Grunnskóli
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Frv. sem hér liggur fyrir er kunnugt deildarmönnum og var allmikið rætt á síðasta þingi. Ég hugsaði mikið um þetta mál þá. Ég er kunnugur skólamálum, ég var við kennslu mjög lengi og velti þessu máli þá fyrir mér. Ég verð að játa það að ég tel að ef þetta frv. yrði samþykkt, þá yrði einni silkihúfunni komið á í viðbót. Ég tel að svo verði. Ég velti fyrir mér spurningum t.d. varðandi skóla þar sem ég þekkti vel til. Þar eru nemendur frá 6--11 ára, svo flytjast þeir upp í annan skóla sem heitir líka grunnskóli. Eiga börnin sem þar eru að vera í skólaráði? Það gæti alveg eins orðið 6 ára barn eins og 11 ára þess vegna. Ég velti því líka fyrir mér hver eigi að skipa foreldri þar sem ekki er foreldrafélag. Þá mætti svara því til að allir foreldrar yrðu kallaðir til, en það er meiri háttar aðgerð að gera slíkt. Það eru ýmis vafaatriði sem velkjast fyrir mér varðandi þetta. Ég hafði samband við allnokkra skólamenn um þetta í fyrra og þeir voru neikvæðir í þessu. Ég var nú reyndar ekki við umræðuna áðan, en mér heyrðist það á seinni umræðum að spurt hafi verið um það hvert yrði hlutverk skólastjóra. Það segir í 1. gr. að þetta ráð skuli starfa í samráði við skólastjóra. Samráð er vissulega gott sé það heilt og vel útfært, en samráð getur orðið svo mikið að af því skapist stjórnleysi og er ég allra manna mest á móti slíku.
    Ég vildi gera grein fyrir þessum hugleiðingum mínum. Nú gætu svörin við þessu komið fram í nefnd, en almennt séð sem fyrrverandi skólamaður held ég að þetta sé ekki til bóta. Við eigum ekki að samþykkja hvers konar nefndir og ráð og ráð og nefndir endalaust bara til þess að koma á fót ráðum og nefndum ef við erum ekki viss um að það þjóni þeim tilgangi að bæta skólastarf eins og í þessu tilfelli hljóta að vera hugleiðingar um. Ég er sannfærður um það að þetta mál er flutt af góðum hug og þeirri skoðun flm. að þetta verði til bóta. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þessu sé ofaukið og því læt ég hana í ljós.