Grunnskóli
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka öllum þimgdeildarmönnum og hæstv. ráðherra fyrir mjög málefnalega og ánægjulega umræðu um skólamál hér í dag. Og sérstaklega þakka ég fyrir þær jákvæðu undirtektir og þann góða hug sem menn almennt bera til skólamála og hversu glöggt þeir virðast allir sjá að þar þurfi að bæta um betur. Það má segja að það sé líkt með þingdeildarmönnum í Ed. í skólamálum og kvennalistakonum almennt að það er fleira sem sameinar okkur en það sem sundrar okkur. En mikið vildi ég þó að menn væru almennt svo gætnir og varkárir og aðhaldssamir og hugsuðu jafngrannt um forgangsröðun þegar til umræðu væri bygging Seðlabanka, flugstöðvar, Kringlu, jafnvel ráðhúss, hringsólandi veitingahúss og nú síðast handboltahallar því það fer vel að beita þessum góðu eiginleikum sem eru varkárni, aðhaldssemi og glöggt skyn á mikilvægi forgangsröðunar við sérhverjar framkvæmdir. ( KP: Hefur einhver hv. þm. staðið að þessu? Ég spyr.) Það er nú stóra spurningin. Menn hafa hins vegar rætt um forgangsröðun verkefna og ég er alveg innilega sammála. Auðvitað verður að hyggja vel að forgangsröðun verkefna. Það hefur verið spurt: Hvernig á að finna fé til þessara framkvæmda sem þarna eru tilteknar og gerð er mjög gróf kostnaðaráætlun fyrir? Og ég held að þegar sá gætni maður sem gerði þessa áætlun sagði að hún væri mjög rífleg sé hún vel rífleg.
    Þá held ég að við verðum að spyrja okkur áfram: Hvaðan koma peningar til skólakerfisins á Íslandi og hvaðan koma peningar til þjónustu eins og heilbrigðisþjónustunnar almennt? Auðvitað er þetta hluti af þjónustu og uppbyggingu þess velferðarþjóðfélags sem við byggjum og við hljótum að nýta hefðbundnar tekjuöflunarleiðir til þess að afla fjár til þeirra umbóta sem við þurfum að gera á því kerfi sem ég held að við viljum öll búa við. Ég tel það alveg víst að við viljum reyna að viðhalda því af fremsta megni og bæta það eftir því sem þurfa þykir og tíminn gerir kröfu til. Og ég verð að vekja athygli á því að hér er í raun ekki verið að ræða svo mikið um byggingar því að hæstv. menntmrh. vék einmitt að því að ef hann ætti að velja vildi hann fremur verja fé til skólaþróunar en til bygginga. Það er nefnilega þannig með innra starfið, þó að það sé að vísu alltaf mikilvægast og alveg sama hvort þá er um að ræða skólastarf eða t.d. starf á Alþingi, auðvitað er innra starf alltaf langsamlega mikilvægast, að því er líka sniðinn ákveðinn stakkur af þeim ramma og þeim aðbúnaði sem það býr við. Það þarf ekki ævinlega að vera takmarkandi, en það getur verið það.
    Ég man vel eftir því þegar ég fór fyrst til Bretlands í framhaldsnám að ég undraðist þessar kytrur sem menn unnu þar oft í, óhreinindin og hve þétt var setinn bekkurinn. Ég dáðist að þeirri rannsóknarvinnu og þeim gæðum í lækningum sem komu frá fólki sem vann við svona lélegar aðstæður. Það var hins vegar ekki vegna þess að fólkið vann við lélegar aðstæður að vinnan var svona góð. Það var

trúlega þrátt fyrir og miklu fremur vegna þess að menntun þeirra, innra starfið í menntuninni þeirra, hafði verið svona gott að það skilaði fólki sem kunni svo vel til verka og hafði sterkt frumkvæði til þess að gera góða hluti og það skiptir auðvitað meginmáli.
    Ég vek athygli á því að hluti af þessum kostnaði er einmitt launakostnaður og við þurfum að huga að því hvernig við launum þá kennara og það fólk sem starfar í skólunum. Skólastofurnar geta verið hreyfanlegar. Það má bæta þeim við og það má fækka þeim allt eftir þörfum. Vissulega var það alveg rétt hjá hæstv. ráðherra þegar hann talaði um það að menn hafi allt of ríka tilhneigingu til að mæla verk sín og árangur í steinsteypu. Ég er alveg sammála því.
    Hv. 3. þm. Vesturl. vék að því að þetta væri óskalagafrv. En hv. 3. þm. Vesturl., við óskalög eru bundnar vonir og draumar og það er hverri þjóð og hverjum þm. afar mikilvægt að eiga sér draum um betri heim, jafnvel þó að hann kosti nokkurt fé. Auðvitað verður þetta kannski ekki framkvæmt í einu vetfangi og heldur ekki á þremur árum. En það þarf að byrja að stíga skrefin og hvað er okkur ekki sagt, þessu unga fólki á blómaskeiði lífsins sem hér situr í deildinni, að hin og þessi húsin og hin og þessi starfsemin hafi einmitt verið hafin og reist á örskömmum tíma á krepputímum. Þetta gátu þeir, segjum við í aðdáunarrómi. En hvað getum við í dag, við sem búum á velmegunartímum, við sem höfum sett hvert góðærið að baki okkar, snýtt okkur eins og bak við gardínur á góðærinu? Ha? Hvað getum við? Ég bara spyr. Ég vil eiga mér draum og ég vil reyna að vinna að því að hann rætist og ég vil reyna að finna til þess peninga og aðferðir til þess að spara óráðsíu í þjóðfélaginu til þess að huga að þeim grundvelli sem er oft miklu verðmætari en það sem á honum er síðar byggt. Nei, ég held að við eigum að sýna stórhug.
    Ég vil nú víkja lítillega að því sem kom fram í máli þeirra sem hér ræddu frv. Það er þá fyrst að ég vil víkja að máli hæstv. ráðherra. Ég fagna því hversu margt er á döfinni í menntmrn. sem kann að verða til góðs og sumt kannski að skipta sköpum. Ég tala nú ekki um ef hæstv. ráðherra tekst að koma á laggirnar mótun íslenskrar menntastefnu eða skólastefnu. Það er auðvitað
afar mikilvægt verkefni og brýnt að hafist verði handa við það sem fyrst. Hæstv. ráðherra taldi upp ótal atriði sem sum kunna að koma hér inn á þingið og verða til þess að áframhaldandi umræða fari fram um þessi mikilsverðu mál og ég fagna því sannarlega.
    Hæstv. ráðherra nefndi að hann hefði áhyggjur af því að allt of margir unglingar flosnuðu upp úr skóla og fyndu ekki leið inn í skólakerfið aftur. Þá vil ég vekja athygli hans á því að ef við bætum grunnskólann, bæði innra starfið og skipulag grunnskólans og leggjum meiri alúð við þá nemendur sem þar stunda nám verða kannski færri unglingar sem flosna upp úr skóla því að vitanlega verðum við að bæta kennsluna og stuðla að því að þeir sem vinna í skólunum, kennarar og nemendur, þrífist þar. Ég

fagna þeim valddreifingarhugmyndum sem komu fram í máli hæstv. ráðherra og finnst þær allar jákvæðar.
    Hæstv. ráðherra minntist á listnám og verknám í tengslum við þá skýrslubeiðni sem kvennalistaþingkonur hafa lagt fram og það er vissulega ætlun okkar að listnám og verknám verði aukið í skólunum og fært frá sérskólum inn í grunnskólann þannig að allir eigi tök á því að njóta þess því það er auðvitað mjög mikilvægur liður í almennri menntun. Það er bæði mikilvægt að kunna til verka og einnig að geta borið skynbragð á þá menningu sem völ er á í samfélaginu og hafa haft tækifæri til að rækta með sér eiginleika til að skapa menningu því hún verður auðvitað aldrei sköpuð einungis af fáum þó að sumir kunni að skara fram úr. Það sem mestu máli skiptir er auðvitað þéttni þeirrar menningar sem þrífst í hverju þjóðfélagi, grasrótin. Ég fagna því að fé skuli veitt í sérstakan þróunarsjóð grunnskólans. Ég hef satt að segja ekki kannað hve mikið fé það er og hvort það er eitthvað sem skiptir máli. (Gripið fram í.) Já, það er vissulega spor í rétta átt.
    Hæstv. ráðherra vék síðan að frv. og hafði flest jákvætt um það að segja. Hann ræddi um fyrirhugaða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem auðvitað kemur til með að skipta máli hvað varðar kostnað við rekstur skóla og byggingar skóla og það verður að skoðast með hliðsjón af þeim framkvæmdum.
    Síðan vék hæstv. ráðherra að 5. gr. þar sem hann gagnrýndi lítillega nákvæmni atriða í sambandi við lengd kennslustunda og stundahlé. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að þetta er tekið orðrétt upp úr grunnskólalögunum, þau eru svona, enda eru í 5. gr. þessa frv. og einnig í grein frv. Ragnhildar Helgadóttur og annarra í Nd. teknar upp nákvæmlega sömu setningarnar hvað þetta varðar því að við höfum greinilega ekki séð ástæðu til að breyta því.
    Hæstv. ráðherra vék að 6. gr. sem fjallar um fækkun í bekkjum. Hann telur að fyrst eigi að einsetja og síðan að fækka. Það má vel vera að menn treysti sér ekki í þessar framkvæmdir öðruvísi en í áföngum og það má vera að það sé skiljanlegt. Það er alla vega skárra en að hafast ekkert að og víst er að það er mun dýrara að fækka í bekkjum en að huga að einsetningu þannig að ég tel mikilvægt að ræða þetta í meðferð nefndarinnar á frv.
    Hæstv. ráðherra vék að því að mikilvægt væri að velja forgangsröðun og að sættast á, ná samstöðu um, ákveðna forgangsröðun. Hann tók þannig til orða: Ef við höfum eitthvað aflögu til að bæta við getum við sæst á hvar við eigum að bæta því við eftir þeirri forgangsröðun sem við höfum komið okkur saman um. Ég held hins vegar, hæstv. ráðherra, að ekki sé nóg að vera svona bljúgur og taka því sem aflögu er til þess að gera úrbætur í skólakerfinu. Það þarf að vera djarfur og áræðinn og það þarf að finna fé til þess að bæta það sem úrskeiðis fer í skólakerfinu. Það er ekki nóg að hirða molana af borði hinna. Hæstv. ráðherra þarf beinlínis að beina hugviti sínu að því að afla fjár til þess arna. ( Menntmrh.: Við erum nú

mjög hugvitssamir í því, ráðherrar Alþb., eins og kunnugt er.) Ég bíð. Ég á eftir að bíða og sjá hvað hugvit hæstv. ráðherra megnar í þeim efnum.
    Næstur tók til máls hv. 2. þm. Norðurl. e. og ræddi um skólamál og um það frv. um breytingar á grunnskólalögunum sem liggur fyrir Nd. Hann stakk upp á því að menntamálanefndir beggja deilda ynnu saman að þessum málum og öðrum málum um breytingar á grunnskólalögunum og ég held að það sé ljómandi góð hugmynd og tek undir það og vildi fara fram á það við hv. þm. að hann geri gangskör að því að þetta verði gert.
    Síðan tók til máls hv. 6. þm. Reykn., og ég fagna því hve jákvætt hún tók í þetta mál. Ég hef þegar rætt um list- og verkmennt sem hún vék að, um mikilvægi þeirra greina, og tek sannarlega undir það með henni. Vegna þess að hún vék í máli sínu að því að ég hefði lagt áherslu á hlutverk kvenna í sambandi við umönnun barna og áhyggjur af velferð þeirra í skólum, þá voru ummæli mín nú fyrst og fremst vegna athugasemda hæstv. ráðherra, sem þá var þm., í umræðunni í fyrra þegar ég lýsti því hvernig þetta frv. var unnið. Það var fyrst og fremst unnið af konum og það kemur til af því að það eru fyrst og fremst konur sem eru í Kvennalistanum. Hann taldi hins vegar að karlar ættu að eiga þarna hlut og vissulega eiga þeir að eiga þarna hlut að máli. Þeim ber ekki bara réttur til þess, þeim ber líka skylda til þess. Ég tek undir með hv. 6. þm. Reykn. að konur í öllum stjórnmálaflokkum hafa jafnaðarlega sinnt
þessum málum af miklum áhuga og mikilli alúð og það er vel.
    Hv. 11. þm. Reykv. sýndi einnig jákvæð viðbrögð við þessu frv. og þakka ég honum hans góðu orð. Ég tek undir með hæstv. menntmrh. þegar hann brást við orðum hv. 3. þm. Vestf. Það er mjög mikilvægt að allir tjái sig um skólamál vegna þess að öllum þeim sem er annt um börn hlýtur að bera skylda til þess að tjá sig um málin og reyna að hafa áhrif á þróun þeirra. Hv. þm. er ekki sammála því að skóladagur verði lengdur. Það kann að vera að það henti misjafnlega vel í þéttbýli og dreifbýli að lengja skóladaginn. E.t.v. skiptir hann um skoðun ef hann kannar málið nánar, en ég held að mjög brýnt sé að lengja sérstaklega skóladag yngri nemendanna.
    Hvað varðar námsleiða barna, sem hann vék að, held ég að það séu vissulega orð í tíma töluð. Það er alvarlegt vandamál, en þá skiptir auðvitað mjög miklu hvernig innra starfi skólans er varið, hvað börnin hafa fyrir stafni í skólanum, hvort þeim leiðist eða ekki. Frv. er einmitt tilraun til þess að leggja alúð við innra starf skólans um leið og hugað er að ytri búnaði hans og allt hlýtur þetta að miða í sömu átt, að bæta úr skák.
    Hv. 9. þm. Reykn. kom einnig hér upp og hafði jákvæð orð um málið og markmið þess. Hann taldi að það miðaði hægt vegna þess hve kostnaðarsamt væri að gera breytingar á grunnskólanum. Ég held að það sé ekki einungis vegna þess að það sé dýrt. Ég held að það sé líka vegna skorts á áhuga stjórnvalda og

þeirri alúð sem lögð hefur verið að málinu og kannski líka vegna skorts á heildstæðri skólastefnu.
    Hv. 3. þm. Vesturl. hafði ýmislegt um málið að segja. Hann vék máli sínu að athugasemdum hv. 2. þm. Norðurl. e. sem vildi að menntamálanefndir fengju tækifæri til að kynna sér námsgögn í íslensku og annað það sem börnum í grunnskóla væri kynnt um íslenska menningu. Ég held að það sé í sjálfu sér mjög til bóta og ef hv. 3. þm. Vesturl. væri hér inni mundi ég segja honum að heilbr.- og trn. Ed. hafði á síðasta þingi í huga að fara í vettvangskönnun til þess að kynna sér ýmsa þá starfsemi sem okkur er gert að fjalla um í nefndinni. Það varð ekki úr í fyrra vegna annríkis, en við höfum þegar ákveðið að fara á stúfana nú í vetur og heimsækja ýmsar stofnanir og staði sem okkur þykir þörf á að kynna okkur nánar.
    Á sama hátt gæti eflaust verið mjög gagnlegt fyrir þingmenn í menntmn. að hafa á því skoðun hvernig farið er námsefni í íslensku og öðrum greinum grunnskólans. En ég tek undir með einhverjum sem hér kom upp og sagði að það er auðvitað ekki hlutverk nefndarmanna að ráða neinu um val slíks námsefnis þó þeir kunni að hafa á því skoðun.
    Einnig þakka ég hv. 5. þm. Norðurl. e. sem hér kom upp og studdi málið. Hún talaði um að það þyrfti að grisja það sem að utan kæmi, erlendis frá, eins og hv. 3. þm. Vesturl. gerði einnig. Vissulega þarf ætíð að laga allar hugmyndir um breytingar að íslenskum aðstæðum. Við þurfum að hafa lag á því að sækja að utan það sem okkur líst vel á og gott þykir og aðlaga það síðan þeim aðstæðum sem við búum við sem eru frábrugðnar og öðruvísi en margra annarra. Henni fannst örla á því að foreldrar væru gerðir ,,stikkfrí`` á vissan hátt í grg. þessa frv. Þeir ættu að sinna börnum sínum, ef þeir á annað borð eignuðust þau, og hún hafði áhyggjur af því að það væri verið að færa uppeldið inn í skólana. Ég tel svo ekki vera.
    Ég held að það sé mjög brýn krafa þjóðfélagsins að menntun og þekking verði aukin. Börnin eiga heimtingu á því að fá meiri og lengri og samfelldari menntun og vinnudag en nú er. Það er ekki fyrst og fremst verið að biðja um gæslustað, svo langt frá því. Og ég held að það verði börnunum til gagns en ekki til tjóns að fá að dvelja allt að sex klukkustundum í skólanum á degi hverjum. Það er einmitt mjög mikilvægt fyrir þau til þess að þroskast, fremur en hér sé verið að útvega foreldrunum gæslu fyrst og fremst eins og ég held að hún hafi e.t.v. skilið málið. Það var ekki tilgangurinn.
    Ég held að það sé mjög brýnt sem hún vék að, að börnum sé kennt betur að tjá sig almennt. Vonandi er það vaxandi í skólum miðað við það sem áður var. Það er sannarlega mikil nauðsyn á því ekki bara að taka til sín þekkingu heldur að kunna að melta hana og síðan að tjá sig um það sem maður hefur lært og miðla því.
    Að lokum vil ég þakka fyrir ánægjulega og málefnalega umræðu þar sem margt gott hefur verið lagt til málanna. Ég hlakka til þess síðar í vetur þegar

við eigum von á öðrum umræðuefnum um skóla- og menntamál því það er greinilegt að hér ríkir bæði áhugi og samhugur í þessum málum og ég er viss um að þessi deild getur lagt drjúgt af mörkum til þess að bæta íslenskt skólakerfi.