Framtíðarhlutverk héraðsskólanna
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Óli Þ. Guðbjartsson hefur borið fram fsp. um framtíðarhlutverk héraðsskólanna í framhaldi af þál. sem samþykkt var á hv. Alþingi á síðasta þingi.
    Fyrri hluti fsp. er svo: ,,Er ætlun ráðherra að hafa forgöngu um að móta stefnu um framtíðarhlutverk héraðsskólanna?`` Svarið er já. Það er ætlunin að gera það og ég lít á það sem verkefni sem beri að skoða sem hluta af endurskipulagningu og heildarskipulagningu framhaldsskólastigsins á viðkomandi svæðum.
    Í annan stað er spurt: ,,Ef svo er, hvenær er þá að vænta tillagna um þessi efni, sbr. þáltill. frá síðasta löggjafarþingi sem samþykkt var að vísa til ríkisstjórnarinnar 7. maí sl.`` Því get ég ekki svarað nákvæmlega hvenær tillagna um þessi efni er að vænta. Ég hef ekki haft mjög langan tíma til að fara yfir þessi mál, en vil leyfa mér að segja þetta, virðulegi forseti:
    Héraðsskólarnir gegndu mjög mikilvægu hlutverki þegar þeir voru stofnaðir og lengi eftir það. Nú eru hins vegar breyttir tímar eins og hv. þm. gat um og það þarf að aðlaga þessa skóla breyttum tímum og breyttu skólaumhverfi. Það eru trúlega allir sammála um þetta.
    Það er ljóst að héraðsskólarnir eru í verulegum vanda, en ég tel að vandi þeirra verði ekki leystur einangrað og að þeir verði teknir til sérstakrar meðferðar út af fyrir sig heldur beri að líta á héraðsskólana hvern fyrir sig í því umhverfi og umdæmi og skólaumhverfi sem þeir eru staddir í. Þess vegna hef ég velt því fyrir mér að taka þannig á þessum málum eins og öðrum málum framhaldsskólastigsins að það verði til samstarfsnefndir um framhaldsnám og e.t.v. fullorðinnafræðslu og endurmenntun í hverju fræðsluumdæmi og að slíkur hópur fjallaði á hverjum stað um málefni allra skóla á þessum stigum í umdæminu, héraðsskóli þar með talinn þar sem slíkur er fyrir hendi. Þetta mundi þýða að framhaldsstigið þyrfti að fylgja að þessu leytinu til fræðsluumdæmaskiptingu grunnskólastigsins. Í samstarfsnefnd af þessu tagi hef ég hugað mér að gætu t.d. verið skólastjórar viðkomandi skóla, þeirra sem nú eru í umdæmunum, og fræðslustjóri, í öðru lagi þar til kjörnir fulltrúar sem t.d. samtök sveitarfélaga á viðkomandi svæði tilnefndu, í þriðja lagi fulltrúar fræðsluráða grunnskólanna og þessir aðilar mynduðu í sameiningu þessa samstarfsnefnd. Niðurstaðan gæti svo orðið sú að sumir héraðsskólanna yrðu hluti af framhaldsskólunum, framhaldsskólakerfi í viðkomandi umdæmi. Sumir yrðu trúlega áfram grunnskólar, jafnvel með framhaldsdeildir sem yrðu þá í nánum tengslum við móðurskóla í umdæminu, og sumir þeirra yrðu kannski að einhverju eða öllu leyti menningarmiðstöðvar í umdæminu t.d. með fullorðinsfræðslu á sínum snærum, námskeiðahald, ráðstefnuhald eða þess háttar.
    Þetta eru þeir þættir, virðulegi forseti, sem ég hef

velt fyrir mér í þessu efni. Ég tel með m.ö.o. nauðsynlegt að marka þessa stefnu. Ég tel að það sé kannski alvarlegasta vandamál sem skólakerfið í landinu hefur átt við að búa um langt skeið að það hafa ekki verið tök á því af einhverjum ástæðum að marka stefnu sem víðtæk samstaða gæti orðið um í viðkomandi byggðarlögum.
    Nú tek ég hins vegar eftir því að byggðarlögin eru að taka sig saman um að reyna að marka stefnu varðandi þróun framhaldsskólastigs á viðkomandi svæðum þar sem héraðsskólarnir eru teknir inn í. Gott dæmi um það eru t.d. Vestfirðirnir þar sem hefur verið rætt um það á vegum Fjórðungssambands Vestfjarða að það verði til stofnun sem kölluð er til bráðabirgða framhaldsskólinn á Vestfjörðum og inn í þá mynd yrðu þá teknir skólar eins og héraðsskólarnir, eins og Menntaskólinn á Ísafirði, eins og Iðnskólinn á Ísafirði o.s.frv. Sama þyrfti að gerast í öðrum umdæmum, t.d. á Suðurlandi, og þá þurfa menn að því er varðar t.d. Laugarvatnsskólann sérstaklega að átta sig á því hvort Alþingi vill fallast á þær tillögur sem fyrir liggja um að Laugarvatn verði íþróttasetur, íþróttamiðstöð fyrir þjóðina alla, hjarta íþróttastarfseminnar á Íslandi. Það er ákvörðun sem Alþingi og fjvn. þurfa að taka.
    M.ö.o., hæstv. forseti: Það er verið að vinna að málinu. Ég hef lýst þeirri almennu stefnu sem ég vil hafa við að nálgast þetta mál og ég vænti þess að svörin fullnægi fyrirspyrjanda að svo miklu leyti sem unnt er á þessu stigi.