Tryggingarsjóður sjúklinga
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 83 hef ég ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, Skúla Alexanderssyni og Guðmundi Ágústssyni lagt fram eftirfarandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:
    ,,Er á döfinni hjá heilbr.- og trmrh. eða ríkisstjórn að koma á fót tryggingasjóði til aðstoðar þeim sjúklingum sem orðið hafa fyrir áföllum vegna mistaka við læknismeðferð?``
    Auðvitað er enginn tími í fyrirspurnatíma til að gera þessu máli tæmandi skil. Það þyrfti langan tíma til að ræða þessi mál að fullu gagni. En mig langar til í örfáum orðum að fylgja þessari fsp. úr hlaði.
    Undangengna mánuði hafa orðið að mínu viti opnari umræður bæði í ríkisfjölmiðlum og skrifum dagblaða um meint mistök lækna við læknisaðgerðir. Þetta er að vissu leyti mjög alvarlegt mál sem allt of lengi hefur legið í þagnargildi og fæstir hafa viljað um tala. En það er með þetta eins og flest önnur mál að því aðeins læra menn að menn þori að hafa skoðun á hlutum, þori að ræða málin af hreinskilni og að vissu leyti af hógværð og réttlæti.
    Fjöldi einstaklinga hefur komið fram á sjónarsviðið og tjáð sig um meint mistök í læknismeðferð, enn meiri fjöldi er trúlega sem ekki hefur gert þetta og í mínum huga er trúlega mikill fjöldi mistaka vegna læknismeðferðar grafinn. Kannski eru stór orð að tala með þessum hætti. Ég tel þó að ég hafi fengið æðimikla reynslu í þessum efnum og það er nú einu sinni svo að oft vaknar maður ekki upp við slíka hluti fyrr en maður reynir þá sjálfur.
    Ég sagði áðan að mikill fjöldi einstaklinga hefði látið í sér heyra vegna þessara hluta og það er vel. Ég tel hins vegar miður að nokkrir einstaklingar í læknastétt hafa verið andvígir slíkri opinni umræðu en réttlátri. Það er miður vegna þess að það eru einmitt þessir einstaklingar í læknastétt sem þurfa að læra af mistökum. Ég ætla ekki að mannskepnan eins og hún er fram komin, hvort sem er í læknastétt eða annars staðar, geti ekki gert mistök. Það er hverjum og einum eðlilegt. En mistök eru til þess að menn læri af þeim, viðurkenni þau og geti breytt um til hins betra að fenginni reynslu.
    Annað er í þessu máli sem mér finnst nöturlegt eftir að hafa upplifað þetta sjálfur og það er kerfið í landinu, dómskerfið í landinu. Einstaklingur sem verður fyrir slíku verður kannski 75% öryrki vegna mistaka læknis og ætlar sér að sækja sinn rétt í gegnum dómskerfið, getur þurft að gera það á 4--5 árum. Það kostar mikið álag, mikinn tíma og mikið fjármagn. Í mínum huga er ærið nóg að leggja á viðkomandi einstakling bæði líkamlegan sjúkdóm og andlegan án þess að hann þurfi líka að bera fjárhagslegt tjón og áhyggjur umfram það sem orðið hefur. Við búum við slíkt kerfi í landinu að því er þetta varðar að við það verður ekki unað lengur. Í mínum huga er það svo að venjulegur maður, sem lendir í slíku, í mistökum vegna læknismeðferðar og kannski bíður þess aldrei bætur, hefur nánast enga möguleika til að sækja sinn rétt í gegnum réttarkerfið

vegna þess að tíminn er svo langur sem það tekur og hann hefur ekki fjármuni til að greiða vegna þessarar réttartöku sinnar.
    Ég get sagt þetta vegna þess að ég hef sjálfur gengið í gegnum þetta dæmi og trúlega hafa margir aðrir miklu biturri reynslu af slíku en ég. Ég skal, virðulegur forseti, ljúka máli mínu eftir örstutta stund. Ég vil þó bæta því við að mér finnst mjög nauðsynlegt að ráðandi öfl í þjóðfélaginu, forustan í heilbrigðiskerfinu, læknarnir og aðrir þeir sem þetta mál fyrst og fremst snýr að, tryggingafélögin og fleiri, fari að taka til höndum og stofna sjóð sem gæti orðið þessum einstaklingum að liði því að nóg líða þeir sem fyrir þessu verða bæði líkamlega og andlega þó að þeir þurfi ekki áfram og kannski til æviloka að bera fjárhagslegar byrðar og áhyggjur vegna þess sem komið hefur fyrir sem ég er ekki að segja að sé gert af neinum illum hug, síður en svo. Öllum í öllum stéttum geta orðið á mistök. En það eina sem menn eiga að gera og virða er að viðurkenna mistökin og læra af þeim. Þannig getum við mótað til framtíðar betra þjóðfélag en við höfum búið í. Það er smánarblettur á því þjóðfélagi sem við höfum búið í að slík dæmi skuli koma upp þar sem fólk verður nánast öreigar eftir slík mistök sem hér um ræðir.