Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það skal vera aðeins örstutt athugasemd. Vegna yfirlýsinga hæstv. fjmrh. um hugsanlegar viðræður við einstaka stjórnarandstöðuflokka er alveg nauðsynlegt að það komi skýrt fram, og reyndar hefur það verið tekið fram áður, en af gefnu tilefni er nauðsynlegt að það komi fram enn einu sinni, að ríkisstjórnin þarf sjálf að hafa komið sér saman um endanlega stefnu í skattamálum og endanlega stefnu í efnahags- og atvinnumálum áður en hún getur hafið viðræður við einstaka stjórnarandstöðuflokka. Þetta er frumskilyrði. Í annan stað: Ef umræður eiga að snúast ekki einungis um einstök skattafrv. heldur fjárlagafrv. og útgjöld þess í heild, þá er ljóst að þær þurfa að snúast um forsendur frv., efnahagsstefnu núv. ríkisstjórnar. Það er sjálfsagt að taka þátt í þeim umræðum. Eðli máls samkvæmt hljóta þær að vera viðamiklar því það þarf og ber brýna nauðsyn til að gjörbreyta þeirri stefnu.