Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Mér þykir rétt á þessari stundu, þar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa mælt fyrir breytingartillögum, að gera grein fyrir einni brtt. sem ríkisstjórnin hefur fjallað um. Hún varðar 4. gr. bráðabirgðalaganna frá 20. maí. Í viðræðum við fulltrúa launþega og athugun á stöðu atvinnulífsins upp á síðkastið hefur sú hugmynd komið fram að rétt væri að fella niður 2. mgr. 4. gr. frv., þ.e. að endurreisa rétt til samninga frá t.d. næstu áramótum. Þetta var rætt í ríkisstjórninni í morgun og menn á einu máli um að þetta bæri að gera. Hins vegar liggja þegar fyrir brtt. við þessa grein frá stjórnarandstöðunni og ég sé því ekki ástæðu til að vera að flytja enn aðra brtt., en taldi því rétt að láta það koma fram hér þegar að ríkisstjórnin telur skynsamlegast að fella niður 2. mgr. 4. gr. frv.
    Ég geri ráð fyrir því að ég fái síðar í kvöld tækifæri til að ræða um ýmislegt það sem hér hefur komið fram, en taldi rétt að þetta atriði kæmi fram nú þegar brtt. er lýst.