Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki vera margorð, en það er augljóslega ekki vanþörf á umræðu af þessu tagi. Ég ætla ekki að verja ógætileg orð hæstv. ráðherra um herferð gegn kjötáti tengdu gróðurfari lands okkar, sem ég tók reyndar sem svo að þau hefðu verið látin flakka í hita landsfundar. En ég verð nú að segja að fleiri þyrftu að gæta tungu sinnar svo sem sannast hefur í þessari umræðu og finnst mér menn viðkvæmir úr hófi.
    En ég vil af þessu tilefni taka undir þau sjónarmið að okkur ber að stöðva gróðureyðinguna og landspjöllin sem eru einn hrikalegasti umhverfisvandinn sem við Íslendingar eigum við að etja. Í því skyni eigum við að taka mið af könnunum, m.a. á ástandi afrétta og beitarþoli, og gera áætlun um nýtingu landsins samkvæmt þeim og þar hljótum við fyrst og fremst að taka mið af heildarhagsmunum sem um of hafa verið fyrir borð bornir. Það er hins vegar naumast vænlegt til þjóðarsáttar, sem er nauðsynleg í slíku máli sem þessu, að skekja breiðu spjótin. Ég vara við því og hvet menn til að grafa þau spjót og snúa sér að jarðabótum á leiði þeirra spjóta.