Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Nú um stundir tíðkast að flokksþing stjórnmálaflokkanna séu opin fréttamönnum. Því birtist í fjölmiðlum ýmislegt af því sem ella kynni að hafa farið hljótt. Í Morgunblaðinu í gær er frétt af ræðu hæstv. viðskrh., sem fjallar um gróðurvernd, á flokksþingi Alþfl. undir fyrirsögninni ,,Herferð gegn kinda- og hrossakjöti eina ráðið?`` Þar segir eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Orsakir eyðingarinnar eru fleiri en ein, en ljóst er að hún verður ekki leyst án þess að lausaganga búfjár á viðkvæmu gróðurlendi verði alfarið bönnuð. Alþýðuflokkurinn hefur margsinnis krafist aðgerða í þessa átt en því miður hefur lítið gerst. Ef til vill er eina ráðið að efna til herferðar meðal almennings um að hann hætti að kaupa kjöt af þeim dýrum sem alin eru á beit afrétta í uppblásturshættu. Þetta á bæði við um afurðir sauðfjár og hrossa.``
    Síðan segir Morgunblaðið: ,,Undir þessi sjónarmið ráðherrans er tekið í umhverfismálaályktun flokksþingsins.``
    Ef rétt er eftir haft er hér alvarlegt mál á ferð. Hlutverk viðskrh. á að mínum dómi m.a. að vera það að greiða fyrir viðskiptum landsmanna, ekki síst viðskiptum með innlendar framleiðsluvörur. Hér er hins vegar eitthvað annað á seyði. Samkvæmt tilvitnuðum texta hótar hæstv. ráðherra viðskiptaþvingunum innan lands gegn innlendri framleiðslu. Hann er að leggja til að almenningur í landinu efni til herferðar gegn neyslu kinda- og hrossakjöts, að efnt verði til herferðar gegn bændastéttinni. Hafa menn heyrt aðra eins forsmán?
    Hæstv. ráðherra virðist, ef þetta er satt, hafa lært sitthvað af grænfriðungum úti í heimi sem efnt hafa til herferðar gegn íslenskum framleiðsluvörum. Kemur ekki að því að efna til herferðar gegn neyslu á fiski þegar fiskstofnar eiga í vök að verjast? Mér er ekki kunnugt um hversu vel hæstv. ráðherra veit hvað hann er að tala um. Veit hæstv. ráðherra að hrossabeit á afrétti er nálega aflögð? Veit hann að sauðfé í landinu hefur fækkað um meira en þriðjung á 11 árum eða yfir 300 þús. fullorðins fjár? Og veit hann að fleira fé gengur nú í heimahögum að sumarlagi en áður var og að beitartími á afréttum hefur verið styttur enda fer ástand afrétta víðast batnandi?
    Virðulegi forseti. Mér þykir nauðsynlegt að gera þessi mál að umtalsefni utan dagskrár þannig að hæstv. viðskrh. fái tækifæri til þess að bera tilvitnuð ummæli til baka ef þau eru ekki rétt eftir höfð ella bæri honum að biðjast afsökunar. Mér þykir líka tilefni til þess að heyra álit hæstv. landbrh. og hæstv. forsrh., eða fulltrúa hans þar sem hæstv. forsrh. er ekki við í þingsalnum, á því hvort hér sé um að ræða stefnu hæstv. núv. ríkisstjórnar sem hæstv. viðskrh. er að túlka með þessum hætti.