Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Hæstv. viðskrh. er örðugt að klóra sig út úr þessu máli. Ekki bar hann til baka fréttaflutning Morgunblaðsins frá fundinum og hann dró ekki til baka þessi dæmalausu ummæli, þá furðulegu hugmynd sem hann varpaði þarna fram. Þetta eru ekki forsvaranleg ummæli hjá viðskrh. Þetta er atvinnurógur af verstu gráðu. Hann ræðst á sauðfjárbændur og hrossabændur í heild. Neytandinn veit ekkert um hvaðan kjötið er sem hann sér í kjötborðinu. Það er einungis verið að ráðast á stéttina í heild.
    Eins og bent hefur verið á beitir hann hliðstæðum bellibrögðum og Greenpeace-menn gera við okkur út af hvalveiðum. Hann reynir að fá fólk til að kaupa ekki kjöt af sauðfé eða hrossum. Eins og bent hefur verið á ganga hross hvergi á afréttum sem eru í uppblásturshættu á Íslandi. Það er bæði fáfræði og illvilji sem þarna lýsir sér í ummælum ráðherrans.
    Það á auðvitað hvergi að líða ofbeit á hálendinu og því er auðvelt að stjórna og það stendur ekkert á bændum að leggja sitt af mörkum þar í. Við ráðum hins vegar ekki við veðráttuna. Og landbúnað þarf auðvitað að skipuleggja og það er unnið kappsamlega að því þannig að létt sé beit af þeim svæðum þar sem gróður er viðkvæmur. Það er hægt að ná árangri með skynsamlegri stjórnun og því ætti ráðherra að beita sér fyrir en ekki nota þá fáu staði þar sem um er að ræða uppblástur sem er ofbeit að kenna til þess að ráðast á bændastéttina og atvinnu hennar í heild.
    Alger vörsluskylda búfjár hefur í för með sér að varan hækkar í verði vegna þess að það kostar að girða og halda við girðingum. Viðskrh. verður að horfast í augu við það. Alvara málsins er mjög mikil og ég undirstrika að það er viðskrh. þjóðarinnar sem opnaði þarna munninn, ekki einhver léttgeggjaður smákrati.