Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Hverju sinni sem frv. til fjárlaga er lagt fram, einkum þó séu það nýir aðilar sem að því standa, hljóta landsmenn að taka því með nokkurri forvitni hvaða stefnu það boði, hvort þar séu nýmæli á ferð, hvers konar fjármálastefna verði ráðandi á þeim tíma sem væntanleg fjárlög taka til. Óhætt er að segja að megineinkenni þessa frv. sé samdráttur og niðurskurður en að því er virðist án stefnu, án þess að forgangsröð sé sjáanleg um það sem er skert og þá þætti sem halda sínu.
    Eitt er hægt að segja strax. Það er einkennilega erfitt að festa hendur á ýmsum grundvallarþáttum frv., einkum varðandi tekjuöflunarhliðina. Útfærsla ýmissa veigamikilla þátta þar er ýmist óljós eða engin. Auk þess er ljóst að innan þessarar hæstv. ríkisstjórnar er nú þegar hafinn sá leikur sem tíðkaðist í hinni fyrri, að einstakir hæstv. ráðherrar telja sig ekki kannast við óvinsælar ákvarðanir sem kollegar þeirra taka. Og þetta lofar ekki góðu um samstarfið.
    Markmið þessa frv. er að sögn aðstandenda þess að koma lagi á ríkisbúskapinn, og vissulega er höfuðnauðsyn að slíkt megi takast. Við kvennalistakonur höfum hins vegar efasemdir um að þær aðgerðir sem fyrirhugaðar eru til að ná markmiðinu séu byggðar á nógu traustum grunni og að þær komi til með að skila þeim árangri sem ætlað er.
    Fyrst vil ég benda á að þær launaforsendur sem gefnar eru í frv. geta ekki falið annað í sér en stórfellda kjaraskerðingu sem nær yfir þann tíma sem fjárlögum er ætlað að taka til. Sé þessu ætlað að gilda þýðir það annað tveggja áframhaldandi launafrystingu og bundinn samningsrétt út árið eða þá að fjárlögin eru gersamlega marklaus. Hafa menn trú á því að slíkar launaforsendur standist, þar sem sú verðstöðvun, sem nú er sögð í gildi, er ekki verðstöðvun, í besta falli verðlagsaðhald þar sem hækkanir eru stöðugt í gangi bæði leynt og ljóst? Því er fáránlegt að ætlast til þess að fólk beri afleiðingar þessa möglunarlaust.
    Í ljósi þessa er ástæða til að setja spurningarmerki við tekjuhliðina að því er varðar óbeina skatta. Hvað um samdrátt í verslun þegar litið er til minnkandi ráðstöfunartekna? Eru áhrif þess ekki vanmetin með tilliti til tekna af söluskatti? Þannig rekur eitt sig á annars horn og enn einu sinni hlýtur maður því miður að verða að lýsa vantrú á að áætlanir um fjárhag ríkisins fái staðist, hvort sem litið er á tekju- eða gjaldahlið þessa frv.
    Að öðru leyti má segja um tekjuöflunarhliðina að hún er öll í lausu lofti þar sem hún byggist að miklu leyti á tekjustofnum sem ekki hafa enn verið tryggðir með lögum eða lagabreytingum og því enn algjörlega óljóst hver sú útfærsla yrði eða hvort hún hlyti staðfestingu.
    Hæstv. fjmrh. hefur lýst hugmyndum sínum í þessum efnum og eins og fram hefur komið eru þær sumar hverjar á þeim nótum að ekki er ólíklegt að Kvennalistinn geti stutt þær. Það fer þó vitaskuld eftir því hvernig þær verða útfærðar í reynd.

    Sagt er í þjóðhagsáætlun, sem er forsenda þessa frv., að gert sé ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar næsta ár frá því sem það nú er. Reiknað er með að söluverðmæti sjávarafurða erlendis hækki um 3--4%. Jafnframt er gengið út frá að innflutningsverðlag hækki um 4 1 / 2 % í helstu viðskiptalöndum okkar. Þetta þýðir að ekki er gert ráð fyrir að verð á sjávarafurðum haldi í við verðbólgu erlendis. Það lofar ekki góðu um afkomu sjávarútvegsins, undirstöðu þjóðarbúsins, en ekki verður séð af frv. sem hér er til umfjöllunar að gert sé ráð fyrir neinum viðbrögðum gagnvart því ástandi.
    Í frv. er gengið út frá að landsframleiðsla dragist saman, svo og þjóðartekjur. Má rekja þessar óhagstæðu horfur til þess að gert er ráð fyrir að útflutningurinn dragist saman og einnig þjóðarútgjöld, sérstaklega útgjöld til einkaneyslu og fjárfestingar.
    Þessar horfur fela í sér að áfram má búast við að dragi úr eftirspurn og umsvifum í landinu. Þetta leiðir óhjákvæmilega hugann að stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs sem nú á í vök að verjast fyrir ásælni ríkisvaldsins. Ef þær spár um atvinnusamdrátt, sem uppi eru nú rætast, hvernig getur hann þá gegnt því hlutverki að greiða fólki laun ef ríkið greiðir honum ekki lögboðin framlög?
    Þrátt fyrir fögur fyrirheit, bæði í þjóðhagsáætlun og fjárlagafrv., um að bæta og styrkja atvinnuástand og styrkja rekstrargrundvöll útflutningsgreina ber þetta frv. ekki í sér neinar varanlegar lausnir á þeim málum. Um það ríkir óvissan ein. Aðgerðir til að styrkja atvinnuástand sjást ekki. Opinberar framkvæmdir dragast saman, sveitarfélögum er þröngur stakkur skorinn, ekki síst vegna óvissu um framlög úr Jöfnunarsjóði og erfiðrar stöðu fyrirtækja á landsbyggðinni yfirleitt. Ég fjölyrði svo ekki frekar um þennan hluta frv. en sný mér að öðru.
    Á bls. 218 í frv. er sá hinn löngum umdeildi kafli: Lagabreytingar vegna tekju- og gjaldahliða frv. Ég vil leyfa mér að gera athugasemdir við nokkur atriði þar og þá í fyrsta lagi 12% söluskatt á happdrættismiða. Reiknað er með
minnkandi ráðstöfunartekjum fólks á næsta ári og mér segir svo hugur um að happdrættismiðar njóti þá ekki forgangs þegar tekjum heimilanna er ráðstafað. Sala hlýtur að dragast saman. Öllum er ljóst hvílík menningar- og þjóðþrifafyrirtæki það eru sem eiga sitt undir happdrættistekjum, Háskóli Íslands, Dvalarheimili aldraðra sjómanna, SÍBS og fjölmörg fleiri. Þessi ráðstöfun verkar því í tvennum skilningi sem tekjuskerðing á þessar stofnanir, enda hafa þær mótmælt þeim eindregið. Þá má benda á að Happdrætti Háskólans greiðir einkaleyfisgjald til ríkisins sem er 20%. Það er líka skattlagning sem önnur happdrætti greiða ekki. Verði umtalsverð skerðing á tekjum þeirra sem reiða sig á afrakstur af Íslenskum getraunum og Íslenskri getspá þýðir það ekkert annað en auknar kröfur frá þeim til ríkisins á móti. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands hefur bent á að tæknilegar og viðskiptalegar ástæður hamli því að söluskattur verði lagður á miða happdrættisins á árinu

1989. Álagning 12% söluskatts þýðir að miðar í flokkahappdrætti hækka úr 400 í 448 kr. og happaþrennumiði úr 50 í 56 kr. Núgildandi verð í flokkahappdrættinu hefur verið ákveðið fyrir 1989 með reglugerð útgefinni af hæstv. dómsmrh. og er hækkunin 33% á milli ára. Flestir sem til þekkja telja að sú hækkun muni draga úr sölu og að söluskattshækkun í ofanálag muni reynast mjög hættuleg fyrir söluna. Þá segja stjórnarmenn happdrættisins að það muni hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sölu happaþrennu ef verðið breytist því flestir kaupa slíka miða samkvæmt skyndiákvörðun, t.d. þegar þeir fá 50 kr. til baka. Þá benda þeir á að verð í flokkahappdrætti sé ákveðið fyrir mitt ár, m.a. vegna prentunar miðanna, en miðar fyrstu tveggja flokka hafa þegar verið prentaðir og á þeim kemur verðið fram. Þá á Happdrætti Háskólans nú þegar 8 milljónir happaþrennumiða að verðmæti 16 millj. kr. sem þegar er búið að prenta með verði miðanna. Afgreiðslufrestur fyrir nýja miða er 3--4 mánuðir. Það mundi skaða markaðinn verulega yrði happaþrennulaust í þann tíma, fyrir utan þau verðmæti sem liggja í þegar tilbúnum miðum verði þeir ekki notaðir. Áætlað er að sölutapið gæti numið 150--200 millj. brúttó.
    Þetta allt ber að hafa í huga þegar skattlagning happdrættismiða er ákveðin því að ekki virðist sú tekjulind öruggari en ýmsir aðrir tekjustofnar sem ráð er gert fyrir í þessu fjárlagafrv. Þetta dæmi með skattlagningu á happdrættin sýnir okkur hve mikilvægt er að hugsa dæmið til enda þegar ákvarðaðir eru nýir tekjustofnar fyrir ríkið.
    Ég vil nú aðeins víkja að Ferðamálaráði sem við kvennalistakonur höfum ætíð haft áhyggjur af og reynt að fá hækkuð framlög til samkvæmt lögum frá 1985 þar sem ráðinu er markaður tekjustofn sem skyldi vera 10% af söluhagnaði Fríhafnarinnar. Í þessu skyni var vöruverð þar hækkað þannig að það eru í raun ferðamenn, bæði íslenskir og erlendir, sem greiða þann skatt sem varið skal til þess að ráðið geti sinnt sínum mörgu og mikilvægu skyldum lögum samkvæmt. Enn hefur aldrei verið staðið við ákvæði laganna um framlög til ráðsins og er nú svo komið að langvarandi fjárskortur stendur allri starfsemi þess fyrir þrifum.
    Þjóðin öll bindur miklar vonir við uppbyggingu ferðamannaþjónustu, ekki síst íbúar landsbyggðarinnar sem gætu horft fram á mörg ný atvinnutækifæri, einkum fyrir konur. En það er einmitt eitt atriði í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstjórnar að auka og efla fjölbreytni í atvinnulífi kvenna á landsbyggðinni og verður fróðlegt að sjá lausnir hennar í því efni.
    Síðustu ríkisstjórn tókst að fæla erlenda ferðamenn frá með álagningu matarskattsins og hvergi sér þess stað, þrátt fyrir setu Alþb. í hæstv. ríkisstjórn, að til standi að fella niður þann óréttláta og íþyngjandi skatt fyrir okkur landsmenn alla og erlenda gesti okkar. Þannig er nú staðið að svokallaðri uppbyggingu nýrra atvinnugreina sem ættu að geta orðið okkur mikilsverð tekjulind. Samkvæmt lögunum ætti Ferðamálaráð að fá

110 millj. kr. í sinn hlut en í fjárlagafrv. blasir við talan 28 millj. kr. Allir sjá að þetta er með öllu óverjandi og mun verða til þess, ef svo fer sem horfir, að Ferðamálaráð mun hvorki geta sinnt menntun leiðsögumanna né heldur umhverfismálum, að ekki sé minnst á alla aðra þætti starfseminnar sem lögboðin er.
    Fulltrúar Ferðamálaráðs hafa staðfest nokkuð sem við vitum öll að það stórsér á landinu eftir það að sl. þrjú ár hafa þeir ekki haft krónu til að leggja til umhverfismála vegna umferðar ferðamanna. Og hvernig ætlar ríkisstjórn, sem segist ætla að taka umhverfismálin föstum tökum, að verja gerðir sínar í þessum efnum? E.t.v. er æskilegt að marka tekjustofna til vissra verkefna og stofnana en sú staðreynd að sífellt er skorið niður af þeim veldur miklum erfiðleikum viðkomandi stofnana, að ekki sé minnst á ómæld vonbrigði þeirra sem miða áætlanir sínar við þessar afmörkuðu tekjur.
    Þá kemur að títtnefndum lið: ,,Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. útvarpslaga skulu aðflutningsgjöld af innfluttum hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og hlutum til þeirra renna í ríkissjóð.`` Enn einu sinni er ætlunin að framkvæmdafé Ríkisútvarpsins sé skert. Og situr nú á stóli menntmrh. sá maður sem fyrir ári síðan átti varla nógu sterk orð í sínum
fjölbreytta orðaforða til að lýsa hneykslun sinni á aðbúnaði þessarar stofnunar sem hann taldi, með leyfi hæstv. forseta, vera eina mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar og okkur bæri skylda til að sjá um að rekstur hennar gengi með eðlilegum hætti og þeirri reisn sem íslenskri menningu sómdi. Nú var lag að breyta til, hæstv. menntmrh., sem ekki er að vísu hér viðstaddur. En það er ekki of seint að sjá sig um hönd.
    Ég mun ekki að þessu sinni fara út í málefni einstakra ráðuneyta að neinu ráði. Ég hef leitað að skipulagi og forgangsröð verkefna innan ráðuneytanna varðandi fjárveitingar, en ég kem hvergi auga á slíkt. Þó má e.t.v. segja að helst örli á slíku innan menntmrn. og þar er a.m.k. betur gert við menningu og listir en oft áður sem ekki er vanþörf á í ljósi margra ára fjársveltis. En langt er frá því að nóg sé að gert ef íslensk menning og íslensk tunga eiga að halda velli í því erlenda ómenningarflóði sem yfir ríður nú og ekki sést að sé að sjatna. Ég hef þó minnst á að við kvennalistakonur erum ekki sáttar við hvernig staðið er að fjármálum Ríkisútvarpsins og fleira má benda á sem ekki er ásættanlegt. Ég nefni hér Háskólann á Akureyri sem tók til starfa í fyrra.
    Háskóla á Akureyri var aldrei og er ekki ætlað að vera smækkuð mynd eða eftirlíking af Háskóla Íslands. Þar eiga að vera námsbrautir sem ekki eru kenndar við Háskóla Íslands og þar ber hæst kennslu í sjávarútvegsfræðum og liggur fyrir samþykki menntmrn. um það. Vitanlega er löngu tímabært að nám í sjávarútvegsfræðum á háskólastigi hefjist á Íslandi, hjá þessari þjóð sem byggir afkomu sína í jafnmiklum mæli og raun ber vitni á sjósókn og fiskvinnslu. Hingað til hafa þeir Íslendingar, sem aflað

hafa sér slíkrar menntunar sem hér um ræðir, orðið að fara utan til þeirra hluta. Síðan vitnaðist að nám af þessu tagi væri fyrirhugað við Háskólann á Akureyri hefur ekki linnt fyrirspurnum um það. Sýnir það að ekki mun skorta nemendur.
    Stofnun og starfræksla sjávarútvegsdeildar við Háskólann á Akureyri kostar vitanlega fé en þó aðeins örlítið brot af þeim fjármunum sem tengjast sjávarútvegi á Íslandi á einn eða annan hátt. Nám í þessum fræðum ætti að verða til eflingar atvinnugreininni sem og þjóðarhag. Á þessu ári var heimild í fjárlögum til ráðningar forstöðumanns fyrir sjávarútvegsdeild. En nú ber svo við að í fjárlagafrv. fyrir árið 1989 er ekki gert ráð fyrir slíku, engin forstöðumannslaun eru inni og við hljótum að spyrja: Eru þetta mistök, eða er þetta gert af ráðnum hug? Hvað um framtíð og mótun þessarar nýju stofnunar ef strax í byrjun er kippt fótum undan því sem ætlað var að væri eitt hennar mikilvægasta ætlunarverk fyrstu árin?
    Ég vil líka benda á að komið er í ljós að nemendafjöldi framhaldsskóla er meiri en áætlað var í frv. og því þarf að athuga hvort kennslumagn og launaliðir standast.
    Eitt mál enn get ég ekki látið kyrrt liggja, en það tengist hinum sívaxandi kröfum frá ríkinu um auknar sértekjur stofnana sem á stundum virðast nánast utan við alla skynsemi. Tilraunastöð Háskólans á Keldum skal hækka sértekjur um 62%. Að vísu eru henni á þeim lið lagðar til 8,7 millj. kr. af happdrættisfé sem líka er umdeild ráðstöfun. En að þeirri fjárhæð frádreginni þurfa sértekjur þó að hækka um rúm 30%. Hvar eiga svo þessar auknu sértekjur að fást? Jú, þær eiga fyrst og fremst að koma til af sölu bóluefnis til sauðfjárbænda á sama tíma og gengið er markvisst að því að fækka sauðfé. Að vísu er um smávegis aðra lyfjasölu að ræða en ekki sem neinu nemur. Svona áætlanir eru bara engan veginn marktækar og engum manni og engri stofnun bjóðandi. Vitanlega er eðlilegt að þeir sem þurfa að nota þjónustu ríkisstofnunar á borð við Tilraunastöðina á Keldum greiði fyrir það sanngjarna þóknun, en þeir verða þá að vera þess umkomnir. Auk þess má benda á að þessar auknu kröfur um sértekjur stofnana eru ein tegund skattheimtu sem þeir með öllu móti reyna að komast hjá með því að nota sér þá ekki þjónustu stofnananna. Og á tímum samdráttar í kaupmætti er tilgangslaust að byggja tilvist og rekstur stofnana á slíku nema að mjög litlu leyti. Þetta gengur ekki upp.
    Kvennalistakonur hafa jafnan borið Lánasjóð ísl. námsmanna mjög fyrir brjósti og þar er einn þátturinn sem menn höfðu væntingar um betri tíð í ljósi nýrrar stjórnar í menntmrn. Eftir öll þau stóru orð sem fallið hafa undanfarin ár um fjármál sjóðsins var þess vissulega beðið með eftirvæntingu af námsmönnum að sjá sinn hlut færðan í sanngirnis- og réttlætisátt. Fjvn. á eftir að kynna sér nánar gögn varðandi Lánasjóðinn, en augljóst virðist að ráðstöfunarfé sjóðsins samkvæmt frv. dugir engan veginn til að afnema áhrif þeirra skerðinga á námslánum sem urðu á árunum

1984--1986 vegna breyttrar vísitöluviðmiðunar og beinnar skerðingar á framfærslugrunni Lánasjóðsins. Það má því ljóst vera að samkvæmt frv. fær Lánasjóðurinn varla staðið undir hlutverki sínu, þ.e. því að tryggja öllum jafnrétti til náms óháð efnahag, búsetu og félagslegum aðstæðum. Rangur viðmiðunargrunnur er m.a. staðfestur af fulltrúa ríkisstjórnarinnar í framfærslunefnd og er í skýrslu nefndarinnar frá því í júní sl.
    Einn er sá liður sem ég verð að minnast á en það er Kvennaathvarfið.
Framlag til þess hækkar að vísu um 1,6 millj. kr. frá fyrra ári, þ.e. um 36%, en ljóst er að til Kvennaathvarfsins leitar einungis lítill hluti þeirra kvenna og barna sem búa við eða verða fyrir ofbeldi og á Kvennaathvarfið fullt í fangi með að sinna þeim. Starfsemi þessi, sem konur stofnuðu til og annast, hefur átt ríkan þátt í því að afhjúpa ofbeldi á konum og í kjölfar þess ofbeldi á börnum.
    Nýútkomin skýrsla um nauðgunarmál og sú umræða sem hefur verið í gangi um sifjaspell og kynferðislega misnotkun þar sem börn eru fórnarlömb hefur dregið enn betur fram í dagsljósið áður faldar staðreyndir, en þó er varla nema toppurinn á ísjakanum kominn í ljós. Það eru að vísu fleiri aðilar en Kvennaathvarfið sem sinna fórnarlömbum ofbeldis, en þörfin á eflingu þessa athvarfs er brýn. Einnig þarf að hafa í huga að víða þarf að auka fjárveitingar til þessara mála, bæði til fræðslu og fyrirbyggjandi starfsemi, upplýsingaöflunar og eftirmeðferðar fyrir fórnarlömb.
    Í beinu framhaldi af þessu er vert að minnast á lið sem lætur lítið yfir sér í fjárlagafrv., þ.e. kostnaður vegna laga nr. 25/1975. Þarna er um að ræða lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Þessi liður er skorinn niður um 13% og var þó ekki burðugur fyrir. Þessi niðurskurður dregur auðvitað úr ráðgjöf og fræðslu, þ.e. fyrirbyggjandi aðgerðum. Kvennalistakonur hafa margoft gert að umræðuefni hve fræðslu- og ráðgjafarþætti laganna er lítið sinnt og hafa lagt fram tillögur um úrbætur þar og m.a. fengið slíka tillögu samþykkta á Alþingi. Og nú er enn stigið skref aftur á bak.
    Ég vil lítillega drepa á málefni landbúnaðarins, þó aðeins þann þátt sem snýr að rannsóknum og tilraunastarfsemi. Nú þegar hefðbundnar búgreinar eru á undanhaldi er meiri nauðsyn en nokkru sinni fyrr að leita þar hagkvæmnisleiða, svo og að styðja við nýjar búgreinar með vönduðum rannsóknum og leita allra leiða til að þróttmikil bændastétt haldi við byggð um sveitir landsins. Ég vil hér, með leyfi hæstv. forseta, vitna til viðtals við hæstv. landbrh. í Alþýðublaðinu 8. okt. sl. --- En ég sé það að hæstv. ráðherrar telja ekki ástæðu til að sitja þennan þingfund og þykir mér það nokkuð einkennilegt. --- Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að vitna í Alþýðublaðið og ummæli landbrh. þar. Hann segir þar:
    Það verður að setja mikinn kraft í uppbyggingu nýrra búgreina og þá er ekki síst nauðsynlegt að

leggja meiri áherslu á þá þætti landbúnaðarins sem atvinnugreinar þar sem mestur vöxtur og uppbygging á sér stað. Steingrímur vill leggja áherslu á rannsóknir og þróunarstarfsemi í landbúnaði og vill síst skera niður útgjöld á þeim sviðum. Eitt stærsta mein í íslensku atvinnulífi er að of lítil áhersla er lögð á rannsóknarstarfsemina, segir hann.
    Ég vil benda á það að mér virðist sem tölur í fjárlagafrv. stangist mjög á við þessi orð hæstv. ráðherra.
    Landgræðslu- og landnýtingaráætlun er ekki mikill gaumur gefinn. Ég vil hér minna á hve brýn nauðsyn er að gerð sé jarðabók svo að hægt sé að koma á laggirnar einhverri skynsamlegri áætlun þar sem búseta, landnýting og landvernd haldast í hendur.
    Ég ætla að svo stöddu ekki að fara fleiri orðum um fjárlagafrv. þó að vissulega sé ástæða til að gera athugasemdir við fleiri þætti þess, svo sem það að hvergi ber á fjárveitingu til átaks í jafnréttismálum sem er þó boðað í stjórnarsáttmála. Aftur á móti gleðjast konur í hjarta yfir auknu framlagi til dagvistarheimila og var nú tími til kominn að slíks sæi stað.
    Þetta frv. á vitanlega eftir að taka ýmsum breytingum í meðferð fjvn. og hæstv. Alþingis. Vonandi verða gerðar leiðréttingar á þeim þáttum sem hér hefur verið bent á sem og fleiri. Vitanlega kosta þær leiðréttingar fé og það fé má finna á ýmsum stöðum án óhæfilegs niðurskurðar á nauðsynlegum málaflokkum. Við kvennalistakonur höfum oft bent á að við fjárlagagerð sé nauðsyn að endurskoða reglulega markmið fjárveitinga ríkisins í stað þess að framreikna fjárlög fyrri ára svo sem tíðkast hefur.
    Nú eru yfir 80% af fjárlagaupphæðinni bundin og getur hver maður séð á því hversu lítið svigrúmið er. Við viljum því benda á það brýna verkefni að endurskoða umfang og tilverurétt ýmissa stofnana og verkefna á vegum ríkisins og að athugað sé hvort aukin umsvif innan t.d. heilbrrn. og menntmrn. hafa skilað raunverulegum árangri í bættri kennslu, bættri þjónustu eða hvort þau komi aðallega fram í aukinni yfirbyggingu og óeðlilegri útþenslu í mannahaldi.
    Sömuleiðis leggjum við til að tekin verði upp markvissari stefna í byggingarframkvæmdum hins opinbera þar sem lögð væri áhersla á skemmsta mögulegan framkvæmdatíma hvers verkefnis. Slíkt mundi spara ríkinu ómælda fjármuni í framtíðinni.