Áfengiskaup handhafa forsetavalds
Mánudaginn 05. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Virðulegur forseti. Fyrst umræður eru hafnar um þetta mál hér langar mig til að vekja athygli á einni hlið þessa máls sem mér finnst skipta verulegu máli en hefur ekki komið nægjanlega fram. Það er með hvaða hætti upplýsingar um þessi efni hafa verið birtar, með hvaða hætti menn hafa látið frá sér fara upplýsingar um trúnaðarmál.
    Það vill þannig til, virðulegi forseti, að alþjóð hefur tvívegis orðið vitni að því á undanförnum vikum að á æðstu stöðum þjóðfélagsins hafa menn ekki virt trúnað um viðkvæm mál heldur látið fréttir af þeim berast nafnlaust með óviðurkvæmilegum hætti til fjölmiðla.
    Hér er annars vegar um að ræða upplýsingar um bréf sérstaks ríkissaksóknara í svonefndu Hafskipsmáli til forseta Ed. Alþingis þar sem þess var farið á leit að tiltekinn alþm. yrði sviptur þinghelgi. Frétt birtist í sjónvarpi um bréf þetta án þess að heimilda væri getið áður en réttum aðilum var formlega greint frá tilvist þessa bréfs.
    Í þessu máli, sem hér var fitjað upp á, er um að ræða upplýsingar um áfengiskaup forseta Hæstaréttar sem ríkisendurskoðandi kom á framfæri til forseta Sþ., en um það mál birtist einnig sjónvarpsfrétt sem ekki var höfð eftir nafngreindum heimildarmanni áður en málið var rætt við viðkomandi aðila.
    Mér dettur ekki í hug að gera lítið úr nauðsyn þess að mál sem þessi fái eðlilega umfjöllun í fjölmiðlum. Fréttaflutning um trúnaðarupplýsingar sem þessar verður hins vegar að bera að með eðlilegum hætti og þeir ráðamenn sem veita fjölmiðlum slíkar upplýsingar eiga að gera það undir fullu nafni en ekki að skýla sér á bak við nafnleynd þá sem tíðkast hefur í æ ríkari mæli í fjölmiðlun á Íslandi.
    Ég tel að í þessum tveimur málum hafi orðið mjög alvarlegur trúnaðarbrestur á æðstu stöðum. Ég tel óhjákvæmilegt að stjórnvöld og forsetar þingsins geri hreint fyrir sínum dyrum svo að unnt verði að treysta því framvegis að eðlilegs trúnaðar verði gætt við meðferð upplýsinga af þeim toga sem hér er um að ræða.
    En ég vil endurtaka að ég er ekki að tala um að mál sem þessi eigi ekki að ræða á opinberum vettvangi heldur aðeins að þeir trúnaðarmenn íslenska ríkisins sem fara með þessar upplýsingar og vilja koma þeim á framfæri geri það undir fullu nafni, en ekki með þeim óviðurkvæmilega hætti, sem ég vil kalla og sem við höfum orðið vitni að í þessum málum tveimur.
    Mér er kunnugt um það sem yfirskoðunarmaður ríkisreiknings með hvaða hætti ríkisendurskoðandi kom upplýsingum um það mál sem hér er til umræðu á framfæri. Mér er kunnugt um hvaða einstaklingar það voru og trúnaðarmenn þingsins og ríkisstjórnar sem vissu um þetta mál og ég hef ákveðnar grunsemdir um hver það var sem kom þessu máli með þessum óviðurkvæmilega hætti á framfæri.
    Ég beini því til stjórnar þingsins og forseta þess að þeir grennslist fyrir um uppruna þessara upplýsinga,

með hvaða hætti þeim er lekið til fjölmiðla og sjái til þess í framtíðinni að slíkt endurtaki sig ekki og þingið tapi ekki trúnaði og trausti almennings af þeim sökum.