Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Þegar litið er yfir farinn veg má segja að stóriðjumálin á Íslandi hafi verið hálfgerð harmsaga. Þau hafa einkennst af misskilningi og hálfgerðu klúðri frá því að við fórum fyrst að hugsa um stóriðju upp úr 1960 til að nýta okkur þær miklu orkulindir sem við áttum þá óbeislaðar.
    Það sem ég vil gagnrýna á þessum stað er að þessi mál hafa eiginlega alla tíð verið í höndum stjórnmálamanna og embættismanna, en ýmsir athafnamenn og framkvæmdamenn hafa þar lítið komið nærri. Því hafa áætlanir og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í stóriðjumálum okkar oft byggst á óraunsæi og loftköstulum einum. Hins vegar er því ekki að neita að stóriðjan leit á tímabili út fyrir að vera mjög vænn kostur fyrir okkur Íslendinga, en gallinn er bara sá að við vorum allt of seinir í gang. Það var þegar í seinni heimsstyrjöldinni og aðallega á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina að hráefnisiðnaður og þungaiðnaður var í hámarki í Evrópu og þá voru byggð stóriðjuver í Evrópulöndunum. Norðmenn frændur okkar voru fljótir að átta sig á þessu og notfærðu sér þetta mjög. Við fórum ekki í gang fyrr en upp úr 1960 og má segja að það var ekki fyrr en undir 1970 að fyrsta stóriðjuverið, þ.e. álverið í Straumsvík, kom til sögunnar, en þá er þetta tímabil mikillar uppbyggingar í hráefnisiðnaði í Vestur-Evrópu og Vesturlöndum að líða undir lok. Því má benda á að það eru allar líkur á því að við höfum nokkuð misst af lestinni vegna þess hve við vorum seinir í gang.
    Upp úr 1970 verður mikill samdráttur í hráefnisiðnaði á Vesturlöndum og eru reyndar allar líkur á því að Vestur-Evrópa og Vesturlönd verði ekki lengur sá staður þar sem þungaiðnaður og hráefnisiðnaður er aðalatriðið heldur eru allar líkur á því að þessi iðnaður muni færast til landa þriðja heimsins þar sem eru gífurlegar orkulindir ónotaðar og vinnuafl mun ódýrara en á Vesturlöndum. T.d. er verið að virkja vatnsorku í Brasilíu sem nemur mörgum þúsundum megawatta þannig að virkjanir eins og Búrfell og Hrauneyjafoss eru eins og dropi í hafið þegar borið er saman við þær framkvæmdir. Í Afríku eru sömuleiðis virkjunarkostir sem eru svo stórkostlegir að það sama er hægt að segja um þá, að litlu virkjanirnar okkar verða ansi litlar í þeim samanburði.
    Fyrst eftir að við fórum að huga að stóriðju litu ráðamenn svo á að stóriðjan ein sér mundi bjarga þjóðfélaginu og renna traustum stoðum undir atvinnulíf okkar Íslendinga. Á þessu var misskilningurinn byggður að mínum dómi. Stóriðjuver og stóriðja geta komið sem ákaflega hagkvæmur kostur til viðbótar því fátæklega atvinnulífi sem við höfum á Íslandi og þannig bar að líta á málin. Ef við hefðum haft vit á því að hagnýta okkur þá kosti þegar þeir gáfust, grípa gæsina þegar hún gafst og byggja á því að stóriðjan kæmi til viðbótar atvinnulífinu en ekki að hún ætti að vera aðalatriði, þá er líklegt að okkur hefði vegnað betur í þeim málum.

    Eins og nú horfir eru litlar líkur á því að um frekari uppbyggingu á stóriðjufyrirtækjum verði að ræða í Vestur-Evrópu. Hins vegar eru margar verksmiðjur sem enn þá eru starfræktar að ganga úr sér og einhver endurnýjun mun fara fram á þeim. Því er að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir okkur að hafa augun opin og huga að möguleikum þegar þeir gefast. Fyrir nokkrum árum áttum við kost á því að reisa hér kísilmálmverksmiðju og voru samningar langt komnir eins og einn hv. þm. gat um í ræðu sinni hér áðan. Hins vegar fórum við þá að blanda uppbyggingu stóriðju saman við byggðamálin. Við ætluðum að fara að gera vandamál dreifbýlis á Íslandi að útflutningsvöru sem er algjörlega fráleitt. Ef okkur gefst færi á því að fá erlend fyrirtæki til að byggja stóriðju á Íslandi, þá verður, eins og ég sagði áðan, að grípa gæsina þegar hún gefst. Við getum ekki farið að gera slíka möguleika að byggðamálum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að hefði sú ákvörðun verið tekin á sínum tíma að reisa kísilmálmverksmiðju við hliðina á járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, þá hefðu samningar náðst um það á þeim tíma. En þessum möguleika var fórnað á altari byggðastefnunnar vil ég segja.
    Ef það er mögulegt að fá fyrirtæki til þess að stækka álverið í Straumsvík, þá ber að taka þann kost um leið og hann gefst. Það gæti vel verið síðasti möguleikinn sem við höndlum til að nýta okkur orkulindir okkar með þessum hætti því að ég hef ekki trú á því að það verði um marga fleiri stóriðjukosti að ræða í framtíðinni. Hins vegar vil ég gagnrýna það hversu lítið við höfum sinnt því að byggja upp annan iðnað í landinu og notfæra okkur þessar hagkvæmu, ódýru orkulindir okkar til almennrar iðnaðaruppbyggingar. Það hefur skort mjög á að Íslendingar hafi viljað nýta sér þá möguleika sem felast í því að bjóða almennum iðnaði upp á ódýrt rafmagn og nýta sér þessar orkulindir til almennrar iðnaðaruppbyggingar. Þar er mikið verkefni eftir óleyst og ég vil skora á þá sem nú fara með þessi mál að huga að þeim möguleikum fremur en einblína á stóriðjuna eina saman.
    En ég vil þó að lokum taka undir það að án stóriðjunnar er ekki líklegt að okkur hefði miðað eins vel í að byggja okkar glæsilegu orkuver og nýta
orkulindir okkar eins og þó hefur gerst. Það hefur vissulega margt jákvætt komið með stóriðjunni. Við höfum náð tökum á þeim erfiðu verkefnum sem eru því samfara að virkja og beisla orkulindirnar og nú er svo komið að við ráðum vel við þau verkefni einir sér. Á árunum eftir stríð var engin tæknikunnátta til í landinu þannig að við gætum einir og óstuddir ráðið við þessi verkefni. Það höfum við þó fengið út úr þessu.
    Að lokum vil ég ítreka þá skoðun okkar þm. Borgfl. í Reykjaneskjördæmi að ef tækifæri gefst til þess að ná samningum um að stækka álverið í Straumsvík, þá ber að grípa það tækifæri strax og það gefst.