Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Það hefur verið löng og torsótt leið fyrir íslenskar konur að ná betri stöðu, meiri réttindum og fjölbreyttari möguleikum í lífi sínu en þær áður höfðu, þeirri stöðu sem þær hafa í dag. Hví er verið að segja þetta í umræðum um frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði? Hví er yfir höfuð verið að ræða það í sambandi við skattaáform ríkisstjórnarinnar? Hvað kemur það þeim málum við? Þetta kemur þeim málum mjög mikið og alvarlega við. Ekkert af því sem stendur beinlínis í þessu frv. orðar neitt um stöðu kvenna, en á bak við frv. sem við erum að fjalla um og þau frumvörp sem birta stefnu ríkisstjórnarinnar, á bak við það sem ríkisstjórnin gerir og líka á bak við það sem hún ekki gerir og varðar atvinnulíf þessa lands felst ýmislegt sem veldur því að mörg spor eru stigin í einu vetfangi aftur á bak í stöðu kvenna á Íslandi.
    Ég skal skýra þetta: Það sem ríkisstjórnin ekki gerir með almennum aðgerðum til að bæta stöðu atvinnuveganna úti um allt land hefur mikil og alvarleg áhrif á atvinnumöguleika kvenna. Það hefur ekki verið að ófyrirsynju að hér hefur verið löng og mikil umræða um fjölbreyttari atvinnumöguleika kvenna úti um landið, hvað hægt sé að gera til að auka þá fjölbreytni. Á sama tíma og stjórnarsinnar segjast vilja auka þá fjölbreytni gera þeir ráðstafanir sem verða til þess að fjöldi kvenna missir atvinnuna og þeir láta undir höfuð leggjast að gera aðrar ráðstafanir til þess að aðrar konur í annars konar atvinnuvegum geti haldið atvinnunni. Þetta hefur að sjálfsögðu ekki einungis áhrif á konurnar sjálfar heldur á heimili þeirra og börn því að eins og hv. þm. vita munu það nálgast að vera 80% íslenskra kvenna sem afla tekna utan heimila sinna og leggja þar með heimilum sínum til rekstrarfé ásamt bændum sínum, þær sem þá ekki eru einstæðar mæður og húsmæður eða hafa einar með sjálfar sig að gera.
    Það er mjög alvarlegt ástand í þeim byggðarlögum þar sem fjöldi húsmæðra hefur aflað tekna bæði í frystiiðnaðinum, í ullariðnaðinum og í fleiri greinum sem eru hluti af útflutningsiðnaði okkar. Þannig er vinnuafl kvennanna mjög mikilvægt í því sambandi og bæði úti um landið og í Reykjavík hefur frv. sem við erum hér nú að ræða enn áhrif til hins verra. Það er ljóst að bæði fjöldi kvenna sem vinnur í verslunum og á skrifstofum mun missa atvinnuna við samþykkt þessa frv. Það er ljóst að sá fjöldi af fyrirtækjum sem berst í bökkum mun síður en svo fá hvatningu til áframhaldandi starfs eða til að halda öllu því fólki í vinnu sem þau hafa núna eða yfir höfuð til að halda áfram við það að skattur þessi verður tvöfaldaður frá því sem verið hefur.
    Eitt hygg ég að ekki hafi komið fram í þessum umræðum. Nokkuð af konum rekur lítil fyrirtæki, litlar verslanir sérstaklega í hinum eldri hlutum bæjarins, og í hinum eldri hlutum bæjarins er dýrt verslunarhúsnæði. Þar er fasteignamatið hátt. Það er því líklegt að í slíkum smáfyrirtækjum verði enn erfiðara um vik vegna samþykktar þessa skatts og það

komi niður á þeim konum. Þær eru of fáar konurnar sem reka eigin fyrirtæki, þó eru þær nokkrar, en í fleiri tilfellum en ekki með smáfyrirtæki og þau munu fara illa út úr þessu, því miður.
    Þá er ótalinn hlutur þeirra kvenna sem eru launþegar og allar horfur eru á að muni verða, því miður, miklu fleiri í hópi þeirra sem atvinnulausar eru eftir samþykkt frv. en áður. Það á við bæði þær sem vinna við verslun og skrifstofustörf og líka þær sem vinna ræstingastörf. Ég veit ekki hvort hv. þm. er kunnugt um hve margar konur gefa sig fram og raunar líka karlar þegar auglýst er starf við ræstingar í borginni núna. Það er af sem áður var þegar erfitt var að ná til fólks sem sinna vildi slíkum störfum, en mér er kunnugt um að svo er a.m.k. í tilfellum sem mér hefur verið sagt af. Þar eru núna í ýmsum tilvikum tugir kvenna sem spyrja um eitt slíkt starf, er það býðst.
    Menn geta því sagt sér sjálfir að þetta mál hefur miklu fleiri hliðar en þær sem eru sýnilegar á þeim pappír sem við höfum fyrir framan okkur.
    Síðan er það stærsta hliðin hinum megin á þessari medalíu sem við erum að spjalla um hérna. Og hver er hún? Hún birtist í öðrum frumvörpum fjmrh. þessa dagana. Um leið og fjöldi kvenna verður af þessum ástæðum sviptur atvinnunni og er þá samkvæmt stefnu þessarar ríkisstjórnar væntanlega ætlað að vinna alfarið á sínum heimilum hvort sem þeim líkar það betur eða verr eða hvort sem þær þurfa annarra tekna við eða ekki, þá er það svo að heimilishaldið verður um leið og þær missa tekjurnar langtum dýrara, bæði vegna þeirra verðhækkana sem frv. hefur í för með sér á ýmsum munum til heimilis og heimilisrekstrarvörum og þá ekki síður á þeim vörum sem nútímafólki eru nauðsynlegar til að létta heimilisstörfin.
    Ég vil gjarnan minna þær kynsystur mínar sem hér hafa verið skemur á þingi en ég á að það hefur kostað langa og mikla baráttu að vinna skilning á því að heimilistæki nútímans eru nauðsynjar en ekki lengur lúxus eins og sumir blessaðir karlarnir töldu fyrir hálfri öld. Það kemur í ljós með framlagningu frv. um vörugjald að í ríkisstjórn sitja menn sem telja eins og forfeður þeirra að slík tæki séu lúxus. A.m.k. er algjörlega ljóst að á tækjum sem eru
jafndýr fyrir og þau sem ég er hér að tala um verður hinn nýi skattur þungur og þá ekki síst þegar um er að ræða að kaupandinn er búinn að missa atvinnuna og þar með tekjurnar. Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt að þeir hv. þm. í stjórnarliðinu, sem ég veit að ýmsir eru sanngjarnir og skilja þessa hluti eða a.m.k. vilja skilja þá, hugsi sig um. Þeir hljóta að hugsa sig betur um áður en að þessu ráði verður horfið. Þetta segi ég vegna þess að það er ótækt að horfa á þessi mál ríkisstjórnarinnar eitt og eitt fyrir sig sem einangrað fyrirbæri. Það er lágmarkskrafa borgaranna í þjóðfélaginu, sem eiga að bera þessa skatta, sem eiga að sjá ríkinu fyrir fjáröflun eins og það er orðað svo kurteislega í pressunni um þessar mundir, að þessir sömu þjóðfélagsborgarar fái að vita til hvers er ætlast af þeim, hver verði heildarbyrði

þeirra vegna skattahækkana ríkisstjórnarinnar, þeir þurfi ekki að horfa á einn og einn part af dæminu, það sé ekki aðeins verið að tala um hluta af nauðsynjum heimilisins heldur allar nauðsynjar heimilisins. Við vitum að það að tala um fé til að standa undir nauðsynlegum útgjöldum er rétt eins og að tala um fé til að standa undir kaupum á nauðsynjum heimilisins og hver maður með viti reynir að gera sér grein fyrir slíku dæmi í heild. Þess vegna er gjörsamlega óboðlegt að sýna ekki það dæmi allt í einu svo að fólk geti áttað sig á því.
    Ég hef fjallað lítillega um ýmsar vörur til heimilishalds og heimilistæki til að auðvelda mönnum heimilisstörfin sem í raun og veru eru algjörlega nauðsynleg nú á dögum. Það má auðvitað um það deila hvort nauðsynlegt sé að strauja skyrtur eða lín, en ríkisstjórnin ætlar að hækka skatta á straujárnum. Ég get ekki neitað því að maður er ósköp feginn að þurfa ekki að standa og strauja mjög mikið og það eru sjálfsagt fleiri. Það er góð röksemd gegn því verki að búið sé að skattleggja straujárnin eins og lúxus. En það er ekki aðeins þetta. Það eru tauþurrkarar og tauvindur. Konur geta nú veskú undið í höndunum. Það er tiltekin hreyfing sem kennd var í húsmæðraskólunum í gamla daga. Það er hætt að kenna hana núna þótt nauðsynleg sé. Það er gert ráð fyrir að fólk vindi sinn þvott í tauvindu og geti keypt sér þvottavélar eins og hverjar aðrar heimilisvélar, það sé jafnnauðsynlegt og að hafa vask í þvottahúsinu.
    Það er hreint eins og vörugjaldsfrumvarpið sé flutt af einhverjum sem aldrei á ævi sinni hafa í þvottahús komið og vita ekki hvernig á að draga til straujárn. Þó hélt ég að nútímakarlmenn vissu allt slíkt því að svo er forsjóninni og mæðrum þessa lands fyrir að þakka að ungir karlmenn nú á dögum vita vel hvað það er að vinna að því að halda heimili í almennilegu standi. Og ég hélt satt að segja að það væru nægilega margir nútímamenn í stjórnarliðinu til að skilja þetta og mundu þá þeir hinir sömu menn endurskoða áform sín um þá vöruskattlagningu sem við förum að fjalla um fljótlega, er að sönnu ekki í þessu frv. en í því sem útbýtt hefur verið en er nauðsynlegt að skoða í þessu samhengi.
    Ekki nóg með að við séum að fjalla um 100% aukningu á skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, þ.e. mestum hluta atvinnuhúsnæðis í landinu. Því við erum í sama mund að tala um að skattleggja byggingarvörur sem áður hafa ekki verið skattlagðar, ekki aðeins með þeim árangri að byggingarvísitalan hækki um 3% og áhrifum þess á fjármagnskostnað húsbyggjenda og þeirra sem bæði atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði þurfa að reka heldur líka með þeim afleiðingum að útgjöldin hækka á þeim tækjum sem fara í þann hluta húsnæðis sem er oft talinn allra dýrastur en það eru eldhúsin og baðherbergin. Þetta hefur mér skilist að væri langdýrast. Þetta segja þeir sem nú eru að byggja. Og hvaða áhrif skyldi þetta þá hafa á varahluti og viðgerðarkostnað þessara tækja sem er ærinn fyrir?
    Það er sama hversu langt við höldum áfram að

rekja þetta mál. Við sjáum æ betur að við erum dag eftir dag eftir dag að fjalla um gjöld sem koma með mjög miklum þunga niður á hin almennu heimili í landinu, öll heimili í landinu og þá sérstaklega þau heimili þar sem svo er ástatt að konurnar eru að missa sína atvinnu eða munu gera það í framhaldi af þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin berst fyrir að fá samþykkt hér á Alþingi.
    Það hlýtur að vera einhver hugsun um þennan hóp þjóðfélagsborgaranna á bak við þessi mál, ekki trúi ég öðru. Menn munu kannski segja: Ja, er kannski ekki of mikið af því að konur vinni utan heimilis? Er það ekki bara ágætt að möguleikar þeirra séu skertir til þess? Það kann vel að vera að hæstv. fjmrh. telji að svo sé. Þeim mun meiri tíma muni þá hinar sömu konur hafa til þess að standa í ýmiss konar félagsstarfsemi. Þær hafa verið drjúgar í sögunnar rás við ýmis störf í líknarfélögum, í fjáröflun fyrir ýmis nauðsynleg fyrirtæki, bæði líknarstofnanir og menntastofnanir. Það þarf ekki annað en að nefna sjálfan Landspítalann og Háskóla Íslands. Hverjir ýttu þar fjáröflun úr vör nema samtök kvenna í landi okkar? Ég veit að hver einasti hv. þm. getur í einu vetfangi talið upp í huga sér fjölda þjóðþrifafyrirtækja sem væru ekki það sem þau eru nema fyrir frumkvæði og fjáröflun kvenna. Og víst eru þær, þrátt fyrir annir bæði innan og utan heimilis, margar mjög ötular við slíkt starf.
    En hvað vill þá ríkisstjórnin gera til að styðja slíka viðleitni kvenna?
Leggja á nýjan skatt til að taka í sinn hlut það sem aflað er með ærnu erfiði í happdrættum og slíku --- eða hvað með happdrættisskatt ríkisstjórnarinnar væntanlega, skattinn sem á að leggjast á fjáröflun til líknar- og menningarmála? Það er ekki einasta að það sé vanmetið sem borgararnir af fúsum og frjálsum vilja leggja fram með erfiði sínu til fjáröflunar til slíkra mála og létta þannig undir með hinu opðinbera, heldur á að skattleggja þessa viðleitni og taka féð beint til þeirra sem vilja ráðstafa tekjunum eftir eigin pólitískum geðþótta en ekki eftir fúsum og frjálsum vilja þeirra sem fórnirnar færa.
    Þetta er siðferði af því tagi sem ég hygg að fjöldi kvenna í þessu landi kunni lítt að meta og fjöldi kvenna og karla, sem hafa lagt á sig ómælt erfiði til að koma áfram nauðsynlegum málum til að sinna og hjálpa samborgaranum, kunni lítt að meta það. Í þessum hópi leyfi ég mér að telja að konurnar séu jafnvel enn í dag fjölmennastar. Hvort sem það er launuð atvinna þeirra, starf þeirra og heimili eða sjálfboðaliðastarf þeirra í frístundum, allt skal skattlagt af hálfu ríkisstjórnarinnar. Að öllu þessu leyti skulu kjör kvenna skert samkvæmt stefnu þessarar ríkisstjórnar.