Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég þarf ekki langan tíma og ég tel að það sé lítil ástæða til að eyða löngum tíma í umræður um þetta mál á þessu stigi vegna þess að þessi umræða er ekki tímabær. Það er verið að vinna að málinu og eðlilegur gangur á þeirri vinnu svo best ég veit, en niðurstöður liggja ekki fyrir og fyrr er ástæðulaust að taka tíma til ítarlegrar umræðu. En þessa umræðu þarf að taka þegar niðurstöður liggja fyrir.
    Við höfum of mikið rafmagn þegar Blönduvirkjun er tekin til starfa, þ.e. framleiðslugetan er miklu meiri en notkunarmöguleikarnir. Það væri í sjálfu sér hagstætt ef markaður fyndist sem borgaði meira en framleiðslukostnaðarverð. Bygging álvers má ekki verða til þess að íslenskir notendur þyrftu að borga hærra verð vegna byggingar álversins.
    Til þess að gera þessa verksmiðju starfhæfa þarf að ráðast í viðbótarvirkjanir. Það dæmi er ekki fullreiknað hvað rafmagn úr þeim muni kosta og þess vegna hafa ekki verið sköpuð skilyrði til þess að ræða raforkuverð í smáatriðum og það er ekki búið að binda neitt raforkuverð enn þá í þessari hagkvæmniathugun. Landsvirkjun hefur ekki komist að niðurstöðu um hvert raforkuverð þurfi að vera að lágmarki. Þjóðhagsleg áhrif eru ókunn enn. Það er unnið að því að reyna að gera sér grein fyrir þeim sem eðlilegt og sjálfsagt er sem liður í þessu undirbúningsverki.
    Á þenslutíma væri staðsetning í Straumsvík mjög óheppileg. Það kann að verða breyting á ef um samdráttarskeið er að ræða. Það þarf að athuga byggðapólitísk sjónarmið. Hv. þm. Reyknesinga hafa nú einkum haft áhuga fyrir sjávarútvegsmálum á undanförnum vikum og unnið að þeim, en það kann að vera að það breytist.
    Það fylgja því geysilegar fjárskuldbindingar að ráðast í svo miklar virkjunarframkvæmdir sem hér er um að ræða og það þarf að gera sér grein fyrir hugsanlegum áhrifum af þeim.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson hefur að mínu mati ekki auðveldað eða flýtt fyrir byggingu álvers í Straumsvík með upphlaupi sínu í dag. Að sjálfsögðu tekur hv. þm. áhættu á að hann tefji málið og spilli því með því að taka það hér til umræðu. Auðvitað er hv. 1. þm. Reykv. að reyna að reka einhvern fleyg í hið ljúfa og góða stjórnarsamstarf okkar. Það mun honum að sjálfsögðu ekki takast.
    Það liggur alveg ljóst fyrir að stjórnarfrumvörp, hvorki um þetta efni né önnur, verða flutt nema með samþykki allra stjórnarflokkanna. Forsrh. gaf skýra og ótvíræða yfirlýsingu við myndun þessarar ríkisstjórnar að yrði samþykkt frv. um meiri háttar mál, ég held ég muni þetta orðrétt, í andstöðu við einhvern af stjórnarflokkunum teldi hann, þ.e. forsrh., að nýr meiri hluti hefði myndast og mundi að sjálfsögðu þá í framhaldi af því biðjast lausnar.
    Hv. 1. þm. Suðurl. spurði um stefnu Framsfl. í málinu. Framsfl. hefur af skiljanlegum ástæðum ekki tekið endanlega afstöðu til málsins, enda eru ekki

gögn fyrirliggjandi enn þá sem geri slíka vitræna ákvarðanatöku mögulega. En ég vonast eftir því að Framsfl. komi til með að móta sína afstöðu þegar nauðsynleg gögn liggja fyrir. Og Framsfl. telur rétt að afla þeirra gagna sem til þarf til að komast að skynsamlegri niðurstöðu.