Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Hér hafa farið fram alllangar og gagnlegar umræður og nauðsynlegar um þetta mikilvæga mál okkar Íslendinga, en það er búið að rifja það upp nokkrum sinnum í dag og í kvöld hvað hefur verið að gerast að undanförnu. Eins og menn vita blasti í haust við hrun í efnahags- og atvinnulífinu og þá var sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr mynduð í miklum fljótheitum. Miðað við asann sem var á við myndun hennar og þann bjargvættabrag sem á henni var hefði mátt ætla að gripið yrði til skjótra og jafnvel fljótvirkra aðgerða. Reyndin hefur orðið önnur og því stöndum við hér og þjóðin öll frammi fyrir stórum og miklum vanda. Enn þá hefur ekkert gerst og áfram engist þessi verðmæti frumatvinnuvegur okkar í dauðateygjunum með allri þeirri upplausn, því öryggisleysi og tekjutapi sem óhjákvæmilega fylgir í kjölfarið fyrir alla þjóðina.
    Ég hafði hugsað mér að bera fram spurningar til hæstv. iðn.- og viðskrh. en hann svaraði þeim reyndar áðan. Það var varðandi fyrirhugaða raforkuverðslækkun svo og vaxtalækkun en það olli mér nokkrum vonbrigðum að heyra að þessi mál eru líka í athugun því að í raun og veru var þessu slegið þannig fram í haust þegar stjórnin var mynduð að menn hefðu getað búist við að þetta gerðist fyrr en raun varð á. Hins vegar er auðvitað nauðsynlegt að gaumgæfa málin vel því of oft höfum við þurft að leiðrétta mistök eftir á. En ég vona að þessi tvö atriði nái fljótt fram að ganga og tel að það sé afar mikilvægt fyrir sjávarútvegsfyrirtækin að einmitt raforkuverðið lækki því að það er stór liður í þeirra kostnaði og mörg þeirra eru stórskuldug við orkuveitufyrirtækin.
    Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Mörkuð verður ný atvinnustefna sem stuðlar að hagvexti og skynsamlegri nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Tekið verður fyllsta tillit til byggðasjónarmiða.``
    Hvorki bólar á hinni nýju atvinnustefnu né heldur byggðasjónarmiðum í aðgerðarleysi hæstv. ríkisstjórnar. Hvergi kemur fram nein framtíðarsýn en reyndar minntist einn stjórnarliða, hv. 3. þm. Austurl. Jón Kristjánsson, á það hér fyrr í kvöld að það væri framtíðin sem skipti mestu máli og þar er ég honum auðvitað alveg sammála. Þó að við séum niðri í þessum öldudal núna verðum við að reyna að sjá upp úr og horfa fram á veginn og leysa málin með tilliti til framtíðarinnar. Ekki ætla ég að dæma um hvers eða hverra ábyrgðin er á því ófremdarástandi sem nú ríkir. Það er hins vegar ljóst að hér hefur verið um ákveðna þróun að ræða um nokkurt skeið, en hraði þeirrar neikvæðu þróunar er nú orðinn slíkur að ekki verður lengur við unað og nauðsynlegt er að grípa til aðgerða sem duga mega.
    Í frétt Alþýðublaðsins nú um helgina koma fram tölur um afkomu 15 fyrirtækja sem sótt hafa um lán frá Atvinnutryggingarsjóði. Þar kemur m.a. fram að árið 1987 var tap þeirra 46,5 millj. kr. en milliuppgjör fyrstu 8--9 mánuði þessa árs spáir tapi upp á 617,5

millj. kr. Svar hæstv. forsrh. við upplýsingum um þetta er einfaldlega á þann veg að þessi frumatvinnuvegur okkar sé gjaldþrota. Já, hæstv. forsrh. hefur títt látið sér orðið gjaldþrot um munn fara að undanförnu eftir að hann sté niður úr hinum vel hljóðeinangraða fílabeinsturni utanrrn. enda gerir hann sér nú grein fyrir að hann, eins og við öll, stendur frammi fyrir þessu vandamáli sem hlýtur að teljast vandamál allrar þjóðarinnar. Ég vil taka undir þær fjölmörgu spurningar sem hér hafa verið bornar fram. Það er kominn tími til að vita hvaða skref verða tekin og hvenær. Það er mjög nauðsynlegt fyrir þá sem vinna í þessum undirstöðuatvinnuvegi okkar og reyndar okkur öll. Ég ítreka það að auðvitað er vandamálið okkar allra.
    Það er auðvitað sjálfsagt og gott að unnið skuli að málinu á mörgum stöðum til að draga saman heillegri upplýsingar eins og fram kemur í máli hæstv. forsrh. í Tímanum sl. laugardag. En auðvitað hefðu sundurgreindar upplýsingar þurft að liggja fyrir fyrir löngu. Ég bendi á að fyrir forgöngu Kvennalistans var snemma á þessu þingi beðið um skýrslu með upplýsingum um stöðu 10 best stöddu og 10 verst stöddu fiskvinnslufyrirtækjanna í landinu. Í beiðni okkar og fleiri hv. þm. stjórnarandstöðunnar kom einnig fram ósk um að fram komi stærð vandans eða hagnaðarins og hverjar séu taldar helstu orsakir hans. Það hlýtur að vera orðið löngu tímabært að greina þennan vanda og reyna að leysa hann með tilliti til þeirra niðurstaðna sem fyrir liggja þá, en bíða ekki eins og nú hefur gerst þangað til allt er komið í þrot. En það stendur líka í sáttmála hæstv. ríkisstjórnar um atvinnumálin að fiskveiðistefnan verði endurskoðuð og ég vil leggja áherslu á að það hlýtur að koma að því líka og minni á tillögur þingflokks Kvennalistans sl. vetur, þegar fjallað var um nýja fiskveiðistefnu, þar sem við vildum leggja áherslu á byggðasjónarmið og hvetja til hagræðingar og betri nýtingar aflans.
    Á fyrstu blaðsíðu stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar segir að núverandi ríkisstjórn sé mynduð til að leysa bráðan efnahagsvanda sem steðjar að þjóðinni. Sá vandi er nú engu minni en áður og
því brýnt að tekið verði til við lausn hans nú. Þjóðin á rétt á því að fylgjast með hvernig ætlunin er að vinna að þeim málum og hún á líka rétt á því að biðinni verði aflétt strax og hafist verði handa af fullri einurð.
    Hæstv. sjútvrh. minntist á það í máli sínu fyrr í dag að hér á landi væri hlutdeild launa af þjóðartekjum miklu hærri en í öllum okkar nágrannalöndum. Ekki skal ég rengja það, en ég vil leggja áherslu á og benda á að við getum ekki leyft okkur að tala um þetta háa hlutfall launa án þess að minnast um leið á tekjuskiptinguna í landinu en öllum er ljóst að tekjuskiptingin í þjóðfélaginu er mikil og óréttlát og bilið hefur því miður aukist á undanförnum árum. Það er líka til lítils að draga upp tölur um meðaltalsaukningu ráðstöfunartekna á árunum 1985--1987 án þess að minnast einu orði á tekjubilið

og þann vinnustundafjölda sem að baki liggur. Hæstv. sjútvrh. veit eins vel og við öll að launabilið í þjóðfélaginu er með öllu óþolandi og óréttlætanlegt. Ég vil að endingu leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra með hvaða hætti hann telji að draga megi úr þessu launabili til þess að minnka þann mun sem nú er, ekki síst með tilliti til þess stóra hóps kvenna sem vinnur við þá frumatvinnugrein sem við erum hér að fjalla um. Ég tek undir og ítreka sérstaklega þær spurningar sem bornar voru fram fyrr í dag af hv. þingkonum Kvennalistans Guðrúnu Agnarsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur og spyr enn einu sinni um viðhorf hæstv. sjútvrh. til þess að skert verði hið lögbundna framlag ríkisins til Atvinnuleysistryggingasjóðs við þær aðstæður sem nú ríkja.