Framhaldsskólar
Mánudaginn 12. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er rétt, sem fram kom í máli hæstv. menntmrh., að það hafi verið beðið lengi eftir lögum um framhaldsskólastigið þegar þau voru sett í fyrra, en þess ber reyndar að geta að ekki voru allir jafnánægðir með efni laganna og fyrirkomulag þeirra og þar vorum við að mörgu leyti sammála núv. hæstv. menntmrh. og við kvennalistakonur. Gagnrýni okkar var t.d. á skipan skólanefnda við framhaldsskólann. Okkur þótti sem þær ættu að hafa of mikið að segja um innra starf skólanna og sú gagnrýni stendur enn af hálfu okkar kvennalistakvenna.
    Það hefur komið fram að nauðsyn sé á skólanefndum til að tengja skólana við hið raunverulega líf á viðkomandi stöðum. Ég vil eiginlega mótmæla því að ekki skuli litið á starfsfólk skólanna sem hluta af því samfélagi sem það býr í. Það þarf að varast þann hugsunarhátt t.d. úti á landsbyggðinni að kennarar sú alltaf aðkomufólk sem kemur og fer. Það þarf einmitt að reyna að fá þá til starfa á þeim stöðum utan veggja skólans þar sem þeir eru einmitt til þess að þeir tengist betur fólki og atvinnufyrirtækjum á staðnum.
    En það er ýmislegt sem þarf að athuga við þetta mál eins og önnur viðamikil frumvörp sem við erum með í höndum okkar þessa dagana. Það kom reyndar fram í umsögnum um málið í fyrra að ekki eru allir skólamenn voru sáttir við það fyrirkomulag sem lögin buðu upp á. Skólameistarar og kennarar töldu það einkum til bóta að nú væru leyst viss mál varðandi fjárhag skólanna. Það fyrirkomulag hefur verið að stofnkostnaður menntaskólanna hefur verið greiddur af ríkinu, en fjölbrautaskólar hafa verið greiddir að hluta til, 40%, af sveitarfélögum og 60% af ríkinu.
    Mig langar til þess að lesa hér bréf sem mér barst og öðrum hv. þm. líka 30. ágúst sl. frá Skólameistarafélagi Íslands. Þar kemur fram gagnrýni þeirra á þá hugmynd sem þá þegar var komin fram um að fresta gildistöku fjárlagakafla framhaldsskólafrv. Það var þó eiginlega ljósi punkturinn sem þeir sáu við framhaldsskólalögin að fjármálunum væri komið í betra horf en áður hafði verið. En bréf þetta hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Komið hefur fram í fréttum að embættismenn hafa borið fram tillögur um að fresta gildistöku fjármálakafla framhaldsskólalaganna. Framhaldsskólar landsins hafa um langt árabil búið við mikla óvissu um stöðu sína og hlutverk. Nýsett lög um framhaldsskóla gáfu vissulega fyrirheit um bætt grundvallarskilyrði skólastarfs. Verði nú farið að hringla með þessi lög virðist okkur að skólinn gæti orðið nokkurs konar undanvillingur í samfélaginu sem enginn vildi gangast við. Líklegt er að honum yrði skammtað í samræmi við það, en ekki er bætandi á þrengingar í þeim efnum. Skólameistarar heita á alþm. og ráðherra að beita sér gegn því að þessi tillaga nái fram að ganga.``
    Undir bréfið skrifar Ingvar Ásmundsson, formaður Skólameistarafélags Íslands, og 32 skólameistarar af öllu landinu hafa lýst sig sammála efni þess. Það

kemur sem sé fram að skólameistarar telja að óvissu um fjárhag skólanna hafi verið eytt með lögunum.
    Það er ýmislegt sem þarf að athuga í sambandi við framhaldsskólann annað en einungis lagarammann sem um hann gildir. Nú er það svo að hæstv. menntmrh. minntist hér á aðstöðu í hinum ýmsu skólum og þá nefndi hann sérstaklega tvo skóla á Reykjavíkursvæðinu, Menntaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Hamrahlíð. Hann minntist raunar á fleiri en það virtist að við þessar tvær stofnanir væri mestra úrbóta þörf. Það má kannski geta þess hér um leið, þar sem við erum að tala um skólamál, að Menntaskólinn við Hamrahlíð er stofnaður fyrir rúmum 20 árum sem tilraunaskóli þar sem rekið er svokallað áfangakerfi og var ætlunin að gera úttekt á því að tíu árum liðnum. Það hefur ekki verið gert enn. Hins vegar hafa, nú þori ég ekki að segja hversu margir, sennilega um 20 nýir skólar risið upp einmitt á grundvelli þess áfangakerfis án þess að mat hafi verið lagt á gildi þess.
    Þannig er ýmislegt annað sem þarf að athuga við skólana en einungis lögin sem um þá gilda. Það er ýmislegt í innra starfi skólanna sem þarfnast mikillar athugunar. Reyndar hefur komið fram að mikill fjöldi nemenda hverfur frá námi á fyrsta ári og fer í aðra skóla eða hættir námi og eru svo sem ekki neinar þekktar ástæður fyrir því. Þess vegna get ég verið sammála hæstv. ráðherra um að það þurfi að endurskoða marga aðra þætti laganna, svo sem samstarfið á milli skólanna. Hann nefndi þá aftur sérstaklega samstarfið hér á Reykjavíkursvæðinu. Nú er það svo að flestir þessara nýju skóla úti á landi mynduðu með sér samstarf. Það má segja að það hafi sprottið upp nokkurs konar grasrótarvinna þar því að kennarar nýju skólanna úti á landi sameinuðust um að semja námsvísi. Reyndar byggir grundvallarhugmyndin á áfangakerfinu eins og það er rekið við Hamrahlíðarskólann. Samstarf hefur verið mjög virkt og öflugt og orðið til þess að efla bæði faglega samstöðu með kennurum, svo og einnig samstöðu þeirra í kjarabaráttu sem þeir hafa háð allvonlausa nú í mörg ár. Vegna þess að hæstv. ráðherra minntist aðeins á ástandið í skólunum vil ég aðeins nefna það líka því ég þekki sjálf nokkuð vel til flestra framhaldsskólanna í landinu. Mig langar aðeins að láta það koma fram í þessari
ræðu minni núna að t.d. í Menntaskólanum við Hamrahlíð, þó ég sé ekki að gera lítið úr vandamálum annarra skóla, búa kennarar og nemendur nú við það að eina viku á önn hefur einn af kennurum skólans enga skólastofu og þeir skiptast á að flakka, þurfa að vera í svokölluðu flökkukerfi sem þýðir að annaðhvort verður kennarinn að kenna hópnum á göngum úti eða þá að hann er svo ,,heppinn`` að einn kennari er fjarverandi.
    Hæstv. ráðherra minntist á stærð skólanna og samvinnu þeirra. Það er einmitt eitt af því sem ég held að þurfi að taka afstöðu til hversu stórir skólar eiga að vera, hvað er hagkvæm stærð þannig að skólinn sé stofnun þar sem nemendum líður vel en

námsframboð þó viðunandi.
    En varðandi það frv. sem hér liggur fyrir um að fresta fjármálakaflanum þarfnast það athugunar og umhugsunar. Eins og allir vita eru uppi mikil vandamál í íslensku efnahagslífi. Vil ég áskilja mér rétt til að kynna mér efni þessa frv. betur áður en ég tek endanlega afstöðu til þess og sérstaklega það sem hæstv. menntmrh. sagði áðan í máli sínu um það að ef lögin tækju gildi yrði það í raun og veru aðeins að nafninu til. Þetta atriði vildi ég sérstaklega fá að kynna mér betur áður en við í þingflokki Kvennalistans getum endanlega gert upp við okkur það sem felst í frv.