Getraunir
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um getraunir, en þetta frv. var flutt í Nd. og hefur nú hlotið afgreiðslu þar og verið mikil og góð samstaða um málið.
    Meginefni þessa frv. kemur fram í 2. gr. þess þar sem fjallað er um hvert skuli vera hlutfall vinninga í getraunastarfseminni. Samkvæmt núgildandi lögum er það 50% eða helmingur, en lagt er til að því verði breytt þannig að ákveðið verði að það skuli aldrei vera minna en 40%.
    Þetta frv. er flutt að beiðni stjórnar Íslenskra getrauna og hefur tekist mjög gott samstarf við Íslenska getspá. Hér er um mikilvægt mál að ræða fyrir íþróttahreyfinguna. Ég vænti þess að um þetta mál sé full samstaða hér á Alþingi og vildi óska þess að því verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umræðu og leyfi mér að fara þess á leit að reynt verði að flýta afgreiðslu þess.