Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Eitt stærsta umhverfisvandamál á Íslandi er hin geigvænlega gróðureyðing. Menn komu hér upphaflega að ósnortnu heiðalandi sem var þéttvaxið viðkvæmum norðurhjaragróðri, lyngi og kjarri. Á 1100 árum hefur gróið land gengið úr sér. Við höfum gengið á lífgefandi náttúru landsins svo mjög að í staðinn fyrir að 2 / 3 hlutar flatarmáls landsins séu þaktir gróðri er þetta hlutfall nú við fjórðung.
    Auðvitað eru orsakir þessarar gróðureyðingar margar, en þeim sem til þekkja ber öllum saman um það að þar sé lausaganga búfjár alvarlegasta málið. Við verðum að breyta þessu. Það þekkist hvergi í Evrópu að búsmalinn gangi svona lausbeislaður um landið og darki í því þannig að upp úr landinu blási. Við verðum að breyta þessu. Landið má ekki spillast áfram af manna völdum.
    Ég sagði á nýafstöðnu flokksþingi Alþfl. að menn þyrftu þá að beina viðskiptum sínum frá þeim sem landinu spilla til hinna sem hlúa að því. Þetta er ekki herför gegn bændastéttinni. Þetta er herför til varnar landinu. Þetta er að beina viðskiptunum landinu til hagsbóta.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. beindi því sérstaklega til mín sem viðskrh. að mér væri ætlað að greiða fyrir viðskiptum í landinu. Það er rétt, en það er að vísu svo að viðskipti með landbúnaðarvörur eru einmitt það svið sem ríkið skiptir sér mest af, og auðvitað ættum við ekki að nota almannafé til að greiða niður gróðureyðinguna. Við eigum að reyna að beina því fé og almannafé yfirleitt til þess að hlúa að landinu. Þetta er kjarni míns máls. Það vil ég taka skýrt fram. Við viljum þar með beina viðskiptum til þeirra bænda sem beita fé sínu af skynsemi, gæta hæfilegrar ítölu, en við þurfum auðvitað að gera þetta almennt því á afréttunum er landið almenningseign.
    Það er út í hött að líkja mínum orðum við aðgerðir erlendra samtaka eins og Greenpeace gagnvart Íslendingum. Okkar málsvörn í því máli er einmitt sú að við höfum ekki ofgert hvalastofninum. Við förum þar af skynsemi, gætum þess að spilla ekki lífríkinu. Hættan er sú að það sé ekki gert alls staðar þar sem við beitum fé á úthaga. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. og málshefjanda að sem betur fer miðar nú nokkuð í rétta átt. Það hefur dregið úr hrossabeit á afréttum í Norðurlandi vestra m.a. Það er þakkarvert. Þó er það ekki alveg aflagt eftir því sem fróðustu menn segja mér. Það er líka rétt að meira er beitt á ræktarland en áður var. Það sér hins vegar hver maður að ofbeitin er önnur hlið á landbúnaðarvandanum. Við megum ekki halda þessu áfram miklu lengur. Almenningur í landinu er orðinn þreyttur á því að horfa bæði á gróðurlandið eyðileggjast og þurfa að greiða útflutningsbætur með þeim afurðum sem eru upp vaxnar á þessu ofsetna landi og þurfa svo að borga landgræðsluna til þess að laga sárin. Þessu verður að linna. Þetta er kjarninn í mínu máli.