Grunnskóli
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Flm. (Salome Þorkelsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég hefði talið æskilegt að hæstv. menntmrh. sæi sér fært að vera viðstaddur þessa umræðu, ekki síst með tilliti til þess að hann hefur sjálfur tekið þátt í henni. Eftir því sem næst verður komist hefur hann sýnt þessum málum áhuga og þess vegna hefði ég viljað óska eftir því við hæstv. forseta að hæstv. menntmrh. væri hér viðstaddur. ( Forseti: Á dagskrá hv. Nd. er frv. um námslán og námsstyrki og hæstv. menntmrh. mun vera bundinn við umræðu um það mál.) Mér þykir miður að heyra, hæstv. forseti, að hæstv. menntmrh. sé upptekinn í hv. Nd. Það er kannski matsatriði hvort er mikilvægara, grunnurinn að allri menntun barna, þegar verið er að ræða um grunnskóla, eða námslánin því að ef ekki er góð undirstaðan í grunnskólanum er kannski hætta á því að lítið verði um þörf fyrir námslán seinna á ævinni. Ef hæstv. ráðherra er sjálfur í ræðustóli get ég náttúrlega ekki gert þá kröfu að hann komi þaðan á meðan svo stendur á og því mun ég reyna að fjalla um það sem hefur komið fram í umræðum annarra en hæstv. ráðherra.
    Ég vil byrja á því að þakka hv. þingdeildarmönnum sem hafa tekið til máls um frv., sérstaklega þeim meðflm. mínum, hv. 6. þm. Reykv., 4. þm. Suðurl. og 5. þm. Norðurl. e. Þeirra góði stuðningur við frv. kemur mér ekki á óvart, enda væru þær ekki meðflm. ef svo hefði ekki verið. En í raun og veru kemur mér kannski ekki heldur á óvart afstaða hv. 3. þm. Vesturl. Ég skal viðurkenna að það olli mér ofurlitlum vonbrigðum að hann hefur ekki breytt afstöðu sinni til þessa máls þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar voru á frv. því ég skal viðurkenna það að þegar ég var að endurskrifa frv. með þessum breytingum varð mér hugsað hlýlega til hv. 3. þm. Vesturl. og ég hugsaði sem svo að nú væri búið að koma til móts við þær athugasemdir sem hann hafði fyrst og fremst að gera við frv. og endurtók reyndar nú. Eitt af þeim aðalatriðum var það að verið væri að búa til nýtt bákn við skólana, en þriggja manna skólaráð getur tæplega talist vera bákn þar sem aðeins er um að ræða að bæta inn einum aðila sem ekki starfar við skólann, sem er foreldrið. Aðrir aðilar í skólaráðinu eru starfandi skólamenn því ég vil leyfa mér að telja nemendur starfandi skólamenn.
    Þess vegna hafði ég búist við því að það kæmi einn jákvæður punktur frá hv. 3. þm. Vesturl., að hann mundi fagna því að nú væri þetta ekki lengur bákn, heldur væri þetta aðeins þriggja manna skólaráð. En það er ekkert við því að gera. Hver og einn hefur leyfi til að hafa sína skoðun. Hann er enn þá í jafnmiklum vafa um ágæti frv. Hann telur að það sé verið að setja þetta til höfuðs foreldrafélögunum. Hann óttast að dagar foreldrafélaganna séu taldir ef frv. verður að lögum.
    Ég endurtek einu sinni enn að þetta er á miklum misskilningi byggt. Það kom reyndar fram í máli hv. þm. sem töluðu hér áðan að þær staðfestu báðar að hér væri einmitt verið að styrkja starfsemi foreldrafélaganna með því að lögbinda aðild eins

foreldris í skólaráði til þess að vera til ráðuneytis um innra starf skólanna. Það er dálítill munur á því eða þegar verið er að tala um starfsemi foreldrafélaga sem ég vil enn og aftur endurtaka að eru mjög þýðingarmikil við hvern skóla. Ég get tekið svo djúpt í árinni að segja að góð og virk foreldrafélög séu í raun og veru lífakkeri skóla. En því miður er það svo að starfsemi foreldrafélaga er mjög mismunandi. Við sama skólann getur jafnvel verið mjög virkt og gott foreldrafélag eitt árið sem lognast síðan út af næsta árið og jafnvel starfar ekki. Þannig hefur reynslan verið.
    Þetta segi ég vegna þess að þessi vinnuhópur, sem skilaði skýrslu á sínum tíma og vitnað er til í frv., hélt fundi bæði með forráðamönnum foreldrasamtakanna í Reykjavík --- sem hv. 3. þm. Vesturl. nefndi hér áðan, SAMFOKs --- stjórn þess og skólastjórum sem hafa reynslu af mjög virkum foreldrafélögum og mjög óvirkum foreldrafélögum. Þessi mál voru mjög ítarlega rædd fram og aftur í nefndinni og það væri fróðlegt að hv. þm., sem áhuga hefðu, fengju að lesa fundargerðir vinnuhópsins því að þær eru allar til sérprentaðar. Þar gætu menn komist að raun um hvernig viðhorfin voru til þessara mála.
    Nefndin tók skýrt fram og reyndar tíundar það hvernig góð foreldrafélög starfa við hina ýmsu skóla og hve miklu góðu þau hafa komið til leiðar. En eins og áður sagði: Það hefur ekki þótt rétt að lögbinda þau eins og hér kom fram. Ég held að það hafi verið hv. 4. þm. Suðurl. sem minntist einmitt á það að frumkvæðið yrði að koma frá foreldrunum sjálfum.
    En þarna er sem sagt verið að tryggja það að foreldrar séu a.m.k. samábyrgir um innra starf skólanna með því að eiga fulltrúa sem getur fylgst með og verið til ráðuneytis um skólastarfið. --- Nú hefði mér þótt vænt um ef hægt væri að kanna hvort hæstv. menntmrh. er enn þá upptekinn í framhaldi grunnskólans í hv. Nd. ( Forseti: Hæstv. menntmrh. hefur verið látinn vita af því að hans sé óskað hér, en ég skal ekki segja hvort hann kemur.) Þá ætla ég að leyfa mér aðeins að halda áfram.
    Það hefur verið minnst hér á samfelldan skóladag og þýðingu hans sem var eitt af meginviðfangsefnum þessa margumrædda vinnuhóps. Það er hægt að segja þau gleðilegu tíðindi að nú er svo komið frá því að þessi vinnuhópur tók til
starfa og til dagsins í dag --- það eru kannski 4--5 ár síðan, a.m.k. frá því að við skiluðum skýrslunni --- þá er svo komið að nú vantar víðast einungis herslumuninn til að ná þessu marki því að stærsti hluti grunnskólabarna býr við samfelldan skóladag. Hins vegar er annað atriði sem er ekki síður þýðingarmikið og er ekki komið í nógu gott horf og það er að skóladagurinn er enn of skammur, einkum hjá yngstu börnunum. Þetta er staðfest í samantekt samstarfsnefndarinnar, sem ég minntist hér á, samstarfsnefndar ráðuneyta um fjölskyldumál.
    Ég gat þess ekki hér áðan hverjir hefðu verið í þessari samstarfsnefnd ráðuneyta um fjölskyldumálin, en það hefði kannski verið rétt að gera það, fá þau

nöfn hér skjalfest. Í þessari nefnd sátu Inga Jóna Þórðardóttir sem var formaður, Bessí Jóhannsdóttir, Jóna Ósk Guðjónsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir og Þrúður Helgadóttir. Eins og ég gat um í upphafi var ástæðan fyrir því að ég breytti frv. eftir þeirra tillögum einmitt þetta víðtæka samstarf sem náðist í þessari samstarfsnefnd ráðuneytanna.
    En það bólar ekki á hæstv. ráðherra. Ég hefði svo sannarlega viljað ræða þessi mál við hann. Mér þótti það að vísu dálítið út í hött, en í raun og veru sýndi hann okkur sem flytjum þetta frv. mikið traust með því að spyrja okkur hvað átt sé við með 3. gr., um að við hvern grunnskóla skuli starfa skólaráð sem sé stjórn skólans til ráðuneytis um innri mál hans. Hann hafði nokkuð mörg orð um það að þarna væri mjög viðkvæmt mál á ferðinni. Ég get auðvitað tekið undir það, en mér finnst þetta koma svo skýrt fram í frv., eins og hv. 6. þm. Reykv. kom inn á, að það er í raun og veru 1. gr. sem kveður á um þetta, að skólastjóri stjórnar starfi grunnskóla í samráði við kennara og skólaráð undir yfirstjórn menntmrn., fræðsluráðs, fræðslustjóra og skólanefndar eftir því sem nánar segir í lögum og reglugerðum sem settar verða. Og það er tekið sérstaklega fram að menntmrh. er falið það vald að setja reglugerð um störf og starfshætti skólaráðs og setja skólaráði erindisbréf. Þannig að ef hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af því hvað sé að baki frv. getur hann lagfært þá annmarka í reglugerð og með erindisbréfi fyrir skólaráð.
    Er hæstv. ráðherra enn þá í námslánunum? ( Forseti: Já. Óskar hv. flm. þá eftir því að fresta ræðunni?) Nei, hæstv. forseti. Ég held að ég fari ekki að gerast svo djörf varðandi þetta mál. Ég veit að þetta mál verður í góðum höndum hv. menntmn. sem væntanlega fær það til meðferðar og umfjöllunar.
    Ég vil leyfa mér að ítreka það sem hv. 4. þm. Suðurl. sagði hér í sinni ræðu á sl. vori þegar hún talaði til stuðnings þessu frv. án þess að vera meðflm.. Hún óskaði eftir því að þetta mál færi á einum spretti í gegnum þingið. Hún var svo bjartsýn þá og ég gat ekki betur heyrt en að hún væri jafnbjartsýn nú yfir því að þetta mál fengi góðan framgang og ég treysti því að svo muni verða.
    Ég ítreka þakkir mínar til meðflm. að þessu frv. og þakka þann víðtæka stuðning sem frv. hefur fengið. Ég efast ekki um að allflestir hv. þingdeildarmenn geri sér grein fyrir því að það er sameiginlegt hagsmunamál foreldra og skólamanna að auka samábyrgð þessara aðila um börnin.