Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég er ekki undrandi á því að Alþb. skuli hefja þessa umræðu. Þeim er greinilega eitthvað farið að hitna í þeirri félagshyggju- og jafnréttisstjórn sem þeim þótti svo eftirsóknarverð.
    Þetta voru nú aumlegu ákvarðanirnar sem hæstv. utanrrh. tók fyrir okkar hönd hjá Sameinuðu þjóðunum og hugum nú betur að því. Hann sagði nefnilega einmitt, með leyfi forseta: ,,Ég tók þá ákvörðun að við mundum sitja hjá.`` Og svo sagðist hann vilja verja hendur sínar og það undrar mig ekki.
    Merkileg voru líka vinnubrögðin við þessa ákvarðanatöku og leiðir hugann að því hvernig menn vinna í ríkisstjórnum. Ég heyrði því miður ekki þegar ráðherra lýsti því hvernig þetta hefði orðið, en það var vitnað í það síðar í máli hans og annarra, en hann mun einungis hafa haft um 30 mínútur til að taka afstöðu til fjölda tillagna. Það þykir mér undarlegt vinnulag vitandi eins og kom fram í máli hv. 12. þm. Reykv., en við höfum báðar farið til Sameinuðu þjóðanna, að tillögurnar koma fram með nokkrum fyrirvara og ætti því að veitast svigrúm til að taka afstöðu til þeirra. Hvernig stóð á því að svo skammur tími gafst til ákvörðunar um tillögur sem sumar voru gamalkunnar og búast mátti við að yrðu endurfluttar og hefði verið hægt að taka afstöðu til fyrr? Og hvers vegna var ekki ríkisstjórnin höfð með í ráðum? Nú eða þá Alþfl.? Það má nota síma. Það gerðu kvennalistakonur með góðum árangri í síðustu stjórnarmyndunarviðræðum á dögunum á stuttum tíma en náðu þó að stunda mjög valddreifð vinnubrögð þar sem fjöldi kvenna tók þátt í ákvörðunum. ( Gripið fram í: Hver var ákvörðunin?) Ákvörðunin að yfirveguðu ráði var að hafna þátttöku í þessari félagshyggju- og jafnréttisstjórn sem nú tekur afstöðu á þingi Sameinuðu þjóðanna. --- En hverjir voru það eiginlega sem ráðlögðu hæstv. ráðherra? Það kom hvergi fram. Eða var það bara hann einn, eins og hann vék að í máli sínu? ,,Ég tók þá ákvörðun,,, sagði hann.
    Síðan var það efni tillagnanna. Þá er það fyrst tillagan um málefni Ísraels og Palestínu, þau langvarandi og viðkvæmu deilumál, eins og hæstv. ráðherra réttilega nefndi þau. Hann sagði að það mundi reynast betur að leysa þau mál með góðviljuðum tillögum fremur en fordæma, fordæma, fordæma. Svo fordæmdi hann tillögur bornar fram af kommúnistum og arabaríkjum. Og hann fordæmdi þá sem fordæma aðra. Síðan vitnaði hann í ályktun alþjóðaþings jafnaðarmanna, ef ég heyrði rétt, þar sem einmitt voru fordæmd ofbeldisverk Ísraelsmanna. Samt gat hann ekki stutt þá tillögu sem lá fyrir þingi Sameinuðu þjóðanna þar sem í henni fólst einhliða fordæming á þessum ofbeldisverkum. Nei, hæstv. utanrrh. vill vera jafnaðarmaður í hvívetna, m.a. í fordæmingum og deila þeim jafnt út á milli deiluaðila.
    En hvernig er það nú í daglega lífinu, hæstv. ráðherra? Hvað gera menn þegar góðviljaðar ábendingar duga ekki og ófögnuðurinn eða ofbeldið eða hin illa hegðun heldur áfram? Margir grípa til

þess ráðs að byrsta sig og síðan þarf e.t.v. að grípa til strangari aðgerða til að knýja fram breytingu á hegðuninni án þess þó að beita ofbeldi á móti. Hvor er sterkari aðilinn í þessari deilu? Hvor aðilinn beinir einkum vopnum sínum að óvopnuðum borgurum, aðallega börnum og unglingum?
    Það er dapurlegt að sú þjóð sem svo lengi hefur barist fyrir tilverurétti sínum, gyðingar, skuli ekki enn hafa fundið friðsamlega lausn á sambýlisvanda sínum við nágranna sína fyrir botni Miðjarðarhafs. Sú þjóð, sem mátti þola svo miklar hörmungar að nær einsdæmi er, hörmungar, sem enn eru í minni margra þeirra sem nú búa í Ísrael, ekki síst ráðamanna. Hún beitir nú flóttamannaþjóð slíku ofbeldi að það vekur undrun og hryggð þeirra sem á horfa. Það er erfitt að skilja og sætta sig við að minni hennar skuli ekki ná lengra og menn trúa ekki eigin eyrum þegar þeir heyra yfirlýsingar utanríkisráðherra Ísraelsþjóðar um að það sé stefna Ísraelsmanna að meiða og limlesta palestínsk börn og unglinga þangað til þau læra að henda ekki grjóti í hermenn Ísraelsríkis. Og hv. 17. þm. Reykv. samþykkti að lögum yrði komið yfir þá menn sem fara þannig með ofbeldi á hendur saklausum borgurum. En þetta er yfirlýst stefna utanríkisráðherrans, kjörins utanríkisráðherra þjóðarinnar. Svo treysta menn sér ekki til að fordæma þetta athæfi opinberlega þó svo að þeir hafi allir fordæmt það hér úr hægum ræðustóli Alþingis.
    Hæstv. ráðherra talar um að það standi í grunnsáttmála PLO að Ísraelsríki skuli þurrkað út með ofbeldi. Hann er vel lesinn þessi ráðherra. Nú hafa samt orðið ýmsar breytingar á áherslum og stefnu PLO og þeirra fylkinga sem þá hreyfingu styðja og það getur verið að þetta hafi breyst. Og vegna þess að ég veit þetta ekki sjálf, þá mundi ég vilja biðja hann um að segja mér hvort þetta er enn yfirlýst stefna þeirra í dag eða hvort hún var það einu sinni.
    Menn töluðu um það hér að nauðsyn væri og rétt að fordæma mannréttindabrot, ofbeldi og kúgun. Þegar kemur svo að því að gera slíkt í einstökum tilvikum vilja oft ýmsir aðrir hagsmunir verða yfirsterkari þeirri réttlætiskennd sem menn hafa í orði. Vissulega er það rétt að best væri að þær þjóðir sem deila settust að samningaborði og leystu sín mál. Hitt verða menn þó einnig að muna og viðurkenna að oft þarf að þrýsta á menn og þjóðir og þeir
verða að finna vandlætingu annarra til þess að öðlast nægan vilja til að setjast að samningaborði. Oft er það einnig svo að sá sterkari er tregari til og á hann þarf meira að þrýsta. Og þar eru ekki smáþjóðir minni til áhrifa en stórþjóðir. Átökin hafa harðnað og versnað og vafalaust mundi það verða hæstv. ráðherra mikil lífsreynsla að taka því boði sem honum hefur verið gert um að heimsækja hernumdu svæðin. E.t.v. mundi hann skipta um skoðun við það.
    Hann sagðist vilja fylgja mannúðarstefnu, húmanisma, sagði hann og hallaði sér aftur á bak, kastaði til höfðinu og taldi billegt, eins og hann orðaði það, að hreykja sér yfir aðra sem væru í sálarháska og erfiðri stöðu. Og vissulega er hlutverk

hræsnarans ekki eftirsóknarvert. Hann sagði að mannvit þyrfti til að leysa deilur. En hæstv. ráðherra: Það þarf ekki bara umburðarlyndi heldur einnig mannvit og hugrekki til þess að fylgja mannúðarstefnu og til þess að mótmæla og jafnvel fordæma þegar það á við þrátt fyrir alla hagsmuni sem kynnu að verka gegn manni af þeim völdum.
    Samúð manna hefur réttilega verið rík með raunum gyðinga. Hún gefur þeim þó ekki leyfi til að kúga aðra og beita þá ofbeldi og enn síður --- og vík ég þá að máli hv. 2. þm. Vestf. --- gefur hún þeim réttindi til að taka líf annarra. Ofbeldi getur af sér ofbeldi og þann vítahring þarf að rjúfa jafnvel þótt það kosti fordæmingu.
    Þá vík ég máli mínu að frystingartillögunni sem oft og lengi hefur verið hér til umræðu á þinginu og orðið tilefni utandagskrárumræðna og nokkurra þingmála eins og áður var minnst á. Hugmyndir um frystingu eru hreint ekkert úreltar, hæstv. ráðherra og hv. þm., þær eru bara óvinsælar. Óvinsældir þeirra stafa ekki síst af því að þær hindra stórveldin í að halda áfram tilraunum sínum með kjarnorkuvopn, og ekki síst: Þær hindra framgang stjörnustríðsáætlunarinnar. Þær eru hreint ekkert gamaldags en trufla vígbúnaðarkapphlaupið. Og samþykkt þeirra kæmi heldur ekki í veg fyrir frekari afvopnunarsamninga því að þó að öll kjarnorkuvopn yrðu fryst nú, þá væri alveg hægt að semja um að fækka þeim í áföngum. Menn skulu ekki standa hér eins og bláeyg börn, þó að það fari þeim alls ekki illa, og halda að vígbúnaðarkapphlaupið sé stöðvað þó að fallegir afvopnunarsamningar hafi verið innsiglaðir. Vandinn er sá að þegar vopnum er fækkað í augsýn á alþjóðavettvangi eru í fullum gangi áætlanir þess iðnaðar sem kenndur hefur verið við hergögn og vísindi og veltir milljörðum, sem hugurinn fær ekki numið, til að finna upp, hanna og smíða léttari, hraðari, minni en markvissari og mun hættulegri vopn.
    Þeir sem taka ákvarðanir um þessi efni eru alls ekki margir. Þeir eru kannski bara svona um 600 manns í allt í heiminum í dag og því miður eru það yfirleitt ekki stjórnmálamenn því að þeim er stillt upp gagnvart orðnum hlut. Þeir eru kannski þegar orðnir samsekir og geta oft ekki annað en samþykkt smíði þeirra vopna sem mikill fjáraustur hefur þegar farið í að finna upp og hanna. Svigrúm þeirra er því miður mjög lítið þannig að í flestum tilvikum eru það ekki kjörnir fulltrúar fólksins sem taka slíkar ákvarðanir.
    En okkur er svo gjarnt að hugsa í hólfum. Meðan sumir dæma Svíþjóð, Mexíkó og fleiri þjóðir úti að aka, að þessar þjóðir fylgist ekki með því sem er á seyði í afvopnunarmálum, þrátt fyrir veru sína í þeim hópi sex þjóða frá fimm heimsálfum sem hafa haft hvað sterkast frumkvæði í afvopnunarmálum á undanförnum árum, þá fordæma þeir sannarlega þá þróun sem orðið hefur í kjölfar afvopnunarsamninganna, nefnilega að flytja kjarnorkuvopnin út í höfin til þess að samningarnir nái ekki til þeirra, því að þeir varða fyrst og fremst þær eldflaugar sem settar eru upp á landi.

    Ég vara menn við því að vera ekki á varðbergi og ég ráðlegg þeim að fylgjast vel með þeim nýju vopnum sem verið er að koma fyrir og knýja fram samþykktir um á þjóðþingum hinna ýmsu Vesturlanda. Sama máli gegnir auðvitað ekki um Sovétríkin þó að þar hafi orðið vart við þíðu á undanförnum mánuðum. Þar er það ekki þjóðarinnar að taka ákvarðanir um slík efni.
    Ég er ósátt við afstöðu hæstv. utanrrh. til beggja þeirra tillagna sem hér eru til umræðu, finnst hann hafa sýnt að hann er bæði glámskyggn og skammsýnn í þessum efnum og allt of einráður og ekki veit ég hverjir ráðgjafar hans eru. Ég veit ekki heldur hvernig meðstjórnarflokkar hans una við ráð hans en því miður eru allt of fáir samráðherrar hans viðstaddir í dag. Það er hér nánast enginn þeirra.
    Varðandi mál hv. 5. þm. Norðurl. v. þá heyrði ég því miður ekki nema hluta þess því ég þurfti að bregða mér frá, en ég held að hann hafi vísað til kvennalistakvenna að þær fordæmdu ekki nóg, sýndu ekki nægilega sterkan vilja eða víðtækan til fordæmingar á öllu því ofbeldi sem brýst fram og er iðkað í heiminum. En vitanlega er ofbeldi fordæmingarvert og á ekki að viðgangast. Það er sama hvar því er beitt og hver beitir því, það er jafnóréttlætanlegt.
    Menn hafa minnst á ákvörðun hæstv. utanrrh. um að leyfa byggingu varaflugvallar hér á landi. Nú heyrði ég ekki fréttir í gærkvöldi þannig að ég veit ekki nóg um það mál til að tjá mig um það. (Gripið fram í.) Nei, en einu vil ég þó vara menn við, að bera ekki þá ógæfu til þeirra embætta sem þeir
gegna um stundarsakir að draga Ísland nánara og frekara inn í það hervæðingarnet sem er verið að ríða hér í Norður-Atlantshafi. Því vil ég vara menn við.