Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 09. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég er dálítið undrandi á því að ríkisstjórnin skuli nú í þeirri tímaþröng sem er í störfum þingsins skömmu fyrir jólahlé bjóða upp í dans um húsnæðismál, en það segir eflaust eitthvað um forgangsröð verkefna hjá hæstv. ríkisstjórn að þessu máli skuli skotið inn á milli skattalagafrv. sem frá henni koma, væntanlega með það fyrir augum að fá þetta mál afgreitt með sama hraða og skattafrv.
    Ég vil byrja á að lýsa undrun minni á því að hæstv. félmrh. skuli taka til máls um einn afmarkaðan þátt í þessum veigamikla og mikilvæga málaflokki án þess að gera þinginu þá nokkuð ítarlega grein fyrir því hver er staða þessara mála núna, hvaða breytingar eru á döfinni og hvað hún hyggst gera, hæstv. ráðherra, að því er varðar t.d. störf þeirra nefnda sem unnið hafa að þessum málum að undanförnu. Mér kemur nefnilega spánskt fyrir sjónir að þrátt fyrir að því sé lýst yfir æ ofan í æ að það sé verið að vinna að heildarendurskoðun, bæði hins almenna húsnæðislánakerfis og hins félagslega, skuli detta hér inn í þingið alltaf við og við frv. sem snúa að einstökum afmörkuðum þáttum þessara mála. Hvað líður allri þessari heildarendurskoðun, bæði á almenna kerfinu og félagslega kerfinu, og því geta svona lítil mál, eins og ráðherra telur þetta vera, ekki komið inn í slíka endurskoðun? Eða er kannski ekki von á neinum niðurstöðum úr þessum athugunum öllum á næstunni?
    Ráðherra vék að því í framsögu sinni að hinn félagslegi hluti húsnæðiskerfisins væri til endurskoðunar. Ég held að hún ynni þarft verk með því að gera okkur grein fyrir því í þessum umræðum hvert þeirri endurskoðun er komið áður en farið er að gera hér breytingu sem þessa þó hún sé í sjálfu sér smávægileg. Með sama hætti er eðlilegt að það sé gerð einhver grein fyrir því hver reynsla er fengin af hinu svokallaða kaupleigufyrirkomulagi áður en því er breytt, að ráðherrann gerði grein fyrir því hvernig þær lagaheimildir sem veittar voru á síðasta þingi hafa nýst þó að sú reynsla sem af þessu er komin sé ekki ýkja löng.
    En það er fleira sem er til umfjöllunar í sambandi við húsnæðismál um þessar mundir en hin eilífa endurskoðun húsnæðismálaráðherrans á lögum um þessi mál. Því var til að mynda lýst yfir við myndun þessarar ríkisstjórnar, ef ég man rétt, að komið yrði til móts við þá sem eiga í sérstökum greiðsluerfiðleikum með 150 millj. kr. viðbótarframlagi úr ríkissjóði. Síðan hefur ekki heyrst orð um það mál á Alþingi. En fyrst það er mælt fyrir stjfrv. um húsnæðismál væri þá ekki ráð að fá örlitla greinargerð frá ráðherra um hvað þessu áformi líður? Hvernig gengur ríkisstjórninni að tryggja þá fjármuni sem fyrirheit var gefið um í þessu skyni eða hefur kannski verið fallið frá því?
    Nú er það þannig, virðulegur forseti, að á vegum félmrh. hefur frá því snemma á þessu ári starfað hópur manna að því að skoða nýjar leiðir í sambandi við hið almenna húsnæðislánakerfi. Upphaflega var þetta óformlegur vinnuhópur undir forustu hv. þm.

Kjartans Jóhannssonar en síðan formlega skipuð nefnd sem sami hv. þm. veitir forustu. Eftir því sem fregnir af þessu starfi gefa til kynna eru á ferðinni hugmyndir um mjög róttæka breytingu á því húsnæðiskerfi sem hér var upp tekið fyrir rúmum tveimur árum og eflaust ekki vanþörf á. Hins vegar hefur dregist úr hömlu að upplýsingar um þetta efni kæmu fram t.d. hér á Alþingi þó svo að til að mynda þing Alþýðusambands Íslands hafi rætt þetta mál opinskátt og ályktað gegn ákveðnum atriðum sem þar mun vera að finna. Ég hefði viljað beina þeirri fyrirspurn til hæstv. félmrh. hvað líður þessu nefndarstarfi. Hvenær má vænta þess að niðurstaða þessarar nefndar sjái dagsins ljós í þingsölum sem frv. frá ríkisstjórninni? Eða hyggst ráðherra ekki beita sér fyrir breytingum í anda þess sem nefndin leggur til ef niðurstaða nefndarinnar gengur gegn vilja Alþýðusambands Íslands eins og hann birtist í ályktunum ASÍ-þingsins?
    Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir þingheim að fá brátt nokkuð glögga heildarmynd af því hver staða þessara mála er því það er erfitt fyrir þingmenn að taka afstöðu til einstakra lítilla þátta og breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins þegar ekki liggur ljóst fyrir hver heildarmyndin er og hvaða áform eru uppi um að breyta þessum lögum, jafnvel mjög verulega.
    Ég skal ekkert taka til umræðu það sem væntanlega verður í nál. þeirrar nefndar sem ráðherra skipaði og er nú að störfum um þetta mál. Væntanlega fáum við tækifæri til þess á Alþingi síðar meir. En ég held að það fari ekkert á milli mála að fjárhagsstaða byggingarsjóðanna tveggja er í mikilli hættu ef ekki verður brugðist við. Því eins og hv. 12. þm. Reykv. sagði má gera ráð fyrir því að á ekkert allt of löngum tíma stefni þar í hreint gjaldþrot með þeirri niðurgreiðslu fjármagns sem nú tíðkast. Það þarf ekki mikla reikningsspeki til að sjá í hendi sér að á u.þ.b. 20 árum, 20--30 árum e.t.v., verði útistandandi lán stofnunarinnar, miðað við hvernig útlánareglur eru í dag, orðin kannski 200--250 milljarðar kr. Ef niðurgreiðslan á slíkum lánum verður áfram sú sem hún er, 3--4%, sjá allir í hendi sér að þarna er verið að tala um fjárþörf úr ríkissjóði til að greiða niður vaxtakostnaðinn af þessum lánum sem nemur kannski á bilinu 7--10 milljörðum kr. á ári hverju. Þá held ég
að hæstv. fjmrh. þurfi að hafa sig allan við í skattheimtuáformum sínum ef eftirmenn hans þurfa að hala inn 7--10 milljarða sérstaklega til að borga niður vextina á lánum Húsnæðisstofnunar ríkisins.
    Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hvað hér er verið að tala um háar fjárhæðir og hvað þetta stefnir hratt í mikið óefni. Mér er hins vegar kunnugt um að uppi eru hugmyndir um að gerbreyta þessu kerfi og ég vænti þess að ráðherrann svari því hvernig hún hyggst taka á þeim tillögum sem væntanlegar eru. En ég vænti þess líka að hún geti svarað þeirri spurningu hvernig hún hyggst beita sér eða bregðast við þessari niðurgreiðslu á næstunni áður en aðrar breytingar koma til framkvæmda. Mun félmrh. beita sér fyrir því eða ríkisstjórnin að úr

þessari niðurgreiðslu dragi í núverandi kerfi?
    Þessi mál voru mikið rædd í fyrra, á síðasta þingi, en eins og allir vita er það ríkisstjórnin sem ákveður vextina á lánum Húsnæðisstofnunar að fenginni tillögu félmrh. þannig að það er í verkahring hæstv. félmrh. að gera tillögur um þá vexti sem greiddir eru af þessum lánum. Nú er það að sjálfsögðu ekki einfalt mál að breyta þessum vöxtum vegna þess að þeir snerta hag fjölda manna sem hafa tekið þessi lán eða standa í biðröð eftir að taka þessi lán. En ég tel að það væri gagnlegt að fá svör ráðherrans við því og kannski ekki síður svör fjmrh. við því hvort þessir ráðherrar tveir treysta sér til að standa undir þessari gríðarlegu niðurgreiðslu áfram eða hvort einhver áform eru uppi um að gera þarna breytingu á á næstunni og þá jafnvel áður en þessu kerfi yrði hugsanlega gjörbreytt.
    Ég tel eðlilegt í umræðu sem þessari, þegar um er að ræða þennan mikilvæga málaflokk sem snertir svo marga Íslendinga beint, að ráðherrann ræði þessi mál en þessi umræða sé ekki einskorðuð við þá tiltölulega léttvægu breytingu sem er gerð tillaga um með þessu frv. Ég vænti þess að ráðherra treysti sér til að fjalla nokkuð um þessi mál í heild sinni.
    Varðandi aftur þá brtt. sem er lögð til, þá er að því stefnt að opna fyrir möguleika á svonefndri hlutdeildareign innan hins félagslega kerfis með því frv. sem hér er til umræðu. Það segir að vísu í athugasemdum með frv. og kom fram í ræðu ráðherra að ákvæði þessa efnis hafi ekki verið í því frv. sem samþykkt var á síðasta þingi vegna ágreinings meðal þeirra flokka sem stóðu að síðustu ríkisstjórn. Nú hef ég aðeins farið í gegnum þau skjöl sem okkur voru sýnd á þeim tíma og í fyrsta uppkasti að frv. til l. um svonefndar kaupleiguíbúðir var ekki gert ráð fyrir þessum möguleika þannig að ég átta mig satt að segja ekki á þeirri fullyrðingu sem þarna kemur fram. Hins vegar er rétt að við sem þá vorum í samstarfi við hæstv. félmrh., ekki síst kannski hv. 1. þm. Vesturl., höfðum þó nokkrar athugasemdir við það frv. sem lagt var fram í upphafi eins og kom glöggt fram bæði í umræðum á Alþingi á þeim tíma og í blöðunum. Ég minnist þess að við lögðum til að hlutdeildareignarheimildin í hinu almenna kerfi væri hækkuð úr 15% í 30% fyrir hinn venjulega mann, aðra en öryrkja og námsmenn og fleiri slíka hópa.
    Hins vegar hefur það jafnan verið skoðun okkar sjálfstæðismanna að þeir einstaklingar sem kjósa að velja sér húsnæði í svonefndum hlutdeildaríbúðum ættu að eiga kost á því en þó þannig að þeir nytu ekki sérstakra forréttinda umfram aðra landsmenn í því efni. Ég vil þess vegna beina þeirri spurningu til félmrh. hvort það sé ekki alveg öruggt að sú heimild, sem er verið að fara fram á með brtt. í þessu frv., tryggi að þeir sem hygðust notfæra sér þessa heimild innan félagslega kerfisins yrðu undir sömu tekjumörk settir og aðrir þeir sem fá fyrirgreiðslu úr hinu félagslega kerfi. Það hefur nefnilega borið á því að þeir aðilar, sem hafa kannski helst verið í forsvari fyrir þetta fyrirkomulag, svokallað

búseturéttarfyrirkomulag, hafa verið menn sem hafa a.m.k. allgóða tekjumöguleika en hafa engu að síður talið eðlilegt að þeir nytu lánafyrirgreiðslu frá hinu opinbera á sömu kjörum og þeir sem eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu, bara vegna þess að þeir hafa valið sér eða vilja búa í húsnæði sem kennt er við þetta tiltekna form, Búseta. Þetta tel ég afar óeðlilegt og reyndar illskiljanlegt að aðilar, sem ekki verður með nokkru móti sagt að eigi undir högg að sækja í þjóðfélaginu eða eigi erfitt með að skapa sér tekjur, skuli vilja smeygja sér inn í félagslegt íbúðakerfi bara út á það eitt að það íbúðarform sem þeir kjósa heitir einhverju tilteknu nafni.
    Ég minnist þess að á fundi, sem samtökin sem hæstv. ráðherra nefndi til sögunnar hér áðan héldu fyrir rúmu ári, voru ýmsir fulltrúar búsetasamtakanna sem ég gat ekki skilið öðruvísi en svo að þeim þætti afar eðlilegt að búsetaréttarfyrirkomulagið, nafnsins vegna nánast, ætti að falla undir félagslega húsnæðiskerfið. Þetta voru jafnvel einstaklingar sem gegna afar vel launuðum störfum í þjóðfélaginu án þess að ég fari nánar út í að tilgreina einstaklinga í því sambandi.
    Ég vil gjarnan biðja ráðherrann að gera þetta alveg skýrt, vegna þess að ég tel að það sé grundvallaratriði að ekki sé verið að búa til mismunun að þessu leyti þannig að tilteknir einstaklingar, sem hafa miklar tekjur jafnvel, geti smeygt sér inn í félagslega íbúðalánakerfið í gegnum þetta tiltekna félagsform.
    Ég vildi þá gjarnan beina þeirri fyrirspurn til ráðherra í leiðinni hvort það sé þannig, eins og mér reyndar heyrðist hún segja í ræðu sinni, að í það nýja húsnæði sem byggt hefur verið í Reykjavík í þessu formi hafi verið veitt lán úr Byggingarsjóði verkamanna frekar en Byggingarsjóði ríkisins og hvort það sé þá ekki alveg tryggt að allir þeir sem í raun njóta þeirrar lánafyrirgreiðslu með því að taka þar upp búsetu uppfylli þau skilyrði sem sett eru í hinu félagslega lánakerfi. Því ég held að allir hljóti að geta verið sammála um að það er óeðlilegt að menn sem e.t.v. hafa góðar tekjur verði sér úti um lánsfé, sem ætlað er þeim sem eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu, bara út á þetta tiltekna form og það að búa í húsnæði sem þeir kjósa að kalla einhverju tilteknu nafni.
    Ég vil að því er þessa breytingu varðar áskilja mér rétt til að fjalla nánar um hana í hv. félmn. þar sem ég á sæti. Ég sé enga ástæðu til að lýsa andstöðu við þessa breytingu. Ég tel hins vegar að ef hún yrði gerð væri henni betur fyrir komið með eilítið öðrum hætti í lögunum. Það er hins vegar mál sem ekki er ástæða til að ræða hér heldur taka frekar upp í nefndarstarfinu.
    Mér leikur hins vegar nokkur hugur á, fyrst hv. 1. þm. Vesturl. er nú í salnum, að beina þeirri spurningu til hans og félaga hans úr Framsfl. hvort þeir séu endanlega búnir að sætta sig við þá breytingu sem gerð var á lögunum um Húsnæðisstofnun með kaupleiguíbúðum og hvort sú breyting sem hér er flutt sé þeim að skapi því að eins og við munum voru það

ekki síst hv. þm. Framsfl. sem gerðu athugasemdir við þetta mál á sínum tíma.
    Hitt er svo alveg rétt að við sjálfstæðismenn gerðum allnokkrar efnislegar athugasemdir við kaupleiguformið þegar það var hér til meðferðar. Það hafði hins vegar verið gert ákveðið samkomulag við stjórnarmyndunina sumarið 1987 um að þessu skyldi komið á og við það stóðum við að sjálfsögðu. Hitt er það að fjmrh. og félmrh. stóðu ekki við þær upphæðir sem samið var um í því sambandi og ég hygg að félmrh. hafi tekist að afla miklu meiri fjármuna til þessara mála en um var samið við stjórnarmyndunina 1987 og hefur eflaust notið til þess fulltingis og góðvilja hæstv. þáv. fjmrh., núv. hæstv. utanrrh. En út í þá sálma skal ég ekki fara nánar að þessu sinni, enda eru ríkisfjármálin ekki lengur á okkar könnu, sjálfstæðismanna, með sama hætti og var þar sem við eigum ekki lengur aðild að ríkisstjórn. En ég er ansi hræddur um að við hefðum gert athugasemdir við þann fjáraustur sem er í þennan málaflokk og hefur verið miðað við það samkomulag sem um þetta var gert á sínum tíma við stjórnarmyndunarviðræðurnar.
    En það kom á daginn þegar frv. um þetta mál var lagt hér fram í fyrra að það stóð ekki til af hálfu hæstv. félmrh. að gera sömu kröfur til þeirra einstaklinga sem eignast vildu íbúðir í kaupleiguíbúðakerfinu og hinna sem eignast vildu íbúðir eftir venjulegri leiðum innan hins opinbera húsnæðislánakerfis. Þessu fengum við sjálfstæðismenn breytt við undirbúning málsins þannig að sem betur fer er það ekki þannig í lögunum heldur sitja menn við sama borð að því er lán til þessara íbúða varðar miðað við aðrar íbúðabyggingar. En það var ekki ætlun félmrh. eins og þetta frv. var upphaflega kynnt fyrir þáv. samstarfsflokkum.
    Ég tel sjálfsagt að það séu ýmsir valkostir í boði fyrir það fólk á Íslandi sem vill koma sér upp þaki yfir höfuðið. Ég tel fullkomlega eðlilegt að menn geti valið um hvort þeir leggja í meiri háttar fjárfestingu einu sinni á ævinni með lánsfé frá hinu opinbera eins og er hið almenna eða hvort þeir velja frekar einhverjar aðrar leiðir sem eru þeim betur að skapi. En það hlýtur að vera grundvallaratriði að menn sitji við sama borð, að einu tilteknu húsnæðisformi sé ekki gert hærra undir höfði en öðrum vegna einhverra sjónarmiða um að það sé betra, skynsamlegra eða þægilegra að búa í einhverju tilteknu formi, eins og t.d. í búsetafyrirkomulagi, en öðru. Það er eðlilegt að ef einhver vill búa samkvæmt slíku fyrirkomulagi hafi menn sama lánarétt og aðrir til þess, en það er óeðlilegt að menn hafi þar einhvern forgang umfram aðra, umfram það sem almennt gerist í þjóðfélaginu varðandi hinar félagslegu íbúðir.
    Ég hyggst ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð um frv. að sinni. Ég vænti þess að ráðherra svari þeim fyrirspurnum sem ég hef til hennar beint, ekki síst þeim sem varða heildarmyndina í þessum málum sem ég tel mun mikilvægari en frv. sem slíkt þó að ég vænti þess að sjálfsögðu að hún svari mínum fyrirspurnum um frv. einnig.

    Ég vildi síðan í lokin beina þeirri fyrirspurn til ráðherra hvort ætlast er til þess að frv. hafi sama forgang í þinginu og tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar. Hyggst hún knýja á um afgreiðslu þessa máls nú fyrir jól því að þá hygg ég að einhver önnur mál verði að víkja í staðinn á forgagnslista stjórnarinnar ef það er meiningin --- eða er nægjanlegt að afgreiða þetta mál að loknu jólaleyfi þingmanna?