Skattskylda innlánsstofnana
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana. Eins og fram hefur komið er þetta eitt af svokölluðum tekjuöflunarfrv. sem hæstv. ríkisstjórn er að flytja þessa dagana hér á Alþingi. Ég vona hins vegar að um þetta frv. geti náðst breiðari samstaða en um sum önnur, m.a. vegna þess að í þessu frv. er gerð tillaga um það að fjárfestingarlánasjóðir og veðdeildir bankastofnana verði meðhöndlaðir á svipaðan hátt og bankastofnanir og aðrar fjármálastofnanir. Þessum stofnunum verði þannig gert skylt að greiða tekju- og eignarskatt til ríkissjóðs og er á þann hátt farið inn á sömu braut og gert var með viðskiptabankana fyrir nokkrum árum síðan þegar þeir voru undanþegnir tekju- og eignarsköttum, en síðan skyldaðir til þess að greiða tekju- og eignarskatta á sama hátt og önnur fyrirtæki í landinu.
    Það er rétt að minna á það að í aðdraganda þeirrar lagasetningar voru nokkuð skiptar skoðanir um það hvort bankarnir ættu að greiða tekju- og eignarskatt líkt og önnur fyrirtæki í landinu, en nú þegar litið er til baka er ljóst að það er samdóma álit allra að það sé fullkomlega eðlilegt að bankarnir falli undir tekju- og eignarskattslögin líkt og önnur fyrirtæki. Ef eitthvað er, þá er helst að heyra kröfur um að þeir greiði meira en ýmsir aðrir.
    Með þessu frv. sem hér er lagt fram er verið að samræma skattlagningu allra fjármálastofnana í landinu. Ég vænti þess að hv. Alþingi sé sammála okkur um það að það sé óeðlilegt að ekki sé samræmi í tekju- og eignarskatti milli mjög skyldra aðila. Í reynd er okkar peningakerfi þannig upp byggt að allur meginþorri þessara fjárfestingarlánasjóða og veðdeilda eru mjög hliðstæð bönkunum og í sumum tilvikum eins konar armur eða hliðarstofnanir út frá viðskiptabönkunum.
    Með þeim umfangsmiklu breytingum sem orðið hafa á undanförnum árum á peningamarkaði hefur þessi skattalega mismunun sem hér hefur ríkt í vaxandi mæli haft áhrif á samkeppnisstöðu einstakra fjármálastofnana. Til þess að gefa hugmynd um heildarstærðir í þessu efni má nefna að heildarhagnaður fjárfestingarlánasjóða og veðdeilda banka árið 1987 er talinn hafa verið um 1 milljarður kr. Eigið fé þessara sömu stofnana var þá talið hafa verið um 7 milljarðar kr. og heildareignir um 55 milljarðar kr. Þetta eru engar smáupphæðir á mælikvarða íslensks atvinnulífs og efnahagslífs. Hér er lagt til að þessi umfangsmikla fjármálastarfsemi sitji við sama borð í tekju- og eignarskattsálagningu eins og annar rekstur í landinu.
    Mismunandi skattaleg meðferð innlánsstofnana elur á óhagræði af ýmsu tagi og skapar möguleika á því, og vil ég sérstaklega vekja athygli hv. Alþingis á því, að hagnaðurinn sé látinn koma fram í þeim hluta starfseminnar sem er skattfrjáls. Ég vakti athygli á því áðan að peningakerfið í okkar landi er þannig uppbyggt að veðdeildirnar og fjárfestingarlánasjóðirnir

eru mörg mjög nátengd viðskiptabönkunum, í sumum tilfellum eins konar armur þeirrar starfsemi og með því að hafa mismunandi skattameðferð er opnað á það að hægt sé að flytja verulegt fjármagn inn í þann hluta starfseminnar sem ekki greiðir tekju- og eignarskatt. Með þessu frv. er lokað á það og lagður grundvöllurinn að því að fullkomið samræmi ríki þarna á milli.
    Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að íslenskar peningastofnanir hafa haft töluverða möguleika til að skammta sér hagnað og rekstrarkostnað, m.a. vegna skorts á aðhaldi sem ríkt hefur á þessum þætti og er ég þá bæði að tala um skort á aðhaldi út frá markaðssjónarmiðum og markaðssamkeppni og eins frá hinu opinbera. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, sem ég gerði reyndar við umræður um lánsfjárlög á sínum tíma í þessari hv. deild, að það er nú orðin almennt viðurkennd skoðun æ fleiri hagfræðinga, viðskiptafræðinga og sérfræðinga í peningamálum að íslenska bankakerfið starfi á fákeppnismarkaði en ekki fullum samkeppnismarkaði. Og þeir sem þekkja til lögmála hagfræðinnar vita það að það gilda allt önnur lögmál um starfsemi, rekstur og annað, fyrirtækja sem eru bundin við fákeppnismarkað en þeirra sem eru á almennum, frjálsum samkeppnismarkaði. E.t.v. hafa mörg mistök verið gerð í stjórn peningamála hér á Íslandi á undanförnum árum og ýmislegar aðrar rangar ákvarðanir verið teknar vegna þess að menn hafa haldið að kenningarnar um frjálsa samkeppni á peningamarkaði giltu um okkar litla peningakerfi. Nú er aftur á móti mjög vaxandi sá skilningur sérfræðinga að ganga verði út frá því að hér sé um fákeppnismarkað að ræða og beita þá þeim niðurstöðum og þeim greiningum sem innan hagfræðinnar, viðskiptafræðinnar og peningafræðanna almennt eiga við um fákeppnismarkað en ekki frjálsan samkeppnismarkað.
    Í þessu sambandi vil ég vekja athygli hv. deildar á því að nýlega hafa verið birtar tölur sem sýna bæði óhagkvæmni íslenska bankakerfisins í samanburði við það sem gerist erlendis og þá útþenslu sem átt hefur sér stað í þessu kerfi á undanförnum árum og áratugum.
    Ég hef látið gera athuganir í þessu efni og niðurstöður þeirra eru mjög
fróðlegar. Þær sýna t.d. að rekstrarkostnaður banka og sparisjóða í hlutfalli við niðurstöðu efnahagsreiknings hefur verið um 4,7% hér á Íslandi, en er yfirleitt um 1--3% í nágrannalöndum okkar. Ef tækist að lækka þetta hlutfall niður í efra markið sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, þ.e. 3%, væri hægt að spara hvorki meira né minna en 2 milljarða í rekstri íslenska bankakerfisins. Það er ótrúlega há upphæð. Hún er svipuð og það tap sem orðið hefur í grundvallaratvinnuvegi landsmanna á þessu ári og er mörgum tilefni til umræðna um víðtækar ráðstafanir í efnahagsmálum.
    Einnig varpar það ljósi á þetta vandamál að rekstrarkostnaður íslenska bankakerfisins var um 1,7%

af landsframleiðslu árið 1973, en 2,2% árið 1979 og 3,5% 1986, eða á rúmum áratug hefur rekstrarkostnaðurinn sem hlutfall af landsframleiðslu vaxið úr 1,7% í 3,5%. Frekara ljósi á þessa þróun varpa þær tölur að starfsmannafjöldi í bankakerfinu óx um 140% á tímabilinu 1973--1987, en á sama tíma jukust innlánin að raungildi aðeins um 90%. Ég er sannfærður um það að ein af ástæðum þeirrar þróunar sem ég hef rakið er að fjárfestingarlánasjóðir, bankakerfi og veðdeildir hafa ekki verið skyldaðar til þess að verja hluta af sínum hagnaði til greiðslu á tekju- og eignarsköttum líkt og önnur fyrirtæki í landinu og hafa þess vegna haft meira svigrúm til þenslu en atvinnureksturinn almennt.
    Virðulegi forseti. Sem dæmi um sjóði og veðdeildir sem verða skattskyldar samkvæmt þessu frv. má nefna Framkvæmdasjóð Íslands, Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð, Orkusjóð, Stofnlánadeild landbúnaðarins og fleiri. Aftur á móti er rétt að vekja athygli á því að frv. hefur ekki áhrif á gildandi lagaákvæði um skattfrelsi lífeyrissjóða, opinberra tryggingar- og jöfnunarsjóða, Lánasjóðs ísl. námsmanna og annarra slíkra sjóða sem reistir hafa verið á félagslegum grundvelli. Einnig er lagt til að Byggðasjóður og Ríkisábyrgðasjóður og byggingarsjóðir ríkisins verði undanþegnir þessum ákvæðum.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði í framhaldi af þessari umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar.