Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Flm. (Kjartan Jóhannsson):
    Herra forseti. Að því er varðar þau ummæli sem ég lét falla um mismunandi greiðslukjör vísa ég bara í svarið við fsp. frá í fyrra og hver og einn getur gengið úr skugga um það sjálfur hvort honum sýnist að öll greiðslukjör séu jöfn eða að þau séu mismunandi. Ég þarf ekkert að þræta um það. (Gripið fram í.) Ég tek enga afstöðu til þess, hv. þm. Ég vísa mönnum bara í svarið við fsp. og hver og einn getur skoðað það.
    Hv. 5. þm. Reykv. talaði um möguleika þeirra sem verr eru settir í þjóðfélaginu til þess að koma málum sínum fram, hversu erfitt gæti verið fyrir þá að fá t.d. lánafyrirgreiðslu í bönkum. Aðrir stæðu betur að vígi í þeim efnum. Vafalaust er það rétt. En það er náttúrlega stefna þessa frv. að það misræmi sem hv. 5. þm. Reykv. tók dæmi um varðandi bankafyrirgreiðslu eigi sér þá ekki stað líka í opinbera kerfinu. Stefnan sem hér er mörkuð er sú að allir eigi sömu möguleikana. Og það er tekið fram í 1. mgr. þessa lagafrv., þannig að það liggur fyrir að meiningin með þessu lagafrv. er að komið sé með sama hætti fram við alla.
    Um það sem hv. 5. þm. Reykv. gerði að umtalsefni varðandi stöðu innheimtumanna og því um líkt, þá tel ég að ráðherra hafi öll ráð, þó að þetta sé orðað með þeim hætti sem hér er, til þess að fá umsagnir frá innheimtumönnum ef erindi skyldi berast á borð ráðherra og ráðherra vildi að það yrði tekið til sérstakrar umfjöllunar.