Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Sú till. sem hér er á dagskrá er um margt athygli verð. Einkanlega er það athyglisvert að hún er í hópi fjölmargra þáltill. frá þingmönnum Framsfl. um það að mál séu flutt frá ráðherrum og í sérstakar nefndir og að þeim ráðherrum, sem ekki tilheyra Framsfl., séu falin sérstök verkefni. Fyrr á dagskránni var til að mynda til umræðu þáltill. um að bæta rekstrarstöðu ylræktar. Um leið og Framsfl. er búinn að gefa frá sér landbrn. flytja þingmennirnir auðvitað till. um að nýja landbrh. verði gert skylt að bæta rekstrarstöðu ylræktarinnar í landinu.
    Um þessa till. er það að segja að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og yfirlýsingum hennar segir mjög skýrt að það eigi að breyta grundvelli lánskjaravísitölunnar í fyrsta lagi og í öðru lagi eigi að afnema lánskjaravísitöluna. Sumum hefur þótt sem svo að þessar yfirlýsingar stönguðust nokkuð á og væru svolítið framsóknarlegar í eðli sínu en hvort tveggja er þetta þó mjög skýrt og skilmerkilega skrifað í yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Hvað gerist þá? Þá koma þingmenn Framsfl. og flytja um það till. að þetta skuli tekið úr höndum þess ráðherra sem fer með þessi mál, þ.e. hæstv. viðskrh., sem hefur verið að vinna að þessum málum lengi, skipaði t.d. sérstaka nefnd í fyrri ríkisstjórn til þess að fjalla um þetta og hefur falið Seðlabankanum að vinna sérstaklega að þessu. En þá flytja þingmenn Framsfl. till. um að taka þetta mál úr höndunum á hæstv. viðskrh. Ekki er nú traustið meira þar innanbúðar og lýsir þetta eitt út af fyrir sig því sérstaklega hvernig staðið er að verki og hvert traustið er innanbúðar í þessum efnum og ýmsum fleirum. En efnislega hlýtur þessi tillöguflutningur og umræða að kalla fram ýmsar spurningar, fyrir svo utan vinnubrögðin sjálf og það vantraust sem fram kemur í tillöguflutningnum á þeim ráðherra sem fer með þessi mál og hefur sérstaklega skipað nefndir og falið stofnunum ríkisins að fjalla um þau.
    Það var tilkynnt á flokksþingi Framsfl. fyrir skömmu að ekki hefði einasta verið tekin ákvörðun um að breyta grundvelli vísitölunnar heldur hefði ríkisstjórnin náð samkomulagi við Seðlabanka Íslands um að breyta grundvelli vísitölunnar frá 1. janúar nk. Því var beinlínis lýst yfir að þetta væri ekki einasta stefnumið lengur heldur hefði verið gert um þetta samkomulag á milli ríkisstjórnar og Seðlabanka. Það er auðvitað ástæða til þess hér í umræðunni að óska eftir því við hæstv. viðskrh. að hann geri mjög skilmerkilega grein fyrir því í hverju samkomulagið var fólgið og geri nákvæma grein fyrir því hvaða breyting verður á vísitölunni um áramótin eins og boðuð var á flokksþingi Framsfl. og lýst var yfir að búið væri að gera samkomulag við Seðlabankann um. Það er auðvitað ekki seinna vænna að Alþingi sé gerð grein fyrir þessu. En auðvitað er það líka alveg nauðsynlegt vegna umræðunnar í þjóðfélaginu að ríkisstjórnin geri grein fyrir þessu því það hefur áhrif á fjármagnsmarkaðinn og það hefur áhrif á ákvarðanir manna um það hvernig þeir gera sína samninga og

hvernig þeir koma sparifjármagni sínu fyrir hvaða breytingar verða gerðar í þessu efni og nauðsynlegt að hæstv. viðskrh. geri nákvæma grein fyrir þeim.
    Ef hæstv. ráðherra er svo fylgjandi þessari till. verður að koma fram hvort aftur eigi að gera breytingu á grundvellinum þegar nefndin sem á að taka málið úr höndum ráðherrans hefur verið skipuð. Á þá enn á ný að gera breytingar á grundvellinum? Svör verða að fást við þessu. Á að fara að breyta þessu frá einum mánuði til annars? Hvenær á nefndin að ljúka störfum og hvenær eiga þær breytingar að taka gildi, ef hæstv. ráðherra er á annað borð hlynntur því að þessi till. þingmanna Framsfl. nái fram að ganga? Við þessu verða að fást alveg skýr svör því að það er ekki einasta Alþingi sem þarf að fá að vita þetta heldur ekki síður þeir aðilar í þjóðfélaginu sem á hverjum degi gera fjárskuldbindingar sín á milli og ráðstafa sparifé sínu.
    Það er einnig nauðsynlegt að fá að vita meira um það álit sem sagt hefur verið frá að Seðlabankinn hafi skilað ríkisstjórninni af þessu tilefni. Það hefur verið greint frá því að Seðlabankinn hafi gefið ríkisstjórninni álit um þessa breytingu sem taka á gildi um áramótin. Og nú spyr ég hæstv. viðskrh. að því hvort hann sé tilbúinn að birta þetta álit og afhenda það alþingismönnum þannig að umræðan geti farið fram á þeim grundvelli að menn hafi í höndum álit Seðlabankans um þessa breytingu.
    Síðan er auðvitað spurning um þessa breytingu sjálfa. Ég er þeirrar skoðunar að alveg megi taka til athugunar að breyta grunni vísitölunnar. En auðvitað þurfa menn að ganga úr skugga um það lögfræðilega hvaða áhrif það getur haft. Hvaða breytingar er unnt að gera án þess að það hafi áhrif á þá sem þegar hafa gert fjárskuldbindingar á núverandi grunni? Er hægt að gera breytingar eða hversu miklar?
    Þetta er auðvitað nauðsynlegt að draga fram í þessu skyni. Síðan er nauðsynlegt að fá gleggri upplýsingar um ýmis önnur efni og m.a. um það hvaða áhrif aukin launatenging hefur. Ég hygg að það sé alveg laukrétt og engum sem um þetta hefur fjallað hefur blandast hugur um það og ég hygg að flestum sem
fjölluðu um þetta innan fyrri ríkisstjórnar hafi verið ljóst að aukin launatenging hefur þau áhrif til lengri tíma að gera verðtrygginguna hagkvæmari fyrir fjármagnseigendurna en meira íþyngjandi fyrir þá sem lánin taka, fyrir skuldarana. En um þetta þurfa auðvitað að liggja fyrir skýrar upplýsingar.
    Það þarf líka að liggja fyrir hvaða ákvarðanir hafa verið teknar um spariskírteini ríkissjóðs. Á að afnema vísitölu af spariskírteinum ríkissjóðs og hvenær á það afnám að koma fram? Nú liggur fyrir að verðbólga er því sem næst engin og þó að fæstir í þjóðfélaginu hafi trú á því að stjórnarstefnan sé með þeim hætti að það haldist nema í nokkrar vikur verður að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstjórnar að hún trúi því sjálf að þetta ástand verði varanlegt og þá hlýtur spurningin að koma um það hvenær vísitalan verður afnumin, ríkisstjórnin hlýtur að geta svarað því með óyggjandi

hætti eftir þann tíma sem hún hefur nú setið, og hvenær það kemur til framkvæmda gagnvart spariskírteinum ríkissjóðs. Nú liggur fyrir að þau eru hætt að seljast og þá þarf að svara því hvað á að gera í staðinn til þess að gera spariskírteini ríkissjóðs seljanleg --- eða treysta menn sér til að reka ríkissjóð án þess að afla lánsfjár með sölu spariskírteina? Æskilegt væri og nauðsynlegt að hæstv. ráðherra gerði nánari grein fyrir þessu og ýmsum fleiri atriðum hér í umræðunni.