Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Mér er það að sjálfsögðu mikið ánægjuefni að verða við tilmælum hv. 2. þm. Austurl. um að gera Alþingi Íslendinga grein fyrir ákvörðunum utanrrh. um atkvæðagreiðslur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
    Fyrst nokkrar almennar athugasemdir. Íslendingar reka sjálfstæða utanríkisstefnu. Það eru ekki rök í málinu þótt Íslendingar kunni að taka ákvörðun um að greiða atkvæði á annan veg en einhverjar aðrar tilteknar þjóðir af þeirri einföldu ástæðu að í fullveldisrétti okkar felst að við leggjum sjálfstætt mat á mál eftir málefnum og rökum en förum ekki eftir fyrirmælum frá öðrum þjóðum né heldur beygjum við okkur undir það að eiga að fylgja forræði annarra þjóða. Það er fyrsta athugasemd.
    Önnur athugasemd. Það er á misskilningi byggt ef menn ætla að sá sem hér stendur sé ófús til samráðs við hv. utanrmn. eða samstarfsmenn í ríkisstjórn eða reyndar hv. Alþingi Íslendinga. Ég lýsi því yfir að ég er reiðubúinn til slíks samráðs og til þess að skiptast á skoðunum við alla hv. alþm. um þau mál. En ég vek athygli á einu. Það er hlutverk utanrrh. að taka ákvarðanir um það með hvaða hætti Íslendingar greiða atkvæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og ég áskil mér þann rétt því ég ber ábyrgð á því og ég biðst ekki afsökunar á því.
    Í annan stað vil ég sérstaklega taka það fram að gefnu tilefni að forveri minn, hæstv. núv. forsrh., þá utanrrh., hafði sama hátt á. Hann var að sjálfsögðu ævinlega reiðubúinn til viðræðna og samráðs, en hann tók ákvarðanir um það hvernig atkvæði voru greidd á vettvangi Sameinuðu þjóðanna einn, án samráðs um þá ákvörðun við samstarfsmenn í ríkisstjórn og í utanrmn., og ég fyrir mitt leyti gerði ekki athugasemd við það þá vegna þess að ég vefengdi ekki forræði hans yfir þeim málum.
    Loks er þess að geta að þau tilvik geta komið upp og þau komu upp að þess var enginn kostur að hafa slíkt samráð vegna þess skamma fyrirvara sem ég hafði í nokkrum tilvikum til ákvörðunartöku.
    Þá er það enn ein athugasemd almenns eðlis. Það er á misskilningi byggt að atkvæðagreiðslan um tillöguna um fordæmingu á stefnu Ísraelsstjórnar og athöfnum í Júdeu og Samaríu og á Gazasvæðinu sé breyting frá fyrri afstöðu. Staðreyndin er nefnilega sú að þetta er ný tillaga og hefur ekki verið flutt áður og í annan stað að í fyrra var flutt tillaga sem var eðlisskyld í þeim skilningi að hún fól í sér einhliða fordæmingu á öðrum deiluaðilanum, Ísraelsstjórn og athöfnum hennar og Íslendingar sátu hjá í atkvæðagreiðslu um þá tillögu, till. 160 d, samkvæmt fyrirmælum forvera míns sem er sambærilegt við ákvörðun mína nú. Ég tek það fram að þetta eru ekki sömu tillögurnar, en þær eru eðlisskyldar um það meginatriði að þær voru einhliða fordæming á öðrum aðilanum.
    Hins vegar greiddum við í fyrra samkvæmt ákvörðun forvera míns atkvæði með tillögu sem kvað á um andmæli gegn og gagnrýni á stefnu

Ísraelsstjórnar sérstaklega að því er varðaði framkvæmd þeirrar stefnu á hinum umdeildu landsvæðum og þá sérstaklega ákvörðun þáv. stjórnar Ísraels að efna til landnáms á þessum svæðum sem við þar með töldum mundu torvelda friðsamlegar leiðir og greiddum atkvæði með slíkri tillögu.
    Loks er þess að geta, og það er enn fremur almenn athugasemd, að ef menn vilja túlka þessar ákvarðanir á þann veg að Íslendingar séu að lýsa sig andvíga afvopnunarsamningum, lýsa sig andvíga afvopnun á alþjóðlegum vettvangi, þá er það svo himinhrópandi misskilningur að ég trúi því vart að mönnum sé sjálfrátt að leggja það út á þann veg. Að sjálfsögðu er það ekki svo og fyrir því má tíunda og færa endalaust röksemdir sem ekki verða hraktar. Og í annan stað er það á miklum misskilningi byggt, vægast sagt, ef menn halda að hjáseta við þessa tillögu þýði að við Íslendingar séum þar með að leggja blessun okkar yfir ofbeldi eða mannréttindabrot. Því ver víðs fjarri. Íslendingar eru reiðubúnir nú sem endranær í samræmi við sína stöðu meðal þjóða heims að fordæma mannréttindabrot og ofbeldi í hvaða mynd sem er og að sjálfsögðu viljum við stuðla að því að undirokaðar þjóðir nái rétti sínum. Það er hins vegar ekki sama hvort það er gert með þeim hætti að taka undir eingöngu einhliða fordæmingu á öðrum deiluaðilanum í hatrömmu, viðkvæmu, langvarandi deilumáli sem síðan er einfaldað í svarthvítt og sagt: með eða móti. Og þessu til staðfestingar erum við að sjálfsögðu reiðubúnir að fylgja öllum tillögum sem krefja Ísraelsstjórn og raunar alla aðra hvar sem mannréttindabrot eiga sér stað til þess að fara að alþjóðalögum, þar með t.d. að fylgja fram bókstaflega 4. Genfarsamningnum frá 1949, um vernd borgara á stríðstímum og um rétt fórnarlamba í styrjöldum, sem reyndar bæði Ísraelsríki og arabaríkin flest eiga aðild að. Loks er þess að geta að ég gaf fyrirmæli um það að sendinefnd Íslands greiddi atkvæði með tillögu sem kvað á í mörgum liðum um áskorun til þjóða heims um að leggja fram raunverulega aðstoð til hins hrjáða fólks á þessum umræddu svæðum, til Palestínufólksins. Ekki aðeins læknishjálp, sjúkrahjálp og annað síkt heldur víðtækt alþjóðlegt hjálparstarf. En ég fór að fordæmi Finna í því efni um það að af því að inn í þá tillögu
hafði líka verið smyglað pólitískum einhliða fordæmingum vildum við fá tillöguna borna upp í tvennu lagi. Við vildum styðja að sjálfsögðu kröfuna um aðstoð, um hjálp, um mannúðlega starfsemi án þess að þar með værum við bakdyraleiðina búnir að skuldbinda okkur til einhverrar afstöðu með öðrum deiluaðilanum í þessu viðkvæma stríði.
    Ástæðurnar fyrir því að ég mat það svo og gaf fyrirmæli um að við sætum hjá við þessa atkvæðagreiðslu eru þessar:
    1. Vegna þess að tillagan var einhliða fordæming á stefnu og athöfnum annars aðilans ólíkt flestum ef ekki öllum þeim tillögum sem fluttar hafa verið af ábyrgum aðilum um lausn á þessum djúpstæðu vandamálum sem lengi hafa verið með okkur og varða

Mið-Austurlönd, löndin fyrir botni Miðjarðarhafsins.
    2. Vegna þess að það vantaði inn í þessar tillögur alla jákvæða hugsun um það hvernig menn vildu leita leiða til þess að leysa þennan vanda, en um það liggja fyrir ótal tillögur um jákvæðar lausnir.
    3. Vegna þess að Ísland á að vera friðaraðili á alþjóðlegum vettvangi. Það á að fylgja þeim að málum sem vilja setja niður deilur, sem vilja binda endi á ofbeldi, sem vilja leiða deiluaðila að samningaborði og vilja greiða götu þess að það verði unnt, ekki með einhliða fordæmingum og ofstæki heldur með mannviti, byggðu á húmanisma, mannúðarstefnu. Og það var þetta sem vantaði í þessar tillögur. Það er nefnilega ekki nóg að fordæma. Það er til lítils að hreykja sér af siðferðilegum yfirburðum sínum með því að fordæma aðra sem eru í erfiðri stöðu og loka reyndar augunum fyrir vanda þeirra og sálarháska og lífsháska. Það er til lítils. Það er billegt!
    Hvað er sameiginlegt með þeim tillögum sem hafa verið fluttar til þess að leita lausnar á þessum vanda, tillögum sem hægt er að rekja allt frá Camp David-samkomulaginu, Reagan-áætluninni, Amman-yfirlýsingunni, samþykktum Alþjóðasambands jafnaðarmanna, sem hv. þm. vitnaði í og hafði greinilega ekki lesið og rangtúlkaði vegna þess að það var ekki einhliða fordæming þar eins og ég skal kynna hv. þm. hér á eftir, eða ályktunum Evrópuráðsins? Þar er fjallað um þetta mál af viti, ofstækisleysi, raunsæi en ekki einu saman ofstæki og blindni.
    Ég vík aftur að því máli, virðulegi forseti, því ég ætla svo sannarlega að verja hendur mínar í þessu máli, en fyrst ætla ég að víkja að tillögunni, að atkvæðagreiðslunni um frystingartillögurnar tvær.
    Það er rétt að af þeim eitthvað um 25 tillögum um afvopnunarmál sem við höfum tekið afstöðu til voru fimm að mínu mati þess eðlis að þær þyrfti að skoða vandlega, matsatriðin, þótt ég hefði ekki nema hálftíma til þess eins og fram hefur komið. Að vísu skal það tekið fram að flestar eru þetta gamlar tillögur og þess vegna kunnugar stjórnmálamönnum og kunnugar alþingismönnum og hafa verið ræddar hér. Þær eru ekki í þeim skilningi nýlega fyrir mig lagðar. En um þessar tillögur er það að segja, þessar fimm, að um þrjár þeirra ákvað ég að við hefðum óbreytta afstöðu, en um tvær, tillögur annars vegar Indlands og annarra ríkja og hins vegar Mexíkó-Svíþjóðar, ákvað ég að breyta afstöðu frá fyrra ári á þann veg að í stað þess að styðja þær sætum við hjá. Nú skal ég gera grein fyrir rökunum fyrir því.
    Þessar tillögur hafa verið á dagskrá allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna síðan 1982. Þá var í fyrsta skipti lögð fram tillaga Mexíkó-Svíþjóðar þar sem hvatt var til stöðvunar framleiðslu kjarnavopna og kjarnakleyfra efna í vígbúnaðarskyni. Á sama þingi sama ár lögðu Indverjar ásamt með Afríkuþjóðum og Austur-Þjóðverjum fram tillögu svipaðs efnis. Tvær þessara tillagna, þ.e. Mexíkó og Svíþjóðar annars vegar og Indverja hins vegar, hafa síðan skotið upp

kollinum ár eftir ár. Um fyrri tillöguna má það segja að hún hafi breyst í hófsamara form með árunum og feli ekki lengur í sér einhliða gagnrýni á annað stórveldið sem einkenndi hana í upphaflegri mynd. Hin er að mestu efnislega óbreytt frá 1982.
    Það vekur mína athygli að þrátt fyrir breytingar á kjarnorkuvígbúnaði beggja stórveldanna skuli tillögur um frystingu koma fram ár eftir ár. Það virðist ekki skipta flutningsmenn máli hvernig hlutföll breytast í vígbúnaðarmálum. Höfuðatriðið er að frysta vígbúnað á því stigi sem hann er hverju sinni. Hugtakið ,,frysting`` tekur m.ö.o. ekkert tillit til aðstæðna sem ríkja á hverjum tíma með tilliti til vígbúnaðar eða hvort þær eru í jafnvægi eða ójafnvægi. Mér virðist því ljóst að frystingin ein sér feli í sér ákaflega takmarkað framlag til umræðu um afvopnunarmál. Þetta sambandsrof frystingarhugtaksins við raunveruleikann hefur orðið æ meira áberandi í seinni tíð. Við skulum hafa í huga að þegar þessar tillögur komu fyrst fram 1982 og 1983 voru aðstæður gjörólíkar því sem nú er. Atlantshafsbandalagið t.d. stóð þá frammi fyrir því í lok árs að hefja uppsetningu Pershing II stýriflauga til mótvægis við milli 300 og 400 SS-20 flaugar Sovétmanna sem miðað var á ríki Vestur-Evrópu. Þetta þótti sársaukafull pólitísk ákvörðun fyrir þau ríki bandalagsins sem í hlut áttu, en fáir sáu þá fyrir um þann árangur sem þessi ákvörðun skilaði síðar.
    Samningur stórveldanna um útrýmngu allra meðaldrægra kjarnaflauga á landi,
sem undirritaður var í Washington í desember sl., hefði að mínu mati og flestra annarra forustumanna lýðræðisríkjanna ekki orðið að veruleika hefðu tillögur um frystingu náð fram að ganga og komist til framkvæmda árið 1983. Ég bið menn að taka eftir því. Þvert á móti hefði slík tillaga, ef hún hefði verið samþykkt, lögleitt yfirburði þess stórveldisins á þessu afmarkaða sviði sem hafði ótvíræða slíka yfirburði og gert því þannig kleift að beita önnur ríki pólitískum og efnahagslegum þvingunum sem ekki hefðu stuðlað að friði eða öryggi. Raunin varð sem betur fer önnur. Samningurinn um útrýmingu meðaldrægra kjarnaflauga á landi hefur orðið til þess að treysta í sessi yfirlýsta grundvallarstefnu Atlantshafsbandalagsins sem miðar að því að ná fram raunhæfum og gagnkvæmum samningum um afvopnun og vopnaeftirlit í skjóli trúverðugra varna og öryggis. Í kjölfar þessa samnings er mannkynið nú e.t.v. að verða vitni að þáttaskilum í samskiptum austurs og vesturs, löngu tímabærum þáttaskilum. Pólitísk samstaða Atlantshafsríkjanna hefur m.a. orðið til þess að ryðja braut fyrir frekari árangri í afvopnunarmálum á öðrum sviðum.
    Við bindum miklar vonir við að það takist nú að semja um 50% niðurskurð langdrægra kjarnavopna á næsta ári. Þrátt fyrir að viðræður um jafnvægi á sviði hefðbundinna vopna í Evrópu hljóti því næst að vera eitt höfuðmarkmið vestrænna ríkja stefnum við að því að semja einnig um sameiginleg mörk fyrir skammdræg kjarnavopn. Eins og þessi verkefnalisti Atlantshafsbandalagsríkjanna, bandalagsþjóða okkar,

ber með sér er stefnt að umtalsverðri fækkun kjarnavopna en ekki að stöðva framleiðslu við núverandi aðstæður. Með því að tala um nauðsyn þess að frysta vopnabúrin nú eru Mexíkanar, Svíar og Indverjar að mínu mati að gegna þeim gæsum sem flugu í gær og vekur raunar furðu að svo úreltar hugmyndir skuli enn þykja gjaldgengar sem framlag í alvöruumræðum um afvopnunarmál.
    Þær röksemdir sem ég hef nú leitt fram gegn frystingartillögunum tveimur eru almenns eðlis og snerta ekki einstaka efnisþætti tillagnanna. Ég tel í fyrsta lagi að hugmyndin um frystingu kjarnavopna sé órökvís sem viðleitni til þess að stuðla að jafnvægi og öryggi þar sem hún taki ekkert tillit til aðstæðna hverju sinni.
    Í öðru lagi er það mitt mat að hún sé tímaskekkja þar sem allar raunhæfar tilraunir í átt til afvopnunar hljóti að miða að því að fækka kjarnavopnum en ekki að viðhalda eða einfaldlega setja skorður við núverandi birgðum. Þannig er meginmunur á gamla SALT-samningnum frá 1972 og 1979 annars vegar og hinum nýja afvopnunarsamningi frá því í fyrra vegna þess að hinir fyrri samningar kváðu einungis á um takmarkanir við frekari framleiðslu. Frystingartillögurnar eru þess vegna að mínu mati a.m.k. áratug á eftir tímanum.
    En það eru fleiri röksemdir, virðulegi forseti. Einn markverðasti árangur afvopnunarsamningsins er í því fólginn að hann kveður á um svokallaða ósamsíða fækkun kjarnorkuvopna, asymmetrical. Í þessu felst að Sovétmenn fallast á að fækka hlutfallslega miklu fleiri eldflaugum en ríki Atlantshafsbandalagsins af þeirri ástæðu að þeir höfðu miklu fleiri fyrir og þá hafa menn gert sér vonir um að sama regla gæti gilt á öðrum sviðum afvopnunarsamninga þar sem þeir, Sovétmenn, njóta yfirburða, t.d. á sviði skammdrægra kjarnavopna þar sem hlutföllin eru 15:1 Sovétríkjunum í hag. Frysting við þessar aðstæður, hv. 2. þm. Austurl., mundi gera þennan ávinning afvopnunarsamningsins að engu og festa ójafnvægi í sessi í afvopnunarsamningum. Samþykkt þessarar tillögu mundi þess vegna torvelda, að mínu mati, framgang næstu áfanga í afvopnunarviðræðum. Frysting á ójafnvægi, hvort heldur við erum að tala um skammdræg kjarnavopn eða langdrægar kjarnaflaugar á landi, mundi spilla fyrir frekari samningum um raunhæfan niðurskurð því að sá aðilinn sem yfirburðanna nýtur mundi ekki sjá sig knúinn til að láta þá yfirburði af hendi. Þetta, hv. þm., er yfirvegað mitt mat og við þá sannfæringu stend ég.
    Samningar um frystingu kjarnavopna yrðu að fela í sér ákvæði um strangt eftirlit með framkvæmd slíkra samninga. Hvorug ályktunin, sem við hér erum að ræða um, felur í sér neinar ábendingar um það hvernig ætti að standa að slíku eftirliti.
    Ákvörðun mín um að Ísland skyldi sitja hjá við þessar úreltu tillögur er því að mínu mati fyllilega eðlileg og styðst við veigamikil rök. Þegar þess er gætt hve ágætur árangur hefur náðst í

afvopnunarmálum og reyndar alþjóðamálum almennt á undanförnu ári ber Íslendingum tvímælalaust að mínu mati að leggja öllum raunhæfum tillögum lið, tillögum sem stuðlað geta að auknu öryggi í skjóli minni vopnabúnaðar. Frystingartillögur allsherjarþingsins eru því miður að mínu mati ekki í hópi slíkra tillagna.
    Virðulegi forseti. Er það siðferðilega rangt af fulltrúum Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að greiða ekki atkvæði með heldur sitja hjá, ekki greiða atkvæði gegn, sitja hjá, tillögu sem felur í sér einvörðungu einhliða fordæmingu á stefnu og athöfnum annars deiluaðilans í illvígum langvarandi deilum Ísraels og arabaríkjanna? Er það siðferðilega rangt? Hverjir erum við að við þykjumst geta kveðið upp salómonsdóm í því máli? Hvað erum við yfirleitt að tala um? Halda menn að þessar deilur hafi byrjað í
desember í fyrra? Halda menn að þessar deilur hafi byrjað árið 1967? Halda menn að þessar deilur hafi byrjað í lok seinni heimsstyrjaldar þegar Ísraelsríki var stofnað þar sem Íslendingar komu mjög við sögu? Hv. þm. sem talaði áðan hefur sótt menntun sína til Austur-Þýskalands, sem byrjaði feril sinn sem sovéskt hernámssvæði á þýsku landi, og hefur svolítil kynni af örlögum gyðinga í austanverðri Evrópu, ekki bara á millistríðsárunum. Halda menn að þetta vandamál sé eitthvað nýtt? Halda menn að gyðingavandamálið, sem við höfum búið við í a.m.k. 1500 ár, verði afgreitt með einhverri einhliða fordæmingu? Leyfist mér að biðja þá menn sem eru Evrópubúar að hugsa svolítið aftur í tímann og setja sitt siðferðilega mat í svolítið sögulegt samhengi? Leyfist mér úr þessum ræðustól að rifja upp hver var hlutur Evrópubúa gagnvart gyðingum? Þjóðarmorð, skipulögð útrýming Evrópuþjóða á 6 milljónum gyðinga, ofsóknir áratugum og öldum saman. Halda menn að slíkt skilji eftir einhver spor, einhver ör á sál og sinni?
    En hvað hefur síðan gerst? Hafa Evrópumenn siðferðilega efni á því að setja sig á háan hest og fordæma, fordæma ísraelsku þjóðina í þeim lífs- og sálarháska sem hún nú er í? Halda menn að það leysi málið? Og halda menn að smáríkið sem berst fyrir lífi sínu fyrir botni Miðjarðarhafsins taki það mjög hátíðlega þegar fulltrúar þeirra þjóða sem ofsóttu þá og komu þeim í gasklefana ætla að kenna þeim siðgæði? Halda menn að allar ályktanir Sameinuðu þjóðanna fluttar að frumkvæði kommúnistaríkja og arabaríkja séu lýsandi dæmi um siðferðilega yfirburði? Má ég minna á samþykkt Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1975 þar sem Sameinuðu þjóðirnar samþykktu tillögu um það að síonismi væri kynþáttahatursstefna eftir að hafa boðið þjóðhöfðingja Uganda þeirrar tíðar, Idi Amin, með sérstaklega hátíðlegum og virðulegum hætti til að ávarpa allsherjarþingið, manni sem var nýbúinn að senda skeyti til Þýskalands um það að úr því að þeir hefðu ekki haft rænu á því að reisa mannvininum Adolf Hitler sérstakt minnismerki, þá mundi hann gera það í ríki sínu Uganda, maðurinn sem var ekki einungis fjöldamorðingi á sínu eigin

fólki heldur með eigin hendi og var vitað þá og hylltur, hylltur hvað eftir annað þegar hann flutti sinn kynþáttahatursáróður á þingi Sameinuðu þjóðanna og í kjölfarið gerð samþykkt um að síonismi sé kynþáttahatursstefna. Áttu Íslendingar kannski að greiða atkvæði með því?
    Við skulum reyna að ræða þessi mál yfirvegað, öfgalaust og af einhverju viti með öðrum hætti en að áfellast og fordæma. Hvað er það sem er sameiginlegt með öllum þeim tillögum þar sem verið er að leita lausnar á þessum málum, hvað er sameiginlegt með þeim? Það sem er sameiginlegt með þeim er að það er verið að skapa einhverja umgjörð um frið þar sem þarf að fullnægja a.m.k. í einfaldri mynd tveimur skilyrðum.
    Í fyrsta lagi: Það verður að fást trygging fyrir því að nágrannaríki Ísraels viðurkenni tilverurétt þess ríkis. Öryggi Ísraels er einn þáttur þessa máls. Og af hverju það? Það er vegna þess að grannþjóðir Ísraels hafa þrisvar sinnum farið með ófriði á hendur þeim með yfirlýsingum um að útrýma þeim og reka þá í sjóinn og þurrka þá af landakortinu þannig að helförin sem Evrópubúar bjuggu gyðingum verði endurtekin. Og ég spyr: Ætla Evrópubúar að þvo hendur sínar af því eða bera þeir kannski einhverja siðferðilega ábyrgð?
    Hinn þátturinn, grundvallarskilyrði sem verður að nást fram, er sjálfsákvörðunarréttur Palestínumanna, réttur þeirra til þess að ráða sínum eigin málum, réttur þeirra til þess að kjósa sér yfirvöld, réttur þeirra til þess að koma sem aðili að samningum um framtíð þeirra. Þetta tvennt, að tryggja öryggi Ísraelsríkis og að virða sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna, er sameiginlega rauði þráðurinn í öllum tillögum sem fluttar hafa verið af góðviljuðum aðilum sem hafa reynt að bera vopn á klæðin í staðinn fyrir að fordæma og fordæma og skilja ekkert. Sá ágæti maður, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, George Shultz, hefur t.d. kallað þetta að láta land fyrir frið. En vandinn er auðvitað sá að öryggi Ísraels verður ekki tryggt í ljósi reynslu af þremur innrásum gegn því ríki nema því aðeins að til komi alþjóðlegt samkomulag, innsiglað að frumkvæði stórvelda, ekki síst Bandaríkjanna, um varanleg landamæri, vopnahlé, grið með þessum þjóðum. Og það þarf líka, að sjálfsögðu, að fylgja fram og styðja allar tillögur um að lögmæt réttindi og réttur Palestínumanna sé virtur í orði og verki. Ég er ekkert að horfa á Ísraelsríkisstjórn ógagnrýnum augum, tel hana ekkert hafna yfir gagnrýni, fjarri því. Ég er vissulega reiðubúinn að ræða það mál fyrir mál. Og vissulega hefur hún gert sig seka að ómannúðlegum og óréttlætanlegum ofbeldisverkum og vissulega ber að fordæma það og vissulega ber að harma það og vissulega ber að gera eitthvað annað. Það ber að gera fyrst og fremst eitthvað til að reyna að binda endi á þessi gagnkvæmu ofbeldisverk því að þau eru gagnkvæm. Ef menn vilja fara ofan í þá sögu, þá er hægt að telja þau upp í smáatriðum. Menn skulu ekki gleyma því að þetta mál byrjaði ekki í gær. Ofbeldisverkin eru gagnkvæm.
    Í grunnsáttmála PLO-samtakanna er því yfirlýst að

það beri að þurrka Ísraelsríki út og það skuli gert með ofbeldi. Og þó að leiðtogi þeirra hafi á
síðustu árum sýnt ýmis merki þess að hann vilji taka í einhverja sáttahönd og hlíta sáttatillögum hefur hann ekki megnað að gera það og ekki skal honum álasað fyrir það. Sá maður er líka í lífs- og sálarháska, í mjög erfiðri stöðu.
    En þetta er það sem tillögur snúast um, öryggi Ísraels, sjálfsákvörðunarréttur Palestínumanna, land fyrir frið, alþjóðleg ráðstefna, samkomulag um þróun á millibilsástandi. Og hverjir hafa flutt slíkar tillögur? Ég hef nefnt nokkra. Sú tillaga sem er hvað nýjust er tillaga Shultz og þær eru fleiri og fleiri og þeir sem kynna sér samþykktir Evrópuráðsins um þetta sjá að það er fjallað um þessi mál af sögulegri þekkingu, fordómaleysi og raunverulegum friðar- og sáttavilja.
    Og með leyfi forseta, af því að hv. þm. vék sérstaklega að samþykkt Alþjóðasambands jafnaðarmanna og leyfði sér einhvern skæting um Alþfl. af því tilefni, er rétt að kynna hv. þm. þá samþykkt því það er greinilegt að hann hafði ekki lesið hana. ( HG: Ég hef hana hér.) Já, þá hafði hann lesið hana með svipuðum augum og skrattinn les Biblíuna, þ.e. öfugt. Þessi ályktun er dæmi, hún er samþykkt á miðstjórnarfundi Alþjóðasambands jafnaðarmanna í Madrid um mitt ár 1988. Samþykktin er nokkuð ítarleg. En hver eru aðalatriðin í henni? Þau eru þessi:
    Í þessari samþykkt fer því fjarri að annar deiluaðilinn sé atyrtur eða yfir honum kveðinn upp áfellisdómur. Kjarni málsins er þessi: Alþjóðasamband jafnaðarmanna er skuldbundið til að leita friðsamlegra lausna á deilunni og hefur djúpa sannfæringu fyrir því að raunverulegur friðarferill sé framkvæmanlegur. Við áréttum stuðning okkar við alþjóðlega friðarráðstefnu sem verði haldin á vegum Sameinuðu þjóðanna og á grundvelli mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og á grundvelli tillagna öryggisráðsins nr. 242 og 338, þ.e. frá 1967 og 1973, sem voru um hvað? Sem voru um það að fá lausn sem tryggði öryggi Ísraels og sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna.
    Á þessari ráðstefnu skyldu allir aðilar málsins, þar með talið Palestínumenn sem ættu að hafa rétt til þess að velja sér sína eigin fulltrúa, sbr. tillögu Peresar fyrir seinustu kosningar í Ísrael um sérstakar kosningar á svæðunum, á þessari ráðstefnu skyldu allir aðilar stefna að því að tryggja öryggi ríkja fyrir botni Miðjarðarhafsins, þar með talið Ísraels, og jafnframt að framfylgja og hrinda í framkvæmd réttindum palestínsku þjóðarinnar til sjálfsákvörðunar. Þetta er eitt dæmið. Síðan er áskorun:
    ,,Alþjóðasamband jafnaðarmanna beinir því til allra deiluaðila og til gyðinga og fólksins í arabalöndunum að forðast ofbeldi`` --- endurtek: að forðast, refrain from violence, ,,að forðast ofbeldi og allar athafnir sem brjóta í bága við alþjóðalög og mannréttindi. Meðan yfir stendur hernám Ísraels á þessum svæðum hvílir sérstök skylda á herðum hernaðaryfirvalda Ísraels. Við fordæmum harðlega það ofbeldi sem Ísrael hefur sýnt á hernumdu svæðunum. Á sama

tíma``, og takið nú eftir, ,,á sama tíma fordæmum við harðlega skæruliðaárásir Palestínuhópa eða annarra samtaka gegn Israeli civilian targets``, þ.e. borgaralegum fórnarlömbum, ,,sem einnig eru aðeins til þess fallnar að dýpka kreppuna eða gera illt verra``, deepen the crisis.
    Virðulegi forseti. Rauði þráðurinn í öllum tillögum sem stuðla í alvöru að friði, ekki til þess að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra, sem vilja í alvöru stuðla að friði, eru tillögur af þessu tagi. Þessa ályktunartillögu Alþjóðasambands jafnaðarmanna get ég stutt í einu og öllu, í hverju einasta orði, og sama máli gegnir um aðrar þær tillögur sem fyrir liggja sem hafa það að sameiginlegu markmiði --- ekki að gera illt verra, ekki að etja deiluaðilum saman, ekki að egna menn til frekari ofbeldisverka heldur leiða þá að samningaborði að tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna á grundvelli mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir tilstuðlan stórvelda og annarra ríkja sem vilja stuðla að friði í þessum heimshluta um þetta, um pólitíska lausn í leit að friði. Fordæmingar eru ekki til þess fallnar.
    Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa talað hér nokkuð lengi, en ég tel að það hafi ekki verið að tilefnislausu. Ég vænti þess að hv þm. hafi heyrt það á mínu máli að ég hef djúpa sannfæringu fyrir því að við eigum ekki að ganga fram í málum eins og deilumálum araba og Ísraelsmanna með fordæminguna eina að vopni heldur styðja jákvæðar velviljaðar tillögur um raunverulegan frið. Og ætli það sé ekki best að ljúka þessari ræðu með tilvitnun í heilaga ritningu: ,,Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.``