Jöfnun á námskostnaði
Föstudaginn 09. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Fyrir hönd okkar kvennalistakvenna fagna ég því að þetta frv. er hér fram komið því að eins og hæstv. menntmrh. minntist á áðan þá höfum við sýnt þessu máli nokkurn áhuga. Reyndar ekki með fsp. eins og hann sagði heldur með till. til þál. sem flutt var af Guðrúnu J. Halldórsdóttur, varaþingkonu Kvennalistans og öðrum í þingflokki Kvennalistans, en till. hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að láta hraða endurskoðun laga nr. 69/1972, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Endurskoðun þessi taki m.a. mið af þörfum þeirra sem eru ofan við skólaskyldualdur en hafa ekki lokið grunnskólanámi sem og því að mikill fjöldi nemenda stundar nú nám í öldungadeildum og ætti að eiga rétt á styrkjum.``
    Ég hef kynnt mér efni þessa frv. og ég get ekki komið auga á að þessir nemendur sem þarna eru teknir með eða --- ég verð væntanlega leiðrétt ef ég hef misskilið það, ég þarf hugsanlega að athuga frv. aðeins betur. Ég sé að menntmrh. setur upp undrunarsvip. --- En ég vil benda á að við höfum lengi reynt að beita okkur fyrir því að efla jafnrétti til náms óháð búsetu eða efnahag.
    Ég vil einnig láta þess getið hér við 1. umr. þessa máls að í fyrra flutti ég ásamt fleiri hv. þm. till. til þál. um það að ríkissjóður greiddi hlut launakostnaðar í fæðiskostnaði nemenda í skólamötuneytum. Ég hef reyndar lagt þá till. fram núna, en vegna anna hér í þinginu þá hef ég ekki mælt fyrir henni enn þá, hún er ekki komin á dagskrá. Þar kemur m.a. fram í grg. að hlutur nemenda í þessum launagreiðslum er um 30--40% af heildarkostnaðinum sem þeir þurfa að borga fyrir fæðið. Það segir sig sjálft að þetta er mjög þungur baggi á heimilum sem þurfa að senda, þó ekki sé nema einn nemanda, hvað þá heldur tvo eða þrjá að heiman. Því tek ég heils hugar undir það að þennan kostnað þarf að sjálfsögðu að greiða. Eins og hæstv. menntmrh. minntist á er það í raun til háborinnar skammar hvernig raungildi dreifbýlisstyrksins svokallaða hefur rýrnað með árunum. Það er nánast svo að vart tekur því að borga þessar 12.500 kr., sumir nemendur komast varla heim til sín, a.m.k. þeir sem þurfa t.d. að sækja nám til Reykjavíkur frá Austfjörðum eða Norðurlandi. Þá er c-liður 3. gr. um húsnæðisstyrki fyrir þá nemendur sem ekki eiga kost á heimavist til bóta og langar mig reyndar til að gera heimavistir að umræðuefni hér.
    Við flesta nýju skólana og reyndar gömlu framhaldsskólana sem eru úti á landsbyggðinni eru heimavistir en höfuðborgarsvæðið sker sig algjörlega úr hvað varðar þann aðbúnað að nemendur, sem þurfa að sækja hingað til höfuðborgarinnar vegna náms á framhaldsskólastigi, eiga alls ekki kost á heimavistarrými. Hér munu aðeins vera um 20 rými í heimavist ætluð nemendum Sjómannaskólans. Allur þorri nemenda þarf því að leita út á hinn almenna húsnæðismarkað með þeim afarkjörum sem þar gilda og flestir þekkja. Ég býst því við að húsnæðiskostnaður þeirra sé mjög hár. Það er auðvitað

spurning hvort höfuðborgarsvæðið eins og önnur sveitarfélög ætti ekki að sjá nemendum fyrir húsnæði í heimavist. Því að það getur líka verið mjög erfitt fyrir ungmenni á þessum aldri að koma utan af landi, að fara að heiman í fyrsta skipti og koma hingað til höfuðborgarinnar og búa ein og jafnvel einangruð einhvers staðar úti í bæ. Í mörgum skólum er oft ekki allt of mikið samband á milli nemenda, því miður. Mér finnst það því vera mjög athugandi upp á framtíðina hvort hér á höfuðborgarsvæðinu ætti ekki einnig að standa til boða heimavistarhúsnæði fyrir nemendur.
    Það er fleira sem kemur til varðandi kostnað nemenda sem þurfa að stunda nám á framhaldsskólastigi. Það birtist grein í Þjóðviljanum nú í lok september undir yfirskriftinni ,,Miðinn í menntó 30.000 kr.`` Þar voru tilteknir kostnaðarliðir varðandi bókakaup og félagsgjöld nemenda í framhaldsskólanum. Það hefur komið fram að sennilega er Ísland eina landið í heiminum sem leggur neysluskatt á skólabækur. Ég hef reyndar lagt fram fsp. um tekjur ríkissjóðs af námsbókum til hæstv. fjmrh., en hún er ekki komin á dagskrá enn þá, þannig að ég hef ekki þá tölu sem ríkissjóður fær. Ég veit það hins vegar að þær tekjur gætu nýst mjög vel til námsefnisgerðar bæði á grunn- og framhaldsskólastigi, en eins og flestir vita þá hefur Námsgagnastofnun búið við mikið fjársvelti í mörg ár og hefur því ekki getað sinnt öllum þeim hlutverkum sem henni hafa verið ætluð.
    Það er mjög gott og þarft að ræða hér málefni framhaldsskólans. Við gerðum það reyndar líka í fyrra nokkuð lengi. Ég vil minna á eina till. til þál. sem borin var fram fyrir forgöngu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur, um könnun á launavinnu framhaldsskólanema. Sú till. var samþykkt og var flutt af þingmönnum allra flokka og það væri auðvitað mjög gott ef hún yrði framkmvæmd hið allra fyrsta. Nú veit ég ekki hvað framkvæmd hennar líður og það væri kannski ráð að spyrja hæstv. ráðherra um það líka hér og nú. Það hefur valdið mönnum áhyggjum að nemendur virðast í síauknum mæli þurfa að stunda vinnu með námi sínu. Samkvæmt lauslegum könnunum sem gerðar voru í nokkrum
framhaldsskólum í fyrra virtust um 70% nemenda vinna að einhverju leyti með náminu. Það er mjög alvarlegt því að nám er auðvitað full vinna og svo mikil vinna hlýtur að koma niður á námi þeirra og heilsu.
    Ég ætla ekki að fara efnislega út í einstakar greinar frv. en mun að sjálfsögðu kynna mér það betur þar sem ég á sæti í hv. menntmn. þessarar deildar.