Yfirlýsingar fjármálaráðherra um samráð við
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að af okkar hálfu hafa viðræður farið fram við alla flokkana sem ekki eru í ríkisstjórninni um efnismeðferð og upplýsingagjöf, en samningar um breytingar á efnisþáttum hafa ekki farið fram að svo komnu máli vegna þess að við vildum bíða eftir því að öll frumvörpin væru fram komin. Síðan geta menn leikið sér að því hvaða orð menn vilja nota, efnislegar viðræður eða eitthvað annað. Svona er málið einfalt.
    Það er alveg rétt, sem hv. þm. Geir Haarde tók eftir og ég taldi rétt að tilkynna vegna orða hv. þm. Þorsteins Pálssonar, að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að leggja ekki fram frv. um breytingar á söluskatti en hefja hins vegar viðræður við happdrættisaðilana um aukna þátttöku þeirra í kostnaði við að tryggja að þessi starfsemi geti farið fram með eðlilegum hætti.
    Varðandi orkumálin er það mál áfram til vinnslu af hálfu fjmrh. og hæstv. iðnrh. og sama gildir um fjármagnstekjurnar. En ég greindi frá því fyrir nokkru hvernig með það mál yrði farið og á ríkisstjórnarfundi í morgun var ákveðið að samstarfsnefnd fulltrúa frá fjmrh., viðskrh., forsrh. og Seðlabankanum mundi undirbúa drög að lagasetningu um það efni sem væntanlega verður lögð fram á þingi snemma á nýju ári.