Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það er nú komið í ljós að fjh.- og viðskn. hefur fjallað um þessi bráðabirgðalög undir öðrum forsendum en nú eru komnar í ljós. Við stóðum í þeirri meiningu að ríkisstjórnin teldi sér nauðsynlegt að fá í heild þann kafla sem er í bráðabirgðalögunum, eftir að búið er að flytja breytingartillögur við septemberlögin, lögfestan. Það hefur enn fremur komið í ljós að hæstv. ríkisstjórn ræddi þá breytingu á fundi sínum í morgun sem hæstv. forsrh. lýsti hér undir kvöldmatinn þannig að það lá ljóst fyrir meðan umræður fóru fram hér í dag um fyrra dagskrárefnið að sú breyting sem forsrh. lýsti lá þá þegar fyrir. Það kom enn fremur í ljós í Stöð 2 í kvöld í viðtalsþætti hæstv. forsrh. og forseta Alþýðusambands Íslands að það hefur orðið misskilningur milli verkalýðsforustunnar og ríkisstjórnarinnar. Forseti Alþýðusambandsins skildi ummæli hæstv. forsrh. svo að það væri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gefa samninga lausa á nýjan leik. Hins vegar lýsti forsrh. því yfir að það væri alls ekki meiningin. Hugur hans stæði eingöngu til þess að fella niður 2. mgr. 4. gr. sem fjallar um bann við verkföllum sem auðvitað skiptir ekki máli vegna þess að vinnustöðvanir og verkföll eru hvort sem er bönnuð samkvæmt öðrum lögum og breytir auðvitað engu um samningsréttinn hvort 2. mgr. falli niður eða ekki. Það er m.ö.o. komið í ljós að einhver misskilningur hefur átt sér stað í samræðum hæstv. forsrh. og þeirra forustumanna í verkalýðshreyfingunni sem hann talaði við.
    Af þessum ástæðum, herra forseti, og sérstaklega vegna þess að hæstv. forsrh. kaus að lýsa þessari brtt. sinni við umræður undir þessum dagskrárlið, við umræður um þau bráðabirgðalög sem við erum nú um að fjalla er nauðsynlegt að gert verði hlé á þessum fundi þannig að stjórnarandstöðunni gefist kostur á því að kalla til sín forustumenn verkalýðshreyfingarinnar í fyrramálið, ræða við þá um þau fyrirheit sem hæstv. ríkisstjórn hefur gefið þeim í sambandi við samningsréttinn og jafnframt er nauðsynlegt að kalla til fundar forustumenn Vinnuveitendasambands og forustumenn Vinnumálasambands samvinnuhreyfingar. Það er auðvitað lágmarkskrafa stjórnarandstöðunnar eins og nú stendur á að henni gefist kostur á að kynna sér sjónarmið, ekki aðeins eins og þeim er lýst hér af hæstv. forsrh. heldur fái að heyra líka þá hlið sem snýr að fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar og líka heyra hvaða viðhorf vinnuveitendur og Vinnumálasamband samvinnufélaga hefur til þessa máls.
    Mér þykir leiðinlegt, herra forseti, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér við svo mjög sem þetta mál varðar hann sem þann mann í ríkisstjórninni sem fer með samningsumboð gagnvart opinberum starfsmönnum, en eins og við vitum falla samningar við opinbera starfsmenn úr gildi 1. jan. nk. Ég vil því beina því til hæstv. forseta að hann geri nú þegar hlé á þessum fundi þannig að stjórnarandstöðunni gefist svigrúm til

að ræða þetta mál við þessa forustumenn aðila vinnumarkaðarins.
    Ég efast ekki um að ríkisstjórnin muni taka þessari málaleitan vel. Hún er borin fram í fullri hógværð og til þess að flýta fyrir málum og greiða fyrir góðu samstarfi og góðri samvinnu hér í þinginu. Það eru mjög mörg mál í báðum deildum sem bíða afgreiðslu, mál sem hafa komið fram á síðustu stundu og ég veit að ríkisstjórninni er það mjög í mun að góð samvinna og gagnkvæmt traust geti haldist milli stjórnar og stjórnarandstöðu og er því ekki í vafa um að hæstv. forsrh. muni verða vel við þessari málaleitan.