Lánasjóður íslenskra námsmanna
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann gaf við fsp. minni. Ég harma það mjög að ekki sé ætlunin að breyta strax lögunum í þá átt að afnám þeirrar skerðingar sem varð á árinu 1986 komi til framkvæmda strax, en fagna því að breytingar séu í vændum.
    Samkvæmt orðum hæstv. menntmrh. kemur fram að í vændum sé að breyta úthlutunarreglum sjóðsins. Þá gat ég ekki skilið orð hans á annan veg en þann að í stað þess að námsmenn reikni framfærslu sína út frá tekjum, þá eigi að jafna þetta þannig að hafi námsmenn tekjur yfir sumartímann, þá eigi þær að hafa veruleg áhrif á það hvað þeir fá mikið í námslán.
    Að öðru leyti vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. að skv. svari hæstv. menntmrh. er ekki ætlunin að efna það loforð sem hann gaf námsmönnum á sínum tíma.