Tryggingarsjóður sjúklinga
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og met þau svo að a.m.k. hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að hér þurfi að gera bragarbót á. Í upphafi svarsins heyrðist mér hæstv. ráðherra vera í vafa um hvort mistök ættu sér stað í læknismeðferð. Í mínum huga er enginn vafi á slíku. Það er fjöldi mistaka sem á sér stað hjá læknum við læknismeðferð og við því er kannski ekkert að gera í mörgum tilvikum.
    Ég fagna því að landlæknir, sem ætti kannski að vera kunnugast um þetta mál, hefur gert tillögur um tryggingasjóð til þess að bæta tjón tiltekinna einstaklinga. Ég skírskota nú til þeirra fáu hv. þingmanna sem hér eru í Sþ. Við skulum setja dæmið upp svo: Einstaklingur verður fyrir því í læknismeðferð að verða 75% öryrki til æviloka, tiltölulega ungur einstaklingur. Hann mundi fá úr tryggingum u.þ.b. 9 þús. kr. á mánuði. Ef hann ætlaði að leita réttar síns vegna þess að hann teldi að þarna hefðu átt sér stað mistök gæti það þýtt fjögurra til fimm ára baráttu hans við kerfið til þess að ná málinu fram, hvort sem hann ynni það síðan eða tapaði. Er hægt að hugsa sér það að félagshyggjulegt þjóðfélag, réttlætisþjóðfélag, geti búið einstaklingum sem þessum svona aðbúnað? Er ekki alveg augsýnilegt að okkar þjóðfélag, sem er kannski það menningarlegasta, þó víða sé leitað, ætti að taka til hendinni og bæta þetta ástand? Það er ekki hægt að bjóða þessum einstaklingum upp á það að auk líkamlegra og andlegra þjáninga í langan tíma sitji þetta fólk uppi sem algjörir öreigar og þurfi að hafa meiri áhyggjur fjármálalega það sem eftir er ævinnar.
    Ég skal, virðulegi forseti, fara að stytta mál mitt þó mér kannski brenni þetta meira í hug en mörgum öðrum vegna minnar reynslu, en eigi að síður held ég að nauðsynlegt sé að vekja umræður um þetta mál. Það ætti að vera öllum til góðs.
    Hæstv. ráðherra nefndi kvörtunarnefnd. Nú veit ég ekki nógu vel til þess að fullyrða hvort sú nefnd hefur skilað þeim árangri sem af henni var vænst. Ég efast mjög um að sú nefnd skili þeim árangri sem af henni var vænst vegna þess að það er tiltölulega lítið til hennar leitað. Og af hverju er það? Vegna þess að allt of margir einstaklingar telja eðlilega að ef menn ætli að fara að kvarta þýði það málaferli sem taka svo langan tíma að venjulegt fólk ræður ekkert við það, hvorki tímans vegna né peninganna.
    Ég fór sjálfur í gegnum tíu rannsóknir sérfræðinga, sína á hverju sviði, og menn vita nú hvaða tíma það kann að taka að fá tíma hjá sumum sérfræðingum fyrir nú utan hitt hvaða tíma það tekur að vera þar. Þetta eru þær byrðar sem eru lagðar á viðkomandi einstaklinga, það sem þeir þurfa að ganga í gegnum ef þeir á annað borð ætla að leita réttar síns í þessum efnum, réttar sem mér finnst að þjóðfélagið gefi þeim sáralítið tækifæri til að geta nýtt sér. Og það er það sem ríður á að hv. Alþingi, og hæstv. heilbrmrh. sem oddviti þessara mála, beiti sér fyrir því að almenningi verði gert léttara að komast frá þessum málum,

komast í gegnum kerfið með eðlilegum hætti án þess að bera bæði fjárhagslegan kostnað af því, mikinn, og eyða mörgum árum til þess að geta notfært sér og leitað síns réttar. Ég treysti því að hæstv. ráðherra og treysti því raunar að ríkisstjórnin sem heild og hv. þm. allir leggist á eitt um að létta þessum einstaklingum sem hér eiga hvað mest við vandræði að búa þennan róður því að þeir eru ótrúlega margir að mínu viti sem enn hafa ekki látið í sér heyra og þeim fjölgar sem fyrir þessu verða.