Menningarsjóður félagsheimila
Mánudaginn 31. október 1988

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að draga í efa að hv. flm. þessarar tillögu meini allt gott með henni. Það dreg ég ekki í efa. Hitt er aftur á móti staðreynd og er meginmálið, eins og hv. 3. þm. Vestf. sagði, að það eru fyrir hendi lög um Menningarsjóð félagsheimila og hafa verið, en á undanförnum árum hefur það fjárframlag, sem samkvæmt þeim lögum hefur átt til þess sjóðs að renna, ekki skilað sér. Þess vegna er þessi tillaga að sumu leyti eða var kannski sérstaklega í fyrra hálfgerð markleysa.
    Alveg sama er með Félagsheimilasjóð. Hann hefur verið skertur á undanförnum árum. En það eru fyrir hendi lög um sjóðinn og hvernig hann skuli fjármagnaður. Vítt um landið eru félagsheimili, bæði í byggingu og hafa verið endurbyggð, sem hafa ekki fengið sinn hlut úr þeim sjóði. En það er ekki vegna þess að það séu ekki fyrir hendi lög og reglur um hvernig skuli afla peninga til þessa sjóðs heldur vegna þess að ráðandi öfl, sem hafa haldið utan um ríkiskassann, hafa ekki treyst sér til að leggja meira fjármagn til þessara þátta en raun ber vitni um. Það er ekki það sem vantar að það sé gerð ný samþykkt um þennan sjóð heldur vantar fyrst og fremst peninga. En í greinargerðinni segir að meiningin með þessari tillögu sé fyrst og fremst að það verði að auka tekjur sjóðsins. Vitaskuld er það það sem við erum að ræða um, en því miður hefur ekki verið staðið við þau fyrirheit sem lög um Félagsheimilasjóð og Menningarsjóð félagsheimila kveða á um. Þess vegna eru hlutirnir eins og þeir eru og þess vegna má segja að þessi tillaga sé góð til þess að minna á þá staðreynd fyrst og fremst.