Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég kem hér eingöngu upp vegna þess að fyrir mig voru lagðar spurningar en fyrst ég er kominn hér upp á annað borð og hef hlustað á skörulega ræðu hv. þm. Egils Jónssonar og að vísu fleiri sjálfstæðismanna vil ég bara minna hv. þm. og aðra sjálfstæðismenn á hvaða búi þessi ríkisstjórn tók við. Að eigin sögn töldu ráðherrar fyrrv. ríkisstjórnar að ástandið í þjóðfélaginu væri þannig að það væri dagaspursmál hvenær hjól atvinnulífsins mundu stöðvast. Þetta voru þeirra orð, þeirra vitnisburður um viðskilnaðinn.
    Það er líka vitað að það hefur aldrei orðið jafnmikil eignatilfærsla í þjóðfélaginu eins og á því tímabili sem fyrrv. ríkisstjórn sat að völdum. Ég vil líka minna á að það eru aðeins sex vikur síðan stjórnarskiptin urðu og það er ekki þess að vænta að búið sé að ganga frá fjárlagafrv. að öllu leyti. Á undanförnum árum hefur það ekki verið á þessum tíma og raunar ekki fyrr en í kringum 20. des. þó að fyrrv. ríkisstjórnir hafi haft allt sumarið til þess að undirbúa fjárlög. Og það er heldur ekkert nýtt þó að það hafi þurft að taka fjárlagafrv. ekki einu sinni heldur tvisvar eða þrisvar upp á árinu vegna þess að forsendur og þróun mála hafa orðið aðrar heldur en miðað var við. Þessa ættu hv. sjálfstæðismenn og raunar aðrir þm. að minnast og taka tillit til þess.
    Hv. þm. Hrafnkell Jónsson spurði hvort ég hefði ekki áhyggjur af fátækara fólkinu í landinu. Ég tók það fram þegar ég ákvað að verða stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar að ég gerði það fyrst og fremst vegna þess hvernig ástand var í þjóðfélaginu þar sem við blasti atvinnuleysi, þar sem við blasti það sem ég var að segja frá áðan. Það var þess vegna. Hvernig svo til tekst verður bara reynslan að sýna. Ég vænti þess að þannig verði haldið á málum að aðstöðumunurinn í þjóðfélaginu minnki og verði það ekki niðurstaðan þá verð ég fyrir vonbrigðum.
    Hv. þm. hafa eðlilega áhyggjur af ýmsu nú, en hverjar eru ástæðurnar fyrir því hvernig komið er? Fyrst og fremst og að langstærstum hluta er það hvernig fjármagnskostnaðurinn hefur leikið atvinnulífið og einstaklinga að undanförnu. Ef ekki næst árangur í því að ná vöxtunum niður og sérstaklega raunvöxtunum og að fyrirtækin í landinu séu rekin þannig að þau komist upp fyrir núllið verður að gera aðrar ráðstafanir.
    Mér heyrðist hv. þm. Hrafnkell Jónsson spyrja einnig um Atvinnutryggingarsjóðinn. Ég hef áhyggjur af því að eins og atvinnuvegirnir eru dugi ekki það fjármagn sem honum er ætlað. Það er sama hvaða leið er farin, þá standa mál þannig að það verður einhver kauplækkun hjá einhverjum í þessu þjóðfélagi. Halda menn virkilega að það sé ekki kauplækkun samfara gengisfellingum? Halda menn það? Nei, það sem um er að ræða nú er fyrst og fremst að reyna að jafna aðstöðuna, reyna að halda fullri atvinnu, reyna að tryggja það að framleiðslan geti gengið. Hversu langar sem ræðurnar eru og hvort sem menn koma hér upp og berja sér á brjóst yfir útlitinu skulu menn fyrst,

áður en þeir gera það, muna eftir því hvernig komið var í septembermánuði sl., að missa ekki sjónar á því ástandi sem er viðurkennt af öllum, a.m.k. innst inni þó að menn tali svo eins og ræður manna hafa verið hér í dag og kvöld.
    Ég viðurkenni það að það er eftir að ganga frá ýmsum hlutum í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, en það sem menn hafa komið sér saman um er með einhverju móti að afla þeirra tekna sem stendur að þurfi að ná í fjárlagafrv. Það hefur nú áður gerst, það vita þeir sem hafa verið hér einhver ár, að það taki verulegum breytingum á þeim tíma sem nú er t.d. til jóla.
    Ég vona að svar mitt til hv. þm. sé fullnægjandi.