Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Fyrst nokkur orð um eðli tillögunnar sem mönnum hefur hér orðið tíðrætt um. Mig langar til að byrja á því að rifja upp einfaldan hlut, sem er að till. til þál. sem hér er flutt er endurflutt óbreytt frá fyrra þingi. Þá flutti hana 1. flm., 10. þm. Reykv., einn. Með honum hefur nú fengist annar flm., hv. 2. þm. Vestf. Tillögugreinin er óbreytt, en skýringarnar eru nokkuð breyttar. Þetta vildi ég rifja upp til þess að glöggva fyrir mönnum að hér er fráleitt um nýjan hlut eða uppákomu að ræða í stjórnmálunum og fjarri lagi að líta á þetta sem vantrauststillögu á þá sem með þessi mál fara nú eða fóru áður.
    Ástæðan er einföld því þegar maður les grg. og hlustar á flm. er hverjum manni ljóst að þeir eru að ræða fyrst og fremst mælingarvandamál. Ég geri ekki lítið úr því. Þeir rekja hér dæmi sem þeir segja að sýni að lánskjaravísitalan íslenska hækki úr hófi fram og feli í sér, eins og hv. 2. þm. Vestf. sagði víst hérna áðan, ekki bara verðtryggingu heldur líka ávöxtun. Þeir byggja sitt mál m.a. á samanburði við þróun gengis mikilvægra gjaldmiðla. Þetta eru athyglisverðar ábendingar, en ekki að minni hyggju óyggjandi vísbendingar um það að lánskjaravísitalan margumrædda sé óalandi og óferjandi sem verðlagsmælikvarði. Hún hefur vafalaust, eins og flestar vísitölur sem byggðar eru á föstum grunni, tilhneigingu til að ofmeta verðbreytingar þegar fram í sækir. Það má vel vera að hún hafi í sér fólgið meira víxlgengi við ýmsar aðrar stærðir í hagkerfinu en vera skyldi. Þó leyfi ég mér að benda á að þær kvótaraðir verðhækkana sem hv. 10. þm. Reykv. fór hér með í mæltu máli áðan og hrifu svo mjög hv. 8. þm. Reykv. að hann vildi helst láta letra þær gullnu letri á spjöld sögunnar, að því er ég skildi hann, eða a.m.k. í Morgunblaðið og ég vona að þær birtist þar, eru auðvitað ekki ný tíðindi. Það er, eins og kom fram í umræðunum áðan, ekki síst hjá hv. 9. þm. Reykn. Karli Steinari Guðnasyni, verðbólgan sem er vandamálið. Þetta er lýsing á þeim víxlhækkunum sem verða þegar verðbólguþróun fer úr böndunum.
    Ég held þess vegna að besta meðferðin á tillögu sem þessari, sem fjallar um athugun á því hvort vísitölurnar sem mynda lánskjaravísitöluna, framfærslukostnaðarvísitalan og byggingarkostnaðarvísitalan, ofmeta verðbreytingarnar, sé að athuga hana vandlega í þeirri nefnd Sþ. sem með þessi mál fer, og til hennar verður þessu máli vísað, að hún leiti álits Hagstofunnar og annarra til þess bærra aðila hvort þetta sé raunverulega svona. Þetta finnst mér vera kjarni málsins eins og það er hér flutt og alls engin ástæða til að amast við því, síður en svo.
    Hitt er svo annað mál, hvernig þetta dugir til að verðtryggja fjárskuldbindingar og hvort það sé alls kostar heppileg aðferð. Það er önnur saga, saga sem er mikið umdeild, en hún er í raun og veru ekki kjarni þeirrar tillögu sem þeir gera hér, nema hvað þeir benda sérstaklega á í greinargerðinni að vera

megi ráð að líta betur á gengið sem hugsanlegan verðtryggingargrundvöll. Það tel ég reyndar fullkomna ástæðu til þess að gera og bendi á að í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar er einmitt sagt að jafnframt verði heimilað að velja viðmiðun við gengið sem lánskjaravísitölu þegar breytingar verði gerðar. Þetta þurfa menn að skoða. Hins vegar vil ég benda á það að mér finnst vanta í málflutningi flm. þessarar tillögu að gera grein fyrir því að í heimalöndum þeirra gjaldmiðla, sem hafa dregist aftur úr lánskjaravísitölunni, eins og þeir kjósa að orða það, hefur verið um verðbreytingar að ræða og þar er nafnvaxtastig breytilegt þannig að hluti af skarðinu sem þeir telja að sé þarna á milli verður af þessu tvennu fylltur. Samanburðurinn er því ekki óyggjandi.
    En þá kem ég að því sem kalla mætti efnahagsstefnuatriðið í þessu máli sem margir hafa gert hér að umtalsefni. Hv. 8. þm. Reykv., hv. 17. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykn., ef ég man rétt, bentu á að það hefði verið ákveðið í nokkurri skyndingu að breyta samsetningu lánskjaravísitölunnar þannig að vægi launanna væri aukið. Ég er ekki alveg viss um að þetta hafi verið sú skyndiákvörðun sem þeir vilja vera láta. Ég bendi á að hv. 1. þm. Suðurl., þá forsrh., bar í fyrri hluta septembermánaðar fram tillögu, sem er í eðli sínu nákvæmlega hin sama. Hann lagði til að ný lánskjaravísitala skyldi mynduð að 1 / 3 af launum, 1 / 3 af byggingarvísitölu og 1 / 3 af framfærslukostnaðarvísitölu í stað þess sem á endanum varð stefnuyfirlýsing þeirrar stjórnar sem nú situr, að launin skyldu vega helming og hinar vísitölurnar tvær fjórðung hvor. Á þessu er enginn eðlismunur og afar lítill fjárhagsmunur. Ég er þess vegna ekki hissa á því að hv. 1. þm. Suðurl. telji að það komi til greina að gera slíkar breytingar. Hann hefur gert tillögur um þær sjálfur og reyndar haldið því fram í málflutningi bæði fyrr og síðar að þetta væru þær einu raunhæfu tillögur. Ég stóð satt að segja í þeirri trú að þingmenn Sjálfstfl., þingflokkur Sjálfstfl., hefðu samþykkt þessar tillögur sem þeir nú kjósa að kalla skyndiákvarðanir. Þær ákvarðanir, vel að merkja, vil ég benda þeim á að þeir tóku sjálfir í byrjun september. ( GHH: Það var flm. sem kallaði þetta skyndingu.) Þið kölluðuð þetta sjálfir skyndiákvarðanir
og tókuð það upp eftir þeim. En ég vildi benda á þessar einföldu sögulegu staðreyndir í þessu máli.
    Það er ekki þar með sagt að þetta verði betra fyrir bragðið. Ég held að það sé ekki réttur skilningur á tillögunni, sem hér er flutt, að hún gangi sem slík á skjön við stefnu stjórnarinnar. Hún er beinlínis til þess hugsuð og ærlega meint af hálfu flm. eins og þeirra var von og vísa að þeir vilja bæta þessa mælikvarða. Það er reyndar beinlínis gert ráð fyrir því í lögunum um verðtryggingu fjárskuldbindinga að grundvöllur vísitölunnar verði endurskoðaður þannig að hann sé jafnan sem bestur verðlagsmælikvarði. Þetta má auðvitað ekki verða of ótt og títt, eins og hv. 1. þm. Suðurl. kom m.a. inn á, því þarna þarf að freista þess að skapa nokkra festu. Ég þykist vita að umræðan sem hér fer fram sé einmitt til þess hugsuð af þeirra

hálfu.
    Þá kem ég að því að fjalla nokkuð um stöðu málsins eins og hún er nú. Hv. 1. þm. Suðurl. spurði um álit Seðlabankans á þessu máli. Það er rétt. Seðlabankinn gerði grein fyrir skoðunum sínum á þeim ákvörðunum ríkisstjórnarinnar sem fyrir hann voru lagðar í lok september. Álit þetta var í eðli sínu vinnuskjal, en það er sjálfsagt mál að þingmenn kynnist því í nefnd Sþ., þegar um þessi mál verður fjallað, sem ég tel ástæðu til að fjalli sem vandlegast um þetta allt. Þar komu fram ýmiss konar ábendingar sem ég tel að hafi verið skylda Seðlabankans að koma með. Um einstök atriði má síðan deila. Ég ætla svo í örstuttu máli að gera grein fyrir því hvernig málið stendur, með leyfi hæstv. forseta, það tekur mig eina eða tvær mínútur, sem ég verð að taka vegna þess að um þetta hafa komið ítrekaðar fyrirspurnir hér í umræðunni.
    Í fyrsta lagi vildi ég segja að nú er að því stefnt að taka upp nýja lánskjaravísitölu frá 1. janúar nk. sem verður samsett með þeim hætti sem ríkisstjórnin hefur ákveðið og margoft hefur verið frá skýrt. Ef ekki reynast á því neinir sérstakir annmarkar verður þannig frá þessu gengið að eingöngu megi nota þessa nýju lánskjaravísitölu í verðtryggðum lánssamningum sem gerðir verða eftir þennan tíma.
    Í öðru lagi er verið að vinna að því að sem flestum verði gefinn kostur á að semja svo um að hin nýja vísitala taki einnig gildi í eldri lánssamningum. Jafnframt verði haldið áfram að reikna gömlu lánskjaravísitöluna vegna þeirra samninga sem báðir aðilar fallast ekki á að breyti um vísitölugrundvöll. Til að undirbúa þetta mál, og það þarf auðvitað að gera vandlega, þarf í fyrsta lagi --- og nú rek ég nokkur atriði enn, með leyfi hæstv. forseta, --- að undirbúa formskilyrðin fyrir því að Seðlabankinn geti gefið út frá 1. janúar nýja lánskjaravísitölu sem miðist að hálfu við launavísitöluna en að fjórðungi við framfærsluvísitölu og að fjórðungi við byggingarvísitölu. Ég vek athygli þeirra þingmanna sem hér hafa mest talað um þingmeirihluta að þetta er lögum samkvæmt ákvörðun sem Seðlabankinn getur tekið. En ég tel að hann styðjist þar við mjög ótvíræða yfirlýsingu um að breyting af þessu tagi --- eða þessa eðlis --- njóti mikils stuðnings í þinginu, þar sem fram voru komnar áður en þessi stjórn var mynduð tillögur frá forustumanni fyrri stjórnar um nákvæmlega sama hlut. Það þarf að kanna hvort auglýsing Seðlabankans ein nægi til að gera þetta og hvort nota megi þessa vísitölu eingöngu í lánssamningum sem eru gerðir eftir 1. janúar. Þetta er fyrsta atriðið, mjög mikilvægt lögfræðilegt atriði.
    Í öðru lagi verður athugað nánar hvort nokkuð er því til fyrirstöðu að núgildandi launavísitala til greiðslujöfnunar, sem lögfest var á árinu 1983, verði notuð sem hluti af grundvelli nýju lánskjaravísitölunnar uns ný og betri launavísitala hefur verið tekin upp.
    Í þriðja lagi verði Hagstofunni falið að undirbúa nýja vandaða launavísitölu í samráði við

Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka og kjararannsóknarnefnd og undirbúa frv. um útreikning slíkrar vísitölu, telji menn það tryggara.
    Í fjórða lagi tel ég að kanna þurfi hvort unnt sé og rétt að fella niður núgildandi lög um greiðslujöfnun fjárskuldbindinga sem að hluta var ætlað sama verk og breytingin á grunninum nú, þ.e. að draga úr misgengi launa og lánskjara, að gera þetta um leið og ný lánskjaravísitala með auknu launavægi tekur gildi.
    Í fimmta lagi verði undirbúin auglýsing um gengisvísitölu sem nota megi í samningum á hliðstæðan hátt og lánskjaravísitölu, hún verði líka auglýst frá 1. janúar.
    Þótt það verði ekki gert skylt, sem enn er kannski ekki alveg útkljáð, að taka hina nýju lánskjaravísitölu upp í eldri lánssamningum, ef ekki næst um það samkomulag milli aðila, er æskilegt að gefnar verði leiðbeiningar um það hvernig sanngjarnast sé að tengja milli gömlu og nýju vísitölunnar. Fyrir slíku er reyndar beinlínis gert ráð í lögunum og um það fjallar sérstök nefnd. Ég tel að það þurfi að veita samningsaðilum ráðgjöf til þess einmitt að tryggja að ekki verði valin önnur verðtryggingarviðmiðun en menn koma sér sjálfir saman um.
    Þetta er að sjálfsögðu býsna viðurhlutamikið mál og ég bið þingheim velvirðingar á því að hafa þurft að rekja í nokkuð löngu máli þær athuganir og undirbúning sem nú fer fram vegna þess. Hjá því varð þó ekki komist vegna fyrirspurna sem fram voru bornar.
    Að lokum vildi ég segja vegna þess sem fram kom hjá hv. 2. þm. Vestf. um álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á lánskjaravísitölunni og verðtryggingu fjárskuldbindinga að það er rétt að í áliti þeirrar stofnunar, sem ekki eru opinber plögg að allri venju, kom fram sú skoðun að nokkrir gallar gætu verið á lánskjaravísitöluviðmiðun eða verðtryggingu yfirleitt í peningamálastjórn vegna þess að hún gerði skuldurunum lífið of létt, þveröfugt við það sem verið hefur málflutningur hv. 2. þm. Vestf. og annarra. Þetta segi ég að lokum míns máls, en tel líka eðlilegt að í nefndinni verði þetta og önnur slík atriði rædd.
    Ég þakka forseta fyrir að hafa sýnt mér umburðarlyndi.