Yfirlýsingar fjármálaráðherra um samráð við
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég segi í fullri vinsemd að mér finnst þetta vera frekar tilefnislítil umræða. Þau orð sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson vitnaði í í frétt Ríkisútvarpsins eru endursögn fréttamanns á viðtali við mig þar sem hann spyr að því hvort viðræðum við stjórnarandstöðu yrði haldið áfram. Það sér hver maður í hendi sér að svarið við slíkri spurningu á göngum þinghússins hlýtur að vera já. Ef ég hefði sagt nei við þeirri spurningu hefði málið kannski verið tilefni til þess að fara hér upp og taka það til umræðu. En það að svara þeirri spurningu játandi hvort viðræðum við stjórnarandstöðu yrði haldið áfram tel ég fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt og á engan hátt aðfinnsluvert og satt að segja skil ekki að það sé tilefni til umræðu um þingsköp. Það heyrir varla undir þingsköp og ekki heldur utandagskrárumræður. Sérstaklega ekki þegar haft er í huga það sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson sagði sjálfur í lok sinnar ræðu, svo ég vitni orðrétt í hann, að þegar öll tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar væru komin fram væri Sjálfstfl. tilbúinn til viðræðna. Það voru ekki öll tekjuöflunarfrv. komin fram fyrr en á þessari mínútu þegar hv. þm. Albert Guðmundsson var að ljúka ræðu sinni vegna þess að á þeirri mínútu gekk þingvörður í salinn og hóf að dreifa síðasta tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt þeirri vinnuskilgreiningu sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson gaf sjálfur í lok sinnar ræðu var af hans hálfu ekki talið tilefni til viðræðna eins og hann vill túlka það, samningaviðræðna um stefnumótun, fyrr en öll tekjuöflunarfrv. væru komin fram.
    Það sem hins vegar hefur gerst í þessum samskiptum og ég hef áður lýst mjög nákvæmlega í þingsalnum og skal gera aftur fyrst þess er óskað, hélt að vísu að það væri alveg skýrt, var að þegar frv. um vörugjald var í undirbúningi könnuðum við viðhorf fulltrúa þeirra flokka sem eru utan ríkisstjórnar og stundum eru kallaðir stjórnarandstaðan sem heildarheiti af hv. þm. Þorsteini Pálssyni sem hvað eftir annað notar það sem heildarheiti í ræðum þótt ljóst sé að hér er um þrjá flokka að ræða sem kunna að hafa mismunandi afstöðu og vitað er að hafa mismunandi afstöðu til sumra frv. ( ÞP: Það er ráðherra sem notaði þetta sem heildarheiti í fréttinni.) Ráðherrann segir ekkert orðrétt í fréttinni. Ráðherrann tekur enga ábyrgð á endursögn fréttamanns utan gæsalappa á því sem hann segir. Ef það er ætlast til þess að ráðherrar taki ábyrgð á endursögn fréttamanna af þeirra ummælum held ég að ráðherraábyrgðin sé nú farin að ná ansi langt. ( ÞP: Er fréttin villandi?) Fréttin er ekkert villandi hvað það snertir að ég sagði við hv. fréttamann, sem er sjálfsagt rétt að kalla svo fyrst hann er orðinn tilefni til þingskapaumræðu hér, að við mundum ræða við flokka stjórnarandstöðunnar. Ef viðkvæmnin er virkilega orðin svo mikil að hv. þm. Þorsteinn Pálsson þolir ekki endursagnir fréttamanna af ummælum er ég hættur að skilja pólitíska starfið bæði hér á Alþingi og utan þess. Þá er orðinn satt að segja lítill efniviður í alvöru stjórnmálaumræður þegar

slíkt er notað sem tilefni umræðna um þingsköp hér. Og tek ég undir með Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um síðustu helgi að skynsamlegra væri að gera sér grein fyrir hinni ábyrgu afstöðu til ríkisfjármála og efnahagsmála í þeim efnum.
    Ég skal hins vegar lýsa því enn og aftur hvernig þessum málum hefur verið farið af okkar hálfu. Það er, eins og ég hef áður sagt og öllum þingheimi kunnugt, að fyrst vildum við kanna hvort þingflokkarnir væru tilbúnir til viðræðna og ég vil í þessu sambandi gera mikinn greinarmun á viðræðum og samningum. Ég hef aldrei sagt að efnislegir samningar við stjórnarandstöðuflokkana væru hafnir eða hefðu átt sér stað. Ég geri mikinn greinarmun á viðræðum og samningum. Ég tel satt að segja viðræður þær sem við áttum við fulltrúa þingflokkanna, sem við báðum formenn þingflokkanna að tilnefna til viðræðna við okkur og sem formenn þingflokkanna tilnefndu og komu stundum sjálfir til þeirra funda, hafi snúist fyrst um málsmeðferð, og það eru auðvitað viðræður einnig, um málsmeðferð bæði hvað snertir samskipti flokkanna og um frv. um vörugjald sem hv. þm. Albert Guðmundsson lýsti áðan. Það eru einnig viðræður að við könnuðum hvort flokkarnir vildu taka við frv. áður en þau væru fullbúin. Það getur vel verið að hv. þm. Þorsteinn Pálsson hafi þegar hann var fjmrh. sent þingflokkum stjórnarandstöðunnar án þess að ræða við þá fyrst frv. meðan þau voru á vinnslustigi. Ég kannast hins vegar ekki við það og teldi það satt að segja dónaskap við flokka í stjórnarandstöðu að senda þeim frv. áður en þau eru lögð fram á Alþingi án þess að kanna það fyrr hvort flokkarnir vildu taka við þeim vegna þess að ef það yrði ekki kannað fyrr væri verið að þvinga upp á flokkana í stjórnarandstöðu vinnuskilyrðum sem ekki væru þingleg. Þess vegna taldi ég fullkomlega eðlilegt að efna fyrst til viðræðna um hvort flokkarnir vildu taka við frv. áður en þau væru lögð fram á Alþingi. Ég fagnaði því að þeir samþykktu allir að gera það, en mér fannst eðlilegt að kanna það fyrst áður en þeir tóku við þeim.
    Þegar það lá fyrir og viðræður höfðu farið fram um það efni voru haldnir fundir þar sem þessi frv. voru lögð fram, ýmist fullbúin sem frv. í frumvarpsbúningi eða í formi efnislegrar greinargerðar varðandi frv. um tekju-
og eignarskatt, og farið yfir það á fundi og flokkunum gefinn kostur á því að hafa aðgang að embættismönnum fjmrn. sem sumir stjórnarandstöðuflokkanna hafa nýtt sér til þess að þeir gætu betur kynnt sér efni þessara mála áður en til efnislegra viðræðna og samninga kæmi.
    Þetta tel ég vera fullkomlega eðlileg vinnubrögð vegna þess að þau fela í sér að við erum ekki að þvinga upp á flokkana sem eru utan ríkistjórnar nein vinnubrögð sem þeir hafa ekki haft möguleika til að taka afstöðu til áður en þeim er hrint í framkvæmd. Og auðvitað eru þetta viðræður. Ég veit ekki hvað hv. þm. vill kalla þetta annað. Ef hann vill kalla þetta kynningu tel ég það vera orðaleik sem engu máli

skiptir efnislega. En það eru hins vegar ekki efnislegir samningar um innihald frv. og hefur aldrei verið sagt að það væri vegna þess að það er fullkomlega óeðlilegt að þeir hefjist fyrr en allir efnisþættir málsins liggja fyrir. Þess vegna fannst mér það vera eðlileg ósk hjá Sjálfstfl., sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson lýsti hérna áðan, að það yrði ekki farið í þá vinnu fyrr en öll tekjuöflunarfrv. hefðu verið lögð fram á Alþingi. Þess vegna hefur ekki verið efnt til samningaviðræðna síðustu daga um efnisþætti frv. Ég virti þessa ósk hv. þm. og Sjálfstfl. og taldi óeðlilegt að þvinga Sjálfstfl. í einhverjar slíkar viðræður áður en frv. væru lögð fram.
    Þess vegna vísa ég algjörlega á bug öllu ásökunum í minn garð um að það hafi verið gefið eitthvað annað í skyn en hefur verið veruleikanum samkvæmt eða lýst einhverju sem ekki hefur átt sér stað. Það eru nokkrir dagar síðan ég fór með þessa lýsingu í þessum sal og tók undir orð hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur í þeim efnum.
    Hitt er svo rétt, eins og ég held að ég hafi sagt áður, að það væri gagnlegt fyrir alla þingmenn vegna þess að það liggur nægilega fyrir um efnisþætti málsins, bæði samdráttinn á yfirstandandi ári, halla ríkissjóðs á yfirstandandi ári, og við skulum ekkert ræða það á þessu stigi hver ber sök á honum. ( Forseti: Ég vil minna menn á að þetta eru umræður um þingsköp.) Það var varla að heyra á þeirri ræðu sem hér var fyrst að það væri ræða um þingsköp, en ég skal ljúka máli mínu, virðulegi forseti.
    Það vita allir tölurnar sem í fjárlagafrv. eru og það er þess vegna nægilegur efnisgrundvöllur fyrir alla þingmenn til að hugleiða hér og nú hvort þeir vilja fara frekar leið stórfellds niðurskurðar í ríkisútgjöldum umfram þær tillögur sem ríkisstjórnin sjálf leggur fram og hvaða niðurskurð menn vilja þá leggja til eða hvort menn vilja fara sömu braut tekjuöflunar og skattahækkunar sem ríkisstjórnin leggur til eða aðra braut skattahækkunar og tekjuöflunar því að hitt gengur ekki upp, eins og höfundur Reykjavíkurbréfs sagði réttilega um síðustu helgi, að menn hvorki leggi til stórfellda lækkun ríkisútgjalda né heldur verulega tekjuöflun því þá eru menn einfaldlega í hinum óábyrga leik stjórnarandstöðuflokka sem Morgunblaðið réttilega sagði sl. sunnudag að ætti að tilheyra liðinni tíð.