Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Hæstv. forseti. Ég bendi hv. 12. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur á að hún talaði ekki fyrir hönd stjórnarandstöðunnar og heldur ekki aðrir þingmenn sem ekki eiga fulltrúa í ríkisstjórninni. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól: Það að hafa ekki ráðherra í ríkisstjórn þýðir ekki að sá flokkur sé endilega í stjórnarandstöðu. Það fer allt eftir málum hverju sinni. Nú erum við að tala um mál þar sem ég og aðrir sem hafa tekið til máls úr Borgfl. erum ekki sammála flestum þeim sem hafa talað og þar á meðal hæstv. fjmrh. Ég sé ekki ástæðu til að biðja hann afsökunar á því að hafa stutt einn af hæfustu þingmönnum frá upphafi Alþingis til forustu í ríkisstjórn. Það færi betur ef ríkisstjórnin í dag hefði einhvern sem kæmist í hálfkvisti við þann látna heiðursmann. Við skulum halda okkur innan velsæmis þegar við tölum hér. En komúnistaflokkurinn er jafnvondur fyrir því og hann heldur áfram að vera kommúnistaflokkur hvort sem menn koma þar til forustu úr öðrum kommúnistaflokkum eða Framsfl.
    En niðurstaða orða ráðherranna, sem varð til þess að hæstv. fjmrh. gerði orð hæstv. forsrh. að sínum, var sú að ég vitnaði í það sem hæstv. iðnrh. sagði, að verði niðurstaða hagkvæmniathugana hagstæð talin fyrir land og þjóð mun Alþingi fá að taka ákvörðun. Þá mun það verða lagt fyrir Alþingi að taka ákvörðun. Á sama tíma og á sama fundi segir forsrh. að málið muni ekki koma fyrir Alþingi nema allir stjórnarflokkarnir séu sammála. Ég treysti betur þeim sem þessi málaflokkur heyrir undir, hæstv. iðnrh., og tel að hann hafi starfað og staðið rétt að málum.