Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Mánudaginn 05. desember 1988

     Flm. (Stefán Guðmundsson):
    Hæstv. forseti. Ég tala hér fyrir till. til þál. á þskj. 39 um bætta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar, en tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að tryggja að allra leiða verði leitað til að efla og bæta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar og sporna við því að skipaiðnaðarverkefni fari úr landi. Ríkisstjórnin tryggi að útvegsmenn og opinberir sjóðir semji ekki um nýsmíði skipa eða viðhaldsverkefni erlendis án undangengins útboðs þar sem innlendir aðilar keppi á jafnréttisgrundvelli við erlendan skipaiðnað, m.a. varðandi meðhöndlun tilboða og fjármagnsfyrirgreiðslu. Tilboðin verði metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar. Gerðar verði staðlaðar reglur um útboð, veðskilmála og tilboð í skipaiðnaðarverkefni. Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að bankarnir veiti sambærilegar ábyrgðir vegna skipaiðnaðarverkefna innan lands og veittar eru þegar verkefnin eru unnin erlendis.``
    Í grg. með till. segir svo m.a.:
    ,,Íslendingum ber öðrum þjóðum fremur nauðsyn til að eiga góðan skipastól. Ein af forsendum fyrir þróttmikilli útgerð er öflugur skipaiðnaður. Líkt og aðrar atvinnugreinar á Íslandi, sem eiga í alþjóðlegri samkeppni, stendur innlendur skipaiðnaður nú höllum fæti. Valda þar mestu hinar miklu kostnaðarhækkanir sem orðið hafa hér á landi umfram hækkanir hjá samkeppnisþjóðunum. Til að tryggja aukna framleiðni og betri þjónustu innlends skipaiðnaðar þurfa að koma til aukin og stöðug verkefni.
    Á meðfylgjandi yfirliti frá Þjóðhagsstofnun um fjárfestingu í fiskiskipum árin 1986 og 1987 kemur fram að hlutur innlends skipaiðnaðar hefur farið minnkandi.``
    Á árinu 1986 eru erlendar framkvæmdir í þessum efnum 1 milljarður 226 millj. kr., en árið 1987 er þetta komið upp í hvorki meira né minna en 2 milljarða 679 millj. kr. En innlendar framkvæmdir eru árið 1986 1 milljarður 422 millj. og árið 1987 1 milljarður 421 millj. kr. þannig að greinilega má sjá á þessum tölum hvert stefnir og ég er nokkurn veginn sannfærður um að enn hefur sigið á ógæfuhliðina.
    ,,Í svari fyrrv. iðnrh. við fsp. hér á þinginu sl. vetur kom fram að Fiskveiðasjóður hefur á árinu 1987 veitt lán til smíði á 20 skipum erlendis fyrir íslenska aðila samtals að upphæð 1 milljarður 680 millj. kr. Heildarverðmæti þeirra skipa er áætlað um 2 milljarðar 960 millj. kr. Jafnframt kom fram hjá iðnrh. að samkvæmt upplýsingum Siglingamálastofnunar ríkisins voru 16 þilfarsbátar í smíðum í íslenskum skipasmíðastöðvum. Þar af voru 14 bátar 10 tonn eða minni. Auk þess voru 63 opnir bátar í smíðum innan lands 10 tonna og minni. Til viðbótar þessu er ein skipasmíðastöð innlend að hefja smíði á tveimur 220 tonna fiskiskipum.
    Að undanförnu hefur borið á því að fiskiskip séu send utan til viðgerða og breytinga án undangenginna útboða innan lands. Þetta hefur aukist eftir að heimild

var gefin til beinnar erlendrar lántöku. Meðan samþykki langlánanefndar þurfti til erlendrar lántöku var það jafnan haft til hliðsjónar að verk væru formlega boðin út innan lands og lán Fiskveiðasjóðs háð því skilyrði.
    Samtök skipaiðnaðarins hafa lagt áherslu á að stjórnvöld komi því til leiðar að áður en lán eru veitt úr opinberum sjóðum eða leyfi veitt til erlendrar lántöku til endurbóta eða meiri háttar viðgerða á skipum erlendis verði verk formlega boðin út innan lands. Nýsmíðaverkefni eru sjaldnast boðin út, en eðlilegt þykir að slíkt verði gert. Það er orðið tímabært að langlánanefnd og Fiskveiðasjóður geri hliðstæðar kröfur um útboð og verðsamanburð vegna nýsmíði og lengst af hafa gilt um endurbætur og viðgerðir. Flm. tekur undir með samtökunum um að eðlilegt sé að láta á það reyna hvort innlend fyrirtæki þurfi verkefnanna við og hvort þau geti leyst þau af hendi á jafnhagkvæman hátt eða hagkvæmari en erlend fyrirtæki.
    Með þessari þáltill. er því beint til stjórnvalda að þau geri nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að íslenskur skipaiðnaður geti keppt á jafnréttisgrundvelli við þær þjóðir sem í æ ríkari mæli taka að sér íslensk skipaiðnaðarverkefni og skapa fjölda manns atvinnu. Því hefur raunar margoft verið lýst yfir af hálfu stjórnvalda að brýnt væri að grípa til aðgerða og vel verið tekið í tillögur samtaka skipaiðnaðarins í þessum efnum.``
    Þannig hljóðar grg. þessarar þáltill.
    Hæstv. forseti. Samband málm- og skipasmiðja hefur eðlilega unnið mikið að þessum málum og reynt að kryfja þau þannig að sem þægilegast verði að greina vandann. Þann 24. júní 1986 skrifaði Samband málm- og skipasmiðja þáv. ríkisstjórn bréf og gerði ítarlega grein fyrir þeim hugmyndum sínum á hvern hátt mætti sporna gegn því að skipaiðnaðarverkefni fari úr landi í svo ríkum mæli. Þáv. ríkisstjórn fjallaði um þetta mál á fundi sínum um mánaðamótin ágúst/september árið 1986 og gerði svofellda samþykkt:
    ,,Opinberum sjóðum verði tilkynntur sá vilji ríkisstjórnarinnar að leita skuli tilboða innan lands um endurbætur og viðhald fiskiskipa og samanburður
gerður á slíkum tilboðum og erlendum og þau metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar. Lögð verði áhersla á það við viðskiptabankana að bankaábyrgðir vegna skipaiðnaðarverkefna innan lands verði sambærilegar og þær sem veittar eru þegar verkefni eru unnin erlendis.
    Ríkisstjórnin samþykkir að gera ráð fyrir lántökuheimild til Byggðasjóðs eins og verið hefur undanfarin tvö ár þannig að sjóðurinn geti veitt viðbótarlán vegna viðgerðarverkefna hér á landi svo að lánin verði allt að 80% af kostnaðarverði. Þess verði farið á leit við Iðnlánasjóð að hann veiti skipaiðnaðinum samkeppnislán til þess að mæta sérstökum undirboðstilboðum eða niðurgreiðslum frá erlendum skipasmíðastöðvum.``

    Undir þetta ritar þáv. forsrh. Steingrímur Hermannsson.
    Sjávarútveginum er það lífsnauðsyn að íslenskur skipaiðnaður sé sem öflugastur. Svo augljóst er það mál að á það þarf ekki að eyða orðum. Í dag er það svo að langstærsti hluti innlends skipaiðnaðar er í viðgerðarverkefnum, breytingum skipa, svo og hefðbundinni klössun flotans. Viðverðarverkefnin eru mjög árstíðabundin og þannig hefur það þróast að langstærstur hluti þessara verkefna fer fram á tímabilinu maí til október. Af þessu hlýst mikið óhagræði, ekki bara af því að manna þessi fyrirtæki svo hægt sé að sinna þessum verkefnum á jafnskömmum tíma og þörf er á heldur og ekki síður er óhagræðið fyrir útgerðina að þurfa að taka skip úr rekstri á þeim árstíma þegar útgerðarkostnaður er hvað lægstur. Af þessum sökum verður nýtingartími stöðvanna mjög óhagstæður sem þýðir aftur að stöðvarnar þurfa að ná inn mjög miklum hluta heildartekna sinna á allt of skömmum tíma sem hlýtur aftur að leiða af sér hærra verð til verkkaupa.
    Hér kemur það vitaskuld til m.a. hvað við erum í þessu efni háð veðurfari. Í mínum huga er það nokkuð ljóst að íslenskar skipasmíðastöðvar munu um nokkurt skeið þurfa í vaxandi mæli að byggja afkomu sína á viðgerðar- og þjónustuverkefnum fyrst og fremst. Því er þeim nauðsynlegt að búa sig þar betur í stakk.
    Þá aðstöðu sem nú er fyrir hendi þarf víða að bæta, m.a vinnuaðstöðu starfsfólks. Þá hljótum við að verða að koma upp þeirri aðstöðu að geta unnið að viðgerðum flotans allan ársins hring og það undir þaki ef því er að skipta. Hér er ekki verið að tala um þær nýfjárfestingar sem okkur er ofviða að ráðast í. Þegar svo verður komið mun nýtingartími stöðvanna stórlega aukast og margvísleg hagkvæmni önnur fylgja í kjölfarið.
    Ég trúi því að ef skynsamlega verður að þessum málum staðið séu möguleikar okkar umtalsverðir í þessari atvinnugrein. Ekki bara að þjónusta eigin flota heldur mun sú þekking og það hugvit sem við búum yfir verða til þess að aðrar þjóðir munu kjósa að nýta sér þá kosti alla.
    Hér er mál sem atvinnugreinin sjálf verður að taka til umfjöllunar og leita skynsamlegra leiða til lausna, en þá verða íslenskir útvegsmenn og ríkisvaldið að skilja að sjávarútvegur á Íslandi verður ekki rekinn án þessarar atvinnustarfsemi og haga gjörðum sínum með tilliti til þess.
    Það er óhætt að fullyrða að samtök málmiðnaðarins hafa barist fyrir þeim breytingum sem þáltill. kveður á um og vænta þess að alþm. allir sjái þá vá sem hér er rætt um og geri allt sem hægt er til að tryggja framgang þessarar till.
    Við stöndum nú frammi fyrir því að fjöldauppsagnir starfsfólks í þessari atvinnugrein eru ekki spádómar einir heldur er nú svo komið að hér er um ískaldan raunveruleikann að ræða.
    Getur það virkilega gerst í dag að menn fljóti sofandi að þeim feigðarósi sem svo margir hafa farist

í?
    Eins og atvinnuhorfur eru nú ætti hverjum sjáandi manni að vera það ljóst að þá öfugþróun sem viðgengist hefur með útflutningi verkefna, atvinnutækifæra og tækniþekkingar úr þessari atvinnugrein, sem nemur milljörðum króna á ári, verður að stöðva og það nú þegar.
    Þeim aðilum sem komu í veg fyrir að takast mætti að framfylgja markaðri stefnu í þessum málum verður einfaldlega að gera ljóst að erlendir hagsmunir verða í þessum efnum að víkja fyrir íslenskum. Það er ekkert sem heitir. Við óbreytt ástand verður ekki unað lengur. Það verður mönnum að vera ljóst.
    Íslenskum iðnaði hefur því miður ekki verið sinnt sem skyldi. Hann hefur m.a. mátt þola samkeppni við nánast óheftan niðurgreiddan erlendan iðnað allt of lengi og í allt of ríkum mæli. Hillingar hafa villt mörgum sýn í þessum efnum. Allt of margir sjá möguleika okkar stærsta í einhverju öðru en því sem við þekkjum og kunnum betur en flestir aðrir. Þess vegna m.a. er nú svo illa komið.
    Hver getur svarað því hversu miklir fjármunir og það í dýrmætum erlendum gjaldeyri hafa verið greiddir erlendum fyrirtækjum vegna þess að innlendum aðilum hafði ekki verið gefið sjálfsagt og eðlilegt tækifæri að leggja fram tilboð í umrædd verk?
    En eru íslenskar skipasmíðastöðvar og okkar ágætu íslensku iðnaðarmenn samkeppnishæfir við erlenda aðila? kynni nú einhver að spyrja. Ég þori að
segja það hér úr þessum ræðustól að þrátt fyrir hvernig búið er að þessari atvinnustarfsemi og það að helstu erlendu samkeppnisaðilar okkar njóta stórkostlegra ríkisstyrkja til að treysta samkeppnisaðstöðu sína erum við fyllilega samkeppnishæfir bæði hvað varðar verð og gæði. Um þetta eru til nægar upplýsingar. Ég veit t.d. um nýlegt dæmi þess að leitað var verðtilboða í viðgerðarverkefni bæði hér heima og erlendis. Niðurstaðan varð sú að íslensku tilboðin voru helmingi lægri en erlendu tilboðin. Ég endurtek: Þau voru helmingi lægri.
    Mörg dæmi eru um að erlendar skipasmíðastöðvar hafi lækkað áður upp gefin tilboðsverð vegna þess að íslensk fyrirtæki buðu hagstæðar. Það eru vitaskuld alveg fráleit vinnubrögð, eins og dæmi eru um, að endursemja um verk og jafnvel um meiri háttar frávik án þess að bjóðendur allir hafi haft sama tækifæri. Vinnubrögð sem þessi eru allt of tíð, fyrir neðan allar hellur og ekki sæmandi að vera með slíka eftirmála sem standast raunverulega ekki lágmarkskröfur um eðlilega viðskiptahætti.
    Hvernig má vera að lánastofnanir og opinberir sjóðir skuli ekki beita sér af meiri ábyrgð í þessu máli þannig að ætíð skuli liggja fyrir hvar hagstæðast sé að gera þau viðskipti sem um ræðir? Ekki skortir þessar stofnanir hagdeildir né lögfræðideildir. Nei, þær skortir hins vegar skilninginn.
    Svo dæmalaust er þetta mál að bankastofnanir veita þeim sem flytja úr landi verkefni, atvinnu og tækniþekkingu í jafnstórum stíl og hér um ræðir

nánast sjálfkrafa bankaábyrgðir á verkum á meðan íslenskum atvinnufyrirtækjum er synjað um hliðstæða fyrirgreiðslu. Er nema von að mönnum ofbjóði skilningsleysið?
    Hæstv. forseti. Mín lokaorð eru þessi: Íslenskur iðnaður og iðnaðarmenn eru hér ekki að biðja um sérréttindi. Hér er beðið um jafnrétti, jafnrétti gagnvart erlendum aðilum. Um það snýst þetta mál. Við getum ekki staðið álengdar aðgerðarlaus og fylgst með því að heil atvinnugrein sé nánast rústuð eins og hér sýnist stefna í ef heldur fram sem horfir. Ábyrgð okkar þingmanna er meiri en svo. Ég skora á núv. ríkisstjórn að bregða við þegar í stað og láta frá sér fara hliðstætt bréf og ég vitnaði til fyrr í máli mínu og sjá til þess að eftir því verði farið. Ríkisstjórninni væri ekki aðeins sómi að slíku heldur væri íslenskum hagsmunum á þann hátt best borgið.