Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson hefði getað sleppt niðurlagi ræðu sinnar áðan. Ég vil minna á að það var ekki Sjálfstfl. sem sleit ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sl. haust. Það gerðu þeir hæstv. ráðherrar Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson svo sem frægt er orðið. Þeir höfnuðu tillögum okkar sjálfstæðismanna um lausnir á vandamálum atvinnulífsins, sérstaklega í sambandi við sjávarútveginn. Þess vegna er nú komið sem komið er vegna aðgerðaleysis núv. ríkisstjórnar.
    Það er nefnilega þannig í sambandi við sjávarútveg, eins og þeir vita sem hafa starfað við hann, að þar geta hlutirnir gerst mjög hratt og þegar hlutirnir gerast þar í stórum stærðum er ekki verið að tala um milljónir heldur milljarða. Það hefur því miður gerst úr vondri stöðu, sem þessi atvinnugrein var komin í sl. vor, að vegna aðgerðaleysis núv. ríkisstjórnar frá því í haust hefur staðan versnað mun meir vegna þess um hvaða stærðir er að ræða. Þetta veit hæstv. sjútvrh. og mun örugglega staðfesta á eftir ef hann tekur aftur til máls.
    Ég vil víkja fáeinum orðum að nokkrum atriðum í ræðu hæstv. sjútvrh. Halldórs Ásgrímssonar fyrr í dag sem mér finnst þess eðlis að nauðsynlegt sé að kryfja nánar til mergjar. Hann sagði, hæstv. ráðherra, að setja þyrfti það markmið við gerð fjárlaga að tekið væri mið af getu atvinnulífsins í landinu. Undir þessi orð skal tekið. En hvað hefur núv. hæstv. ríkisstjórn gert í þeim efnum? Hún hefur ekki tekið mið af þessu við gerð fjárlaga nema síður sé. Það sem hún er að gera þessa dagana og þessar vikurnar er í fyrsta lagi að hækka skatta, í öðru lagi að hækka vörugjöld og í þriðja lagi að hækka allt verðlag. Í stuttu máli sagt: Hæstv. ríkisstjórn er að rýra kjörin og þrengja svigrúmið til að styrkja stöðu sjávarútvegsins eins og ég mun víkja að á eftir.
    Þá er annað atriði í ræðu hæstv. ráðherra sem ég kunni ekki almennilega við. Það var þegar ráðherra var að tala um hlutfall launa í vergum þjóðartekjum og sagði m.a., þegar hann hafði komið með tölur þar um, að hlutfallið hefði verið 1987 72,1%, árið 1988 73,6% og árið 1989 mundi hlutfallið verða væntanlega 72,3%. Þar er greinilega gert ráð fyrir ákveðinni kjaraskerðingu. Hann sagði síðan að hjá öðrum þjóðum væri þetta 60--65% og undirstrikaði að þessu háa hlutfalli, sem hann teldi að væri hjá okkur Íslendingum, gæti engin þjóð staðið undir. Þetta mun vera orðrétt eftir honum haft og ráðherra kinkar kolli til samþykkis.
    Mér finnst að þegar verið er að ræða um laun í vergum þjóðartekjum verði maður m.a. að gera sér grein fyrir eftirfarandi atriðum. Það er í fyrsta lagi hver er heildarskipting launa í vergum þjóðartekjum. T.d. hver er hlutur launafólks í atvinnulífinu í heildartekjunum annars vegar og hver er hlutur launafólks sem starfar hjá hinu opinbera hins vegar? Hvað segir heildarskiptingin okkur? Ef við lítum á þá breytingu sem hefur orðið á vinnumarkaðnum á Íslandi síðustu áratugi kemur í ljós að það hefur

fjölgað gífurlega mikið hjá hinu opinbera. Opinberir starfsmenn eru orðnir mun fleiri núna en þeir voru fyrir einum áratug. Skiptir það þúsundum. Á sama tíma hefur þeim fækkað hlutfallslega sem starfa úti í atvinnulífinu. Ég nefni sérstaklega sjómenn á fiskiskipum. Hlutfall þeirra sem starfa úti í atvinnulífinu, hlutur launanna hjá fólkinu úti í atvinnulífinu hefur lækkað beint og óbeint miðað við hlutdeild þeirra sem vinna hjá hinu opinbera. Þá kemur einnig inn í atriði, sem er mjög þýðingarmikið, en það er tekjuskiptingin. Hefur tekjuskiptingin ekki neitt að segja í hlut launa í vergum þjóðartekjum? Er ekki tekjunum misskipt? Þá mætti einnig nefna að á síðasta þingi varð hér skattkerfisbreyting, skattkerfisbreyting sem alveg örugglega hefur komið þeim sem hafa hærri millitekjur og hátekjur betur í hag en þeim sem eru með lægri tekjur og eru rétt fyrir ofan skattleysismörkin.
    Þetta eru atriði sem mér finnst að menn verði að hafa í huga þegar verið er að tala um hlutfall launa í vergum þjóðartekjum. Það er ekki eins einfalt mál og hæstv. ráðherrar vilja vera láta, bæði hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson og ég segi, því miður, einnig hæstv. sjútvrh. sem hefur tekið undir hans orð. Það er ekki unnt að fjalla um laun fólks í landinu eins og þeir hafa gert síðustu daga, enda er ég sannfærður um að það muni ekki reyna á það að til þeirrar lækkunar komi á launum sem þeir boða með þessu tali sínu.
    Það er hins vegar augljóst mál og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að stefna núv. ríkisstjórnar felst fyrst og fremst í því að tryggja hlutdeild hins opinbera með stórauknum opinberum álögum. Það þýðir að minna verður til skiptanna handa fólkinu sem vinnur úti í atvinnulífinu og einnig minna til skiptanna til fyrirtækjanna. Það er sem sagt verið að þrengja stöðu atvinnuveganna, framkalla hugsanlega atvinnuleysi, beygja fólkið og stjórnendur fyrirtækjanna með þessari aðferð.
    Það má einnig lækka hlutfall launa í vergum þjóðartekjum með því að framkalla atvinnuleysi. Það er sú stefna sem t.d. Margrét Thatcher hefur innleitt í Englandi. Það hefur sín áhrif á hlutfall launa í vergum þjóðartekjum þegar 2 millj. manna ganga atvinnulausar í Bretlandi og voru á
sínum tíma rúmlega 3 millj. Það er fólk sem fær síðan atvinnuleysisstyrk sem það getur varla lifað af og það er fólk sem hefur enga von vegna þess að það er búið að vera atvinnulaust svo lengi.
    Að lækka launin beint. Þótt hæstv. ráðherra Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin hafi verið reiðubúnir að skera niður laun með svokallaðri niðurfærsluleið trúi ég því ekki að óreyndu að þeir geti endurvakið þann draug í núverandi ríkisstjórn vegna þess að ég trúi því ekki að ýmsir hv. þm. Alþb. og jafnvel hæstv. ráðherrar þess eða hv. þm. Karl Steinar Guðnason og Karvel Pálmason láti hafa sig til slíkra verka. Það getur vel verið að fyrir hámenntaða menn, sem eru að hefja þátttöku í stjórnmálum núna og hafa verið að gera það á síðustu

árum, sé það létt þar sem þeirra bíða alltaf örugg störf ef þeir fjúka út úr pólitíkinni og hafa yfirleitt lifað í skjóli ríkisins og skjóli verndaðra starfa. Það getur vel verið að það sé létt mál fyrir þá að tala um að lækka laun fólksins sem þeir komast aldrei í snertingu við. Það getur vel verið að það sé létt verk fyrir þá að segja að það sé ekkert mál að lækka laun um 9%. Við sjálfstæðismenn höfum leyft okkur að hafna slíkri kjaraskerðingu vegna þess að við vitum, við höfum verið það nálægt því fólki sem við erum að starfa með, láglaunafólkinu m.a., að slík kjaraskerðing vegna niðurfærslu mundi koma harðast niður á láglaunafólki. Það mun þess vegna aldrei koma til greina að Sjálfstfl. ljái því lið.
    Það getur verið að það sé háttur núverandi valdamanna að fara létt með það að menn leyfi sér að segja launafólki eitthvað til varnar. Því miður eru það allt of fáir hv. þm. sem ræða hér um stöðu láglaunafólks og er það slæmt. En þegar verið er að tala um launakjör fólks með þeim hætti sem hér hefur tíðkast hljótum við að mótmæla því.
    Hv. þm. Matthías Bjarnason vék nokkrum orðum að því hvernig búið væri að fyrirtækjum í dag og ætla ég ekki að orðlengja það. En hann sagði eitt sem ég vil taka undir. Það er að atvinnuleysi er það versta sem fyrir getur komið á Íslandi og hvar sem er. Ég tek undir þessi orð. Og ég trúi því ekki að hæstv. ríkisstjórn með alþýðubandalagsmenn innanborðs ætli að taka upp þau vinnubrögð að hér verði framkallað atvinnuleysi.
    Meginumræðan í dag hefur verið um vandamál fiskvinnslunnar og ætla ég ekki að orðlengja það mikið, en þó vil ég víkja nokkrum orðum að fortíðinni. Það er augljóst mál og þekkt að árið 1986 kom mjög vel út fyrir bæði sjávarútveg og fiskvinnslu á Íslandi. En því miður komu í upphafi árs 1987 fram ákveðin hættueinkenni á erlendum mörkuðum á sama tíma sem staða dollarans fór versnandi með þeim hætti að það fór að halla undan fæti, sérstaklega hjá frystingunni. Á sama tíma stóð saltfiskurinn vel og útgerðin einnig allvel, m.a. vegna ferskfiskmarkaða í Evrópu. En hvað sem því líður var og er hraðfrystiiðnaðurinn meginatvinnugrein á Íslandi og mjög margir háðir því afkomulega, fjöldi fólks og fyrirtækja, hvernig hraðfrystiiðnaðinum vegnar. Það var þess vegna tímabært þegar stjórnarformaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Jón Ingvarsson, viðhafði þessi aðvörunarorð á aðalfundi SH í maí 1987:
    ,,Hvorki er þá réttlátt né skynsamlegt að nálgast þessi markmið alfarið að halda genginu föstu``, þ.e. varðandi afkomu frystiiðnaðarins, ,,hvað sem líður kostnaðarhækkunum fiskvinnslunnar. Skráning gengis hér á landi hlýtur ávallt að þurfa að taka mið af afkomu í aðalútflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar, fiskvinnslu. Því ber að leggja höfuðáherslu á það að fiskvinnslunni verði ekki íþyngt með kostnaðarhækkunum sem ekki verða uppi bornar af aukinni verðmætasköpun í greininni.``
    Formaður stjórnar SH ítrekaði þetta í grein sem

hann birti í Morgunblaðinu þann 13. nóv. 1987 og sagði m.a., með leyfi forseta: ,,Það hlýtur að vera ljóst hverjum manni að hraðfrystiiðnaðurinn fær ekki lengur staðist þá tekjuskerðingu er hlotist hefur af falli dollarans auk stöðugrar hækkunar alls tilkostnaðar.``
    Þetta voru orð að sönnu, en því miður tókst ekki að taka á þessum málum í samræmi við þessa skoðun og er ekki gert enn. Hraðfrystiiðnaðurinn á enn í gífurlegum erfiðleikum eins og fram hefur komið hér í ræðum manna vegna þess að því grundvallaratriði hefur ekki verið fullnægt að gengið sé rétt skráð með tilliti til útflutningsatvinnuveganna, þ.e. sjávarútvegs, fiskiðnaðar, ferðamálaiðnaðar, vegna flugsins og almenns útflutningsiðnaðar, svonefnds samkeppnisiðnaðar. Þessi ranga gengisskráning, sem enn er, hefur ekki aðeins skaðað útflutningsatvinnuvegina heldur einnig mjög allan almennan iðnað. Ég nefni sem dæmi skipasmíðar, viðgerðaþjónustu og fleira.
    Því miður hefur staða útflutningsatvinnuveganna verið vanmetin eða réttara sagt: Stjórnmálamenn hafa ekki tekið þessi mál nægilega föstum tökum.
    Formaður Sambands fiskvinnslustöðva hafði í byrjun þessa árs svipuð aðvörunarorð uppi og formaður stjórnar SH og ætla ég ekki að ítreka það. Því miður var ekki hlustað á aðvörunarorð þessara forustumanna fiskvinnslunnar. Þess vegna kemur upp þessi spurning: Hvað var útvörðurinn í sjávarútvegsmálum, hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson, að hugsa eða tók hann ekki eftir þessum
aðvörunarorðum? Hvers vegna brást hann ekki við með þeim hætti sem við höfum séð hann gera í öðrum málum oft á hinu háa Alþingi? Fiskiðnaðurinn heyrir alveg sérstaklega undir þennan hæstv. ráðherra. Það er eins og þessi annars skörulegi ráðherra hafi ekki beitt sér sem skyldi, hvorki í fyrrv. ríkisstjórn, þ.e. ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, né í núv. ríkisstjórn, til að rétta við og laga stöðu útflutningsatvinnuveganna og hann gerir það ekki enn. Það kom ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra í dag að hann ætlaði sér að berjast fyrir og tryggja stöðu sjávarútvegs og harma ég það. Við sjálfstæðismenn höfðum og höfum enn fullan vilja til að rétta við hag sjávarútvegs og fiskvinnslu.
    Þá kemur önnur spurning sem ég vil beina til hæstv. ráðherra: Hvað eða hverjir komu í veg fyrir að gengið væri rétt skráð á sl. vori og sl. vetur þar sem ekki skorti viljann af hálfu sjálfstæðismanna né framsóknarmanna að grípa til réttra ráðstafana hvað gengisskráninguna áhrærði? Ég vona að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum. Það væri fróðlegt. Ég vil segja að það væri meira en fróðlegt, það væri nauðsynlegt að ráðherra sjálfur skýri þingheimi frá því hvaða valdamenn það hafi verið sem komu í veg fyrir að gripið væri til nauðsynlegra aðgerða vegna sjávarútvegs og fiskiðnaðar í byrjun þessa árs.
    Enn á af hálfu núv. hæstv. ríkisstjórnar að svelta sjávarútveginn og setja hann algerlega á hausinn þrátt fyrir að hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson hefur marglýst því yfir að gengið sé rangt skráð gagnvart

stöðu útflutningsatvinnuveganna og hann hefur nefnt 15%. Á sama tíma sem eigið fé fyrirtækjanna er að verða að engu vegna rangrar gengisskráningar eru núverandi valdhafar, fulltrúar núverandi ríkisstjórnar, farnir að taka út eitt og eitt fyrirtæki í sjávarútvegi og veita þeim sérstaka fyrirgreiðslu. Þetta er í hæsta máta óeðlilegt. Það er meira en óeðlilegt. Það er hættulegt, það er óheilbrigt og jaðrar við að vera ólöglegt. Það sem auðvitað á að gera er að leiðrétta stöðu sjávarútvegs og fiskiðnaðar í heild. Það eiga allir að sitja við sama borð. Vel rekin fyrirtæki eiga ekki að gjalda þess að hafa staðið sig. Þau eiga rétt á sambærilegri þjónustu, sambærilegri lánafyrirgreiðslu og sambærilegum rekstrargrundvelli og fyrirtæki sem nú er verið að rétta tugi milljóna ef ekki hundruð. Ég álít að hæstv. ríkisstjórn hafi engar lagalegar heimildir til að mismuna aðilum með þessum hætti. Það brýtur í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um jafnan rétt manna og er það mjög alvarlegt mál og umhugsunarefni hvort ekki eigi að taka það upp á öðrum vettvangi.
    Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. ríkisstjórn sé íslensku atvinnulífi og þá alveg sérstaklega sjávarútvegi mjög hættuleg. Það getur vel verið að ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn telji leið óbeinnar þjóðnýtingar æskilega, en breyting á eignarhaldi breytir engu um að rekstrargrundvöllur sjávarútvegsins verður ætíð að vera jákvæður hver sem á eða rekur fyrirtækin. Ríkisstjórn með rangt mat á gildi atvinnugreina og ríkisstjórn sem hækkar skatta vegna þarfa ríkissjóðs en setur sjávarútveginn í biðstöðu er ófær um að stjórna. Hún er þjóðarógæfa. Hún skilur ekki hlutverk sitt í þágu Íslendinga. Ríkisstjórn sem hefur forsrh. sem heldur því fram að launakostnaður sé of mikill verður að skilgreina nánar hvað hann á við. Var hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson að tala um heildarlaunakostnað landsmanna? --- Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan, vegna þess að ég geri ráð fyrir því að hæstv. sjútvrh. gegni stöðu forsrh. í fjarveru hans, að hæstv. ráðherra hlustaði á þessar spurningar. Ef yfirlæti hæstv. ráðherra tveggja er svo mikið að þeir þurfi ekki að hlusta á mál manna er það mjög fróðlegt og athyglisvert. Það kemur ekki á óvart ákveðið yfirlæti hæstv. viðskrh. Það er alþekkt. En það kemur á óvart þegar hæstv. sjútvrh. hlustar ekki á ræður hér um sjávarútvegsmál. Ég veit að hæstv. ráðherra tekur tillit til orða minna í þeim efnum.
    Ég vil þess vegna endurtaka það, sem ég sagði, hæstv. ráðherra, að ríkisstjórn sem hefur forsrh. sem hefur haldið því fram að launakostnaður sé of mikill verður að skilgreina hvað hann á við. Var hæstv. forsrh. að tala um heildarlaunakostnað landsmanna, var hæstv. ráðherra Steingrímur Hermannsson að tala um launakostnað opinbera geirans eða var hæstv. ráðherra að tala um launakostnaðinn í atvinnulífinu eða er hæstv. forsrh. enn að tala um hugsanlega niðurfærslu í einhverri mynd, beina kauplækkun hjá fiskverkafólki, hjá verslunarfólki, hjá iðnverkafólki, hjá láglaunafólki hjá hinu opinbera o.s.frv.? Er hann kannski enn að

tala um leið niðurfærslu sem felur í sér breytingu á skiptakjörum sjómanna? Veit hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson kannski ekki eins og sjútvrh. veit að tekjur sjómanna fara nú lækkandi vegna minni afla og lægra verðs fyrir afurðirnar?
    En hvernig gengur niðurfærsluhugsunarhátturinn upp á sama tíma sem hæstv. ríkisstjórn er að hækka hlutdeild ríkissjóðs í þjóðartekjunum með hærri sköttum og hærri aðflutningsgjöldum? Þá fer verðlag einnig hækkandi. Var ekki meginforsenda niðurfærslunnar samdráttur hjá hinu opinbera, niðurskurður og verðlækkun eða verðstöðvun? Það má ekki leiðrétta gengið, það má ekki laga stöðu sjávarútvegsins, en það má hækka skatta, það má íþyngja fólkinu í landinu og það má íþyngja fyrirtækjunum.
    En þá kemur önnur spurning: Hvernig skyldu þessir skattar vera nýttir af hæstv. ríkisstjórn? Hvað líður niðurskurði eða aukinni hagræðingu hjá hinu opinbera svo ég beini nú orðum mínum til hæstv. ráðherra Jóns Sigurðssonar? Hvað líður hagræðingu hjá hinu opinbera? Hæstv. ráðherra fer létt með að leggja mönnum lífsreglur, hvernig þeir eigi að reka sín fyrirtæki úti í atvinnulífinu. Hvernig væri ef hann, af sinni alkunnu þekkingu á því sem gerist hjá hinu opinbera, sneri sér að því að auka hagræðingu hjá hinu opinbera og kæmi með hugmyndir og tillögur um það efni inn á hið háa Alþingi? Það væri verðugt verkefni fyrir mann sem er búinn að vera í kerfinu í 2--3 áratugi og heldur stöðu sinni enn.
    Nei, það er ekki nægjanlegt að leggja á nýja skatta. Það er ekki nægjanlegt að segja að lækka eigi laun. Það er líka hægt að segja á móti: Viljið þið ekki, ágætu herrar, líka laga til hjá ríkinu og segja okkur hvernig á að nota og verja þessum tekjum. Það vill fólkið í landinu líka fá að vita. Það er ekki nóg að fagna því að það skuli vera búið að koma þannig málum í atvinnulífi landsmanna að fólk getur ekki unnið yfirvinnu og eftirvinnu og verði að lifa á dagvinnulaunum. Það er ekkert fagnaðarefni.
    Nei, í stað þess að skera niður og draga saman í ríkisfjármálum boðar fjmrh. Steingríms Hermannssonar, hæstv. ráðherra Ólafur Ragnar Grímsson, aukin ríkisútgjöld, hærri skatta og aukna tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Þetta er ekki niðurfærsla eða hluti af niðurfærslu.
    Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherrar Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson standa ekki við loforðin sem þeir gáfu fiskframleiðendum á góðri stund vestur í Stykkishólmi sl. sumar? Þá var létt lofað. Þeir ætluðu að sjá til þess að staða sjávarútvegs mundi batna. Það eru liðnir fimm mánuðir síðan þau loforð voru gefin og staða sjávarútvegs hefur aldrei verið verri.
    Ekki kemur það útflutningsatvinnuvegunum til góða að hækka vörugjald á innfluttum nauðsynjavörum um tugi prósenta áður en afstaða er tekin til þess með hvaða hætti eigi að treysta undirstöðuna, þ.e. sjávarútveginn. Við það eykst greiðslubyrðin hjá almenningi, vöruverð hækkar en stendur ekki í stað.

Þetta heitir ekki verðstöðvun á mæltu máli heldur verðhækkun sem rennur í eyðsluhít hins opinbera. Íslendingar eru orðnir langþreyttir á svona kúnstum.
    Þær aðgerðir sem greinilega hafa forgang hjá ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar snúast fyrst og fremst um það að styrkja stöðu hins opinbera, efla hinn opinbera geira. Það heitir á mæltu máli og einföldu að styrkja stöðu manna sem ráða í valdakerfi þjóðarinnar, hinu pólitíska, á kostnað atvinnuveganna. Kerfið er aukið og það er eflt og starfsmönnum er fjölgað. Ríkiskerfið er fest enn betur í sessi en þar með er ekki sagt að hinn almenni launamaður hjá hinu opinbera sé of sæll af sínu. Vandi þeirra og þjóðarinnar er að þeir sem starfa hjá hinu opinbera eru orðnir of margir. Heildarkostnaður hins opinbera er orðinn of hár en ekki laun einstakra starfsmanna sem þar eru. Atvinnuvegirnir standa ekki lengur undir þessari byrði, en samt ætlar núverandi ríkisstjórn að þyngja byrðarnar í gjaldþrotastöðu íslensks sjávarútvegs, og í erfiðri rekstrarstöðu verslunar, þjónustu og iðnaðar. Þá vaknar spurningin: Er þetta tilviljun? Ég segi nei. Þetta er ekki tilviljun. Nú ætla flokkar félagshyggju að láta kné fylgja kviði. Þeir ætla að framkalla gjaldþrot hjá meginþorra fyrirtækja með aðgerðaleysi gagnvart rekstrarvanda þeirra og með aukinni skattheimtu. Síðan á að stokka upp og leiða nýja stétt, nýja menn til valda í íslensku atvinnulífi. Það verða væntanlega fulltrúar félagshyggjuflokkanna. Þetta er gamall og nýr draumur vinstri flokkanna. Það er þess vegna engin tilviljun að ríkið, þ.e. innheimta og hækkun skatta, skuli hafa forgang hjá hæstv. núv. ríkisstjórn. Það er engin tilviljun að það er dregið að reyna að laga stöðu sjávarútvegsins, það er engin tilviljun að sjávarútvegurinn er settur í biðstöðu og það er engin tilviljun að svigrúmið til leiðréttingar á stöðu sjávarútvegsins með leiðréttingu gengisins er vísvitandi þrengt. Í stað þess að lækka hlutdeild hins opinbera í vergum þjóðartekjum er hlutur ríkisins aukinn með aukinni skattheimtu og alls konar millifærslum. Þetta þýðir aukin ríkisafskipti. Það er verið að framkalla grundvallarbreytingu í stjórn og eignarhaldi íslensks sjávarútvegs og fiskiðnaðar í skjóli ríkjandi erfiðleika. Þess vegna má ekki leiðrétta skráningu gengisins með viðeigandi hliðarráðstöfunum þrátt fyrir að það er viðurkennt af hæstv. forsrh. að gengið sé ranglega skráð sem nemur 15%.
    Það skal einnig koma þeim sem enn geta bjargað sér á kné. Það skal hræða fólkið með hótunum um að lækka verði launin, þau séu of há, og það skal framkalla atvinnuleysi til að beygja fólkið. Þetta er stefna, því miður, hæstv. ríkisstjórnar í hnotskurn. Þannig ætlar ríkisstjórn félagshyggju og jafnréttis að búa í haginn fyrir endurskipulagningu nýs kerfis í íslensku atvinnulífi. Ráðagerðir þessara manna snúast um völd og metorð, flestallra, en ekki um jafnrétti. Þær snúast um breytt eignarhald. Stefna hæstv. ríkisstjórnar snýst því ekki um að efla stöðu útflutningsatvinnuveganna á grundvelli núverandi eignarréttar.
    Ég sé að hæstv. sjútvrh. Halldóri Ásgrímssyni líður

ekki vel undir þessari
tölu og ég skil það vel. Það er enginn skemmtilestur að greina frá þessu í þeirri mynd sem þetta birtist. Þess vegna verður það að segjast eins og er að ýmsir í stjórnarherbúðunum, og ég undanskil hæstv. sjútvrh., fagna niðurlægingu sjávarútvegsins. Það gefur ýmsum atvinnustjórnmálamönnum, valdaspekúlöntunum eins og ég hef nefnt þá, sem hafa aldrei tekið þátt í rekstri fyrirtækja, kjörið tækifæri til aukinna afskipta af málefnum atvinnulífsins.
    Það er sorglegt að svo skuli vera komið fyrir íslenskum atvinnuvegum sem raun ber vitni. Ég ætla ekki að rekja orsakir þess frekar, en alvarlegast er þó að nú skuli sitja við völd ríkisstjórn sem ætlar sér vísvitandi að gera stöðu atvinnulífsins, fyrirtækja og starfsmanna enn verri, stefna að því að framkalla gjaldþrot fjölda fyrirtækja og koma á atvinnuleysi hjá launafólki í fiskiðnaði, verslun og þjónustu á sama tíma sem staða hins opinbera er tryggð meðan aðrir standa í erfiðleikum. Það er greinilegt markmið, enda komið fram hjá hæstv. ráðherra Ólafi Ragnari Grímssyni. Það er greinilegt markmið sumra ráðherra með þessari stefnu að reyna að umbreyta íslensku þjóðfélagi úr þjóðskipulagi einstaklingsfrelsis og einkaeignarréttar yfir í þjóðfélag sósíalisma og félagslegrar sameignar. Því fylgir visst ófrelsi og fámennisvöld. ( SkA: Hvenær sagði Ólafur þetta?) Þetta sagði hæstv. ráðherra í Ed. í haust og ég skal finna það fyrir hv. þm. Skúla Alexandersson. Hann fór ekkert dult með það þegar við ræddum um lánsfjáráætlun.
    Það er einu sinni þannig að þessi áform hafa áður verið uppi og ekki tekist hjá vinstri flokkunum, en spursmálið er hversu miklu þarf fólkið að fórna á altari þessara valdamanna, þessara svokölluðu félagshyggju- og jafnréttismanna áður en þeir átta sig sumir hverjir sem geta væntanlega haft vald og getu til að hrinda þessum ósköpum af okkur. Ef þeir gera það ekki sjálfir, einstakir hæstv. ráðherrar, mun fólkið gera það fyrr en síðar. Hinn almenni verkamaður, sjómenn, verslunarfólk, iðnaðarmenn, fólkið úti í atvinnulífinu mun aldrei sætta sig við að pólitískir hámenntaðir valdaspekúlantar keyri niður laun þess og afkomu. Krafa þessa fólks er að staða atvinnuveganna verði tryggð og þar með atvinna þess og afkoma. Ef afkoma sjávarútvegs er ekki tryggð með réttri gengisskráningu er allt annað í hættu. Forgangsverkefnið er því að gengið verði nú þegar rétt skráð og að skattheimtan minnki en aukist ekki.
    Það er ekki stórmannlegt að kenna launafólki eða launum þess um erfiðleika atvinnulífsins. Erfiðleikarnir stafa fyrst og fremst af eftirfarandi: 1. Af rangri gengisskráningu. 2. Af of miklum ríkisútgjöldum. 3. Af óhagstæðum ytri aðstæðum. 4. Af pólitískri upplausn. 5. Af rangri stjórnarstefnu.
    Breyting verður því aðeins til hins betra að hæstv. ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar á hinu háa Alþingi geri sér grein fyrir því að það verður að endurreisa stöðu íslensks sjávarútvegs og fiskiðnaðar með viðeigandi hætti. Til þess þarf ekki fræðilegar

útskýringar né pólitíska upphafningu heldur heiðarleika og þor.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja að því miður hafa komist til valda á Íslandi nokkrir stjórnmálamenn sem eru upphafnir í valdinu. Í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar eru þó enn nokkrir jarðbundnir hæstv. ráðherrar. Þó að ég hafi verið mjög gagnrýninn á þessa ríkisstjórn og atferli hennar eða aðgerðir til þessa treysti ég því að þeir hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn hafi annaðhvort vit fyrir hinum eða sjái til þess að þessi stjórn fari frá hið fyrsta.