Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti gaf mér ekki orðið í dag þegar ég bað um það svo að ég ætla ekki að láta forseta taka af mér réttinn til að tala tvisvar í þessu máli.
    En hæstv. forsrh. Það er rétt er það ekki? ( Sjútvrh.: Sjútvrh.) Ekki forsrh.? Hver er forsrh.? ( Sjútvrh.: Jú, ég gegni fyrir hann.) Já, þá leiðréttir virðulegur ráðherra mig ekki með það. Virðulegur forsrh. segir að mál verði ekki leyst í umræðum utan dagskrár og gefur þá til kynna að ég hafi búist við því að hann gæti það. En það er langt frá því að virðulegur hæstv. ráðherra gæti skilið orð mín þannig að ég teldi hann hafa hæfileika til að leysa nokkurt mál á svo skömmum tíma. En hitt er annað mál að eftir margra ára glímu við vandamálið með þeim afleiðingum að málaflokkurinn er í molum hélt ég að hæstv. ráðherra hefði gert eitthvað til að hugsa um lausnir en ekki bara láta reka á reiðanum. Það er það sem ég var að vonast til, en gerði ráð fyrir því í mínum málflutningi að þær vonir mundu bregðast. Þess vegna endaði ég orð mín á því að ríkisstjórnin hefði sýnt að það sem hún væri flinkust í væri að gera ekkert.
    En ég óskaði eftir svari strax. Svarið er komið. Hæstv. ráðherra staðfesti með þeim meiningarlausu orðum sem hann sagði til mín að það er einmitt það sem ríkisstjórnin hefur gert. Hún hefur afrekað ekkert og hefur ekkert svar við spurningu sem er búin að dynja á henni í heila 12 tíma. En það er kannski ekki nóg. Kannski við ættum að halda áfram í 24 tíma. En ég reikna ekki með að ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherra verði nokkru nær svari. Sem sagt: allt hans tal staðfestir það, sem ég hélt og bjóst við, að ríkisstjórnin væri ráðlaus, ráðvillt og væri upptekin við að gera ekki neitt.
    Ég þakka fyrir svarið. Það er svar eins og hvað annað. Þá vitum við það. Þá veit þjóðin að það þarf að reyna að finna menn sem reyna að gera eitthvað til að finna lausn. Þess vegna segi ég: Gerið okkur greiða. Gerið okkur greiða með því að gera ykkur grein fyrir því sjálfir að þið eruð komnir á leiðarenda, eins og ég orðaði það. Þið eruð búnir að tæma þann brunn sem þið höfðuð í vegarnesti þegar lagt var af stað upp í þetta ferðalag sem ráðherrar.
    Hæstv. ráðherra, í sinni vissu um að vera nú að svara endanlega, segir líka á sama hátt og hann segir: Málið verður ekki leyst utan dagskrár: Gengið verður ekki fellt utan dagskrár. Ég fór ekki fram á að gengið yrði fellt hér og nú utan dagskrár. En hæstv. ráðherra. Ég veit ekki til þess, að síðan ég kom á þing, og gengið hefur verið fellt nokkrum sinnum á þeim tíma, frá 1974 til þessa dags, hafi gengið verið tekið á dagskrá og fellt á Alþingi. Það gerist annars staðar. En ég man eftir því að áður en lögin um Seðlabanka Íslands komu, en þá var ég þingsveinn hér, voru stundum lokaðir fundir hér. Þá vissi maður að það var verið að ræða viðkvæm mál eins og gengismál og fleira. En síðan ég kom á þing hefur það aldrei verið fellt á dagskrá, svona til upplýsingar fyrir hæstv. ráðherra. Það hlýtur hæstv. ráðherra að hafa vitað.

    Á ekki að hjálpa öllum? Best væri að geta hjálpað öllum og best væri að þeir sömu hefðu ekki alltaf forgang. Og ef við færum í Landsbankann og kynntum okkur hverjir hafi forgang í fyrirgreiðslu hvað heldur hæstv. ráðherra að kæmi í ljós? Er mögulegt að nokkrum manni detti í hug að halda að Sambandsfyrirtækin hafi fyrirgreiðslu umfram aðra? Það get ég ekki ímyndað mér ef ég á að taka mark á orðum hæstv. ráðherra. Hver lætur sér detta í hug að Samband ísl. samvinnufélaga eða fyrirtæki þess hafi einhvern forgang í peningastofnunum? Óttalegur kjáni hlýtur sá maður að vera. Ég er þar fremstur í fylkingu í þeim hópi kjána. Ég hugsa að ég fengi hvergi atvinnu nema á Alþingi. Er það ekki meining hæstv. ráðherra? (Gripið fram í.) Ég er ekki búinn að fá hana. Það gæti verið. Það getur vel verið að ég fengi að kenna bókfærslu í Háskólanum, ég veit það ekki.
    En ég var ekki að kasta stríðshanska þegar ég sagði að ummæli hæstv. ráðherra hefðu verið svo óheppileg hans vegna að það sameinar verkalýðshreyfinguna. Hún hefur verið veik undanfarið vegna sundurlyndis. Af hverju heldur ráðherra að það sameini? Á hverju heldurðu að ég hafi byggt það? Svona ummæli ráðherra sameina menn til átaka, vegna þess að þau storka fólki.
    Sá hæstv. ráðherra ekki viðtal við Ásmund Stefánsson í sjónvarpinu í kvöld í matartímanum? Ég skil ummæli hæstv. ráðherra þannig að hann hafi ekki séð viðtalið við Ásmund. Veit hæstv. ráðherra ekki að það er búið að boða stóran fund, hafa samtal í útvarpinu, í fréttatímanum, við nýkjörinn varaforseta Alþýðusambandsins? Ég held að ráðherra ætti að kynna sér hvað þar kom fram og sjá hvaða stríðshanska var þar kastað. Alþýðusambandið og verkalýðsfélögin eru að sameina sig. --- Sameinast um hvað? Móti stefnu ríkisstjórnarinnar, móti þeirri frystingu launa sem er í gangi og fleira. Ef ráðherra heldur að hann geti skákað í því skjólinu að enginn annar hefði horft á fréttir eða hlustað á Ásmund bara af því að hann gerði það ekki, þá er það mesti misskilningur. Sumt fólk horfir á annað og les annað og veit annað en hæstv. ráðherra og hæstv. ráðherra verður að sætta sig við það því hann ræður ekkert við að breyta því.
    Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umræður. Ég veit að virðulegur forseti vill gjarnan losna við mig úr ræðustólnum. En hitt er annað mál að af
því að hæstv. ráðherra minntist á pennastrikið sem hann var að hrósa sér af að nú væri nýbúið að gera, þessar 45 millj., þetta peð sem notað var í Sambandsfyrirtæki, ég held að ég fari rétt með það. Ef þið gerið þetta skal ég launa ykkur með framlagi úr fyrrverandi eign Útvegsbankans með kröfu einhvers annars á fyrirtækið. Það er ekki pennastrik og það er mikill misskilningur, hæstv. ráðherra, ef það á að blanda því saman í billegum rökþrotum á Alþingi í umræðum um pennastrikið að þetta sé einhver pennastriksaðgerð. Það er aulaháttur, en ekki frá minni hálfu.