Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Karvel Pálmason:
    Herra forseti. Það er örstutt. Ég heyri að hv. þm. Halldór Blöndal og Guðmundur Garðarsson ganga eftir svörum af vörum hæstv. forsrh., sem ég tel afskaplega eðlilegt, og þykir hann ekki svara nægilega. Ég vil þess vegna ítreka spurningu mína til hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar: Hversu margir af þingmönnum úr þingflokki Sjálfstfl. höfðu fyrirvara á Þorsteinslögunum svokölluðu frá því í maí? Það getur skipt miklu máli hvort það hefur hent formann stærsta stjórnmálaflokksins í landinu og þáv. forsrh. að setja bráðabirgðalög sem ekki höfðu þingmeirihluta. Við hljótum að krefjast þess hér að við fáum vitneskju um hversu margir það voru sem voru með slíkan fyrirvara því það getur auðvitað skipt máli hvort það var slíkur fyrirvari. ( SalÞ: Það var ríflegur meiri hluti þá.) Ríflegur meiri hluti. Hvað þýðir ríflegur meiri hluti? Kannski ekki nógu mikill meiri hluti til þess að lögin næðu fram að ganga? Þá hefur það gerst, sem hv. þm. Halldór Blöndal og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hafa verið að klína á núv. hæstv. forsrh., að hann hafi myndað stjórn á fölskum forsendum, að það hefur hent formann Sjálfstfl. á sl. vori að setja bráðabirgðalög sem ekki nutu meiri hluta í þinginu. Ég óska ítrekað eftir því að fá töluna um hversu margir þingmenn úr Sjálfstfl. voru með fyrirvara að því er þetta varðaði þegar Þorsteinslögin voru sett sem bráðabirgðalög.