. kr. en gjöldin 51 milljarður 54 millj. kr. Það er greiðsluafkoma, eins og að framan greinir, á neikvæðan hátt um rúma 5 milljarða, 5252 millj. kr. Hreyfing lána er í mínus um 1 milljarð 669 millj. kr. og heildarniðurstaða neikvæðrar greiðsluafkomu er tæpir 7 milljarðar eða 6921 millj. kr.
    Á lánahlið fjárlaga var á þessum tíma eins og að framan greinir halli að fjárhæð tæplega 1670 millj. kr. samanborið við 290 millj. kr. í júníáætlun. Þessi frávik koma að mestu leyti fram á innlendri fjáröflun sem var tæpum 1200 millj. kr. undir áætlun. Þannig er innlausn spariskírteina 330 millj. kr. meiri en áætlað var og sala spariskírteina og fjáröflun bankakerfisins um 850 millj. kr. lægri en áætlað var.

Samanlagður rekstrarhalli og halli á lánahlið felur þess vegna í sér eins og ég greindi frá að greiðsluafkoma ríkissjóðs á fyrstu níu mánuðum ársins var neikvæð um 6920 millj. kr. sem nemur 15% af tekjum. Áætlanir í júní gerðu ráð fyrir að greiðsluhallinn væri á sama tíma tæplega 3500 millj. kr.
    Þær tekjur sem ríkissjóður hafði á tímabilinu janúar til september á þessu ári voru u.þ.b. 1 1 / 2 milljarði kr. lægri en gert hafði verið ráð fyrir í júníáætlun sem er um 3% frávik. Skýring þessarar þróunar er í meginatriðum tvíþætt.
    Í fyrsta lagi eru innheimtar tekjur af aðflutningsgjöldum hálfum milljarði kr. lægri en reiknað hafði verið með. Þar kemur tvennt til. Annars vegar samdráttur í vöruinnflutningi og hins vegar óvissan sem skapaðist um áhrifin af upptöku nýrrar tollskrár um síðustu áramót. En í ljós hefur komið að þau eru ríkissjóði mjög í óhag.
    Í öðru lagi er innheimta söluskattstekna tæplega 900 millj. kr. undir áætlun. Þessarar þróunar tók að gæta þegar á öðrum ársfjórðungi eins og fram kemur í veltutölum og hefur farið stigvaxandi síðan. Erfitt er að leggja nákvæmt mat á þessi samdráttaráhrif þar sem samanburður milli ára skekkist vegna þeirrar breikkunar á söluskattsstofni frá því í fyrra.
    Þá má benda á að fyrstu níu mánuði þessa árs er innheimta tekju- og eignarskatta heldur lakari en búist hafði verið við. Hér skiptir þó í tvö horn. Innheimtan á tekjusköttum einstaklinga er heldur betri en áætlað var, en innheimta eignarskatta að sama skapi lakari. Samanlagt hækkuðu innheimtar tekjur ríkissjóðs um 36% fyrstu níu mánuði ársins miðað við sömu mánuði í fyrra. Að teknu tilliti til almennra verðbreytinga nemur raunhækkunin um 8 1 / 2 %. Þar vega þyngst auknar tekjur af söluskatti en sú aukning skýrist fyrst og fremst af því að nú er söluskattur innheimtur af mun breiðari stofni en áður. Að því frátöldu hafa söluskattstekjur hins vegar dregist saman um 4% að raungildi frá sama tíma í fyrra en það endurspeglar glögglega almennan samdrátt í þjóðarbúskapnun síðustu mánuði.
    Tekjur af aðflutningsgjöldum hafa dregist saman um þriðjung að raungildi
frá fyrra ári sem er heldur meira en búist var við í kjölfar tollalækkunar og breytinga á vörugjaldi um síðustu áramót. Hins vegar hafa aðrir skattar hækkað talsvert umfram almennar verðlagsbreytingar. Sá samdráttur sem orðið hefur á tekjuhlið fjárlaga fyrstu níu mánuði þessa árs hefur að sjálfsögðu kollvarpað fyrri áætlunum fyrir árið í heild. Að öllu samanlögðu er nú gert ráð fyrir að innheimtar tekjur ríkissjóðs verði um 66 1 / 2 milljarður kr. í ár.
    Frávikið frá fyrri áætlunum er verulegt, einkum í söluskatti og aðflutningsgjöldum, en þeir eru nú taldir skila 2000 millj. kr. minni tekjum en áætlað var í júní. Samdráttaráhrifin í veltusköttum koma enn greinilegar í ljós með samanburði við fjárlagatölur. Miðað við óbreyttar veltuforsendur hefði mátt búast við að óbeinu skattarnir skiluðu rúmlega 55 milljörðum kr. á árinu öllu. Samkvæmt endurskoðaðri

áætlun er hins vegar gert ráð fyrir að veltuskattarnir skili aðeins 52 1 / 2 milljarði, eða um 2500 millj. kr. lægri fjárhæð. Þetta svarar til u.þ.b. 4% af heildartekjum ríkissjóðs.
    Útgjöld ríkissjóðs fyrstu níu mánuði ársins námu alls 50 milljörðum 581 millj. kr. Samanburður á rauntölum og endurskoðaðri greiðsluáætlun í júní sýnir að útgreiðslur eru 470 millj. kr. umfram áætlun. Auk þess eru enn ógreiddar til ýmissa verkefna 400 millj. kr. Af einstökum liðum sem eru umfram áætlun má nefna vaxtagjöld sem urðu 480 millj. kr. meiri en ráð var fyrir gert í endurskoðaðri áætlun. Enn fremur niðurgreiðslur, uppbætur á lífeyri og greiðslur í Byggingarsjóð ríkisins, samtals um 400 millj. kr.
    Ef gerður er samanburður við síðasta ár er hækkun gjalda miðað við sömu mánuði í fyrra 36%. Að teknu tilliti til almennra verðbreytinga nemur hækkunin um 8 1 / 2 % að raungildi. Þar vegur þyngst hækkun vaxtagjalda en þau hækka um rúmlega 1900 millj. kr. eða 62% milli ára, en það er hækkun að raungildi um 29%. Þar munar mest um vaxtagreiðslur af yfirdráttarskuld í Seðlabankanum sem hækkar um 1100 millj. kr. Skýrist sá munur af verulega hærra vaxtastigi en áætlað var í fjárlögum og meiri yfirdrætti í Seðlabanka.
    Rekstrar- og neyslutilfærslur hækka um 36% milli ára. Þar vegur þyngst mikil hækkun á niðurgreiðslum sem voru auknar verulega á þessu ári til að bæta neytendum upp þá verðhækkun sem ella hefði orðið vegna skattkerfisbreytinganna um sl. áramót. Þá hækka sjúkratryggingar lítið eitt umfram almennar verðbreytingar sem skýrist af því að endurgreiðsluhlutfall sveitarfélaga var ofmetið í fjárlögum. Loks má nefna að fjárfesting hækkar um 42% milli ára eða að raungildi um 20%, en samkvæmt fjárlögum var stefnt að raunaukningu fjárfestinga.
    Virðulegi forseti. Á grundvelli upplýsinga um afkomu fyrstu níu mánuði ársins og þeirra hækkana á gjaldahlið sem þekktar eru og með hliðsjón af öðrum stærðum í efnahagslífinu er hægt að leggja mat á afkomu ársins í heild þó að ég vilji leggja á það ríka áherslu að á þessu stigi er eingöngu um mat að ræða.
    Síðustu mánuðir hvers árs hafa að jafnaði skilað meiri tekjum en nemur útgjöldum. Út frá þeim forsendum, haldi þær enn á þessu ári, má ætla að rekstrarhalli ársins 1988 verði varla undir 3 milljörðum kr. Á móti vegur betri staða á lánahlið vegna samnings við bankakerfið um spariskírteinakaup. Greiðsluafkoman getur þannig orðið 400--500 millj. kr. betri en rekstrarafkoman.
    Hins vegar verður að hafa þann fyrirvara á um þetta mat að sá samdráttur sem orðið hefur vart í tekjum það sem af er árinu gæti vissulega og því miður haldið áfram. Nægir þar að benda á vanda atvinnufyrirtækja í landinu og vaxandi fjölda gjaldþrota fyrirtækja. Afkoman gæti því í reynd orðið verri eða á bilinu 3--4 milljarða halli á rekstri ríkissjóðs. Það er alvarleg þróun sem knýr á um að gripið sé til aðgerða sem fyrst. Hún hefur einnig haft

víðtæk áhrif á undirbúning fjárlagafrv. fyrir næsta ár sem lagt verður fram á Alþingi í upphafi næstu viku.
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til þess að greina hv. Alþingi frá þessum upplýsingum og vona að þær geti orðið grundvöllur að raunhæfum umræðum um þessa stöðu, bæði nú og á næstunni.